16.04.1968
Efri deild: 91. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1595 í B-deild Alþingistíðinda. (1483)

188. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Félmrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Hv. stjórnarandstæðingar hafa lagt hér sérstaklega mikið upp úr mótmælum síldarútvegsnefndar, sem ég skal ekki í neinum atriðum fara sérstaklega út í, en tel þó nauðsynlegt að minna á, hvert hlutverk

síldarútvegsnefndar er, sem í fyrsta lagi og samkv. meginanda þeirra laga sem um hana fjalla er, að hún skuli hafa það að sínu aðalverkefni að sjá um sölu síldar. Þetta frv. getur varla heyrt undir það verkefni, þó síldarútvegsnefnd hafi séð ástæðu til þess að taka sérstaka afstöðu til þess, og ég hygg, að ýmsir aðrir, sem það frv., sem hér er um rætt, snertir, gætu nú kvartað meira undan álögum heldur en síldarsaltendur í þessu tilfelli. Ég skal ekki að öðru leyti fara nánar út í þau atriði, en tel nauðsynlegt að segja hér ýmislegt af því, sem ég vildi sagt hafa við 1. umr. málsins, en lét þá ógert vegna sérstaks samkomulags, sem gert var um það að koma málinu til n. eftir 1. umr. Vil ég nú, að þær upplýsingar, sem ég gjarnan vildi hafa komið á framfæri þá, komi hér fram.

Svo sem hv. þdm. er kunnugt um, hefur sjútvmrn. frá árinu 1961 greitt vátryggingagjöld fiskiskipaflotans að verulegu leyti, en eftir vissum reglum, sem um það voru settar. Áður hafði útflutningssjóður greitt vátryggingagjöldin að meira eða minna leyti um alllangt árabil. Fjár til greiðslu vátryggingagjaldanna hefur samkv. l. frá 1961 verið aflað með útflutningsgjaldi af sjávarafurðum.

Það hófst tekjuöflun í ágústbyrjun 1961 samtímis gengisbreytingunni, sem þá var gerð. Hins vegar voru vátryggingagjöldin greidd frá ársbyrjun 1961. Þannig var í upphafi 7 mánaða tímamunur milli tekna og gjalda, þannig að tryggingafélögin fengu iðgjöldin greidd um 7 mánuðum eftir að þau féllu til. Þessi munur hélzt mikið til óbreyttur fram til ársloka 1966. Á þessu tímabili hækkuðu vátryggingagjöldin mikið, einkum með tilkomu hins mikla flota stórra skipa, sem keypt voru á þessum árum, en einnig vegna mikillar hækkunar bráðafúagjalda og hækkunar á kaskóiðgjöldum eldri skipa, en tekjurnar af útflutningsgjaldinu hækkuðu í svipuðum mæli vegna aukins afla og hækkandi verðs útflutningsafurða. Á árinu 1967 varð mikil og alvarleg breyting á þessu. Tekjur tryggingakerfisins af útflutningsgjaldinu urðu það ár aðeins um 125 millj. kr., en voru 195,5 millj. kr. árið 1966. Jafnframt hækkuðu tryggingagjöldin, sem rn. her að greiða, úr nálega 208 millj. kr. árið 1966 í nálega 221 millj. kr. árið 1967. Á þessu eina ári hefur því orðið halli, sem nemur um 96 millj. kr. Á móti þessum halla er áætlað, að 50—60 millj. kr. fáist með gengishagnaðinum. Hallinn hefur að nokkru leyti komið fram í skuldasöfnun við ríkissjóð, en að nokkru leyti í því, að greiðslur til tryggingafélaganna hafa dregizt úr hömlu, og er nú svo komið, að tryggingafélögin eiga í miklum erfiðleikum með að greiða áfallin tjón og eru dæmi þess, að bátar hafa tafizt um óeðlilega langan tíma og jafnvel vikum saman í slippum, af því að fé hefur skort til að leysa þá úr þeim viðgerðarstöðum.

