19.04.1968
Neðri deild: 102. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1575 í B-deild Alþingistíðinda. (1464)

170. mál, eftirlit og mat á fiski og fiskafurðum

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Það verður svo jafnan, þegar líður að þingslitum, að þá er mikil málefnaþröng, þ.e.a.s. naumur tími til afgreiðslu mála, og þá verður hæstv. ríkisstj. oft að gera það upp við sig, hvaða máli hún leggi höfuðáherzlu á að þoka fram, og hallast þá heldur á, að ágreiningsmálum sé þokað til hliðar, til þess að þau mál, sem ríkisstj. leggur mesta áherzlu á og telur nauðsynlegt að fá afgreidd fyrir þinglok, geti fengið afgreiðslu. Nú hrúgast málin frá hæstv. ríkisstj. upp mörg og stór, á síðustu dögum þingsins og jafnframt virðist vera mjög spenntur boginn með það að þrýsta fram ágreiningsmálum, sem ætla mætti, að stjórnin vildi ekki, að yrðu til þess að bregða fæti fyrir hennar hjartfólgnustu áhugamál, og þannig standa sakirnar nú. Ég tel þetta mál svo stórt, að það sé alveg ógerlegt að meina þm. að tala um málið og það jafnvel rækilega, því að það væri með öllu eðlilegt, svo mikilsvert sem það er fyrir þjóðarbúið. Hér er um að ræða frv. til l. um eftirlit og mat á fiski og fiskafurðum. Nú mætti ætla, að þetta mál, sem ríkisstj. leggur mikið kapp á að fá afgreitt, væri mjög vel undirbúið, því að í skjölum málsins má sjá, að það var undirbúið af mþn. skipaðri mörgum sérfróðum mönnum í þessum málum, og sú nefnd hefur haft langan tíma fyrir sér til starfa. Mér sýnist, að hennar störf hafi byrjað á miðju ári 1960 eða fyrir um það bil 8 árum. Að vísu hafa einhver hlé orðið á hennar störfum, þegar hún var að afla sér gagna frá öðrum löndum m.a., en þó er ljóst, að hún tekur til starfa aftur 1962, og er svo ekki saga starfsins í n. rakin lengur, en síðan virðist hennar starf hafa staðið yfir. Hvað sýnir þetta? Það sýnir annaðhvort, að vinnubrögð hafa verið slæleg hjá n. eða þá hitt, að málið hefur reynzt viðamikið, margþætt og vandasamt, og það hygg ég, að sé ástæðan. Það hefur reynzt erfitt að fá samkomulag um samningu frv., sem leysti þessi mál á þann veg, að ágreiningur yrði ekki um grundvallaratriði.

Það sýnist því svo, sem hægt hefði verið að leggja þetta mál miklu fyrr fyrir þingið, en það er ekki gert fyrr heldur en núna daginn, sem þingið fór í páskafríið og n. hefur aðeins getað athugað það, sjútvn. hefur aðeins getað athugað málið á þessum fáu virku dögum síðan páskafríi lauk. Öll n. skýrir frá því í nál., að tíminn hafi verið allsendis ófullnægjandi til þess að kanna þetta mál eins og hún teldi þörf á og nauðsynlegt og skýrir m.a.s. frá því, að hún hafi ekki getað borið frv., sem er mikill bálkur, saman við þau lög, sem eiga að falla úr gildi, ef þetta frv. yrði að lögum. En það er hvorki meira né minna heldur en þrenn eða fern lög, allmiklir lagabálkar. Lög um fiskmat og meðferð og verkun og útflutning á fiski í fyrsta lagi og um ferskfiskeftirlitið og í þriðja lagi lög um mat meðalalýsis. Þessi lög eiga öll að falla úr gildi, ef þetta frv. verður að lögum, en hv. sjútvn. hefur ekki gefizt tóm til þess að bera þetta frv. saman við gildandi löggjöf, og rennum við þm., sem ekki höfum tekið þátt í störfum sjútvn., þess vegna algerlega blint í sjóinn um þetta, eins og eiginlega nm. játa sjálfir, að þeir geri. En það fer ekki á milli mála, að mat á fiskafurðum Íslendinga er eitt stórfelldasta hagsmunamál þjóðfélagsins, og löggjöf um slíkt örlagamál í efnahagsmálum okkar verður auðvitað að vera vönduð. Annars getur verra af hlotizt. Ég er þess vegna þeirrar skoðunar, eins og komið hefur hér fram hjá fleiri en einum þm., að á þessu stigi sé mjög óráðlegt og óskynsamlegt og næsta mikill ábyrgðarhluti að afgreiða frv. núna, svo lítt athugað, og að hæstv. ríkisstj. jafnvel þó að hún telji sig sannfærða um það, að hún með hinni nýju lagasetningu geti sparað eins og hún neinir, allt að þremur millj. kr., þá eigi hún að líta það stórum augum á gildi þessa máls, fiskmatsins, að það sé meira virði að vanda vel til slíkrar löggjafar sem þessarar heldur en jafnvel þótt hún gæti sparað 3 millj. kr.

