19.04.1968
Neðri deild: 102. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1573 í B-deild Alþingistíðinda. (1463)

170. mál, eftirlit og mat á fiski og fiskafurðum

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Það voru nú í rauninni aðeins örfá orð, sem ég ætlaði að segja hér um þetta mál til viðbótar því, sem ég hef þegar sagt, og það var í tilefni af því, sem hæstv. sjútvmrh. sagði hér í umr. um málið í dag. Hæstv. ráðh. sagði í upphafi síns máls, að hann vildi ekki, að þau orð stæðu hér án mótmæla í þingtíðindum, sem ég hafði látið falla um veru hans hér á þingi. Hafi mín orð fallið á þann hátt í sambandi við það, að þau hafi meitt hann, þá get ég leiðrétt það sjálfur, en ég held nú, að það hafi ekki verið. Það, sem ég hafði sagt í þeim efnum, var það, að auk þess sem svo stæði á, að í rauninni vildi öll sjútvn., að málið fengi að bíða eftir eðlilegri athugun, þá væri það svo, að auk þess að allur undirbúningur væri svona á sig kominn, stæði þannig á, að sjútvmrh. sjálfur væri ekki viðstaddur þessar umr. Ég veitti því athygli, að hann var ekki hér viðstaddur allan þann tíma, sem ég talaði fyrir minni till. og mínu áliti og ekki heldur þann tíma, sem frsm. meiri hl. talaði hér í þessu máli. Og ég sagði, að mér þætti þetta miður. En svo þegar ég sá, að hæstv. ráðh. kom hér inn í salinn áður en ég hafði lokið máli mínu, þá mun ég hafa sagt það, að ég sæi, að hæstv. ráðh. væri nú mættur á þingi. Hæstv. ráðh. segir, að ég hafi sagt það og það má vel vera. En sem sagt, ég átti ekki við neitt annað en það, að hæstv. ráðh. væri þá mættur hér í þingsalnum, og þótti mér það miklu betra og beindi þá til hans nokkrum þeim aths., sem ég hafði áður látið falla hér um málið. En í tilefni af þessu vil ég aðeins segja það, að ég vil enn einu sinni undirstrika það, að það er alveg lágmarkskurteisi, sem ráðh. eiga að sýna þd., að þeir séu viðstaddir umr. um þau mál, sem þeir leggja fyrir þingið og vilja fylgja eftir. Ég efast að vísu ekkert um það, að hæstv. ráðh. getur hafa þurft að sinna störfum í Ed., en þá er líka venjan sú og hið eðlilega, að reynt sé að haga afgreiðslu mála þannig í hinni d. á meðan, að það sé ekki þar verið að ræða þau mál, sem ráðh. á með eðlilegum hætti að taka þátt í umr. um. En þessi hæstv. ráðh, er ekki einn um það að standa svona að málum, en í þessu tilfelli var þetta nú mjög óviðkunnanlegt. Ekki meira um það atriði en það var sem sagt ekki meining mín að meiða hæstv. ráðh. með þessum orðum mínum á neinn hátt.

