19.04.1968
Neðri deild: 102. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1617 í B-deild Alþingistíðinda. (1499)

188. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Frsm. minni hl. (Jón Skaftason):

Herra forseti. Við hv. 4. þm. Austf. stöndum að nál. á þskj. 663 og lýsum þar yfir þeirri afstöðu okkar, að við séum andvígir þessu frv. og leggjum til, að það verði fellt. Áður en ég vík að efni sjálfs frv. langar mig til þess að vekja athygli á því, að mér sýnist, að með þeirri skattlagningu, sem ráðgerð er með hækkun útflutningsgjaldsins, sé verið að brjóta gegn einu af megin-prinsipum viðreisnarstjórnarinnar, þeim, sem boðuð voru í upphafi árið 1960, en þar var það talið mikið glapræði og orsök mikils ófarnaðar, sem væri orðinn í þjóðfélaginu, að ýmist væru greiddar misháar bætur á ýmsar framleiðslugreinar, þannig að bæturnar væru hærri á þær framleiðslugreinar, sem verr gengju og væru afkastaminni en aðrar. Með því væri verið raunverulega að draga úr hagvexti í þjóðfélaginu, og mér finnst, að út frá þessu megi álykta, að þegar er farið að skattleggja hinar ýmsu framleiðslugreinar í landinu mjög misjafnlega með háum sköttum, þá hljóti það að verka á nákvæmlega sama hátt og skýrt var frá í viðreisnartill. frá 1960. Ég bendi aðeins á þetta, en að vísu þarf það ekki að vekja neina undrun hjá neinum hv. þm., því við, sem höfum setið hér nokkur ár á hv. Alþ., erum orðnir því vanir, að af hálfu hæstv. ríkisstj. sé brugðið nokkuð frá þeirri stefnu, sem hún boðaði í upphafi og sagðist ætla að fylgja.

Frá efni þessa frv. skal ég skýra í örfáum orðum. Það hefur verið að því vikið af hv. frsm. meiri hl. sjútvn., Sverri Júlíussyni, og skal ég ekki endurtaka mikið af því, sem hann sagði, en aðalatriði frv. er það, að með því er ráðgert að hækka útflutningsgjöldin allverulega á þrem tegundum sjávarafurða, þ. e. a. s. á saltsíld, humar og óverkuðum saltfiski. Þessi hækkun útflutningsgjaldsins á að gefa í tekjur á einu ári 42 millj. kr., og þessi tekjuauki á allur að ganga til vátryggingasjóðs fiskiskipa, sem er undir æðstu yfirstjórn hæstv. sjútvmrh., og er nú þannig komið, að á s. l. ári var hallinn á sjóðnum um 95 millj. kr. og skv. áætlun fyrir yfirstandandi ár er gert ráð fyrir, að hallinn á vátryggingasjóðnum verði um 103 millj. kr. Hluti vátryggingasjóðsins af útflutningsgjaldinu á með samþykkt þessa frv. að hækka úr 73% í 76,90% og lækkar hlutfallshluti annarra aðila, sem fengið hafa hluta af útflutningsgjaldinu, tilsvarandi í nokkuð svipuðum hlutföllum, að mér sýnist.

Ég kemst ekki hjá því að gagnrýna það eilítið, að þegar frv. þetta var lagt fram í hv. Nd., fylgdi hæstv. sjútvmrh, því ekki úr hlaði á nokkurn hátt. Og eins og hv. þm. vita, er slíkur hraði á afgreiðslu mála í n. þessa dagana, að mál fá þar yfirleitt ekki eins góða athugun og skyldi, og þess vegna er það, að ýmisleg atriði, sem ekki sjást af frv. sjálfu eða þeim aths., sem því fylgja, geta verið óljós fyrir hv. þm., sem þekkja ekki kannske til smæstu atriða í starfsemi vátryggingasjóðsins. Mér finnst ástæða til þess að benda á þetta, því að ég tel, að það sé skylda hvers ráðh., sem leggur fram meiri háttar málefni, eins og ég hiklaust flokka þetta undir, að hann fylgi þeim úr hlaði og gefi nauðsynlegar skýringar. En til þess að bæta mér þetta upp lagði ég það á mig að lesa þær umr., sem urðu um málið í hv. Ed., þegar það var lagt þar fram, og mun ég víkja að því lítillega hér á eftir.

Í aths. með frv. þessu segir m. a., að hækkun útflutningsgjaldsins á saltsíld eigi að gefa í tekjur hækkað útflutningsgjald um 28 millj. kr. Hins vegar þóttist ég sjá það í þeirri ræðu, sem hæstv. sjútvmrh. hélt í Ed., að upphæð þessi, eftir því, sem hann sagði þar, væri ekki nema 24 millj. kr., þannig að þarna er um 4 millj. kr. skakki á, sem ég vildi gjarna óska eftir, að hæstv. ráðh. gæfi skýringu á.

Skv. aths. frv. er gert ráð fyrir því, að hækkunin á óverkuðum saltfiski gefi í tekjur um 8 millj. kr. yfir heilt ár og hækkun útflutningsgjalds á humar gefi 6 millj. kr.

Hv. þm. Sverrir Júlíusson las hér upp áðan yfirlit um afkomu tryggingasjóðsins allt frá árinu 1961. Af því yfirliti má sjá, að flest árin síðan hefur tryggingasjóðurinn verið rekinn með nokkrum halla. Flest árin að vísu litlum halla, en þó nokkrum, og fyrsta árið, 1961, sem er dálítið sérstakt að vísu, er hallinn allverulegur, en um rekstur sjóðsins tekur þó alveg steininn úr árið 1967, í fyrra, og árið í ár. Ég gat um það áðan, að hallinn væri talinn vera á s. l. ári um 95 millj. kr.; útgjöld tryggingasjóðsins umfram þær tekjur, sem hann hefur.

Þegar frv. um upptöku á gengishagnaði útflutningsvörubirgða, sem lágu í landinu, þegar gengið var fellt 24. nóv. s. l., var hér til meðferðar, kom það fram, að ráðgert væri að nota um 50–60. millj. kr. af þessum upptæka gengishagnaði, sem var rétt eign eigenda þeirra útflutningsvörubirgða, sem voru til gengisfellingardaginn, til þess að borga upp í þennan mikla halla á vátryggingasjóðnum 1967 50–60 millj., þannig að gera má ráð fyrir, að af hallarekstri vátryggingasjóðsins fyrir s. l. ár standi eftir a. m. k. 35–40 millj. kr. Eins og ég sagði áðan, er áætlað, að hallinn á yfirstandandi ári nemi 103 millj. kr., og ráðgert er að ná upp í þann mikla skakka um 42 millj. kr. með hækkun útflutningsgjaldsins, sem frv. þetta ráðgerir. Nú var ég að velta því fyrir mér, hvernig á þessu stæði, að svona geysilegar breytingar hefðu orðið á afkomu tryggingasjóðsins á árinu 1967 og 1968 og mér, í mínum barnaskap, fannst ekki ósennilegt, að þetta hlyti að vera a. m. k. í aðalatriðum því að kenna, að tekjur sjóðsins hefðu brugðizt mjög með minnkandi afla og lækkandi verði á útfluttum sjávarafurðum, og e. t. v. aukinni tjónagreiðslu þessara ára, stóraukinni tjónagreiðslu. En þegar ég var að lesa umr. í Ed., sá ég skýringu, sem mér hafði ekki dottið í hug, að gæti verið ein af ástæðunum eða meginástæðan fyrir þessum mikla halla, en ég tel rétt að vekja athygli á henni engu að síður, til þess að hæstv. sjútvmrh. geti þar leiðrétt eitthvað, ef rangt er með farið, eða gefið skýringar. En þessi skýring á halla tryggingasjóðsins kom fram í ræðu, sem hv. 5. landsk. þm. hélt þar. Ég hef tekið eftir því nokkuð af lestri þingræðna úr Ed., að þessi hv. þm. þykist hafa sæmilegt vit á sjávarútvegsmálum og liggur ógjarnan á því, og þess vegna þykir mér, af því, sem ég sagði áðan, og líka vegna þess, að ég tel, að þessi maður, þessi hv. þm. geti ekki verið að gefa yfirlýsingar eða verið með getsakir, sem ekki fá stuðzt við veruleikann, þess vegna þykir mér ástæða til þess að lesa upp örlítinn kafla úr þeirri ræðu, sem þessi hv. þm. hélt um þetta atriði, en hann segir þar m. a., með leyfi hæstv. forseta:

