16.04.1968
Efri deild: 91. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1609 í B-deild Alþingistíðinda. (1489)

188. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Hv. meiri hl. lét svo um mælt, að ef þetta frv. yrði ekki samþ., þá yrðu bátarnir innan skamms án vátryggingar, og mér virtist hann gera ráð fyrir því, að sú hækkun á útflutningsgjaldi, sem gert er ráð fyrir í þessu frv., þær 42 millj. sem þar er um að ræða, mundu koma ákaflega fljótt í vasa og ríkishirzluna. En ég held nú, að það verði nokkur dráttur á því, að þessi hækkun, sem gert er ráð fyrir í útflutningsgjaldinu, verði orðin að beinhörðum peningum til greiðslu á vátryggingariðgjaldinu. Mér skilst nú, að þar sem 28 millj. eiga að koma vegna saltsíldarinnar, þá geti það ekki komið til fyrr en síðari hluta ársins eða mjög seint á árinu. Og ætli það gildi nú ekki eitthvað svipað um humarinn, og kannske að einhverju leyti um saltfiskinn líka, þó að jafnari sé nú útflutningur á því. Nei, ég skil ekki þá röksemd, að þarna sé verið að fá eitthvert reiðufé í sjóðinn til þess að greiða vátryggingar. Ef þetta á að leysa þann vanda í bili, hlýtur það að byggjast á því, að einhverjar velviljaðar lánastofnanir láni þá út á þennan væntanlega tekjuauka. En sjálfsagt mundu þær velviljuðu lánastofnanir vera reiðubúnar til þess að lána fé út á það endurhætta kerfi í þessum efnum, sem vonast má til að komi innan skamms.

Aðalatriðið í þessu máli er auðvitað það — og þess vegna erum við líka á móti því — að það leysir alls ekki þann vanda, sem við er að etja. Eins og margtekið hefur verið fram eru þessar 42 millj. ekki nema brot af þessum hala, sem hér er um að ræða, þessum vanskilum, sem eru og yrðu að öllu óbreyttu að þessu ári liðnu. Og þessi tekjuauki, sem þarna er um að tefla, verður ekki raunhæfur strax, og þess vegna væri af þeirri ástæðu alveg ráðrúm til þess að athuga málið. En það, sem fyrst og fremst er aðfinnsluvert í þessu, er það, að málin skuli ekki hafa verið athuguð miklu fyrr og það skuli ekki hafa verið komið inn á þingið með þetta mál miklu fyrr. Eins og ég benti á í ræðu minni hér áðan og ég vildi gjarnan heyra einhverja grg. frá hæstv. sjútvmrh. um, er það aðfinnsluvert, að þessi mál skyldu ekki þá vera tekin til skoðunar í sambandi við ráðstöfun á gengishagnaðinum, þar sem um þetta mál var fjallað. Það var virkilega fjallað um vátryggingar á fiskiskipum með því frv. Þar var ráðstafað 1/4 af gengishagnaðargróðanum til vátryggingar á fiskiskipum. Vissu menn ekki betur þá um útkomuna Jú, auðvitað hljóta menn að hafa séð þá, hvert stefndi. Þess vegna er það aðfinnsluvert, eins og ég sagði, að hafa ekki tekið þetta mál fyrr til athugunar og hafa ekki komið með það til þingsins, fyrr en á allra síðustu dögum, þegar ekkert ráðrúm gefst til að kanna málið og það er afgreitt á þann hátt, að enginn, sem tjáð hefur sig um málið, er ánægður með það.