Útlitið á þessu ári, 1968, er nánast mjög ískyggilegt. Talið er, að vátryggingagjöldin, sem rn. ber að greiða í ár miðað við óbreyttar reglur, séu um 274 millj. kr. Þrátt fyrir niðurfellingu söluskatts af skipatryggingu, hefur þetta skeð. En hækkunin stafar af fleiri orsökum. Í fyrsta lagi hækkar tryggingaverðmæti flotans mikið samfara gengisbreytingunni. Mörg stærri skipin eru tryggð í sterlingspundum og hækkar tryggingarupphæðin í krónum þá að sjálfsögðu í sama mæli og sterlingspundið. En skip, sem tryggð eru í íslenzkum krónum, hækka einnig og t.d. er gert ráð fyrir, að skip tryggð hjá bátaábyrgðarfélögum hækki um nálægt 20% að meðaltali.

Í öðru lagi hefur orðið mjög mikil hækkun á iðgjaldaprósentum stóru skipanna vegna slæmrar tjónareynslu og vegna strangari reglna á endurtryggingarmarkaðinum í London.

Í þriðja lagi er gert ráð fyrir 10% hækkun á iðgjaldaprósentum báta undir 100 rúml. að stærð, sem tryggð eru hjá bátaábyrgðarfélögum og Samábyrgð Íslands, vegna óhagstæðrar útkomu á undanförnum árum. Að óbreyttum reglum um útflutningsgjald er áætlað, að tekjur tryggingakerfisins af útflutningsgjaldinu mundu nema um 171 millj. kr. á þessu ári og vantar þá hvorki meira né minna en um 103 millj. kr. til þess að endar nái saman á árinu.

Með því frv. um hækkun útflutningsgjalda, sem nú hefur verið lagt fram, er stefnt að 42 millj. kr. hækkun til þess að mæta þessum halla og vantar þá enn um 61 millj. kr., til þess að jöfnuður náist á þessu ári. Um þessar mundir stendur yfir nákvæm athugun á því, hvað unnt er að gera til þess að draga úr hinum mikla tryggingarkostnaði fiskiskipaflotans. Sú athugun er ekki komin á það stig, að unnt sé að skýra frá því í einstökum atriðum, til hvaða ráða verður gripið. En nefna má þó nokkra þætti, sem athyglin hefur beinzt að, og skal ég nú gera það.

Í fyrsta lagi tryggingarfjárhæðir skipanna. Talið er, að í sumum tilfellum séu tryggingarfjárhæðir óþarflega háar og á þetta ekki sízt við um togarana. Iðgjöld skipa lækka ekki hlutfallslega með vátryggingarfjárhæð, en þó að nokkru marki.

Í öðru lagi tryggingarskilmálar. Skilmálar stærri skipanna eru nú mjög víðtækir og kemur til greina, að hagkvæmt verði talið að þrengja þá í einhverjum atriðum.

Í þriðja lagi björgunarreglur. Um skip hjá bátaábyrgðarfélögum og Samábyrgðinni, svo og önnur skip í eigu ríkisstofnana, gildir gagnkvæm aðstoð skipa og greiðist aðeins þóknun miðað við framlagða þjónustu, en ekki björgunarlaun. Til greina kemur, að hliðstæð regla eða í þessa átt verði látin gilda um allan fiskiflotann eða jafnvel ná til allra íslenzkra skipa.

Í fjórða lagi mat á tjónum. Hugsanlega má koma á samræmdara og strangara eftirliti með uppgjöri tjóna en nú er, en á því telja ýmsir, að mörg vandkvæði séu.

Í fimmta lagi gæzla skipa. Gengið verði strangt eftir því, að skip liggi ekki gæzlulaus. Oft hafa orðið tjón á skipum, sem liggja mannlaus í höfnum, og nýlega varð stórbruni í skipi í höfn og kom í ljós, að skipið hafði verið mannlaust með ljósavél í gangi. Í sjötta lagi endurtrygging. Skip yfir 100 rúml. eru endurtryggð erlendis að langmestu leyti og minni skipin að nokkru leyti. Iðgjöld stærri skipanna eru raunverulega ákveðin af erlendum endurtryggingarkjörum, því að erfiðlega getur reynzt að fá fram hliðstæðar breytingar á iðgjöldum. Hugsanlega mætti koma á víðtæku samstarfi innanlands um endurtrygginguna.

