16.04.1968
Efri deild: 91. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1610 í B-deild Alþingistíðinda. (1490)

188. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Félmrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Ég vil nú svona aðeins varpa því fram, einkanlega kannske til hv. síðasta ræðumanns, hvort nokkurn tíma hefur komið nokkurt álögufrv., sem menn væru sérstaklega ginnkeyptir fyrir, í fyrsta lagi að fylgja, í öðru lagi að mæla með. Ég held, að þetta séu nú heldur langsótt rök, því sannleikurinn er sá, að hér er um álögur að ræða á ákveðna aðila til að færa til annarra. Það fer ekki á milli mála. Ég minnist þess nú ekki í 15 ára þingsögu minni, að nokkurn tíma hafi verið mælt með slíkum álögum. Ef einhver hefur átt að bera byrðar, þá hefur sá hinn sami að sjálfsögðu mótmælt, þannig að það er ekkert nýtt í þessu dæmi, sem hér er um að ræða. Ég held, að allt það, sem þegar hefur verið sagt af hálfu meiri hl. n. um þessi mál, og sú grg., sem ég reyndi að koma hér á framfæri áðan, skýri nú málið að því leyti, að óþarft sé að rekja það í smáatriðum lengur.

Það er aðeins vegna síðustu fsp. hv. 3. þm. Norðurl. v., um það, hvers vegna ekki hafi verið betur hugað að þessum málum, þegar ákveðin var skipting gengishagnaðarins, sem ég kvaddi mér hljóðs. Sannleikurinn er sá, að þetta mál hafði ekki verið skoðað niður í kjölinn fyrr en allt of seint, og ég get tekið undir hans óánægju með það, að málið kom seint fyrir þing. Ég er jafnóánægður með það sjálfur, en eftir því var rekið eins og hægt var að fá þessar niðurstöður, þó þær kæmu ekki fyrr en svona síðla þings. Og hefði verið ástæða til þess að það hefði fengið lengri tíma. En meðan gengishagnaðarmálið var til umr., voru menn á þeirri skoðun, að þörf þeirra greina sjávarútvegsins, sem eiga að njóta góðs af þeim gengishagnaði, væri svo brýn, að fram hjá þeim yrði ekki gengið.

Spurningin er sú, milli hvaða greina þessi óvænti hagnaður, sem til kom vegna gengislækkunar, eigi að skiptast. Menn voru þá á þeirri skoðun, að honum væri bezt varið með þeim hætti, sem það frv. greindi frá. Það var öllum ljóst þá, það er rétt hjá hv. þm., að halli væri á vátryggingasjóði, það sýndu útflutningsgjöldin í heild og hann hefur meginhluta þeirra. Það þyrfti ekki frekar vitnanna við um þau efni. En hve mikill og hversu sýnilegur þessi halli yrði í framtíðinni, það var ekki ljóst fyrr en nú á allra síðustu dögum. En ég get fullvissað hv. þm. um það, að þær till., sem í þessu frv. felast, þær stönzuðu ekki einn dag, ekki heilan dag, í sjútvmrn., áður en þær fóru í prentun og komu fyrir augu þm. En ég get alveg tekið undir hans álit um það, að það væri æskilegt að hafa málið til lengri meðferðar í þinginu heldur en nú er ætlað, með hliðsjón af því, hvenær hugsað er að ljúka þingi. En það breytir ekki þeim staðreyndum, sem ég lýsti áðan í minni grg., ástæðunum fyrir því, að tryggja þarf hag sjóðsins og heldur ekki því, að hér er um það að ræða, að aðrar greinar sjávarútvegsins, þ. e. a. s. vinnslan í landi, geti átt sér stað. Hún á sér ekki stað með bátana bundna við bryggjur eða uppi í skipasmíðastöðvum til viðgerðar.