„Við sem erum hreinir útvegsmenn hér á Íslandi, við erum aðeins örfáir. Það eru langflestir, sem eiga beinan þátt í fiskverkun eða eru svo nátengdir henni, að þeir eiga hagsmuna að gæta í vinnslunni líka, og ég vildi aðeins láta það koma fram, að þetta kerfi er byggt upp í þágu útgerðarmanna, sem í langflestum tilfellum eru verkendur um leið. Hitt er svo annað mál, að vátryggingakerfið er komið á það stig, að það býður upp á misnotkun, leiðinlega misnotkun, sem óprúttnir aðilar notfæra sér og draga til sín fjármagn, óeðlilega stórar upphæðir í gegnum vátryggingakerfið og koma því undir svokallað sjótjón og fá viðgerðarreikninga greidda undir því yfirskini, að hér sé um tjón að ræða, þó að í mörgum tilfellum sé um viðhald að ræða.

Hins vegar er það svo, að þegar menn hafa getað notað þessa aðstöðu og svo á að skerða hana, þá auðvitað kveinka menn sér undan því, það er ekkert óeðlilegt. Þegar misrétti hefur átt sér stað í þjóðfélaginu og það er verið að leiðrétta misréttið, þá vilja menn ekki sleppa misréttinu, skv. eðli málsins. Það væri þess vegna alveg eins eðlilegt, að ýmsir útvegsmenn mundu jafnvel mótmæla því, að það yrðu settar strangar reglur um bótagreiðslur til útvegsmanna, vegna þess að menn eru að missa köku, sem þeir hafa fengið vegna misnotkunar á vátryggingakerfinu, en það væri hróplegt ranglæti og a. m. k. óeðlilegt, að Alþ. vildi stuðla að því að viðhalda slíku.“

Svo mörg voru þau orð hv. þm., og af því að ég, eins og ég sagði hér áðan, tel, að hér sé um nokkuð alvarlegar ásakanir að ræða til nokkuð fjölmenns hóps manna í þjóðfélaginu og af því að þær eru bornar fram af manni, sem telur sig allvel þekkja til sjávarútvegsmála, þá vil ég skora á hæstv. ráðh. að gefa yfirlýsingu um það hér á eftir, hvort hann sé sammála hv. þm. um það, að þetta sé ein af þeim ástæðum og að því er manni sýndist af ræðu hv. þm. ein af þeim meginástæðum, sem orsakað hafa hallann á vátryggingarsjóðnum í ár og s. l. ár.

Hitt er svo líka nokkuð skrýtið, ef hv. þm. hefur þessa skoðun á eðli útgjalda vátryggingasjóðsins, að hann skuli leggja til og styðja með sínu atkvæði, að tekjur sjóðsins séu stórlega auknar, eins og hann gerir með því að greiða þessu frv. atkv., þá væntanlega til þess að meiru sé hægt að eyða í þessa hluti, sem hann hélt hér fram að hefði verið gert að undanförnu. En svona gerast nú hlutirnir stundum skrýtnir.

Ég sagði það í upphafi máls míns, að skattur sá, sem frv. gerir ráð fyrir, næmi um 42 millj. kr. Ég vil þegar í upphafi undirstrika það, að allur þessi skattur á allar þessar þrjár framleiðslutegundir sjávarafurða, hann kemur niður á hráefnisverðinu, hann lendir þar endanlega allur. Og hverjir eru það, sem í raun réttri greiða hann? Það eru sjómennirnir á síldveiðiskipunum, það eru sjómennirnir, sem fiska humarinn, og það eru sjómennirnir, sem leggja þorskinn upp til saltfiskverkunarstöðvanna. Ég vil víkja nokkru nánar að þessu. (Gripið fram í.) Ég sagði, að skattur þessi lenti á sjómönnunum. Sumir mundu kannske vilja segja, að réttara væri að orða það þannig, að hann lenti á útgerðinni sem heild, og er þá átt við skipseiganda og útgerðarmann. Ég held þó, að það verði í reyndinni ekki nema að mjög óverulegu leyti, því að allur meginþunginn lendir á sjómönnunum. Þetta gerist vegna þess, að eins og margundirstrikað hefur verið, bæði hjá hv. síðasta ræðumanni, sem mælti hér fyrir meirihlutaálitinu, og mörgum öðrum síðar, þá renna þessar tekjur allar, útflutningsgjaldið, til nokkurra aðila og til vissra þarfa í þjóðfélaginu, að langmestu leyti eins og ég gat um hér áðan, eða nær því 77% til vátryggingasjóðsins, en hlutverk vátryggingasjóðsins er að greiða iðgjöld af skipunum, sem hafa annars lent á útgerðinni. Að þessu leyti er því um hreina millifærslu að ræða. Útgerðarmaðurinn borgar útflutningsgjaldið, en fær það aftur til sín á þennan hátt, að vátryggingariðgjöldin af skipinu eru greidd úr sjóðnum. Það held ég að sé óhrekjanleg staðreynd. Og að langmestu leyti — ég endurtek það — þá mun þessi aukni skattur lenda á sjómönnum. Það er því eðlilegt, að sjómenn og þá sérstaklega síldveiðisjómenn, séu ekki mjög ánægðir með þessa skattlagningu. Hv. alþm. hafa, sumir hverjir a. m. k., séð bréf, sem stjórn Samtaka síldveiðisjómanna hefur ritað Alþ. út af frv. þessu, en fyrir þá, sem ekki hafa lesið nál. okkar minnihlutamanna, vildi ég, með leyfi hæstv. forseta, lesa hér upp úr því, en þar segir svo m. a.:

„Stjórn Samtaka síldveiðisjómanna telur ekki hægt að leggja aukin útflutningsgjöld á sjávarafurðir okkar, þegar við eigum í síaukinni samkeppni með sölu þeirra við aðrar þjóðir. Saltsíldarmarkaðurinn er mjög þröngur, og þar gætir stóraukinnar samkeppni frá öðrum þjóðum. Á sama tíma og Norðmenn styrkja sinn saltsíldariðnað með 30 norskum kr. pr. tunnu (á þriðja hundrað ísl. kr.) á að stórauka útflutningsgjöld á íslenzkri saltsíld, sem við seljum á sama markað og þeir. Við það bætist, að útlit er fyrir, að við þurfum að veiða síldina austur undir Noregi, sem hefur í för með sér stóraukinn kostnað og minni afla.