Takist ekki að ná saman endum með sparnaðarráðstöfunum eins og hér er drepið á að framan, en enn eru ekki að fullu kannaðar, eða öðrum hliðstæðum, getur orðið að grípa til þess ráðs, að útgerðarmenn greiði sjálfir hluta tryggingargjaldanna umfram það, sem nú er. Er rétt að víkja að því, hvernig talið verður kleift að auka tekjur tryggingasjóðs með hækkun útflutningsgjalds, svo sem þetta frv., sem hér er til umr., leggur til, og með öðrum ráðstöfunum, sem tiltækar þættu. Hækkun útflutningsgjaldsins á yfirstandandi ári er annmörkum háð vegna hinnar örðugu afkomu flestra framleiðslugreina af völdum áframhaldandi verðfalls nú eftir gengisfellinguna. Enn fremur hefur ákvörðun fiskverðs og annarra rekstrarskilyrða, veiða og vinnslu bolfisks yfir allt árið þegar farið fram, án þess að fært hafi þótt að hækka útflutningsgjaldið. Með hliðsjón af því, sem nú er vitað um afkomu útflutningsgreinanna, telst aðeins fært að hækka útflutningsgjald af þremur afurðategundum, svo sem þegar hefur verið frá greint, þ.e. á óverkuðum saltfiski, frystum humar og saltsíld. Segja má, að rekstrarskilyrði einnar þessarar framleiðslugreinar, þ.e. saltfisksframleiðslunnar, hafi þegar verið ákveðin. Í þessu sambandi er enn fremur rétt að benda á, að útflutningsgjald er ekki greitt af innanlandssölu afla eða afurða né heldur af útflutningi niðursoðinna eða niðurlagðra sjávarafurða. Sá stofn, sem þannig er sleppt, nam um 250 millj. kr. árið 1966, þar af er nýr fiskur til neyzlu lauslega áætlaður 50 millj. kr. Af ýmsum ástæðum er örðugt og óæskilegt að taka gjöld af þessari framleiðslu, en að sama skapi hafa gjöld á aðrar afurðir þurft að vera hærri. Skal nú vikið sérstaklega að rekstrargrundvelli þeirra framleiðslugreina, sem verða fyrir hækkun útflutningsgjaldsins samkv. frv.

Saltfiskur hefur ekki fallið í verði að undanförnu á erlendum mörkuðum, en eins og kunnugt er, varð verðfall á erlendum mörkuðum aðaltilefni gengisbreytingarinnar. Efnahagsstofnunin hefur gert áætlun um hagnað saltfiskverkunar í heild vegna verðhækkana af völdum gengisbreytingarinnar og kemur í ljós, að um nokkurn hagnað muni þar geta orðið að ræða. Rekstur saltfisks- og skreiðarverkunar er að ýmsu leyti áhættusamur, einkum verkun skreiðarinnar. Einnig er 1/4 hluti saltfiskframleiðslunnar á vegum frystihúsanna og hefur verið höfð hliðsjón af þessum staðreyndum við ákvarðanir um hækkun útflutningsgjaldsins. Má ætla, að sú hækkun útflutningsgjaldsins, sem hér er lögð til, muni nema þó nokkrum hluta þess hagnaðar, sem áætlaður hefur verið á saltfiskframleiðsluna í heild.

