09.04.1968
Efri deild: 85. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1547 í B-deild Alþingistíðinda. (1445)

170. mál, eftirlit og mat á fiski og fiskafurðum

Jón Árnason:

Herra forseti. Í forföllum frsm., hv. 4. þm. Reykv., vil ég leyfa mér að segja nokkur orð um málið og afgreiðslu þess í sjútvn. Aðdragandi þessa frv. er orðinn alllangur. Í árslok 1965 er talið, að fiskimálaráð hafi afhent uppkast að frv. til l. um eftirlit og mat á fiski og fiskafurðum. Áður en til þess kom, er talið, að málið hafi verið í endurskoðun hjá tilkvöddum aðilum um margra ára skeið.

Í grg. með frv. er að finna ýmsar upplýsingar um framkvæmd hliðstæðra mála hjá nágrannaþjóðunum. Þar er einnig að finna margvíslegar upplýsingar um þróun fiskmats og eftirlits með fiskafurðum hér á landi ásamt fleiri upplýsingum varðandi þau mál. Eins og fram kemur í nál. á þskj. 552, átti n. viðræður við ýmsa aðila, sem hér eiga hlut að máli, og enn fremur leitaði hún umsagnar um málið hjá fleiri aðilum. Niðurstaðan af athugun n. á frv. er, eins og fram kemur í nál., að hún hefur leyft sér að flytja brtt. við frv. í átta liðum og mælir með því, að þannig breytt verði frv. samþykkt. Segja má, að brtt. séu flestar smávægilegar og breyti ekki efni málsins, heldur er aðeins um það að ræða, að n. finnst eðlilegra, að um þessi atriði sé fjallað í reglugerð. Þá telur n. eðlilegt, að yfirfiskmatsmenn séu ráðnir eins og tíðkazt hefur, sbr. 8. gr., og varðandi skipun fiskmatsstjóra og deildarstjóra telur meiri hl. n. eðlilegt, að leitað sé umsagnar n. þeirrar, sem um getur í 17. gr., áður en skipað er í þær stöður. Um 17. gr. voru skiptar skoðanir varðandi það, hvort rétt væri að skipa umrædda n. Einn nm., hv. 5. landsk., er á móti því, að n. verði skipuð, en aðrir nm. leggja það hins vegar til, eins og fram kemur í 8. lið brtt. n.

Það er svo um þetta mál eins og oft vill verða, að ekki er gott að átta sig á því, hvort hér verður um sparnað að ræða eða ekki. Ég tel, að það sé að miklu leyti komið undir framkvæmdinni. Hitt er öllum ljóst, að nauðsynlegt er, að gerðar séu nokkrar skipulagsbreytingar á þessum málum frá því, sem nú er.

Ég tel ekki ástæðu til þess að ræða frv. öllu meira að svo komnu máli, en leyfi mér, herra forseti, að vísa að öðru leyti til þess, sem fram kemur í nál. Ég vil svo vænta þess, að hv. þd. samþykki brtt. n. og að frv., þannig breyttu, verði að lokinni þessari umr. vísað til 3. umr.