19.04.1968
Neðri deild: 102. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1568 í B-deild Alþingistíðinda. (1462)

170. mál, eftirlit og mat á fiski og fiskafurðum

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Mér finnst hlýða, áður en ég ræði um það mál, sem hér liggur fyrir, efnislega, að minnast nokkrum orðum á það, hvernig meðferð stórmála eigi að vera hér á þingi. Það voru fyrir nokkru til umræðu hér í hv. d. frv. til l. um breyt. á þingsköpum Alþingis, og þá var minnzt nokkuð á þetta atriði. Ég hélt því fram þá, að það væri óeðlileg og óheppileg afgreiðsla á stórum málum, ef þau kæmu fram seint á þingi og væru ekki neitt sérlega aðkallandi, að þau væru afgreidd þá þegar, heldur yrði málið látið bíða til næsta þings og afgreitt þá, þannig að stórmál, sem þannig stæði á um, að þau kæmu fram seint á þingi, kæmu til meðferðar á tveimur þingum. Ég held, að ég muni það rétt, að hæstv. forsrh. hafi talið, að þetta væri rétt málsmeðferð. Að sjálfsögðu verður að undanskilja í þessum efnum mál, þó að stór séu, ef þau eru eitthvað sérstaklega aðkallandi, eins og tekjuöflunarfrv. eða annað hliðstætt. Það er eðlilegt, að stjórn knýi á um það að fá slík mál afgreidd, því að rekstur ríkisins og þjóðarbúsins byggist á því, að slík mál nái fram að ganga, a.m.k. að dómi þeirra, sem völdin hafa. En það gildir að sjálfsögðu allt annað um meiri háttar lagabálka og yfirgripsmikla, sem geta verið að ýmsu leyti flóknir og þurfa þess vegna að vera sem skýrastir og greinilegastir, til þess að þeir nái tilætluðum árangri. Ég tel, að það mál, sem hér liggur fyrir, komi hiklaust undir þann flokk mála. Ég álít, að þetta frv., sem hér er til meðferðar, sé eitt af allra mestu stórmálum, sem fyrir þetta þing hafa komið. Það þarf ekki að lýsa því fyrir þm., hve mikilvægur útflutningurinn er í okkar þjóðarbúskap og hversu þýðingarmikið það er, að við vöndum sem allra bezt útflutningsframleiðsluna, því að eftir því fara mjög bæði sölumöguleikar og verðlag á útflutningsvörum. Við þekkjum mörg dæmi þess úr okkar sögu, að útflutningsvörur okkar hafa selzt vel, vegna þess að við höfum staðið framarlega í vöruvöndun. Önnur dæmi þekkjum við einnig, sem eru gagnstæð, þar sem vöruvöndunin hefur verið léleg eða henni hnignað og af því hlotizt það, að salan hefur minnkað og jafnvel góðir arkaðir alveg tapazt af þeim ástæðum. Þess vegna er það ákaflega mikilvægt, að það sé vandað se allra bezt til meðferðar eða verkunar á okkar útflutningsafurðum og það eftirlit, sem hefur það verkefni með höndum, sé sem traustlegast og bezt byggt upp. Ég held, að þess vegna — ég sé, að ráðh. brosa, en það er langt frá því, að þetta sé nokkurt hlátursmál. Það er fullkomið alvörumál, að við vöndum sem bezt okkar útflutningsvörur og gætum þess að missa ekki markaði erlendis af handvömm í þeim efnum. (Gripið fram í.) Ja, það er nú það mál, sem hér liggur til meðferðar, og ég hygg, að ráðh. fylgist svo vel með málum, að þeim sé það efst í huga hér í þinginu hverju sinni, sem verið er að ræða um. En hins vegar er ekkert á móti því, að menn létti sér upp öðru hverju og láti liggja vel á sér. Og það gleður mig, að það skuli liggja vel á ráðherrunum, því að eins og hv. 5. þm. Norðurl. v. hefur oft sagt okkur, skiptir það miklu máli, að menn séu frekar léttlyndir heldur en hitt. Það léttir þeim störfin, og ég held, að þannig sé nú ástatt um hæstv. ráðh., að þeim veitti ekki af því að geta haft aðgang að slíkum heilsubrunnum, a.m.k. öðru hverju.