Að vísu er engin áætlun sýnd í skjölum málsins um það, hvernig þessar 3 millj. megi sparast og mér finnst ýmislegt benda til hins gagnstæða. Í fyrsta lagi, ef af samþykkt þessa frv. leiddi vandaðra og öruggara og betra fiskmat, þykir mér það furðu sæta, ef það hefur orðið mikill sparnaður við matið, ef á allan hátt verður betur til matsins vandað, þó að þarna standi til að sameina tvær stofnanir, Ferskfiskeftirlitið og Fiskmat ríkisins. Ég sé, að það er hér tekið í mál af þeim mönnum sem undirbúið hafa frv., að nauðsyn beri til þess að bæta kjör matsmanna til þess að fá sem allra hæfasta menn til starfa, og af því veitir sannarlega ekki. Það er áreiðanlega hlutur, sem borgar sig, að hafa valinn mann í hverju rúmi í stétt matsmannanna. Undir þeirra starfi á þjóðin svo mikið. En ekki getur leitt sparnað af því, ef á að hækka laun þeirra, sem væri góðra gjalda vert og áreiðanlega skynsamlegt.

Þá sé ég einnig, að það hefur verið mikill ágreiningur um það, hvort heppilegt væri, að matið væri framkvæmt með svipuðum hætti eins og verið hefur um langt árabil, þ.e.a.s. að einhver af starfsmönnum hraðfrystihúsanna væri jafnframt matsmaður hjá þessu húsi undir húsbóndahendi þess, sem er eigandi frystihússins. Ég hef alla tíð verið þeirrar skoðunar, að þetta væri óheppilegt fyrirkomulag og ég er það enn. Forráðamenn frystihúsanna virðast hafa verið þeirrar skoðunar, að svona vildu þeir hafa það áfram, en embættismenn Fiskmats ríkisins létu í ljós þá skoðun, að útflutningsmatið yrði að vera framkvæmt af óháðum opinberum matsmönnum í hverju frystihúsi og þannig, að matsmennirnir væru alveg teknir undan húsbóndahendi frystihúseigendanna, og þetta held ég, að sé bráðnauðsynlegt. En ef matið væri bætt og öryggi þess aukið með því, að matið væri framkvæmt af mönnum óháðum eigendum frystihúsanna, þá get ég ekki séð, að af því leiði sparnað. Ég held, að af því hljóti að leiða aukinn kostnað, en það held ég líka, að sé kostnaður, sem ekki megi horfa í, því að fiskmatsmennirnir mega ekki vera háðir eigendum hraðfrystihúsanna. Það getur gengið út yfir áreiðanleik matsins og hefur oft gert það. Ég er sannfærður um það. Ég er ekki það ókunnugur í frystihúsunum, að ég ekki viti það, að matsmennirnir þar hafa stundum talið sig vera eins og á milli steins og sleggju vegna tillitsins, sem verið er að taka til síns húsbónda annars vegar og svo skyldustarfanna hins vegar. Og ég er þess vegna sammála embættismönnum Fiskmatsins, að það sé nauðsynlegt að matið sé framkvæmt af mönnum, sem algerlega séu óháðir hraðfrystihúsaeigendunum, þó að það kosti vafalaust heldur aukin útgjöld heldur en hitt. Að þessu athuguðu get ég ekki séð, að það séu miklar líkur til þess, ef á að bæta matið, að þá verði mjög mikið um milljónasparnað af lögfestingu þessa frv. Ég hefði viljað vona, þó að ég sjái það hvergi í nál. sjútvn., að aðalefni þessa frv. væri umbætur á matinu, að það væru í því ákvæði, sem gerðu matið öruggara, jafnvel strangara og a.m.k. með öllu óháð eigendum hraðfrystihúsanna. En þetta er ekki veigamesta atriði frv., því miður. Það stendur hér á bls. 10 í kaflanum um niðurstöður og till. Fiskmatsins, að hér verði aðeins rætt um veigamesta atriði frv., sameiningu á starfsemi Fiskmats ríkisins og Ferskfiskeftirlitsins. Þetta segja þeir sjálfir, að sé veigamesta atriði frv., bara sameiningin. Það tel ég ekki meira en formsatriði. Væri gott, ef eitthvað gæti sparazt við það að skella þessum tveimur stofnunum saman, en það finnst mér engan veginn aðalatriði þessa þýðingarmikla máls.

