08.02.1968
Efri deild: 52. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1671 í B-deild Alþingistíðinda. (1531)

36. mál, umferðarlög

Frsm. meiri hl. (Björn Fr. Björnsson):

Herra forseti. Mál það, sem hér er til umr. varðandi till. þá, að öryggisbelti sé haft í bifreiðum hér á landi og það verði höfuðregla, hefur allshn. þessarar hv.d. haft til meðferðar, og var þetta mál rætt á nokkrum fundum. Það var sent eftirtöldum aðilum til umsagnar: Félagi ísl. bifreiðaeigenda, Framkvæmdanefnd hægri umferðar, Slysavarðstofu Reykjavíkur, Bifreiðaeftirliti ríkisins, Slysavarnafélagi Íslands, Sjóvátryggingafélagi Íslands, Samvinnutryggingum, Hagtryggingu og umferðarlaganefnd.

Svör bárust ekki í tæka tíð frá Hagtryggingu og ekki heldur frá umferðarlaganefnd, en hinir aðilarnir höfðu svarað innan þess frests, sem nefndin hafði veitt. Svör þessara umsagnaraðila eru í meginatriðum á þá lund, að þeir eru hlynntir þeirri breytingu, sem frv. þetta gerir ráð fyrir, að skylt sé að hafa öryggisbelti fyrir ökumenn og farþega í framsæti bifreiðar.

Þegar mál þetta var afgr. frá allshn., voru tveir nm. fjarverandi. Fjórir nm., sem voru á þessum fundi 1. febr., voru samþykkir því, að þetta frv. yrði samþ. með nokkrum breyt., sem eru á sérstöku þskj., en sjöundi nm. tók ekki afstöðu til málsins að svo stöddu, hv. þm. Sveinn Guðmundsson og mun hann skýra frá sinni afstöðu hér á eftir.

Þær breyt., sem n. leggur til, að gerðar verði á frv., eru þessar:

Fyrst og fremst að ákvæðið um öryggisbelti í bifreiðum taki einungis til fólksbifreiða, tveggja til sex manna, svo og jeppabifreiða. Enn fremur, að bifreiðar í landinu, sem eldri eru en frá 1. jan. 1961, falli ekki undir ákvæðið. Og í þriðja lagi telur meiri hl. allshn. rétt að hafa nokkuð rúman aðdraganda að framkvæmd fyrirmælanna og leggur því til, að gildistökudagur verði ákveðinn 1. maí 1969.

Þá hef ég gert grein fyrir þeim breyt., sem meiri hl. allshn. leggur til, að gerðar verði á þessu frv.

Það þarf ekki að taka það fram, enda hefur það komið fram í ræðu flm. þessa frv. við 1. umr., að það sé mjög til aukins öryggis að hafa belti í bifreiðum með þessum hætti í framsætum, og víða um lönd hafa ákvæði þar að lútandi verið samþ. og sett í lög og þykir það hafa reynzt mjög vel, þar sem rannsóknir hafa farið fram, eftir að öryggisbelti hafa verið tekin upp til notkunar í bifreiðum. Og þessir umsagnaraðilar, eins og ég drap á áðan, sem málið var sent til, hafa einróma lýst þeirri skoðun sinni yfir, að þessi háttur upptekinn mundi verða mjög til öryggis líka hérna hjá okkur. Nú vil ég geta þess, að annar sá umsagnaraðili, sem sendi ekki svar innan hins tiltekna frests, sem n. hafði ákveðið, hefur nú sent hingað inn til þingsins umsögn sína. Og að sjálfsögðu verður að ætla þá umsögn, þegar hún er fram komin, mjög þess virði, að hún sé tekin sérstaklega til athugunar, en það er umsögn frá umferðarlaganefnd. Svar þeirrar nefndar liggur hérna fyrir, en hefur ekki verið tekið til athugunar enn í allshn. Þetta er töluvert mál, sem hér er um að ræða, og ég ætla því aðeins að fara lítillega í gegnum svörin um þau atriði, sem ég tel, að skipti mestu máli.

Umferðarlaganefnd segir m. a., að á síðari árum hafi það verið leitt í ljós með vísindalegum rannsóknum og tölfræðilegum upplýsingum, að notkun öryggisbelta hafi aukið öryggi í för með sér, þegar slys verða og hafi í mörgum tilvikum komið í veg fyrir líkamstjón og dregið úr því.