Á síðasta ári varð stórfelld verðlækkun á síld til bræðslu, samfara minni afla. Við það versnaði afkoma sjómanna svo, að nú eru orðin mikil vandkvæði á að manna stærstu bátana og fyrirsjáanlegt er, að auknir örðugleikar verða á að fá sjómenn til síldveiða í sumar, þrátt fyrir minni atvinnu í landi en verið hefur. Viljum við benda á, að með hækkun á útflutningsgjaldi er verið að raska þeim skiptakjörum, sem verið hafa milli útgerðar og sjómanna.

Viljum við vara við þeim afleiðingum, sem af því geta hlotizt. Von okkar var sú, að með hækkuðu verði á síld til söltunar sköpuðust möguleikar á söltun um borð í fiskiskipunum, sem gæfu auknar tekjur til sjómanna og útgerðar, og við héldum okkar dýrmætu saltsíldarmörkuðum. En ef það frv., sem hér um ræðir, verður að l., sjáum við ekki, hvernig hægt verður að fá það verð, sem nauðsynlegt er til að manna fiskiskipin til síldveiða á komandi sumri.“

Þetta segir í bréfi, sem stjórn Samtaka síldveiðisjómanna hefur sent hv. Alþ.

En er nú réttlátt að skattleggja síldveiðisjómenn, þó að skatturinn eigi að ganga m. a. til greiðslu á tryggingariðgjöldum? Er afkoma þeirra slík, að sérstaklega sé eðlilegt eða réttlátt að skattleggja þá með frv. þessu? Hvað segir reynslan okkur um það, sem við höfum þegar fyrir okkur, og hvað getum við ráðið í horfurnar á þessu ári um það, hvort síldveiðisjómenn og fleiri sjómenn séu líklegir til þess að geta borið háa nýja skatta ofan á það, sem þeir bera úr býtum á veiðum? Mig langar til þess að víkja örfáum orðum að þessu atriði, því að ég tel það mjög mikilvægt. Það er staðreynd, að meðaltekjur sjómanna á síldveiðum s. l. ár voru um 92–93 þús. kr. Þetta sýna skýrslur, sem eru öllum aðgengilegar, sem vilja þær kynna sér. Þessar 92–93 þús. kr. tekjur síldveiðisjómanna eru fengnar fyrir erfitt og hættulegt starf, oft á tíðum við mjög vondan aðbúnað, 7 mánuði ársins, eða allt frá júníbyrjun til desemberloka á s. l. ári lengst norð-austur í hafi, um 6–800 sjómílur frá næstu hlutum Íslands og miklu nær bæði Noregi og Spitsbergen heldur en okkar eigin landi. Og það er nú ekki einu sinni svo vel, að tekjur þessar séu hreinar nettótekjur, sem þeir hafa út úr þessu langa 7 mánaða úthaldi. Nei, frá þessum tekjum má draga fæðiskostnað þessara manna um borð í skipunum, sem áætlaður er að ég tel mjög hóflega um 3500 kr. á mán. Það vill segja, að fyrir 7 mánaða úthald er fæðiskostnaðurinn, sem kemur til frádráttar þessu, 24500 kr. Það þýðir, að nettótekjur síldveiðisjómanna á s. l. ári á stærri síldveiðiskipunum hafa verið fyrir 7 mánaða úthald 67500 kr. eða 68500 kr. Finnst mönnum nú sanngirni að skattleggja þennan hlut umfram það, sem þegar er gert, með öðrum þeim sköttum, sem til staðar eru í þjóðfélaginu? Og ef menn vilja ekki líta á réttlætishlið málsins, þá vil ég spyrja, ja, fyrst og fremst hæstv. ráðh. og þá fyrst og fremst hæstv. sjútvmrh. og þá aðra stuðningsmenn ríkisstj., sem væntanlega koma til með að samþ. þetta frv. hér á eftir: Er það viturlegt að búa þannig um hnútana fyrirfram, að nærri því sé útilokað, að síldveiðar verði stundaðar í úthafinu á næsta sumri og næsta hausti? Því að svo sannarlega eru ýmsar blikur á lofti nú og margt, sem bendir til þess, að um það megi fyllilega örvænta, að svo verði. Hvar yrði afkoma þessarar þjóðar komið, ef hún missti allar þær tekjur, sem hún hefur beint og óbeint af síldveiðum og vinnslu síldarinnar í landi, hvort sem er til söltunar eða til bræðslu í verksmiðjunum?

Ætli það yrði ekki fljótlega vart við enn meira tómahljóð en þó heyrist þegar úr ríkiskassanum, og ætli ýmsir þeir, sem starfa í viðskiptum og þjónustustarfsemi í landinu, mundu ekki fljótlega finna fyrir því? Og ætli þjóðfélagið sem slíkt þyldi það mjög lengi, að ekki yrði gert út á síldveiðar? Þetta eru spurningar, sem hljóta að vakna í hugum allra þeirra, sem um þessi mál hugsa af einhverri alvöru og vilja setja sig inn í, hvernig þau standa. Og ég tel það furðulega fífldirfsku af hæstv. ríkisstj. að ætla sér með þessu frv., þótt út af fyrir sig sé upphæðin ekki ýkjastór, að fara að skattleggja þennan hóp þjóðfélagsborgaranna með þessum álögum. Það er staðreynd, að heildarútflutningsverðmæti síldarafurða á s. l. ári lækkaði niður í 510 millj. kr. úr 1216 millj. árið 1966. Að sjálfsögðu þýddi þetta tilsvarandi tekjutap fyrir síldarútgerðina, bæði fyrir sjómennina og eins fyrir útgerðarmanninn. Því miður eru horfur þannig um afurðasöluna, að það er af öllum, sem til þekkja, talið algjörlega útilokað, að við getum á yfirstandandi ári búizt við hækkunum á bræðslusíldarafurðum, þ. e. a. s. mjöli eða lýsi, og því miður verð ég að segja af þeim kunnugleika, sem ég hef af sölumálum saltsíldar, að það eru talsvert meiri líkur á því, að við verðum að sæta því hlutskipti að fá lækkað verð fyrir okkar saltsíld á erlendum mörkuðum í ár frá því, sem var í fyrra, en þá lækkaði útflutningsverð saltsíldar í allflestum viðskiptalöndum okkar um 3 kr. sænskar pr. tunnu. Það gerðist um öll Norðurlönd, í Svíþjóð, sem er langstærsti kaupandinn okkar, í Finnlandi, sem er næst-stærsti kaupandinn okkar, í Danmörku, Noregi, Bandaríkjunum, Ísrael. Ég man ekki eftir neinu landi, þar sem við í fyrra gátum náð hækkun á útfluttri síld, nema Rússlandi.