Nál. ber það með sér, að öll n., — þar virðist enginn ágreiningur vera — telur sig hafa haft allt of nauman tíma til þess að skoða málið ofan í kjölinn og getur þannig í raun og veru ekkert sagt um það, hvort það sé til bóta frá gildandi löggjöf, að þetta frv. verði samþ. Hún hefur ekki getað kynnt sér þau atriði til hlítar, sem aðalágreiningur hefur verið um á undanförnum árum hjá mönnum, sem unnu að samningu frv. Og sérfræðingarnir, sem kallaðir voru til, þeir dr. Þórður Þorbjarnarson, sem er formaður fiskmatsráðs og Sigurður B. Haraldsson efnaverkfræðingur, sem var starfsmaður n., sem undirbjó frv., munu báðir hafa lagzt á móti því, að málið væri knúið í gegn nú. Þeir munu hafa látið í ljós á fundum n., að þeir teldu málið ekki nægilega athugað og það væri ráðlegast að fresta afgreiðslu þess. En þegar n. hefur játað það, að hún hefur ekki getað kannað málið, þá fellst hún á, að á það reyni, hvort samþykkt þess leiði til sparnaðar. Við mundum allir vilja það, að hægt væri að spara, en sízt á þeim sviðum, þar sem mikið tjón gæti orðið að í efnahagsmálum okkar, í höfuðatvinnuveginum, sjávarútveginum. N. telur rétt, að á þetta reyni, hvort af því leiði sparnað. Hún er ekki sannfærðari um það en svo. Hún segist vilja, að reynslan skeri úr um það, hvort af því verði sparnaður. Á öðrum stað í skjölunum segir jú, að þeir telji, að með sameiningu Ferskfiskeftirlitsins og Fiskmatsins mætti spara verulegar fjárhæðir, ef framkvæmdin tækist vel. Engan veginn eru þeir, sem gefa þessar upplýsingar í fskj. málsins, engan veginn eru þeir sannfærðir um það, að þetta leiði til sparnaðar. Þeir segja, að þetta geti leitt til sparnaðar, ef framkvæmdin takist vel. Þeir efast um það. Og það er eingöngu út frá þessari sparnaðarvon, sem sjútvn. getur á það fallizt, að málið sé afgreitt nú.

Sjútvn. hafði tal af Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna og Sjávarafurðadeild SÍS og greinir frá því að báðar þessar stofnanir óskuðu raunar, að strangara eftirlit yrði með fiskmeti og málinu yrði frestað um sinn. Það er bent á, að það sé verið að gera strangari kröfur til fiskmetis á okkar verðmæta markaði í Bandaríkjunum, og þeir telja ráðlegt að bíða með að setja ákvæðin um okkar mat, þangað til vitað sé; hvernig þær verði, þessar nýju reglur hjá okkar fiskkaupendum í Ameríku, hve strangar þær verði. Hér segir: „Óskuðu báðir þessir aðilar eftir því, að afgreiðslu málsins yrði frestað til hausts með hliðsjón af fréttum vestanhafs um þessi mál.“

