16.04.1968
Efri deild: 91. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1607 í B-deild Alþingistíðinda. (1488)

188. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Jón Árnason:

Herra forseti. Það fer ekki hjá því, að öllum er það ljóst, að hér er útgerðinni mikill vandi á höndum og tilefni þess, að þetta frv. er flutt er hið alvarlega ástand, sem við blasir varðandi vátryggingar fiskiskipaflotans. Það hefur verið rakið í stórum dráttum, hvernig þessi mál hafa gengið á undanförnum árum. Fyrst var það svo, eftir að sá háttur komst á að vátryggingariðgjöldin voru goldin af öðrum heldur en bátaeigendunum sjálfum, beint og jafnóðum og vátryggingariðgjöldin féllu, að þá var iðgjaldaupphæðin greidd að fullu, hver sem hún var. Það sýndi sig fljótlega, að slík framkvæmd stefndi þessum málum í algert öngþveiti, vegna þess að þá hafði enginn hagsmuna að gæta með það að halda iðgjöldunum niðri, enda skapaðist mjög fljótlega mikið misræmi milli bátanna. Það reyndist ákaflega misjafnt, hvað miklar upphæðir þurfti, hvort heldur það var úr útflutningssjóðnum á sínum tíma eða úr vátryggingasjóðnum, sem síðar kom, 1961. Hér var um geysilega mikið misræmi að ræða og svo er enn, og misræmið, sem er í dag, er kannske fyrst og fremst fólgið í því að bátarnir sitja ekki allir við sama borð í tryggingarskilmálum. Hjá smærri bátunum nær tryggingin yfirleitt ekki nema til skrokksins, ekki til vélarinnar, en aftur á móti hafa stærri bátarnir víðtækari tryggingu og fá meira tryggt með iðgjaldi sínu úr þessum sjóði. Þetta er eitt af því sem þarf að endurskoða og gera breytingar á. En kjarni málsins er, eins og ég sagði í upphafi, það, sem við okkur blasir í dag, að ef við ekki aðhöfumst eitthvað til þess að mæta þeim halla, sem orðinn er hjá vátryggingasjóðnum, þá stefnum við í beinan voða með allan fiskiskipaflotann. Og án þess að fram komi till. þá verður, eins og síðasti ræðumaður sagði, ekki annað séð en að í mjög mikið óefni verði komið hjá öllum bátaflotanum, ef hann verður tryggingalaus einhvern næstu daga.

Það er rétt, sem hér hefur komið fram, að það vantar meiri fjármuni heldur en þessar 42 millj. kr., sem út úr þessu koma, og því vil ég undirstrika það, sem fram kemur í nál. meiri hl. og beint er til hæstv. ríkisstj., að þess sé fastlega vænzt, að löggjöfin um þetta efni verði endurskoðuð og að fyrir liggi niðurstöður í þeim efnum, þegar þing kemur saman í haust, svo að ný ákvæði verði búið að setja eða einhverjar nýjar ráðstafanir verði búið að gera fyrir næstu áramót, þegar nýtt tryggingatímabil hefst. Það tel ég, að sé alveg höfuðnauðsyn.

Um hitt má að sjálfsögðu deila á meðan útvegsmenn greiða öll útgjöldin, eins og þeir gera í dag og hafa gert, að þetta er tekið af útflutningsframleiðslunni. Það er deilt um það. Menn segja, að sjómennirnir fórni þarna vissum hluta, og þó vil ég nú ekki fullyrða og ekki viðurkenna, að svo sé, vegna þess að enda þótt þetta gjald hafi stundum verið lagt á, þá hafa farið fram endurskoðanir á samningum milli útgerðarmanna og sjómanna, og ég veit ekki betur en að frekar hafi það verið í þá áttina með hlutaskiptin, að frekar hafi farið hækkandi hluturinn hjá sjómönnunum heldur en hlutur útvegsins, þó nokkuð hafi komið þarna á móti í þessum efnum. Og það er vissulega rétt, að það getur verið álitamál, hvar helzt á að leggja gjaldið á til þess að ná þessu af hinum einstöku þáttum sjávarútvegsframleiðslunnar.

Eins og hér hefur verið skýrt frá, var í ársbyrjun gengið út frá vissu hráefnisverði, bæði varðandi bolfiskveiðarnar og þær verkunaraðferðir, sem þeim eru samfara. Þarna er um að ræða saltfiskinn, skreiðina, — en skreiðarverkun hefur verið svo til engin á þessum vetri, það sem af er, — og frysta fiskinn. Þetta er allt, sem þegar var búið að ganga út frá, og þess vegna var mjög erfitt um vik að fara að bæta þarna verulegum upphæðum á vegna þess að talið er, að þeir, sem eru með fiskiðnaðinn og kaupa fiskinn, hafi mjög takmarkaða möguleika á því að taka á sig verulega aukin útgjöld, og þess vegna er það augljóst mál, að núna, þegar gengið verður frá að verðleggja síldina fyrir komandi ár og humarinn fyrir veiðarnar í sumar, þá verður þessi skattur lagður til grundvallar við þá verðlagningu, sem þar á sér stað. Um þetta má deila, en hins vegar er það staðreynd, að útvegsmenn hafa sjálfir á undanförnum árum greitt iðgjöldin, og eins og fram kom líka hér hjá einum hv. ræðumanni áðan, þá var það að þeirra ósk, að farið var inn á þetta kerfi að taka útflutningsgjald af sjávarafurðum til þess að tryggja iðgjaldagreiðsluna, og enda þótt það liggi fyrir verulegir ágallar á framkvæmdinni, þá hygg ég, að samt sem áður vilji útvegsmenn halda þessu kerfi áfram, en þó þannig, að endurskoðun eigi sér stað og fært sé til betri vegar það, sem sýnilegt er, að aflaga fer í þessum efnum. Og það er með tilliti til þess, sem ég hef sagt, að ég hef mælt með því, ásamt öðrum í meiri hl. sjútvn., að þetta frv. verði samþ.