Ég hef heyrt því haldið fram bæði nú og áður af hæstv. ríkisstj., að ekki sé óeðlilegt að hækka þetta gjald, vegna þess að með gengisfellingunni á s. l. ári þá muni verða svo mikil hækkun — fást svo miklu fleiri krónur fyrir hverja útflutta síldartunnu, t. d. frá því, sem var í fyrra, að það réttlæti hækkun þessa gjalds. Ég hef reynt að gera mér grein fyrir því, á hvaða öruggum grunni þessi staðhæfing er byggð og hvort það væri hugsanlegt, að eitthvað yrði eftir af þessari hækkun, sem gæti leitt til þess að hægt væri að bæta kjör síldveiðisjómanna frá í fyrra, en ég tel alveg bráðnauðsynlegt, að það verði gert. Og þá hef ég sett upp þetta dæmi, þegar ég hef verið að reyna að velta þessu fyrir mér. Ég reikna með því, að verðmæti saltsíldarinnar verði óbreytt frá í fyrra, en það er mikil bjartsýni að búast við því, en við skulum leyfa okkur að vera bjartsýn. Það þýðir þá, að við fáum fyrir hverja útflutta síldartunnu um 30% fleiri ísl. kr. en við fengum fyrir sama verðmæti á s. l. ári, og nú reikna ég með meðalverði á saltsíldartunnuna, einhvers staðar í kringum 1200 kr. Þá reikna ég með — ja, það var aðeins innan við 30%, sem ég reiknaði — ég reikna með, að hækkun pr. saltsíldartunnu vegna gengisfellingarinnar sé um 350 kr. Hærra getur það ekki verið. Og þá skulum við nú gá að því, hvort hugsanlegt sé, að eitthvað verði eftir af þessari fjárhæð í sumar til þess að bæta kjör síldarútgerðarinnar og þá fyrst og fremst sjómanna. Ég held, að það verði ekki, eða a. m. k. mjög óverulegt. Og það vil ég rökstyðja á eftirfarandi hátt. Almennt er talið, að síldin muni halda sig á svipuðum slóðum á þessu sumri og hausti eins og var á s. l. ári, eða a. m. k. hygg ég, að allir útreikningar og allar bollaleggingar hljóti að byggjast á því.

Nú hefur verið að undanförnu unnið að því að sérstakri n., sem skipuð var af hæstv. sjútvmrh., að undirbúa flutninga af fjarlægum miðum til söltunar í landi, bæði til þess að reyna að bæta hag síldarútgerðarinnar með því að koma hráefninu í verðmætari vinnslu en bræðsluna og auka þannig tekjur þessara aðila, og eins að hjálpa til þess, ef það mætti verða framkvæmanlegt, að Íslendingar gætu haldið þeim síldarmörkuðum, sem við höfum náð á löngu árabili með miklu starfi og höfum getað haldið í skjóli þess fyrst og fremst, að við höfum haft, ef svo mætti segja, nálægt því einokunaraðstöðu með að skaffa þá síld á markaðinn. Hún hefur unnið sér mjög gott orð erlendis og hefur verið borguð hærra verði frá okkur en frá nokkrum öðrum. Einokunaraðstaðan byggðist á því þangað til í fyrra, að síldin var það nálægt ströndum okkar lands, að við áttum auðvelt með að ná í hana og koma henni tiltölulega nýrri til vinnslu í landi til söltunar, en útlendingar, sem vildu gera út á Íslandsmið, töldu að það borgaði sig tæplega, vildu heldur kaupa síldina af okkur og líka vegna þess, að á þeim árum allt fram á s. l. ár var t. d. bræðslusíldarverðið í Noregi mjög hátt. Það er ráðgert, að það kosti 150 kr. að koma hverri tunnu á land af fjarlægum miðum. Þó vitum við, að tunnur, salt og annað fleira, sem þarf til söltunar, mun hækka af völdum gengisfellingarinnar og af ýmsum öðrum ástæðum og áætla ég þá hækkun um 100 kr. ísl. á hverja tunnu. Þá má reikna með því, að verklaun á hverja síldartunnu í landi muni hækka af ýmsum ástæðum, bæði vegna hækkunar kaupgjalds og af ýmsum öðrum ástæðum um ekki minna en 20 kr. á hverja tunnu.

Og þegar frv. þetta, sem ég veit að mun ganga í gegn, er orðið að l., þá þýðir það aukna hækkun á útflutningsgjaldi á saltsíld, sem nemur tæpum 50 kr. á tunnu. Þessar hækkanir allar, sem ég hef hér talið upp, nema um 320 kr. Og þá er farið af þeirri 350 kr. hækkun, sem gengisfellingin gerir á hverja tunnu, þá er farin í þessa kostnaðarliði öll fjárhæðin að undanteknum 30 kr. ísl. Það er sú upphæð, sem hugsanlegt er, að eftir væri til þess að bæta hag síldarútgerðarinnar. En ég sagði það áðan og endurtek það enn, að það að reikna með því, að útflutningsverð okkar verði óbreytt á þessu ári frá því í fyrra, það er mjög bjartsýnt og getur brugðizt og það mundi leiða til þess, að dæmið raskaðist enn þá þessum aðilum í óhag. Segjum svo, að það væru kannske eftir af þessari gengislækkun um 30 kr. á hverja tunnu. Þá er það víst, að það hlyti að koma til skipta milli útgerðarinnar annars vegar og skipshafnar hins vegar. Og við vitum, að hækkun útgerðarkostnaðar í ár er gífurlega mikil frá því í fyrra. Við vitum t. d., að olían ein hefur hækkað að ég held um 45%, þannig að báturinn og útgerðarmaðurinn þarf að fá ábyggilega einhvern hluta af þessu. Ég held því, að ég hafi flutt alveg óhrekjandi rök, og ég skora á hæstv. sjútvmrh. að rekja það, því að ég geri nú ráð fyrir því, að hann tali hér á eftir, hvað af þeim tölum, sem ég hef hér flutt, fái ekki staðizt. Og þá, ef það er rétt, sem ég hef sagt, þá stöndum við frammi fyrir því, að gengislækkunin út af fyrir sig skapar ekki grundvöll til þess að hækka verðið, eftir því sem mér sýnist, svo að nokkru nemi til síldarútgerðarinnar, hvorki til skipseigenda eða til áhafna, og þegar af þeirri ástæðu tel ég það viti firrta áætlun að ætla að knýja þessa hækkun útflutningsgjaldsins fram. Ég endurtek, að ég tel, að það séu svo yfirgnæfandi miklir þjóðfélagslegir hagsmunir bundnir við það, að það sé hægt að bæta aðstöðu síldarútgerðarinnar á þessu yfirstandandi ári, frá því sem var í fyrra, að ýmislegt megi á sig leggja til þess að gera það.