Ég sagði áðan, að þetta mál væri ákaflega stórt og yfirgripsmikið. Eins og hv. þm. sjá á 20. gr. frv., er hér hvorki meira né minna en slengt saman þremur stórum núgildandi lagabálkum. Það eru lög nr. 46 5. apríl 1948, um fiskmat og meðferð, verkun og útflutning á fiski. Það eru lög nr. 42 9. júní 1960, um ferskfiskeftirlit, og það er lög nr. 42 19. júní 1933, um vinnslu, verkun og at meðalalýsis. Ef menn fletta upp í stjórnartíðindum eða þingtíðindum frá þessum tíma, geta menn séð, að hér er um mjög stóra lagabálka að ræða, og þess vegna mætti það nú ekki minna vera n sú þingnefnd hér í hv. d., sem um þetta mál hefur átt að fjalla, hefði haft aðstöðu til þess að bera öIl þessi lög saman eða ákvæði þeirra við þetta frv., en það var upplýst af hv. 4. þm. Austf. hér áðan, sem á sæti í sjútvn., að n. hafi alls ekki unnizt tím til þess að framkvæma slíka athugun. Það er líka rakið mjög greinilega í nál. hv. sjútvn., hvernig málsmeðferðin hefur verið hér í hv. d. á þessu stóra máli. N. segir, að frv. hafi fyrst verið vísað til n. miðvik daginn 10. þ. m., eða þann dag, sem páskafríi hófst. Að sjálfsögðu starfaði þingið ekki yfir páskadagana frekar en aðrir aðilar, og ekkert gat þess vegna orðið úr athugun málsins þá. Þegar þingið kemur svo saman aftur eftir páskana, eru ekki eftir nema fjórir starfsdagar hjá Alþ. Í raun og veru eru það þessir fjórir dagar, sem Nd. á að hafa til athugunar á þessu stóra máli. Ég tel, að það sé fjarri öllu lagi að ætla þd. að hafa ekki rýmri tíma til a hugunar á jafnstóru máli en fjóra daga. Ég álít að alveg óforsvaranleg vinnubrögð, og það er ástæðan til þess m.a., að ég á erfitt með að sætta mig við það, að þetta mál verði afgr. á þessu þingi, enda sýnist mér, að það, sem hefur komið fram hér í umr. og reyndar líka í nál. sjútvn., sýni það fullkomlega, að það sé ærin ástæða til þess, að þetta mál fái betri og vandaðri athugun á Alþ. en hægt er að veita með þessum hætti.

Því er haldið fram af hæstv. ríkisstj., að það sé nauðsynlegt fyrir hana að fá þetta mál samþykkt nú á þessu þingi, vegna þess að hún muni þá geta komið fram ýmsum sparnaði í sambandi við fiskeftirlitið. Það kom hins vegar fram hjá hæstv. sjútvmrh. hér áðan, að það er allt mjög óljóst í þeim efnum, og hann taldi sig ekki geta nefnt neinar tölur um það, hvaða sparnaður kynni að hljótast af þessu, þessari endurskoðun eða þeirri sameiningu, sem hér er talað um, eða hvort hægt væri að fækka starfsmönnum eitthvað eða ekki. Þess vegna liggur raunverulega ekkert endanlegt fyrir um það, hvort hér verði um nokkurn sparnað að ræða eða ekki. Ég tek undir það með hv. 4. þm. Austf., að ég vildi síður en svo verða meinsmaður þess, að hægt væri að koma fram einhverjum sparnaði í þessum efnum. En ég vil hins vegar jafnframt hafa hugmynd um það, hvernig sá sparnaður verður framkvæmdur. Yrði framkvæmdin kannske með þeim hætti, að eftirlitið yrði að einhverju leyti lakara en áður? Þá held ég, að sparnaðurinn mundi ekki borga sig. Þess vegna finnst mér, að það sé mjög mikilvægt atriði, áður en Alþ. gengur frá þessu máli, að fá alveg fullkomna vitneskju um það, hvernig framkvæmdin verður og hvort hún er líkleg til þess að eftirlitið haldist ekki lakara en hefur verið, eða hvort það sé hætta á því, að það verði lakara en nú.

Ég sé, að sjútvn. er nokkuð uggandi í þessum efnum, þó að meiri hl. hennar mæli með framgangi frv. Hún segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Nefndin vill í framhaldi af þessu taka fram, að þótt hún mæli með samþykkt frv., m.a. í sparnaðarskyni, þá leggur hún á það ríka áherzlu, að sá sparnaður má hvergi leiða til þess, að slakað verði á kröfum um vandaða og þrifalega meðferð fisks og fiskmetis á öllum stigum framleiðslunnar. Eftirlitið og fiskmatið getur ráðið úrslitum um það, hvort Íslendingar halda þeirri fótfestu, sem þeir hafa náð á beztu mörkuðum fyrir fiskafurðir. Það er þess vegna mikilvægt, að þetta kerfi sé þannig uppbyggt og framkvæmt, að viðskiptavinir okkar geti viðurkennt það og treyst því.“

