19.04.1968
Neðri deild: 102. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1653 í B-deild Alþingistíðinda. (1503)

188. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Félmrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Ég stytti mjög mál mitt með hliðsjón af þeim tveim síðustu ræðum, sem hér hafa verið fluttar, sem ásamt þeim, sem áður hafa verið haldnar, spegla þann ágreining, sem um þessi mál er almennt og út af fyrir sig sannfærði mig ekki um annað en það, sem ég vissi áður, að um þessi mál hefur verið alla tíð allmikill ágreiningur, eins og hv. 4. þm. Austf. rakti hér mjög sannsögulega áðan. Það er öllum ljóst, að sú aðstoð, sem hinum ýmsu greinum veiðiflotans er veitt í gegnum þau gjöld, sem hér er lagt til að auka, hefur verið útgerðinni mikill styrkur og það hefur enginn lagt til, að þessi gjöld yrðu afnumin, nema eitthvað annað kæmi í staðinn, sem yrði útgerðinni álíka mikill styrkur. Þess vegna er ekki ágreiningur um það meginatriði málsins, að þessa aðstoð þarf að veita. Ágreiningurinn kemur hins vegar, þegar að því kemur, af hverjum þetta gjald skuli taka. Það eru engar fréttir hér á Alþ., þó að hv. 2. þm. Reykn. lesi hér allt prentað mál um það, að þeir, sem eiga að þola gjöldin, séu á móti þeim. Ég veit aldrei til, að gjaldþolandi hafi mælt með neinum slíkum gjöldum, en það einkennilega við hans mótmæli í ræðunni var það, að bera þarf sérstaklega blak af síldarsaltendum. Það var aðaluppistaðan í hans ræðu. Ég hefði skilið það, ef hann hefði sagt að það ætti að taka þessi gjöld af síldarsaltendunum einum, en fría sjómenn við að borga þessi gjöld. Þeir aðilar sem hér hafa mesta ástæðu til að kveinka sér, eru þó fyrst og fremst sjómennirnir, þar sem gjaldið er tekið af óskiptu. En þm. lagði mesta áherzlu á það, að þetta gjald væri tekið af síldarsaltendum, sem fremur ætti að styrkja en að auka gjöld á. Ég skrifaði það hér niður eftir þm., þannig að hann getur leiðrétt það, ef ég fer rangt með.

Ég varpaði þeirri spurningu fram undir umr. hér í kvöld, í mínu frammíkalli þar, hvað hefði gerzt, ef ekki hefðu verið auknar tekjur fyrir þennan hluta veiðiflotans. Jú, það hefði einfaldlega gerzt, að í stað þeirra hótana, sem hv. stjórnarandstæðingar hafa uppi um það, að síldarsjómenn muni neita að fara til þessara veiða, þá hefðu það verið skipin, sem hefðu verið bundin og sjómennirnir ekki komizt til sjós eða til þessara veiða, þó að þeir vildu.

Það er því öllum ljóst, að auka þurfti tekjur sjóðsins og hv. 4. þm. Vestf., Matthías Bjarnason, hrakti það svo eftirminnilega hér í sinni ræðu áðan, að við þau orð hans þarf ég engu að bæta og get gert þau að mínum. Hins vegar er mér það fyllilega ljóst, að jafnvel þessi ráðstöfun, sem hér er talað um dugir hvergi nærri. Hún leysir, eins og ég sagði í þeim framsöguorðum, sem ég hafði fyrir frv. í l. umr., aðeins hluta þessa vanda. Og er upphæðin þess vegna ekki stærri, að hún er talin í hámarki þess, sem fært þótti að fara fram á við hv. Alþ. að samþykkja. Það þarf að fara fleiri leiðir, eins og hefur komið fram í umr. og hv. 4, þm. Austf. undirstrikaði ekki hvað sízt. Það þarf jafnframt að gera nákvæma rannsókn á því, með hvaða hætti hægt er að herða tökin á þeim geysilegu hækkunum, sem átt hafa sér stað í iðgjöldum sjóðsins, og lækka þau. Og í þeim tilfellum er talið af tryggingafræðingum, að tryggingafjárhæðir skipanna séu óþarflega háar, og á það ekki sízt við um togarana, eins og hér hefur komið fram. Iðgjöld skipanna lækka ekki hlutfallslega miðað við vátryggingarverð, en þó að nokkru marki. Skilmálar stærri skipanna eru mjög víðtækir og kemur til greina, að hagkvæmt verði talið að þrengja þá í einhverjum atriðum. Um skip tryggð hjá bátaábyrgðarfélögunum og Samábyrgðinni, eins og bent hefur verið þegar á, svo og varðskipin og önnur skip í eigu ríkisstofnana, gildir gagnkvæm aðstoðarskylda og greiðist aðeins þóknun miðað við framlagða þjónustu, en ekki björgunarlaun. Til greina gæti vissulega komið, að hliðstæð regla verði látin ná til alls fiskiflotans, eða jafnvel allra íslenzkra skipa. Hugsanlega má koma á samræmdu og strangara eftirliti með uppgjöri tjóna en nú er, og gengið verði strangara eftir því, að skip liggi ekki gæzlulaus í höfnum, því að oft hafa orðið tjón við slíkar aðstæður, þar sem skip liggja mannlaus og umhirðulaus og er ljósast dæmi þess reynsla útgerðarmannsins, sem hér talaði áðan, þegar bátur hans varð fyrir stórbrunatjóni, mannlaus hér í höfninni. Þá getur enn fremur komið til greina, að skip yfir 100 rúmlestir yrðu endurtryggð erlendis að langmestu leyti og minni skipin að einhverju minna leyti. Iðgjöld stærri skipanna eru raunverulega ákveðin af erlendum endurtryggjendum og veldur það erfiðleikum, ef breyta á tryggingarkjörum, því erfiðlega getur reynzt að fá fram hliðstæðar breytingar á iðgjöldum og hugsanlega mætti koma á, ef um víðtækt samstarf væri að ræða hér innanlands um endurtryggingu.