Ég skal þá ekki fara fleiri orðum um þennan þátt málsins, en víkja að nokkru öðru að gefnu tilefni. Hæstv. sjútvmrh. er ekki hér í d. því miður, en ég vildi gjarnan óska eftir því, að hann væri hér. — Já, ég sé, að hæstv. ráðh. gengur inn í salinn og ég vil fagna því, af því að hann hefur gefið tilefni til þess, að hér hefur þurft að bera fram nokkrar skýringar vegna þess, sem hann sagði í hv. Ed., og þar sem hv. þm. Sverrir Júlíusson endurtók þetta í sinni ræðu áðan, þá vil ég af þessum tveim gefnu tilefnum víkja nokkrum orðum að því. En það atriði er, að ráðh. sagði með nokkrum þjósti, að því er mér er sagt af þeim, sem á hlýddu í Ed., að honum fyndist það einkennilegt, að síldarútvegsnefnd væri að mótmæla þessu frv., því að í raun réttri kæmi henni það alls ekkert við. Hennar starf væri það að selja saltsíld og annað átti hún ekki að hugsa um. Og þetta endurtók minn ágæti samþingsmaður Sverrir Júlíusson og vill halda því fram, að það hafi verið upprunnið úr eigin brjósti, og það skal ég ekki efa. En þetta finnst mér dálítið skrýtin kenning og mjög vafasöm, að ekki sé meira sagt. Það er rétt hjá þessum hv. þm., að aðalstarf síldarútvegsnefndar er að sjálfsögðu að selja saltsíld á erlendum mörkuðum. Þetta er hennar aðalstarf skv. lögum, og væri betur, að sumir myndu eftir því alltaf, þegar þeir í ræðu og riti eru að kenna síldarútvegsnefnd um ýmsa hluti í þjóðfélaginu, sem aflaga hafa farið, m. a. í þessari atvinnugrein, um ýmsa hluti, sem hún hefur ekki skipt sér af og á ekki lögum samkv. að koma nokkurs staðar nálægt. En ég hef bæði hér í hv. Alþ. hlustað á það og víða lesið um það, að t. d. hefur síldarútvegsnefnd verið skömmuð blóðugum skömmum fyrir það, hvað lítið væri gert að því að vinna saltsíld í neytendaumbúðir, og einn hv. sérfræðingur hér fór einu sinni í útvarp frekar en sjónvarp og hellti þar úr skálum reiði sinnar yfir nefndina út af því, að hún hefði verið þröskuldur í vegi þess, að hér hefði verið lögð niður síld og soðin niður. Eins og allir vita, sem þekkja til l. um síldarútvegsnefnd — og ef einhver dregur það í efa, getur hann flett þeim upp, — þá er það vitað, að síldarútvegsnefnd hefur ekkert með þau málefni að gera lögum samkv. Það er hverjum einum aðila í þjóðfélaginu frjálst, sem vill út í þetta leggja, að gera þetta og síldarútvegsnefnd hefur ekkert með það að gera. En kemur þá síldarútvegsnefnd yfirleitt ekkert við þetta frv., eins og þessir þm. hafa haldið fram? Ég held því fram, að henni komi það mjög mikið við. Ég held því fram að aðalvandi okkar í þeirri sölustarfsemi, sem hefst núna eftir nokkra daga til að reyna að selja þessar afurðir, muni vera sá að geta verið samkeppnisfærir við ýmsa aðra keppendur okkar um markaðina, og þá fyrst og fremst Norðmenn, Rússa, Færeyinga og e. t. v. fleiri um verðið, sem við verðum að fá fyrir okkar framleiðslu, og munum líka eiga í talsverðum erfiðleikum með að sýna okkar kaupendum, og þá fyrst og fremst þeim, sem nota síldina í sínar niðurlagningarverksmiðjur eins og er að yfirgnæfandi hluta bæði í Svíþjóð og Finnlandi, fram á það með rökum, að við getum framleitt í þá samninga, sem við kunnum að geta gert við þá. Þeir leggja nefnilega talsvert mikið upp úr því, að fyrirfram séu nokkrar líkur til þess, að við getum afgreitt það magn, sem um er samið.

Nú hef ég fært að því rök, að ég tel nokkuð góð, að með þessu frv. sé verið að skattleggja síldveiðisjómennina og raunar kannske útgerðina að einhverju leyti og hagur þessara aðila sé slíkur, að hann megi ekki við því, þannig að við stöndum frammi fyrir því, að jafnvel þó að þetta kannske sé ekki stórt, 42 millj. kr., þá geti sá steinn verið nægilega stór til þess, að hann dugi til þess að koma skriðunni af stað, þannig að síldarútgerðin fari bókstaflega ekki í gang, veiðarnar sjálfar. Og hvar stöndum við þá? Hvernig stöndum við þá að vígi með að selja okkar síld og afgreiða upp í samninga, ef fyrirfram eru verulega miklar líkur á því, að síldarúthald verði ekki neitt? (Sjútvmrh.: En ef bátaflotinn er uppi í slipp?) Ef bátaflotinn er uppi í slipp? Er svo illa komið? Þá reikna ég með, að hæstv. sjútvmrh. sjái til þess að laga vátryggingakerfið, stinga í þau göt, sem flokksbróðir hans sagði í hv. Ed., að væru á kerfinu og spara þannig útgjöldin.

En ég held, að þetta sé svo augljóst mál, að við, sem eigum að annast söluna á þessari saltsíld okkar, sem er ekkert verulega lítið búsílag í okkar þjóðfélagi og okkar þjóðarbúskap, að við hljótum að hafa verulegar áhyggjur af öllum þeim aðgerðum, sem við teljum til þess fallnar að koma í veg fyrir, að bátar komist á síldveiðar í sumar. Við hljótum að hafa áhyggjur af því, ef hagur síldveiðisjómanna verður það aumur, fyrirsjáanlega það aumur, að þeir vilja ekki hverfa að þessum störfum, heldur leita sér atvinnu við einhverja aðra hluti, annaðhvort í landi eða við einhverjar aðrar tegundir veiða.

En á þessu er fullkomlega mikil hætta. Ég tel, að þetta réttlæti þær umsagnir og þau afskipti, sem síldarútvegsnefnd hefur haft af þessu máli, og ég hygg, að báðir þessir ágætir þm. muni fallast á það með mér, þegar þeir athuga þetta nánar, að þetta sé ærin ástæða til þess, að við höfum í n. sent frá okkur mótmæli gegn þessu frv. Til frekari rökstuðnings þessu langar mig til þess að lesa hér upp bréf frá 29. nóv. 1967, sem sent var hæstv. sjútvmrh., svo að hv. þm. geti heyrt þær röksemdir, sem þar eru fram færðar. En þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Í tilefni ráðstafana þeirra varðandi útflutning sjávarafurða, sem fyrir dyrum standa í kjölfar breytingar gengis ísl. krónunnar, vill síldarútvegsn. vekja athygli hæstv. ríkisstj. og annarra þeirra aðila, sem um mál þessi fjalla, á eftirfarandi:

1. Síldarútvegsn. hafa borizt fregnir af því, að samráð hafi verið haft við forsvarsmenn ýmissa greina útflutningsframleiðslunnar varðandi umræddar ráðstafanir og að Efnahagsstofnunin hafi í þessum umr. lagt fram skýrslur, þar sem talið sé, að síldarsöltun sé sú framleiðslugrein landsmanna, sem minnstri fyrirgreiðslu þurfi á að halda í sambandi við markaðs- og framleiðsluörðugleika. Síldarútvegsn. kemst ekki hjá því að lýsa yfir furðu sinni á því, að fulltrúum frá saltsíldarframleiðslunni skuli ekki hafa verið gefinn kostur á að fylgjast með undirbúningi málanna á sama hátt og fulltrúum frá ýmsum öðrum greinum útflutningsframleiðslunnar, og óskar n. hér með eftir að fá umrædda skýrslu Efnahagsstofnunarinnar senda.

