19.04.1968
Neðri deild: 102. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1655 í B-deild Alþingistíðinda. (1504)

188. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Það voru nú aðeins örfáar aths., sem ég vildi gera í tilefni af því, sem vikið hefur verið að mér í umr., síðan ég talaði.

Hv. 4. þm. Vestf. (MB) sagði frá því, að fyrir nokkru síðan hefði legið hér till. fyrir á Alþ. um það að breyta lögunum um samábyrgð Íslands á fiskiskipum þannig, að hún tæki að sér vátryggingu svo að segja alls fiskibátaflotans eða færa skyldutrygginguna úr 100 rúmlestum hjá þeirri vátryggingu upp í 400 rúmlestir, og hann sagði að í sambandi við flutning á þessu máli hefði fram komið, að ég hefði verið á móti því að taka upp þetta fyrirkomulag og mælt með því frjálsræðisfyrirkomulagi, sem á þessum málum hefði verið. Þetta er nú talsverður misskilningur hjá hv. þm. Það er að vísu rétt, að ég var því ekki samþykkur að ætla að breyta l. um samábyrgð Íslands á fiskiskipum, eins og þá var lagt til. Ég tel ekki, að uppbyggingin á því vátryggingarkerfi sé þannig eða hafi verið þannig, að það sé einfaldlega hægt að samþykkja það, án frekari athugunar, að skylda tryggingu hjá þeirri stofnun á öllum skipum upp í 400 rúmlestir. Ég álít, að til þess að sú trygging geti fengið slíkan lagastuðning, þurfi að gera þar umtalsverðar breytingar á öllu fyrirkomulagi. En það breytir hins vegar ekki því, að það hefur verið mín afstaða allan tímann, og ég hef flutt um það till. hér á Alþ., að ég tel, að það eigi að koma upp einni öflugri ríkistryggingu fyrir fiskveiðiflotann og leysa þannig af hólmi hin fjölmörgu vátryggingafélög, sem hafa svona mikið með þessi mál að gera nú. Í sambandi við umr. um þessi mál, þegar þetta frv. lá fyrir um breyt. á l. um samábyrgð, benti ég líka á það, að það væri vitanlega alveg vonlaust að ætla að loka augunum fyrir því, að svo var orðið ástatt, að fjöldamargir aðilar, sem áttu hin stærri skip, eða upp að 400 rúmlestum að stærð, höfðu bundið sig með samningum vegna lántöku hjá hinum svonefndu frjálsu vátryggingarfélögum, og það þýddi því ekki neitt að skylda þessa aðila til að færa sig yfir í annað vátryggingarfélag án þess að gera tilheyrandi ráðstafanir þá um leið, losa þá út úr þessum vanda. Á þetta benti ég einnig.

Nei, það hefur ekki verið mín skoðun, að það væri æskilegt að halda uppi því fyrirkomulagi á vátryggingu fiskiskipa, að þau dreifðust á mörg einkavátryggingarfélög, það er mesti misskilningur. En þó hef ég sem sagt fundið fyrst og fremst að því að byggja upp þetta vátryggingakerfi, sem við höfum verið að ræða um núna og sem hefur gefið þessum fjölmörgu einkavátryggingarfélögum aðstöðu til þess að leika á þann hátt, sem þau hafa leikið, og sem þessi hv. þm., 4. þm. Vestf., er mér sammála um, að þau hafi leikið ekki sízt í krafti þessa sameiginlega vátryggingasjóðs.

En það kemur fram í þessum umr. hjá þeim, sem verja hér sérstaklega þetta frv., eins og m.a. hv. 4. þm. Vestf., að hann telur sig verða að samþykkja þetta frv. af illri nauðsyn. Hann er mjög óánægður með þetta kerfi, telur að þar þurfi að gera breytingu á og það er ekkert um það að villast, að hann lítur á svipað og ég, að í skjóli þessa fyrirkomulags hafi margt það þróazt, sem verði að teljast mjög óæskilegt. En hann sér sem sagt ekki neina leið til þess að afla þessara 42 millj. til þess að styðja við þetta vátryggingarkerfi, sem er í fjárþröng, hann sér enga leið til að afla þessa fjár með öðrum hætti en að láta sjómennina borga a. m. k. helminginn af þessari upphæð af sínu kaupi, því að það er það, sem er verið að gera alveg óumdeilanlega, og að leggja hinn hlutann sem skatt á útgerðina í landinu almennt. (Gripið fram í.) Já, vantar á annað hundrað millj. þrátt fyrir það. Þetta sem sagt leysir engan vanda. (Gripið fram í.) Já, það er miklu nær að spyrja um það. Því er þá verið að óhreinka sig á þessu? Af hverju er þá verið að bauka við þetta á þennan hátt? Þetta leysir engan vanda, vandinn er eftir sem áður óleystur. Ég hef bent á það, að það hefði verið hægt — m. a. s. fyrir þá, sem virðast nú alltaf vera tilbúnir að taka það af sjávarútveginum, sem þeir sjá svona handbært eða laust og hægt er að ná í, — það hefði verið hægt að taka af sjávarútveginum með öðrum hætti og betri þessa upphæð eftir öðrum leiðum. Það hefði t. d. verið hægt að taka af þessum 400 millj., sem voru teknar á einu bretti af sjávarútveginum í sambandi við gengishagnaðinn, það hefði verið hægt að taka þessar 42 millj. kr. af þeirri upphæð. Af hverju var það ekki gert? (Gripið fram í.) Já, 60 millj., en þessar 42 millj. áttu að koma líka. Það var miklu réttlátara en að ætla að leggja þetta á sjómenn á þennan hátt. (Gripið fram í.) Fiskveiðasjóður, eins og ég hef m. a. bent á, eða endurskipulagningarsjóður í sambandi við fiskiðnaðinn. Var ástæða til þess, að hin almenna útgerð í landinu ætti að leggja fram sérstakt fé í þann sjóð? Ég er ekki að benda á þetta, vegna þess að þetta sé sú leið, sem ég hefði óskað eftir að fara, en ég segi, að það hefði verið ólíkt betra að fara þessa leið en þá leið, sem hér er verið að benda á. Ég hef líka bent á það, að á þessu þingi hafa stuðningsmenn ríkisstj. lagt það til, að taka framlög, sem áttu að fara til sjávarútvegsins, 30 millj. kr. í fiskveiðasjóð skv. l., og 11 millj. kr. í aflatryggingarsjóð, líka skv. l. Þarna var um að ræða 41 millj., sem átti skv. l. að renna í þessa tvo sjóði sjávarútvegsins. Þetta var strikað út. Því voru þessar fjárhæðir þá ekki notaðar í þessu skyni? Nei, þar var um það að ræða, að ríkissjóður vildi hirða þær fjárhæðir og gerði það. Auk þess er það auðvitað óumdeilanlegt, að það hefði verið hægt að afla þessa fjár með enn öðrum hætti, án þess að þurfa að leggja þetta sem sérstakar álögur á sjómenn og útvegsmenn, og það hefði líka verið hægt að afla láns í þessu skyni, nú til bráðabirgða. Það var sem sagt engin nauðsyn að fara þessa vandræðaleið, sem menn viðurkenna að sú leið sé, sem lagt er til að fara skv. þessu frv.