Sparnaðaratriðið er aðalatriði þessa máls og væri það góðra gjalda vert, ef öruggt væri, að matið yrði eins gott eða betra við þá breytingu, sem hér er um að ræða. En þrátt fyrir þessa lauslegu athugun sjútvn. á frv., koma þeir strax auga á það, að þeir telji nauðsynlegt að breyta frv. í a.m.k. 5 allveigamiklum atriðum og eru brtt. n. á þskj. 650. Þeir detta strax ofan á það, að breytinga sé þörf. En ekki nóg með það, heldur er einnig lagt til, að 19. gr. frv. verði breytt, og er sú till. á þskj. 648. Við þessa lauslegu athugun, sem fram hefur farið á málinu, eru sem sé komin fram tvö þskj. með brtt. við frv. og jafnframt lýst yfir, bæði af n. og öðrum aðilum, sem þetta mál varðar mikið, að æskilegt sé að fresta því til hausts.

Síðasta gr. frv. er ekki um það, að frv. þetta taki þegar gildi. Hún er einmitt um það, að frv. eigi ekki að öðlast gildi fyrr en á miðju ári 1968, 1. júlí. Það er skiljanlegt, ef á að slá saman tveimur stofnunum.

Þá má búast við, að það þurfi að segja upp öllu starfsliði beggja stofnananna og endurráða fólk með tilliti til hinnar nýju skipunar og með tilliti til sparnaðarins, og þá auðvitað að segja upp endanlega einhverju af starfsfólki annarrar hvorrar eða beggja stofnananna. Og það getur ekki gerzt með skemmri fyrirvara en þrem mánuðum. Það sér hver maður. Það er það allra minnsta, þó líklegra, að sumir þessara manna þyrftu sex mánaða uppsagnarfrest. Ef það væri sex mánaða uppsagnarfrestur, sem þeir þyrftu og ættu rétt á, þessir menn, þá er komið fram undir haust. Núna erum við í aprílmánuði, og það er komið fram undir þingbyrjun, þegar uppsagnarfrestur þeirra væri liðinn. Ég sé því ekki, að sparnaðurinn geti neinn orðið, né heldur, að það veiti af allverulegum tíma til margvíslegs undirbúnings til þess að gjörbreyta allri framkvæmd á okkar fiskmati. En sem sé, ástæðan til þess, að það er sótt fast í Alþ. að samþykkja þetta frv. nú, það er sparnaðarsjónarmiðið. Og þó ég telji það ekki veigamikið, þá vil ég þó líta á það.