2. Vegna síaukinnar hækkunar á kostnaði við framleiðslu á saltaðri síld á undanförnum árum hefur síldarútvegsn. orðið að gera sífelldar verðhækkunarkröfur á hendur kaupendum síldarinnar erlendis, án tillits til söluverðs frá öðrum framleiðslulöndum. Hefur n. tekizt að ná töluverðum hækkunum í ýmsum markaðslöndum og þá einkum í þeim löndum, sem sækjast fyrst og fremst eftir kaupum á stórri sumarsíld, sem á undanförnum árum hefur verið erfitt að fá keypta í mjög stórum stíl nema frá Íslandi. Ástæðan fyrir þessu er sú, að söltun Norðmanna um borð í veiðiskipum á Íslandsmiðum hefur á undanförnum árum farið ört minnkandi þar til í ár. Orsök þessarar þróunar hjá Norðmönnum var m. a. sú, að markaðsverð á bræðslusíldarafurðum var óvenjuhátt á tímabili og samtímis mikið síldarmagn á miðunum. Taldi norska útgerðin því hagkvæmara að láta veiðiskipin sigla með síldina til bræðslu í Noregi heldur en að framkvæma söltunina um borð. Þessar sífelldu verðhækkunarkröfur hafa þegar leitt til þess, að þýðingarmiklir markaðir hafa glatazt, en öðrum verið stefnt í hættu. Síldarútvegsnefnd hefur þó heldur kosið að spenna bogann til hins ýtrasta í þessu efni en að gera kröfur um uppbætur af almannafé eins og sumar framleiðslugreinar útflutningsins hafa neyðzt til að gera. Á yfirstandandi ári hafa Norðmenn fjórfaldað söltun sína á Íslandssíld og buðu á þessu ári verulega lækkun frá fyrra árs verði. Færeyingar fylgdu í kjölfar Norðmanna og lækkuðu verð sín verulega. Þessi verðlækkun Færeyinga og Norðmanna varð þess valdandi, að mjög erfitt reyndist að ná samkomulagi um fyrirframsölu á íslenzkri saltsíld s. l. vor, og varð að lokum að semja um nokkra verðlækkun, sem Norðmenn buðu og sömdu um. Af sömu ástæðum minnkaði verulega frá árinu áður magn það, sem tókst að semja um sölu á. 1966 tókst t. d. að semja um sölu á 245 þús. tunnum af saltaðri síld til Svíþjóðar, sem hefur síðustu árin verið langstærsta markaðslandið, en í ár fengust Svíar ekki til þess að kaupa nema 192 þús. tunnur. Samkeppnisaðstaðan hefur þó verið enn verri að því er sölu hinnar stærðarblönduðu vetrarsíldar snertir, þar sem óhemjumikið hefur veiðzt síðustu árin í Norðursjó af síld af svipaðri stærð og svipuðu fitumagni. Er samningar stóðu yfir í s. l. mánuði um sölu á þessari tegund síldar til Póllands, buðu Norðmenn Pólverjum saltaða Norðursjávarsíld á 40% lægra verði en síldarútvegsn. hafði samið um við Pólverja árið áður. Fyrir nokkrum árum hafði síldarútvegsnefnd tekizt að byggja upp verulegan markað fyrir ýmsar teg. síldarflaka í V-Þýzkalandi og Bandaríkjunum. Vegna verðhækkunar þeirrar, sem ekki hefur verið komizt hjá að krefjast, og af öðrum ástæðum, lágum verðtilboðum frá öðrum framleiðslulöndum og háum innflutningstollum í V-Þýzkalandi, hefur framleiðsla þessi nú stöðvazt hér á landi.

Svo sem kunnugt er, hefur síldarsöltunin jafnan verið talin áhættusamasta atvinnugrein landsmanna, m. a. vegna sífelldrar óvissu um það, hvort söltunarhæf síld berist til stöðvanna og vegna þess hvað hér er um viðkvæma og geymsluþolslitla vöru að ræða. Má í því sambandi benda á það mikla tjón, sem fjöldi söltunarstöðva varð fyrir á s. l. ári. Sem dæmi um það, hvað áhættan er mikil samfara þessum atvinnurekstri, má benda á það, að engin síld hafði borizt til söltunar um miðjan sept. s. l. haust, en í venjulegum síldarárum lýkur söltun um það leyti. Söltunarstöðvarnar höfðu þó búið sig undir, að söltun hæfist á venjulegum tíma, ráðið starfsfólk og gengið frá kaupum á venjulegum rekstursvörum o. s. frv. Eins og kunnugt er, hélt norsk-íslenzki síldarstofninn í áttina til Jan Mayen og Svalbarða s. l. sumar í stað þess að halda á venjulegar veiðislóðir við Ísland og ríkti mikil óvissa um, hvort nokkur síld mundi veiðast í nánd við Ísland á vertíðinni. Hlýtur öllum að vera ljóst, hve gífurlegt tjónið hefði orðið, ef svo hefði farið, að engin síld hefði borizt til söltunar. Síldarútvegsnefnd leggur því áherzlu á, að þetta allt sé haft í huga, er taka þarf ákvarðanir er varða framleiðslugrundvöll hinna einstöku greina útflutningsframleiðslunnar. Þá vill síldarútvegsnefnd vekja athygli á því, að gengisfelling ísl. krónunnar veldur mikilli hækkun á tunnum, salti og ýmsum öðrum rekstrarvörum í sambandi við síldarsöltun. Hinn breytti söltunartími veldur því, að ekki verður komizt hjá, að söltunarstöðvarnar geri ráðstafanir til að geta geymt síldina í upphituðu geymsluhúsnæði, og mun það hafa mikinn viðbótarkostnað í för með sér. Fregnir berast nú um það, að ýmsar framleiðsluþjóðir saltsíldar hyggist auka saltsíldarframleiðsluna, og vill síldarútvegsnefnd vekja sérstaka athygli á því, að meiri óvissa ríkir nú varðandi sölumagn og söluverð en á undanförnum árum. Flest bendir til þess, að þróunin í þessu efni verði Íslendingum ekki í vil.

3) Síldarútvegsnefnd varar alvarlega við því, að gerðar verði nokkrar ráðstafanir, sem hafa það í för með sér, að saltsíldarframleiðslan búi við verri kjör en aðrar greinar útflutningsframleiðslunnar og væntir þess, að framvegis verði haft fullt samráð við nefndina og samtök síldarsaltenda um allar þær ráðstafanir, sem gerðar kunna að verða og snerta saltsíldarframleiðsluna.“

Afrit af bréfi þessu er sent Efnahagsstofnuninni og Seðlabanka Íslands, en eins og ég sagði áðan, er bréf þetta skrifað hæstv. sjútvmrh., Eggert G. Þorsteinssyni.

Þegar frv. það, sem hér er verið að ræða, var lagt fyrir hv. Ed., sendi n. mótmæli gegn því, eins og ýmsir aðrir aðilar gerðu, og hv. þm. Sverrir Júlíusson vék að þessum mótmælum hér áðan og taldi þau upp. Ég tel ástæðu til þess að lesa þessi mótmæli — þau eru ekki mjög löng — af því að, eins og ég sagði áðan, á þeim hefur verið sérstaklega hneykslazt, bæði af hæstv. ráðh. og ýmsum fleirum. En út af frv. þessu segir nefndin m. a. þetta:

„Mótmæli síldarútvegsnefndar gegn fram kominni brtt. í frv. til l. um breyt. á l. nr. 4 28. febr. 1966, um útflutningsgjald af sjávarafurðum.

Síldarútvegsnefnd vill mjög eindregið og ákveðið mæla gegn hækkun útflutningsgjalda af saltsíld, sem felst í frv. þessu.

Nefndin telur, að þessi hækkun geti leitt til þess, að þessi atvinnuvegur, sem hingað til hefur bjargazt án opinberra styrkja, lamist svo, að hann falli niður að mestu.