En ég hafði lagt hér fyrir ráðh. nokkrar fsp. og þó aðallega um það, í hverju sá hugsanlegi sparnaður gæti legið að knýja þetta mál fram nú á þessum tíma fram yfir það, sem yrði, þó að málið yrði afgreitt í byrjun haustþings. Ég hafði bent á það, að samkv. þessu frv. er gert ráð fyrir því, að l. taki ekki gildi fyrr en 1. júlí. Og á þeim tíma munu verða komin á land 70—80% af þeim fiskafla á þessu ári, sem fellur undir eftirlit Ferskfiskeftirlitsins eða sem aðalkostnaðurinn við Ferskfiskeftirlitið miðast við. En það er einmitt á ferskfiskeftirlitinu, sem ætlunin er að reyna að spara fé. Ég get því ekki ímyndað mér það, að hér geti verið um mikinn sparnað að ræða á þessu tímabili, sem er frá 1. júlí, ef hægt væri að koma við skipulagsbreytingunni þá strax, og t.d. fram til 1. nóv., miðað við allar aðstæður og þegar þess er svo gætt, að það er ætlunin að halda uppi alveg hliðstæðum vinnubrögðum í ferskfiskeftirliti eftir samþykkt á þessari lagabreytingu, sem hér er um að ræða og áður hefur verið. Það er ætlað aðeins að fela annarri stofnun að sjá um það, að sömu vinnubrögð fari fram. Mér fannst hæstv. ráðh. ekki svara þessari spurningu minni á þann hátt, sem ég tel fullnægjandi. Hann leiddi engin rök að því, fannst mér, að það gæti verið um neinn verulega meiri sparnað að ræða, þó að þetta frv. yrði samþ. nú fremur en það væri samþ. síðar á árinu. Svar hæstv. ráðh. var aðeins þannig, að ætlunin væri með þessari skipulagsbreytingu að spara á framkvæmd ferskfiskeftirlitsins með þessari sameiningu og það væri ráðgert, að það mætti spara með þessu á heilu ári í kringum 3 millj. kr. En frekari skýringar komu hér engar fram.

Ég hafði einnig bent á það, að þeir, sem hingað til hafa mest haft með ferskfiskeftirlitið að gera, eins og sá forstöðumaður, sem mætti á fundi sjútvn., höfðu lýst því yfir, að þeir væru mjög vantrúaðir á það, að hægt væri að spara nokkurn skapaðan hlut á þessari skipulagsbreytingu eða nokkuð teljandi, nema þá að breytt yrði alveg um eftirlit í þessum efnum frá því, sem verið hefur. En ég vil nú samt ganga út frá því fyrir mitt leyti, að það væri kannske hægt að koma fram nokkrum sparnaði með skipulagsbreytingu á matinu, en ég held, að á yfirstandandi ári verði ekki hægt að ná fram miklum sparnaði og því hefði það verið fyllilega þess virði að gefa þinginu kost á því að vinna að afgreiðslu þessa máls með eðlilegum hætti. Ég efast ekkert um það, að hæstv. ráðh. hefur orðið þess var að það er vilji sjútvn. þessarar d., að málið fái að bíða. Hún hefði helzt kosið, að svo gæti orðið og það hefði gefizt tækifæri til þess að athuga málið miklu betur en tími hefur unnizt til. Og það er aðeins vegna þess, að fram hefur komið mjög eindregin ósk frá hálfu ráðh. um það að afgreiða málið nú, sem meiri hl. sjútvn. hefur fallizt á það að standa að ákveðinni afgreiðslu, þó á þann hátt að breyta frv. allverulega frá því, sem það er komið frá Ed.

Ég skal svo ekki ræða hér öllu meira um þetta mál. Ég hef lýst hér minni afstöðu til þess. Ég tel, að þær brtt., sem fyrir liggja frá sjútvn. þessarar d., séu allar til bóta og það sé rétt að samþykkja þær, og samþykkt á þeim sé í rauninni alveg lágmark þess, að hægt sé að standa að því að afgreiða þetta mál. En ég legg líka mikla áherzlu á það, að sú brtt. verði samþ., sem ég og hv. 2. þm. Reykn. flytjum um það að fella þá jafnhliða niður það sérstaka gjald, sem lagt var á vegna ferskfiskeftirlitsins, og sparnaðurinn komi þá fram á þann hátt, að ekki verði þá lögð jafnmikil gjöld á framleiðsluna eins og áður hefur verið. En þrátt fyrir það þó að þessar till. til breytinga liggi fyrir, hefði ég talið langæskilegast, að málið fengi að bíða. Það hefði verið mín helzta ósk að taka málið til afgreiðslu á næsta hausti. En eins og ég hef sagt áður, tel ég þó, að viss atriði í þessu frv. stefni í rétta átt, það sé rétt að vinna að þeirri skipulagsbreytingu í aðalatriðum, sem frv. fjallar um, en það hefur bara ekki getað fengið þann undirbúning hér í þinginu, sem eðlilegt hefði verið. Þetta er mín meginafstaða til afgreiðslu þessa máls.