En það liggur hér annað frv. fyrir, frv. um síldarútvegsnefnd. Eins og það frv. er nú orðið, mundi það leiða af sér beinlínis, að síldarútvegsn. kæmi ekki fram skynsamlegum sparnaðaraðgerðum í sínum rekstri. En samt á að knýja það fram. Og ég hugsa, að það liggi nokkurn veginn augljóslega fyrir, að ef það frv. verður samþ., þá kemur það í veg fyrir sparnaðarmöguleika þar, ámóta eins og vonir gætu vaknað um að næðust fram hér með þessu frv. Síldarútvegsn. taldi, að verksvið sitt hefði færzt til og breytzt. Verkefnið hafði færzt frá skrifstofunni á Siglufirði til Austfjarðanna, og síðan var bætt úr brýnni þörf með því að setja þarna skrifstofu og einn starfsmann. Verkefnin höfðu aukizt hér á skrifstofunni suðvestanlands, og þar þurfti jafnvel að auka við mannskap, en norður á Siglufirði sátu starfsmenn n. allmargir, miðað við hin gömlu verkefni, sem þeir höfðu haft, fullmargir, verkefnalitlir meira en hálft árið, en síldarútvegsn. taldi sig hafa og hefur, að gildandi l. óbreyttum, aðstöðu til þess að færa menn til eftir verkefnum. Síldarútvegsn. er þjónustustofnun og á að sjá fyrir hagsmunamálum þjóðfélagsins í heild, og svo einkanlega útgerðarmanna, síldarsaltenda og annarra slíkra, sem við útgerð og síldarvinnslu fást, og óskir þeirra voru ekki þær að færa verkefnin frá skrifstofunni í Reykjavík, sem hefði auðveldað málið, ef þeir hefðu óskað eftir því að færa verkefnið aftur til Siglufjarðarskrifstofunnar. Þá hefði þetta mannahald getað notazt. Nei, þeir óskuðu eftir því, að aukið væri mannahald hérna á skrifstofunni í Reykjavík, og þar með fært enn þá meira af verkefnum frá skrifstofunni á Siglufirði. Þetta þýddi það, að mati allra flokka manna í síldarútvegsn., að það þyrfti að færa til starfsfólk frá skrifstofunni á Siglufirði og til skrifstofunnar hérna í Reykjavík, því síldarútvegsn. taldi ekki fært að færa verkefnin frá skrifstofunni hér, gegn mótmælum síldarsaltenda og LÍÚ, enda er nú svo komið, að allir þeir aðilar, sem áður höfðu óskað eftir því, að frv. um það mál væri flutt hér, höfðu nú lýst yfir, að þeir væru á móti því frv. í því formi, sem það nú er, því það bindur hendur síldarútvegsn. um framkvæmdaratriði, sem er eðlilegt að n. hafi fullt frjálsræði um, að haga skrifstofuhaldi og mannahaldi eftir verkefnum og hlutverki sínu. En Alþ. virðist ætla að taka fram fyrir hendur stjórnenda síldarútvegsmálanna með því að fyrirskipa þeim, hvar aðalverkefnin skuli unnin. Því það að skipa fyrir um það í l., hvar skuli vera aðalskrifstofa, hlýtur að leiða af sér það, að aðalverkefnin eigi að vinna þar, annars er það bara hégómi. (Gripið fram í. ) Að sumu leyti hvort sem er af sjómönnum og verkafólki. Ég tel, að það sé eðlilegt að segja síldarútvegsn. fyrir verkum með það í reglugerð, sem væri þá sett í samráði við síldarútvegsn. og rn. í samstarfi þeirra aðila, en að lögbinda það, hvar aðalskrifstofuhald skuli vera hjá einni stofnun ríkisins, og að það sé ekki hægt að haga því eftir verkefnum og þjónustuþörfinni, það tel ég misráðið.

Ég viðurkenni það, að þetta mál, sem ég nú er að ræða, er aðeins að því leyti í tengslum við hitt frv., að þar er knúið á fast um að ná fram máli í sparnaðarskyni, en hins vegar virðist hér vera haldið fast á því, sem fyrirmunar stjórnendum þeirrar stofnunar að gæta skynsemdar í sínu verki og haga mannahaldi og skrifstofuhaldi eins og verkefnin kalla á. En þeir menn um það, sem vilja binda svo hendur stjórnenda þeirrar stofnunar. Ég er a.m.k. andvígur því og sé ekki neitt skynsamlegt í því. En ég hefði viljað halda því fram, að það væri eðlilegt, að það mál væri lagt til hliðar. Það leiðir ekki til sparnaðar, svo mikið er víst, og ég veit ekki annað en það sé ósk LÍÚ, það sé ósk forustumanna í félagi síldarsaltenda sunnanlands og vestan, og það sé ósk allra flokka manna í síldarútvegsn. Þannig liggur málið fyrir.

Í trausti þess, að skynsemin verði látin ráða í því máli skal ég ekki hafa lengra mál um þetta, en tel, að ef stjórnarandstaðan greiðir fyrir framgangi hinna nauðsynlegustu mála ríkisstj. með því að hafa um þau mál hóflegar umr., þá sé ekki nema eðlilegt og sanngjarnt, að hæstv. ríkisstj. taki þá eitthvert tillit til þess að vera ekki að þrýsta fram einnig viðkvæmum deilumálum, sem lítinn eða engan tilgang hafa og kannske neikvæðan tilgang, að samþykkja nú á síðustu stundum þingsins. Ég er þeirrar skoðunar um þetta mál, að því bæri að fresta, það væri skynsamlegast, en auðvitað ræður hæstv. ríkisstj. og hennar meiri hl. því, hvort svo verður eða ekki, en málið er svo mikils vert, að það á að hafa alla gát á, áður en gengið er frá endurskoðaðri löggjöf um matið á okkar fiskafurðum.