Undir þessi orð n. hljóta þm. að sjálfsögðu að taka, en það leiðir af þessu, að til þess að við getum afgreitt þetta mál, svo hægt sé að telja þá afgreiðslu fullkomlega ábyrga, þá þurfum við að hafa nákvæma vitneskju um það, hvernig framkvæmdinni á þessum sparnaði verður háttað, og hvort hún er líkleg til þess að okkar dómi að tryggja ekki lakara eftirlit en það, sem nú er. Því að ef það er einhver hætta á því, að eftirlitið geti orðið lakara eftir þessa breytingu, þá mundi ég ekki treysta mér til að greiða atkvæði með sparnaði, þó að einhver yrði í sambandi við breytinguna. Ég vil heldur bera ábyrgð á því, að útgjöldin verði eitthvað meiri, ef það verður til þess að tryggja betra eftirlit og vandaðri framleiðslu.

Sannleikurinn er líka sá, að frv. sjálft er þannig í pott búið, að það sjálft tryggir út af fyrir sig engan sérstakan sparnað. Það er allt opið urri mannahald og jafnvel opnara en áður var, eins og kemur fram í ýmsum greinum þess, sem ég sé ekki ástæðu til þess að vitna í, en minnzt er á í aths. þeim, sem fylgja einstökum greinum, og þess vegna veit maður ekkert um það, þó að það væri kannske hægt að framkvæma einhvern sparnað til að byrja með, hvort það yrði þannig í reynd, þegar fram í sækti. Annars verð ég að segja það, að þó að það sé mikilvægt að reyna að spara sem mest á þessum sviðum sem öðrum, þá álít ég þó hitt enn mikilvægara, að lögð sé áherzla á það, að eftirlitið sé sem traustast og bezt. Það liggur þannig ekkert fyrir um það, að þetta frv. muni tryggja raunverulegan sparnað, en það hefur komið fram, bæði í nál. sjútvn. og einnig áður í umr. hér á þ., að ýmsir aðilar, sem bezt þekkja til, telja, að þetta mál þurfi að fá vandaðri og betri undirbúning en þetta frv. er. Það kemur til dæmis fram í nál. sjútvn., að bæði Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna og Sjávarafurðadeild SÍS hafa skýrt svo frá, að í Bandaríkjunum sé verið að setja lög og reglur um strangara eftirlit með fiskmeti en þar hefur gilt til þessa. Óskuðu raunar báðir þessir aðilar eftir því, að afgreiðslu málsins yrði frestað til hausts með hliðsjón af fréttum vestan hafs um þessi mál. Þarna fara tveir aðilar, sem eiga einna mestra hagsmuna að gæta í sambandi við þetta mál, fram á það, að afgreiðslu málsins verði frestað til hausts, vegna þess að það séu breytingar í undirbúningi erlendis, sem geti haft áhrif á það, hvernig við verðum að hátta þessari löggjöf. Það hefur einnig komið fram í umr., að tveir þeir menn, sem eru einna fróðastir um þessi mál, dr. Þórður Þorbjarnarson, formaður fiskmatsráðs, og Sigurður B. Haraldsson efnaverkfræðingur, hafa báðir talið það heppilegra, að afgreiðslu málsins væri frestað til hausts og tími þangað til notaður til betri undirbúnings á málinu. Mér sýnist þannig, að rökin fyrir því, að málinu verði frestað, séu mjög sterk.

Ég nefni það í fyrsta lagi, sem ég hef gert áður, að meðferð, sem málið fær í þessari d. vegna tímaskorts, er algjörlega óforsvaranleg, þar sem málið er hér í raun og veru ekki til meðferðar nema í fjóra daga og sú n., sem hefur fengið málið til meðferðar, játar í nál., að vegna hins nauma tíma, sem n. hefur haft til athugunar á frv., hefur hún ekki getað kynnt sér þessi atriði til hlítar, miðað við þá aðila, sem hlut eiga að máli, þ.e.a.s. þær nýjungar, sem felast í frv. Það er algerlega óforsvaranlegt að ein þd. afgreiði stórmál eins og þetta án þess að hafa fengið betri tíma til að íhuga það heldur en Nd. fær í þessu tilfelli.