Ég sé nú ekki ástæðu til þess að eyða hér mörgum orðum í sambandi við þá ræðu, sem hv. 5. þm. Norðurl. v. flutti hér. Meginhlutinn af því, sem hann sagði, og það eina í rauninni, sem hann virtist a. m. k. halda sjálfur, að hann væri að segja hér til leiðréttingar á því, sem ég sagði, var það, sem ég hafði sagt alveg greinilega í minni ræðu, en það var það, að nú væri búið, þegar allt var komið í vandræði hjá þessum vátryggingasjóði, þá var búið að setja þá bremsu á, að menn gátu ekki fengið lengur alla upphæðina af hinum háu iðgjöldum greidda, en það var á hinn veginn, allt fram að þessu ári, að menn komu í gegn reikningum sínum svo að segja að fullu. Það er tiltölulega nýbúið að setja þetta hámark á, og er þó þannig, að ýmsir hafa enn þá möguleika til að smeygja þar viðbótarupphæðum í gegn. (Gripið fram í.) Nei, það er mesti misskilningur og nú er um að ræða nýjar reglur í þessu, og þær eru enn svo rúmar, að það er hægt að smeygja hér viðbótarupphæðum, og það er enn gert. En það, sem er svo greinilegt af málflutningi þessa hv. þm., er það, að hann stendur í þeim vandræðum núna, að það bitnar á honum, að þessi sjóður er orðinn gjaldþrota. Hann á bát, sem liggur undir tjónaviðgerð og fær ekkert borgað úr sjóðnum, og af því vill hann út af lífinu, að sjóðurinn fái peninga með einhverjum hætti, svo að hann geti þó a. m. k. fengið borgaða sína reikninga. (Gripið fram í.) En málið er bara ekki svona. Hér er um það að ræða, að jafnvel þótt þessi hv. þm. sé í vandræðum með það að fá sína reikninga greidda, er ekki réttmætt áð sjómennirnir á Íslandi eigi að borga hans reikninga. Það er ekki réttmætt. Og það er ekki réttmætt að ætla að leggja þann skatt á útgerðina almennt í landinu, jafnvel þótt hann fái sína reikninga ekki greidda, að útgerðin almennt í landinu, sem á í vök að verjast, að hún verði að borga þá reikninga. Þeir verða að leysast með öðrum hætti.

Ég efast ekkert um að það er rétt, að þetta vátryggingarkerfi er komið í þrot. Það hefur siglt um koll af eðlilegum ástæðum, af því að það hefur verið byggt upp á röngum grundvelli og verið rekið á rangan hátt allan tímann. Frásagnir þessa hv. þm. af því, að viðgerðarkostnaður á tjónum sé miklu meiri hér en í nálægum löndum, af því að verkamenn hér setjist upp og fari að spila í miðjum vinnutímanum, ætla ég nú ekki að ræða mikið um, annað en það, að ég vil segja honum það, af því að ég hef haft með stjórn á útgerðarfélögum að gera í mörg ár og þurft að sæta því að láta gera við skip, bæði erlendis og hérlendis, og ég segi það alveg hiklaust, að það kom þar skýrt og greinilega fram, að það var kostnaðarminna að láta vinna verkin á Íslandi, ef fullt og eðlilegt eftirlit var með verkinu, heldur en að láta vinna það erlendis, nema aðeins í þeim tilfellum, þegar verðlagsmunur var svo óeðlilegur, að það var ekki hægt að bera saman verðlag á Íslandi og verðlag erlendis. Það hefur vitanlega átt sér stað í vissum tilfellum, en almennt er ekki hægt að tala um það, að vinnusvik séu meiri hér en annars staðar, og það er mikill misskilningur, þegar menn halda það, að það þurfi aðeins að senda bátana til Færeyja eða til Noregs, til þess að viðgerðarkostnaður verði miklu minni en hann er hér. Það er mikill misskilningur.

Ég skal svo ekki orðlengja um þetta frekar. Ég hef lýst minni afstöðu til þessa máls. Ég tel hér ranglega að farið og það eigi því að fella þetta frv.