Með bréfi voru dags. 29. nóv. s. l., sem hér með fylgir í myndriti og sem stílað var til sjútvmrh., en jafnframt sent Efnahagsstofnuninni og Seðlabanka Íslands, eru ýtarlega raktir þeir erfiðleikar, sem fram undan eru með sölu og framleiðslu saltsíldar á sumri komanda. Er þar m. a. bent á erfiðleika um öflun hráefnis og verkun síldar af fjarlægum miðum, svo og kostnaðarauka af þeim sökum. Í bréfi þessu varar nefndin alvarlega við því, að nokkrar ráðstafanir verði gerðar til þess, að þessi útflutningsgrein verði lögð í einelti með auknum álögum. Allar þessar ábendingar og aðvaranir síldarútvegsnefndar virðast virtar að vettugi. Það er furðulegt, að ekki skuli haft í neinu samráð við nefndina eða hlustað á till. hennar og aðvaranir, þegar þess er m. a. gætt, að í nefndinni eru fulltrúar útvegsmanna, sjómanna og verkamanna, síldarsaltenda og auk þess þrír fulltrúar þingkjörnir. Vér viljum nú benda á nokkur atriði sem skýlaus rök fyrir því, að hin mesta firra er að hækka útflutningsgjöld af saltsíld. Þvert á móti ætti að fella niður með öllu þau gjöld, sem fyrir eru. Og ekki nóg með það. Hið opinbera ætti að styrkja þessa atvinnugrein, ef ætlazt er til, að haldið verði í horfinu á þeim mörkuðum, sem unnizt hafa.

1) Eins og alkunnugt er, veittu Norðmenn styrk til útflytjenda saltsíldar á s. l. ári, norskar kr. 30 fyrir hverja útflutta tunnu síldar eða ísl. kr. 240 eftir núverandi gengi. Auk þess veittu þeir síldarútgerðinni margs konar fyrirgreiðslu. Það hefur skýrt komið fram, að á þessu ári munu Norðmenn hafa í hyggju að auka þessa aðstoð verulega. Ef reiknað er með útflutningsgjaldi því, sem gert er ráð fyrir í þessu frv., og óbreyttum norskum framleiðslustyrk, verður ekki um minni mun á aðstæðum íslenzkra og norskra saltsíldarframleiðenda að ræða, fyrir tilstilli opinberra stjórnarathafna, en 400–450 ísl. kr. á hverja tunnu. Sýnir þetta bezt, hversu fráleitt er að hækka álögur á þennan atvinnuveg frá því, sem nú er.

2) Síldarsöltun er veigamikill liður í útflutningsframleiðslu þjóðarinnar og hlutfallslega miklu stærri en hjá þeim þjóðum, sem við oss keppa á hinum ýmsu mörkuðum. Allar álögur hljóta því enn að torvelda oss samkeppni á mörkuðunum, sem um er barizt, og verða þess valdandi fyrr en síðar, að við förum þar halloka.

3) Þessi atvinnuvegur hefur um fjölda ára veitt vel borgaða og happadrjúga atvinnu, og þá einkum að sumri til, ýmsum námsmönnum og öðrum þeim, sem gjarnan hafa viljað drýgja tekjur sínar með sumarvinnu. Að hausti og vetri hefur drjúgur atvinnuauki fallið í hlut vinnandi fólks við að ganga frá síldinni til útflutnings. Með vaxandi álögum og þar af leiðandi minnkandi sölum, mundi stórlega úr þessu draga. Margt fleira mætti tína til, en eitt er víst, að allt ber það að sama brunni. Auknar álögur af hálfu þess opinbera, ofan á þau vandræði og þá erfiðleika, sem fram undan eru, geta orðið til þess að særa þennan atvinnuveg því helsári, sem eigi verði grætt á næstunni. Síldarútvegsnefnd endurtekur það, að hún varar alvarlega við að hækka útflutningsgjöld af saltsíld, svo sem í frv. þessu er ætlað. Hún mótmælir því og væntir þess fastlega, að þau mótmæli verði tekin til greina.“

Þessi samþykkt var gerð af öllum 7 fulltrúum í nefndinni, þ. á m. tveimur þingkjörnum fulltrúum úr liði eða tilheyrandi stjórnarflokkunum og ýmsum öðrum yfirlýstum stuðningsmönnum hæstv. ríkisstj. og ríkisstjórnarflokka. Ég held því, að það verði erfitt að halda því fram, að þessi mótmæli séu byggð á einhverjum annarlegum ástæðum og einhverjum sérstökum óvilja hjá okkur stjórnarandstæðingum í garð hæstv. ríkisstj.

Í umr. í Ed. komu fram, eins og ég hef nokkuð vikið að áður, ýmsar furðulegar staðhæfingar hjá þeim sumum hverjum, sem þar tóku til máls. Ég hef áður vikið að mjög fáránlegum yfirlýsingum og meira en hæpnum staðhæfingum, sem hv. stjórnarstuðningsmaður, 5. landsk. þm., lét sér þar um munn fara, og ég vænti þess, að hæstv. ráðh. gefi einhverjar skýringar á þeim hér á eftir, en þetta var nú ekki það eina, sem þessi sérfræðingur Alþfl. í sjávarútvegsmálum viðhafði þar, sem er furðulegt og fjarri því að vera rétt. Hann sagði m. a., með leyfi hæstv. forseta, í þessari ræðu:

„Síldarútvegsnefnd er með geysilegar fullyrðingar hér í sínu bréfi, svo ótrúlegar, að maður er alveg undrandi að sjá þetta frá þessari ágætu n., og hefði hún fyrr betur brugðið við í ýmsum málum með röskleik til þess að bæta okkar aðstöðu í síldarsöltun, og má þar minna á tunnuverksmiðjuna o. fl. í því sambandi. Ekki er okkur útvegsmönnum greint frá, lið fyrir lið, rekstri á tunnuverksmiðju ríkisins, sem hún rekur og hefur allan veg og vanda af. Fer það þó ekki leynt, að kostnaður á síldartunnu er tugum kr. meiri á tunnu framleiddri á hennar vegum heldur en á innfluttri tunnu, og hún bliknar ekkert við að halda því áfram. Hvort hún gerir það í þágu einhverra manna veit ég ekki, vissulega er þetta atvinnubótavinna, en hún er þá ekkert klökk við það að verðleggja tunnurnar eins og nauðsynlegt er. Þá er hún ekkert klökk yfir því verði, sem sjómenn og útgerðarmenn eru látnir borga. Þeim er svo mikið niðri fyrir, að ég má til með að lesa það fyrir hv. þm., sem hún segir hér:

„Nefndin telur, að þessi hækkun geti leitt til þess, að þessi atvinnuvegur, sem hingað til hefur bjargazt án opinberra styrkja, lamist svo, að hann falli niður að mestu.“ Svo bætir hv. þm. við: „ Hver trúir nú svona fullyrðingum? Þeir ekki einu sinni sjálfir.“

Af því, sem ég hef hér verið að lesa, er það sennilegt, að hv. þm. ætli að gera rekstur tunnuverksmiðjunnar að sérstöku árásarefni á síldarútvegsnefnd. Ég hef áður sagt, að þessi hv. þm. telur sig hafa allmikið vit á sjávarútvegsmálum og því sem þar gerist, svo að það er dálítið fróðlegt til upplýsinga fyrir þá, sem vildu á það hlýða, af því að við höfum nógan tíma til þess að tala hér í kvöld og nótt, að vita hverjar eru staðreyndirnar í þessum staðhæfingum þessa hv. þm., og skal ég víkja að þeim örfáum orðum.

Samkvæmt l. hefur síldarútvegsnefnd með að gera yfirstjórn tunnuverksmiðja ríkisins. Hins vegar hefur verið um það fullt samkomulag í n. í mörg ár, að þetta væri óeðlilegt, og n. hefur ítrekað farið þess á leit við hæstv. núv. sjútvmrh. og fyrri sjútvmrh., að tunnuverksmiðjunum yrði skipuð sérstök stjórn og síldarútvegsnefnd leyst undan því erfiða hlutskipti að bera ábyrgð á því fyrirtæki. Til þessa hefur hæstv. ríkisstj. og hæstv. ráðh., sem með þessi mál fer, ekki viljað verða við þessari ósk, þannig að nefndin hefur nauðug viljug orðið að veita þessu fyrirtæki forsjón og skal gera áfram, heyri ég, að hæstv. ráðh. segir inni í hliðarherberginu.