Ég nefni það svo í öðru lagi, að það liggur ekkert fyrir um það, að raunverulegur sparnaður megi hljótast af samþykkt þessa máls. Þar höfum við engu á að byggja öðru en ágizkunum, sem mér finnst, að við getum ekki lagt mikið upp úr. Þó að við allir séum samþykkir sparnaði, finnst mér, að við verðum að hafa vitneskju um það, áður en við samþykkjum nokkuð í þá átt, hvernig hann verði framkvæmdur og hvort eftirlitið verði jafngott og traust eftir sem áður. Um það höfum við enga vitneskju nú, ef við samþykkjum þetta mál á þessu stigi.

Ég nefni það svo í þriðja lagi, að þeir aðilar, sem bezt þekkja til þessara mála, eins og Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna, Sjávarafurðadeild SÍS og sérfræðingarnir dr. Þórður Þorbjarnarson og Sigurður B. Haraldsson, mæla með því, að málið fái betri athugun, áður en það sé afgreitt hér á Alþ. Ég verð að segja, að ég skil ekki það ofurkapp, sem ríkisstj. leggur á það að fá þetta mál afgreitt, eftir að öll þau rök liggja fyrir, sem ég hef nú greint. Það var einnig upplýst hér í umr., að jafnvel þótt einhver sparnaður kynni að hljótast af þessu máli, ef frv. verður samþykkt, mundi hann alls ekki koma til greina á þessu ári. Það er ekki hægt að framkvæma hann á þessu ári, þannig að af þeirri ástæðu virðist vera alveg óhætt að láta málið bíða afgreiðslu til haustþingsins, svo að af þessari ástæðu einni fellur sparnaðartalið um sjálft sig í sambandi við það, að málið verði afgreitt á þessu þingi.

Það eru fjölmörg atriði í þessu frv., sem þyrftu nánari athugunar við og væri ástæða til að flytja brtt. við, ef tími ynnist til, og það vinnst kannske tími til þess við 3. umr., ef málið verður látið ganga fram á þessu þ. Ég nefni t.d. 3. gr. frv. Þar er ætlazt til þess, að það verði aðeins ákveðið í reglugerð, hver eigi að vera menntun og reynsla forstöðumanna Fiskmats ríkisins og einstakra deilda þess, yfirfiskmatsmanna og verkstjóra við fiskverkun. Við vitum það ákaflega vel, að það er mjög mikilvægt, að þessir menn hafi næga menntun og kunnáttu til að framkvæma það starf, sem þeim er ætlað. Ég álít, að það sé svo mikilvægt, að það ættu að verða miklu nánari ákvæði um þetta atriði í l. heldur en að þetta skuli aðeins ákveðið með reglugerð, sem við vitum ekkert um, hvernig verður ákveðin.

Mörg atriði fleiri mætti nefna, sem ég ætla að sleppa að þessu sinni, vegna þess að það geta verið möguleikar þá til að taka það mál aftur upp við 3. umr. málsins, ef ekki verða tekin til greina þau mikilvægu rök, sem eru fyrir því, að málinu verði frestað. Það er líka ákaflega erfitt að ræða þetta mál á þeim tíma, sem hæstv. sjútvmrh. þarf að gegna þingmannsstörfum í Ed., því að ýmis atriði málsins eru þannig vaxin, að maður vildi gjarnan leggja fram fsp., en það gefst kannske möguleiki til þess við 3. umr.

Ég verð að segja það líka, þó að það eigi aðallega að ræða um einstakár gr. frv. við 2. umr., að þegar það er upplýst, að hv. sjútvn. hefur ekki haft tíma til að lesa saman gr. frv. og núgildandi laga um sama efni, þá finnst mér, að það geti mjög vel komið til greina og verði eiginlega að gera það við 3.umr. málsins, að greinar frv. verði lesnar hér upp og bornar saman við gr. núgildandi l. Þá gætu þm. allir fylgzt með því, hvað er raunverulega nýtt í frv. og hvað er fellt niður af því, sem við vildum kannske gjarnan hafa. Þetta tæki kannske einhvern tíma, en við þm. eigum ekki að horfa í tímann, þegar stórmál eru annars vegar, heldur gefa okkur tíma til þess að íhuga þau sem rækilegast. Og ég segi það satt, að ég mundi ekki sjá eftir næturtíma í það, að við kynntum okkur þetta stórmál á þennan hátt við 3. umr. En það kemur kannske ekki til þess, ef hæstv. ríkisstj. íhugar málin betur og sér, að það eru fullgild rök fyrir því, að málinu verði frestað til haustþingsins. Þess vegna ætla ég ekki að hafa þessi orð mín fleiri nú að sinni, en ég tel, ef málið heldur áfram, ekki útilokað, að ég ætli að segja einhver orð um málið þá í 3. umr.