Þessum leiðum til viðbótar, þ. e. a. s. þeirri gjaldahækkun, sem frv. gerir ráð fyrir, og tekjuaukningu sjóðsins, ásamt slíkum atriðum, sem ég hef bent á og e. t. v. enn fremur langtum fleiri, sbr. þann hluta ræðu hv. 4. þm. Austf., sem um það fjallaði, aukinni sjálfsábyrgð útgerðarmannanna sjálfra, þyrfti enn fremur til þess að leysa vanda sjóðsins til fullnustu, ef vel ætti að vera, að útvega honum stóraukið lán til að komast yfir þennan erfiðleikahjalla.

Ég hef enn þá engan heyrt leggja til að taka upp það kerfi, sem gilti fyrir gengistíma þessa kerfis, þ. e. a. s. að borga vátryggingagjöldin með sérstöku útflutningsgjaldi og hafa tvenns konar fiskverð eins og var hér í gildi fyrir tímabil þessa útflutningssjóðs, annað verð til útgerðarmanna og annað til sjómanna. Menn vildu hverfa frá þessum lagaákvæðum á sínum tíma og taka þetta kerfi upp, sem enn þá er í gildi, og um það er að ræða að viðhalda því, með strangari reglum en hingað til hafa gilt. Þessi athugun hefur þegar átt sér stað að allverulegu leyti af hálfu tryggingafræðinganna, og ég hef óskað eftir því nú að inn í þessa athugun komi einnig fulltrúar hagsmunaaðilanna, sem þarna eiga hlut að máli, svo og fulltrúar sjómanna og annarra, sem nú gjalda í þennan sjóð, þannig að allir megi vita, hvernig þessum málum er háttað í dag og leggja til, hvernig þeim verði bezt fyrir komið í framtíðinni.

Ég skal ekki hafa þessi orð mín fleiri, en vil, áður en ég vík úr ræðustólnum, aðeins leiðrétta það, sem hv. 2. þm. Reykn. spurði mig sérstaklega um. Það var tvennt. Í fyrsta lagi hvernig stæði á þeim 4 millj. kr. mismun, sem ég hefði talað um í sambandi við tekjur af saltsíldinni annars vegar og svo því, sem í frv. stæði hins vegar. Þetta er annaðhvort mismæli mitt í umræddri ræðu eða misritun, ég hugsa fremur mismæli mitt, og það er rétt, sem í frv. stendur. Auk þess varð ég var við það í handriti, sem ég fékk skömmu eftir að ég flutti þessa ræðu, að á tveimur stöðum eru prósentutölur rangar.

Í öðru lagi spurði þm. að því, og skoraði þá sérstaklega á mig með miklum þunga, hvort ég væri sammála flokksbróður mínum í Ed., hv. 5. landsk., þar sem hann talaði um, að ekki væri allt með felldu með greiðslu tjónabótanna og að útgerðarmenn kynnu að leita eftir því að fá þar að einhverju leyti kannske rangan hlut. Ég set mig ekki í neitt dómarasæti um þessa hluti, fyrr en niðurstöður þeirrar rannsóknar, er nú hefur af stað farið, liggja fyrir. Ég vil ekki dæma menn nema hafa til þess full rök, en undir þessar fullyrðingar hv. 5. landsk. þm. tók maður með allgóða reynslu í sjávarútvegsmálum, hv. 4. þm. Austf., hér mjög skorinort og sagðist ekki efast um, að þessar fullyrðingar hv. 5. landsk. ættu sér virkilega stoð í veruleikanum, og hann benti á það til þess að sanna m. a. veikleika þessa kerfis. Og ég hef reyndar heyrt það frá fleiri mönnum en þessum tveimur, að þetta er hald margra manna, en sjálfur sezt ég þar ekki í dómarasæti.