Það er líka rétt að upplýsa það, að það er skv. beinum fyrirmælum frá núv. hæstv. sjútvmrh., að tunnuverksmiðjurnar báðar, á Akureyri og á Siglufirði, eru reknar. Tunnuverksmiðjan á Siglufirði er nýuppbyggð. Hún brann fyrir nokkrum árum til kaldra kola og var byggð upp með ærnum kostnaði, og þar eru fullkomnar vélar og mikil verðmæti fest. Vinnslutími þessarar verksmiðju er hins vegar það stuttur á ári hverju, fjórir mánuðir venjulega, að fjarri fer því, að við fáum þá arðsemi út úr fjárfestingunni, sem hægt væri að fá, ef hægt væri að lengja vinnslutímann. Hins vegar er tunnuverksmiðjan á Akureyri gömul og á margan hátt úrelt, og hún hefur á ýmsan hátt mjög erfiða aðstöðu til þess að vera rekin, enda er reynslan sú, að tunnur frá Akureyrarverksmiðjunni hafa á undanfarandi árum verið allmiklu dýrari í framleiðslu en frá Siglufjarðarverksmiðjunni.

Það er ekkert leyndarmál, að þær ákvarðanir, sem hæstv. ríkisstj. hefur tekið um það að reka báðar þessar verksmiðjur, þó að óhagkvæmt sé, eru teknar fyrst og fremst af þeirri ástæðu, að fyrirtæki þessi hafa á báðum þessum stöðum, Siglufirði og Akureyri, getað veitt talsvert mikla atvinnu, og mjög kærkomna atvinnu, því að vinnan hefur verið unnin á þeim tímum ársins, veturna, þegar vinna er venjulegast í algeru lágmarki. Það eru fyrst og fremst þessi atvinnubótasjónarmið, sem ráðið hafa því, að báðar þessar verksmiðjur hafa verið reknar. Reynslan hefur svo verið sú, að undanfarandi ár hefur framleiðslukostnaður okkar eigin tunna verið um 30–40 kr. hærri en á þeim tunnum, sem við kaupum erlendis frá, og þá mest frá Noregi. Þetta er allveruleg fjárhæð, 30–40 kr. á tunnu. Þessi kostnaður innlendu framleiðslunnar umfram þá innfluttu hefur verið undanfarin ár greiddur að hálfu leyti af síldarsaltendum, en að hálfu leyti hefur hann verið tekinn af varasjóðum við tunnuverksmiðjurnar, sem hafa verið nokkrir, en hefur gengið mjög á, og síldarútvegsnefnd hefur orðið ítrekað að lána tunnuverksmiðjunum stórfé til þess að hægt væri að borga þennan verðmismun niður. Ég tel rétt í þessu sambandi að bæta því við, að ég tel mjög eðlilegt, að við höfum hér í landinu eina vel búna verksmiðju til framleiðslu á síldartunnum. Það er vegna þess, að við þurfum að hafa aðstöðu til þess að geta bent hinum erlendu framleiðendum, sem vilja selja okkur tunnur, á það, að ef þeir verða of ósvífnir í verðkröfum, munum við geta smíðað okkur tunnur sjálfir. Að því leytinu er tilvist einnar, vel búinnar tunnuverksmiðju mjög mikilvæg. En til þess þarf að mínu viti heldur ekki nema eina verksmiðju, það dugir.

Af þessum fáu orðum, sem ég hef sagt til skýringar, vegna þessarar fáránlegu ásökunar hv. 5. landsk. þm. í Ed., hygg ég, að ekki geti á því leikið nokkur vafi, að sjái hann ástæðu til þess að beina spjótum sínum að einhverjum aðila vegna reksturs tunnuverksmiðjanna, er hann á miklum villigötum, ef hann beinir þeim árásum að síldarútvegsnefnd, því að eins og ég hef hér lýst, hefur hún verið að framkvæma beinar fyrirskipanir flokksbróður hv. þm., hæstv. sjútvmrh., sem bréflega hefur lagt fyrir nefndina að reka báðar tunnuverksmiðjurnar, og vænti ég, að hv. þm. gangi þá í það af sínum mikla röskleik að beina þessum spjótalögum að flokksbróður sínum og sjá til þess, að hann, í krafti síns ráðherravalds, sé ekki að fyrirskipa, að það sé verið að troða upp á — eins og hann orðar það — troða upp á ísl. síldarsaltendur tunnum, sem eru langtum dýrari en þær, sem eru framleiddar erlendis og keyptar þar. En við sjáum nú, hvað garpskapurinn dugir mikið til þessa.

Ég hef nú þegar talað nokkuð langt mál um þetta frv. og skal nú fara að stytta það. Ég hygg, að hæstv. ráðh. sé því heldur meðmæltur, að ég fari að stytta mál mitt úr þessu, en ég vil bara í lokin endurtaka það og mæli það af heilum hug, þegar ég segi, að hæstv. ráðh. og hæstv. ríkisstj. ætti að athuga það vel, hvort hún er ekki að stíga vafasamt skref, þegar hún leggur til að stórhækka útflutningsgjald á saltsíld. Saltsíldin bar áður 6% útflutningsgjald. Með frv. á að hækka það upp í 10%. En það eru fleiri gjöld lík útflutningsgjaldinu, sem lögð eru á þessa framleiðslugrein, og ef það er allt reiknað með, hygg ég, að það muni láta nærri, að útflutningsgjöld og önnur gjöld, sem lögð eru á, muni komast upp í 14% af saltsíld. Er vit í því að leggja svona há gjöld á við þær aðstæður, sem fyrir hendi eru núna og taldar eru að verði á yfirstandandi ári? Er vit í því að skattleggja með útflutningsgjaldi saltsíldina jafnhátt raunverulega á sama tíma og Norðmenn, sem verða okkar aðalkeppinautar, hafa svo til engin útflutningsgjöld á þessari framleiðslu, á sama tíma og sennilegt má telja, að síldin verði miklu nær Noregsströndum heldur en Íslandi, á sama tíma og vitað er, að Norðmenn eru að undirbúa stórsókn til þess að keppa við okkur um þá markaði, sem við höfum náð? Gætir ekki nokkuð mikillar skammsýni í svona skattaálögum? Ég vil því skora á hæstv. ráðh. nú á síðustu stundu að íhuga það, hvort ekki eru aðrar leiðir færar og færari en sú, sem fyrirhuguð er að fara, til þess að ná inn þeim tekjum, sem talið er, að tryggingasjóðinn vanti. Leiðir, sem ekki eru jafnhættulegar fyrir þjóðarbúskap okkar eins og ég tel þessa vera og ég hef flutt rök að.

Að endingu vil ég svo bara segja það, að ég vænti þess, að hæstv. ráðh. gefi svör við þeim fsp., sem ég hef hér sett fram í sambandi við mál þetta, og gefi þær skýringar, sem ég hef óskað eftir, og þá ekki sízt í sambandi við þau ummæli, sem ég hef vikið að og hv. 5. landsk. þm. viðhafði í Ed., þegar þetta frv. var til meðferðar þar.