08.02.1968
Efri deild: 52. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1674 í B-deild Alþingistíðinda. (1533)

36. mál, umferðarlög

Einar Ágústsson:

Herra forseti. Það er ástæðulaust af minni hálfu að vera að lengja umræður um þetta mál, með því að ég er algerlega sammála því, sem hv. frsm. meiri hl. allshn. sagði hér áðan, að eðlilegasta málsmeðferðin er vafalaust að taka málið til endurnýjaðrar athugunar í allshn., með hliðsjón af þeim svörum og ábendingum, sem umferðarlaganefnd nú hefur sent. Ég vil aðeins, áður en lengra en haldið, þakka samnefndarmönnum mínum í hv. allshn. fyrir góðar undirtektir um þetta mál, bæði þeim, sem skrifa undir nál. á þskj. 259, og raunar einnig þeim, sem ekki gera það, ekki voru tilbúnir til þess, þegar nál. var afgr., en hafa frá upphafi, flestir held ég að mér sé óhætt að segja a. m. k., sýnt málinu velvild og skilning. Ég tel alveg ástæðulaust, þegar málið nú hefur fengið þessar undirtektir, að flytja hér á ný rökstuðning fyrir nauðsyn þess, sem frv. fjallar um. Hún hefur ekki verið dregin í efa, þvert á móti undirstrikuð rækilega af öllum þeim, sem málið hafa fengið til umsagnar, og ekki sízt af sjálfri umferðarlaganefnd, sem, eins og hv. frsm. gat um, rekur talsvert fyllra en ég gerði í minni framsöguræðu það, sem gerzt hefur erlendis í þessu máli og allt hnígur að því að sanna ágæti þessara öryggistækja. Ég vil aðeins, áður en þessari umr. er frestað, taka það fram, að ég hef frá upphafi verið mjög hlynntur því að leita að beztu lausn á þessu máli og alls ekki haldið því fram, að ég hafi hitt á hana í frv. Ég tók það þvert á móti fram við 1. umr., að ég væri fús til samninga um hvaða breytingar á þessu máli, sem til heilla mættu horfa að beztu manna yfirsýn, og það er þess vegna, sem ég flyt sjálfur ásamt þrem meðnefndarmönnum mínum í allshn. brtt. á þskj. 260. Þar eru nokkrar takmarkanir á því, sem í frv. er ráðgert, sem við nánari athugun virðast eiga fullan rétt á sér. Nefnilega sú í fyrri töluliðnum, að skyldan nái aðeins til fólksbifreiða 2–6 manna og jeppa-bifreiða, og í öðru lagi, að ákvæðið nái aðeins til þeirra bifreiða, sem eru yngri en frá 1. jan. 1961. Ég sé það við nánari athugun, að það er ástæðulaust að vera að leggja fjárhagslegar skuldbindingar á eigendur eldri bifreiða, sem að öllum líkindum verða teknar úr umferð mjög bráðlega.

Þá er augljóst mál, að brtt. í tölulið 2 hlýtur að eiga fullan rétt á sér, vegna þess að málið var borið fram í okt., en nú er kominn miður febr., þegar verið er að fjalla um það í fyrri d. og auðvitað algerlega óhugsandi, að gildistökudagurinn geti orðið 26. maí 1968, eins og frv. gerði ráð fyrir. Og við höfum þess vegna orðið sammála um það að fresta gildistökunni til 1. maí 1969. Umferðarlaganefnd vill gera nokkrar frekari takmarkanir á þessu, og meginbreytingin í hennar máli er sú, að ákvæðið verði ekki látið ná aftur fyrir sig, þ. e. a. s. það verði aðeins látið ná til þeirra bifreiða, sem eru skráðar eftir 1. jan. n. k. Eins og ég gat um, þegar ég ræddi málið við 1. umr., var þetta ein af þeim leiðum, sem mér fannst koma til greina. En mér fannst við nánari athugun, að öryggismálin væru þannig á vegi stödd, að úrbótin, sem í þessu fælist, væri það brýn, að ástæða væri til að hraða þessu heldur, en það verður auðvitað athugað í n. Ástæðan til þess, að hv. umferðarlaganefnd leggur áherzlu á, að ákvæðið verði ekki látið ná aftur fyrir sig, er fyrst og fremst, að ég hygg, kostnaðurinn, og í sambandi við það vil ég aðeins gera það að umtalsefni, að bifreiðaeftirlitið hefur áætlað þennan kostnað á hvert belti 600–1600 kr. Ég gerði endurnýjaða athugun á þessum kostnaði, þegar þessi umsögn bifreiðaeftirlitsins barst og mér hefur ekki tekizt að fá upplýsingar um það, hvernig sú tala, 1600 kr. á hvert belti, er fundin. Ég hef látið reikna á nýjan leik verð á öryggisbeltum, sem ég gerði að umtalsefni við 1. umr., öryggisbeltum, sem mundu fullnægja skilyrðum bifreiðaeftirlitsins, og vil endurtaka það, að þeir útreikningar, sem ég þá gaf upp, voru réttir, en skv. þeim var verðið fyrir gengisbreytingu 303.90–328 kr., en verðið eftir gengisbreytinguna 423–457 kr., og enda þótt mér sé ljóst, að hér sé um talsverða fjárhæð að ræða, miðað við allan þann fjölda bifreiða, sem í landinu er, er alveg ástæðulaust að vera að gera sér hærri hugmyndir um það heldur en raun er á.

Þetta vildi ég láta koma fram m. a. til athugunar hjá hv. n. En að öðru leyti skal ég svo ekki orðlengja þetta frekar, en aðeins styðja þá till., sem kom fram hjá hv. 4. þm. Sunnl., að umr. yrði frestað og málið athugað á ný í hv. allshn. með hliðsjón af svari umferðarlaganefndar, sem ég auðvitað fyrir mitt leyti er mjög fús að hafa til hliðsjónar í málinu.