Um frysta humarinn er það að segja, að hann hefur enn ekki fallið í verði og enn fremur er hann fyrst og fremst seldur til landa, sem hafa fellt gengið. Var áætlað við fiskverðsákvörðun, að verðhækkun vegna gengisbreytingarinnar mundi nema 30,4% á árunum 1966—1968. Nemur áætluð fjárhæð hækkunarinnar um 44 millj. kr. Enda þótt humarinn hafi enn ekki verið til sérstakrar meðferðar í verðlagsráði, má fullyrða, að það sé mjög rífleg hækkun, miðað við kostnað. Þar sem humarinn hefur ekki verið verðlagður, hefur ríkisstj. ekki tekizt á hendur neinar skuldbindingar um að hækka ekki gjöldin af þessum afurðum. Hins vegar takmarka almennir rekstrarmöguleikar frystihúsanna mjög svigrúmið í þessum efnum, þar sem vitað er, að mörg þeirra hafa á undanförnum árum brúað sína erfiðleika einmitt með frystingu humars. Með tilliti til þess, hve ójafnt humarveiðarnar koma niður, og til þeirra byrða, sem ríkissjóður hefur nú af byggingarsjóði fiskiskipa, hefur þótt óhjákvæmilegt að leita heimildar til hækkunar á útflutningsgjaldi, svo sem frv. ber vitni. Á árinu 1966 var humarinn færður úr 4,2% verðmætisgjaldi í núgildandi magngjald, 530 kr. á tonn, en það hefur verið mjög lágt gjald, miðað við verðmæti, eða 0,3%. Eðlilegt virðist að færa humarinn nú aftur undir 4,2% verðmætisgjald. Mundi það gefa um 7,5 millj. kr. hækkun tekna af útflutningsgjaldi eða um 17% af áætlaðri verðhækkun milli áranna 1966 og 1968.

Við mat á afkomu framleiðslugreina í sambandi við gengisbreytinguna fékkst hagstæðust niðurstaða af síldarsöltun, og var reiknað með, að sá hagnaður, sem þannig leiddi af gengisbreytingunni, kæmi hinum almennu síldveiðum og síldarvinnslu til góða. Á grundvelli úrtaks um þriðjungs heildarsöltunar á árinu 1966 hefur verið gerð heildaráætlun um síldarsöltun þess árs, og sú áætlun framreiknuð til ársins 1968. Til samsvörunar við rekstrarskilyrði bolfiskveiða var reiknað með 10% hækkun hráefnisverðs. Niðurstaðan var sú, að hreinn hagnaður yrði verulegur, þótt dreginn væri frá kostnaður við flutninga saltsíldar af fjarlægum miðum og gert væri ráð fyrir minna framleiðslumagni en áður. Er því lagt til, að allverulegur hluti af þessum hagnaði verði látinn ganga til hækkunar útflutningsgjalds. Áætluð aukning tekna af þessari hækkun nemur um 24 millj. króna. Með því að tilgangur hækkunar útflutningsgjaldsins var sá að jafna halla tryggingasjóðs fiskiskipa, er óhjákvæmilegt að breyta hlutfallslegri skiptingu útflutningsgjaldsins í samræmi við hækkunina, svo sem 2. gr. frv. gerir ráð fyrir.

Skal nú vikið að þeim ráðstöfunum, sem frv. gerir ráð fyrir vegna framleiðslu loðnumjöls og loðnulýsis, þ.e. lækkun og afnám útflutningsgjalda af þessum afurðum. Veiðar og vinnsla á loðnu er nýlegur þáttur í sjávarútvegi landsmanna. Eftir lítils háttar byrjun á árunum 1962—64 var loðnuaflinn 50 þús. lestir árið 1965, 125 þús. lestir árið 1966 og 97 þús. lestir 1967. Hefur aflinn að heita má allur farið í bræðslu. Meginástæðan til þess, að ekki hefur verið lögð meiri áherzla á loðnuveiðar, mun vera sú, hve rýrt hráefni loðnan er. Fást að jafnaði 16 kg mjöls úr hverjum 100 kg hráefnis, en aftur á móti 20 kg úr hverjum 100 kg síldar, karfa eða fiskúrgangs. Af lýsi fást aðeins um 2 1/2 kg úr 100 kg af loðnu, samanborið við 3—17 kg eftir árstíðum og veiðisvæðum úr sama magni síldar, og um 5 kg úr karfa eða karfaúrgangi. Hins vegar er loðnan mjög örðug í vinnslu, ekki sízt vegna hins mikla vatnsinnihalds, sem eima þarf burt. Jafnframt er hún viðkvæm fyrir skemmdum, þannig að mikil afföll verða vegna sýru í lýsinu. Af þessum sökum hefur þurft sérstaklega hagstætt verð afurðanna til þess að bera uppi veiðar og vinnslu loðnu. Hefur hagnýting loðnunnar einmitt hafizt við hin hagstæðustu skilyrði, sem voru á árinu 1965—66, jafnframt því, sem skortur á verkefnum fyrir hin stóru síldveiðiskip um vetrartímann fór vaxandi, þegar síldarstofninn við Suðvesturland fór minnkandi. Fyrir ári var svo komið af völdum verðfalls afurðanna, að verðmæti þeirra nægði ekki fyrir algeru lágmarki breytilegs kostnaðar við veiðar og vinnslu loðnu, er metin var 1 kr. hvert kg hráefnis. Til þess að gera kleift að nýta loðnuna var gripið til þess ráðs að fella niður útflutningsgjald af loðnuafurðum, 6% af fob-verðmæti, svo sem hv. þdm. er kunnugt um. En með þessari eftirgjöf er stuðlað að myndun útflutningstekna, er námu rúml. 100 millj. króna að fob-verðmæti. Í dag er afurðaverð enn lægra en það var fyrir ári síðan. Gera áhrif gengisbreytingarinnar á afurðaverðið ekki betur en vega upp þessa hækkun, ásamt hækkun á flutnings- og útskipunarkostnaði afurðanna. Takist betur til en á horfist um afurðasölu og afurðanýtingu, geta verksmiðjurnar átt þess kost að fá nokkuð upp í hækkun vinnslukostnaðar frá því fyrir ári, þó ekki sem nemur fullri hækkun þess kostnaðar. En á hinn bóginn hlýtur útgerðin styrk til stofnfjársjóðs, er ætla má að muni nema um 3,5 aurum á hvert kg loðnuaflans. Veiðar og vinnsla loðnunnar hafa hafizt við þessi skilyrði, þótt knöpp séu.

