19.04.1968
Neðri deild: 102. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1567 í B-deild Alþingistíðinda. (1461)

170. mál, eftirlit og mat á fiski og fiskafurðum

Félmrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Ég vil nú aðeins í byrjun mótmæla því ávarpi hv. þm., sem hann viðhafði hér áðan, að þar sem ráðh. væri nú mættur á þingi, yrði hann að endurtaka ákveðnar spurningar hér. Hv. þm. veit ósköp vel, að ég á sæti í annarri deild þingsins og var að sinna mínum skyldustörfum þar ásamt fundarhöldum utanbæjarmanna, sem ég veit að þm. er ekki mótfallinn, að einnig sé sinnt, þannig að ég hef verið hér á þingi að mínum skyldustörfum ekkert síður en hann. Þetta var atriði, sem ég vil að ekki væri a.m.k. ómótmælt í þingtíðindum.

Ég verð að telja þær fsp., sem fólust í orðum þm., eftir að ég komi hér inn, mjög eðlilegar. Það er rétt, eins og hann segir: málið á mjög langan aðdraganda og um það hefur verið deilt af þeim aðilum, sem að undirbúningi þess stóðu. Það var meginástæðan til þess, hve lengi málið lá í rn., að tvö álit voru uppi um úrbætur í þessum efnum. Og varðandi það, sem þm. spurði sérstaklega um, get ég upplýst, að það, sem ýtir svo aftur á eftir afgreiðslu þess, eru þær sparnaðarhugmyndir, sem að baki frv. liggja, og tekið var fram af hæstv. fjmrh., þegar hann flutti sína framsöguræðu fyrir sparnaðarfrv., að þetta væri einn liðurinn í því, sem spara átti, svo að það er meginforsendan fyrir því, að nú var lögð í það vinna aftur að ganga á milli þeirra aðila, sem hlut áttu að máli, með fulltrúum sjútvmrn. og fjmrn., og niðurstaða þeirra viðræðna við þessa aðila er þetta frv. Það var að vísu vitað, að einstakir af þessum aðilum höfðu eftir sem áður aths. við það að gera, hvað fram hefur komið í umsögnum þeirra til nefnda, svo að það kemur okkur ekkert á óvart.

Meginástæðan fyrir flutningi frv. og því, að ríkisstj. leggur áherzlu á afgreiðslu þess nú, er sá sparnaður, sem talið er að í frv. felist. Ég vil ekki nefna neinar tölur þar um og hef ekki aðstöðu til þess, hvað í raun og veru mætti spara með þeirri sameiningu, sem frv. gerir ráð fyrir. En það er álit allra þeirra, sem að þessu hafa komið á vegum rn., að það megi gerast á grundvelli samþykktar þessa frv. og þeim reglugerðum, sem semja verður eftir samþykkt frv.

Önnur ástæðan til þess, að lögð er áherzla á afgreiðslu málsins nú, er einmitt þau atriði, sem þm. spurði sérstaklega um varðandi ferskfiskeftirlitið. Svo sem alkunnugt er, er ferskfiskeftirlitið liður í starfi verðlagsráðs sjávarútvegsins. Það er um það samið í sambandi við fiskverð, sem nú gildir, a.m.k. til 1. júlí, að það skuli starfa með sama hætti og verið hefur, þannig að það samkomulag, sem þar hefur verið gert, er ekki unnt að rjúfa. Sparnaðurinn á m.a. að felast í því, að sömu menn gegni fleiri störfum en þeir gera í dag. Það er talið vafasamt, að einstakir starfsmenn Fiskmatsins geti ekki einnig gegnt þessum ferskfiskeftirlitsstörfum og hugsað m.a. að fá fram sparnað í því, auk þess sem hægt er að sameina yfirstjórn þessara mála meira undir einum hatti en nú er í dag.

Þá kvaðst þm. vilja fylgja frv., ef hægt væri að

sannfæra menn hér um það, að það spöruðust umtalsverðar upphæðir. Ég sagði það hér áðan og endurtek það aftur, að ég vil ekki á þessu stigi nefna þar fastmarkaðar tölur, en að því er stefnt, eins og hv. þm. er kunnugt, að á þessu megi spara allt að 3 millj. kr. Hvort það tekst, getur m.a. oltið á ýmsum ákvæðum þeirrar reglugerðar, sem samþykkja verður í kjölfar samþykktar frv. og að sjálfsögðu verður það gert í samráði við þá aðila, sem á þessum vettvangi starfa nú.

Þetta held ég að séu þau meginatriði, sem þm. spurði um, eftir að ég kom hér inn og önnur ástæðan fyrir því, að frv. nái fram að ganga. Sú þriðja er sú, að það fer áreiðanlega töluvert mikil vinna í að semja þær reglugerðir, sem frv. gerir ráð fyrir, og það verður að ætla sér einhvern tíma til þess. Það er talið, að af þeim tíma, sem er frá þinglokum nú til 1. júlí, muni ekki veita til þess að ganga frá þessum reglugerðum og hafa um það nauðsynlegt samráð við þá aðila, sem þarna eiga hlut að máli. Þetta held ég að séu þau meginatriði, sem þm. minntist á eftir að ég kom hér inn í sal Nd.