Um rannsóknir, sem n. bendir á í bréfi sínu, að gerðar hafi verið, segir hún m.a.: „Athugun í Kaliforníu á 9717 slysum sýndi, að hætta á alvarlegum og banvænum slysum minnkaði um 35%, ef ökumaður og farþegi í framsæti notuðu öryggisbelti.“

Þá er getið um slíkar rannsóknir í Suður-Svíþjóð og þar segir: „Gerður var samanburður á 424 ökumönnum með öryggisbelti og 288 án beltis. Af þeim, sem notað höfðu belti, lézt enginn, en 8 af þeim, sem ekki notuðu belti.

Og þá er í þriðja lagi getið um rannsókn, sem fór fram í Árósum á 100 dauðaslysum, sem vörðuðu 53 ökumenn og voru rannsökuð sérstaklega með tilliti til þess, hvort notkun öryggisbelta hefði getað forðað dauða. Tvær sjálfstæðar athuganir leiddu í ljós, að annars vegar 38 og hins vegar 39 eða um 70% þeirra, sem létust, hefðu getað haldið lífi, ef þeir hefðu notað öryggisbelti. Þá er líka getið um umfangsmiklar rannsóknir, sem Volvo-verksmiðjurnar í Svíþjóð létu framkvæma, og þær lúta að líkri eða sömu niðurstöðu og áður er getið. Þá segir umferðarlaganefnd í þessu bréfi sínu, að hún telji æskilegt, að sett verði lagaákvæði um öryggisbelti í bifreiðum. En það sé spurning, hvort slík ákvæði skuli ná til allra bifreiða. Reynsla sú, sem fengizt hefur af notkun öryggisbelta í fólksbifreiðum, er á þann veg, að rétt þykir að lögbjóða hið fyrsta öryggisbelti í þeirri gerð bifreiða, þ. e. a. s. í fólksbifreiðum. Svo segir áfram í bréfinu, að slysahætta við árekstur sé verulega minni fyrir farþega í aftursæti en í framsæti og n. sé þeirrar skoðunar, að ekki sé þörf á því að svo stöddu að gera kröfur um öryggisbelti nema í framsæti. Þá segir n. enn fremur, að hún telji eigi næg rök fyrir því að krefjast öryggisbelta í stórum fólksbifreiðum og vörubifreiðum, þótt síðar geti komið til álita að krefjast þess. Og loks leggur n. til, að ákvæðið taki til allra bifreiða, sem skráðar verða í fyrsta sinn eftir 1. jan. 1969, þ. e. a. s. fólksbifreiða og bifreiða af svipaðri gerð, en er ekki látið varða þær bifreiðar, sem skráðar eru í landinu og eru í notkun fyrir 1. jan. 1969.

Þessar till., sem umferðarlaganefnd gerir, eru að vísu sumar afar svipaðar þeim, sem um ræðir hér á þskj. 260, brtt. frá meiri hl. allshn., en þær ganga um margt lengra, um sumt eru þær þrengri. Við í meiri hl. gerum till. um það, að þetta nái aðeins til fólksbifreiða, 2–6 manna. Umferðarlaganefnd aftur á móti leggur til, að það nái til bifreiða, sem eru fyrir 8 manns. Við í meiri hl. leggjum til, að öryggisbelti nái til allra bifreiða, fólksbifreiða og jeppa-bifreiða, sem yngri eru en frá 1. jan. 1961 en eldri bifreiðar, sem eru á skrá og í notkun, falli undan ákvæðinu.

Það var mjög leitt, að svar umferðarlaganefndar skyldi ekki ná til allshn. í tæka tíð, en við því var ekkert að segja. Við í allshn. litum þannig á, að við gætum ekki beðið eftir svörum mjög fram yfir þann tíma, sem skammtaður er umsagnaraðila, og við teljum, að það ætti almennt að gilda í sambandi við nefndarstörf, þegar leitað er umsagnar aðila, að svörum sé skilað fyrir ákveðinn tíma, sem er sá frestur, sem er veittur, og ef ekki komi fram svör innan hans, sé ekki tekið tillit til þess, sem annars væri, og þeirri reglu höfum við haldið hér. Hins vegar vil ég, og ég hygg að ég megi segja fyrir hönd okkar fjórmenninganna í n., leggja til, að þessu máli verði frestað hér, 2. umr. þess, til þess að n. í heild hafi tækifæri til þess að skoða umsögn umferðarlaganefndar og íhuga málið betur og sjá til, hvort ekki getur orðið samkomulag innan allshn.. um brtt., sem flestir eða allir gætu fallizt á.