Með hliðsjón af því, sem hér hefur verið rakið, telur ríkisstj. að nauðsyn beri til að fella niður útflutningsgjald af loðnuafurðum einnig á yfirstandandi ári, og er gert ráð fyrir því í lokaákvæði frv. Eins og hér hefur verið skýrt, eru loðnumjöl og loðnulýsi afurðir, sem reynslan hefur sýnt, að hefur mjög lítið gjaldþol, og hefur þó verið sótt fast eftir eftirgjöf gjalds af þeim ár og ár í senn. Þess vegna er lagt til, að þessar afurðir séu færðar í þann gjaldflokk, sem lægstur er með tilliti til meðalverðs þessara afurða, þ.e. 4,2% verðmætisgjald. Eru þá meiri líkur en annars á, að talið verði fært að framfylgja gjaldaákvæðum laganna.

Að lokum skal rétt vikið að því ákvæði frv., sem gerir ráð fyrir niðurfellingu útflutningsgjalds af hertum sjávardýraolíum. Verðmætisaukning við herzlu síldarlýsis með umbúðum mun nema um 50% miðað við fob-verð og núverandi verðlag á lýsi. Verðmætisaukning við herzlu annarrar sjávardýraolíu mun vera svipuð. Augljóst er, að útflutningsgjald sem þetta hlýtur að draga úr áhuga fyrir því að auka verðmæti vörunnar hér innanlands. Auk þess dregur það úr samkeppnishæfni íslenzka framleiðandans á hinum alþjóðlega markaði, þannig að framleiðendur telja framleiðslu sína algjörlega ósamkeppnishæfa, þyrfti hún að bera útflutningsgjöld. Hefur Félag ísl. iðnrekenda eindregið mælzt til þess, að það verði fellt niður í þeim tilgangi að efla samkeppnisaðstöðu þessara framleiðslugreina. Í vissum skilningi hefur verið litið á niðursoðnar og niðurlagðar sjávarafurðir sem iðnað. Þessi framleiðslugrein heyrir undir iðnmrn. og framleiðendur greiða iðnlánasjóðsgjald af þessum afurðum. Sama má segja um herzlu lýsis. Má því segja, að óeðlilegt sé að leggja jafnframt á þessa framleiðslugrein útflutningsgjald.

Ég tel, að með þessum upplýsingum, sem hér hafa verið gefnar, séu nokkuð ljósari þær ástæður og sá grundvöllur, sem liggur að flutningi þess frv., sem hér er til umræðu, og vænti þess, að það verði samþ. í því formi, sem meiri hl. hv. sjútvn. mælir með.