26.02.1968
Neðri deild: 66. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1678 í B-deild Alþingistíðinda. (1547)

146. mál, ættaróðul

Flm. (Oddur Andrésson):

Herra forseti. Frv., sem hér liggur fyrir til 1. umr., er flutt að fenginni reynslu á þeim l., sem frv. tekur til, og vil ég gera grein fyrir því, í hverju breytingarnar felast.

Það er í fyrsta lagi, að kaflafyrirsögn V. kafla sem í l. er svo hljóðandi: „Um ráðstöfun ættaróðals og erfðir“ breytist þannig, að hún verði: „Um lausn úr óðalsviðjum, ráðstöfun ættaróðals og erfðir.“

Önnur breytingin er sú, að upphaf 17. gr. téðra l. hljóði þannig:

„Þegar óðalsbóndi verður að bregða búi vegna elli, vanheilsu eða af öðrum þeim ástæðum, sem valda því, að honum er ókleift að halda áfram búskap, er landbrh. heimilt að leysa óðalið úr óðalsviðjum, ef engir þeirra ættingja, sem rétt hafa til óðalsins, vilja taka við því til ábúðar, enda mæli sýslunefnd og Búnaðarfélag Íslands með þeirri ráðstöfun. Samþykki landbrh. lausn óðals úr óðalsviðjum, er óðalsréttarhafa heimilt að selja það við því verði og þeim kaupanda, er hann kýs, enda hafi þeir, sem forkaupsrétt eiga að lögum, hafnað honum.“

Þá kemur sú breyting á næstu málsgr., sem verður þá 2. mgr. l., ef frv. verður að l., að hún hljóðar nú svo: „Þegar óðalsbóndi annars bregður búi eða deyr,“ en í l. hljóðar hún svona: „Þegar óðalsbóndi bregður búi eða deyr.“ Það kemur þarna inn eitt orð.

Á þeim fulla aldarfjórðungi, sem liðinn er síðan lög um ættaróðul og óðalsrétt voru sett, hafa orðið mjög róttækar breytingar á öllum þjóðlífsháttum hér á landi. Það er liðin tíð, að það sé eina örugga leiðin til farsællar lífsafkomu á veraldarvísu að komast yfir til eignar og ábúðar sæmilega bújörð og yrkja hana síðan til elli eða æviloka. Óðalsréttur jarðar tryggir að vísu auðvelda endurnýjun ábúenda hennar, ef erfingi eða nánir venzlamenn, sem áhuga hafa fyrir búskap, eru fyrir hendi. En vegna aukinnar fjölbreytni í atvinnumöguleikum er ekki fátítt, að erfingjar óðalsjarða hafi ríkari hneigðir til annarra starfa en búskapar og telji sínum hag betur borgið við þau. Þá er líka brostin undirstaðan að þeirri elli- og örorkutryggingu, sem nákominn viðtakandi óðals á að vera öldruðum og þreyttum eigendum þess samkv. l. Það samrýmist líka heldur illa mannúðarhugsjón nútímans, að aldrað bændafólk, sem ekki á afkomendur, er vilja nýta þess óðal, fái ekki ráðið sér samastað og notið arðs af sínu lífsstarfi sér til framfæris, þó að það sé bundið í umbótum á jörðinni, teljist hún æskileg til ábúðar.

Í 1. gr. umræddra l. er kveðið á um, að til þess að jörð geti orðið óðal þurfi hún að vera svo kostarík, að afrakstur bús, er hún getur borið, ásamt hlunnindum, sem henni fylgja, framfæri a. m. k. meðalfjölskyldu að dómi Búnaðarfélags Íslands. Enn fremur, að jörðin sé ekki að dómi Búnaðarfélagsins stærri en svo, að hún verði að jafnaði fullnytjuð af einum ábúanda. Sumar kostaríkar hlunnindajarðir voru fullnytjaðar á meðan nægur vinnukraftur var fáanlegur í sveitum landsins. Þær er alls ekki hægt að nýta nú við hinar breyttu aðstæður. Aðrar jarðir, t.d. afskekktar dalajarðir með stóru og góðu beitarlandi til fjalls eða heiða, en litlum og erfiðum ræktunarskilyrðum, voru allgóðar undir bú meðan fólk var margt í sveitunum, þótt þær verði vart nytjaðar nú. Þá má einnig hafa það í huga, að lagning vega og raflína til mjög afskekktra staða hlýtur að víkja að sinni fyrir öðrum brýnni verkefnum, en samgöngur og raforka er orðið meginskilyrði fyrir búsetu á jörðum nú til dags. Í áðurnefndum lögum er sýslumönnum falið það erfiða hlutskipti að ráðstafa óðalsjörðum til ábúðar, sem ekki ganga með eðlilegum hætti til erfðaábúðar, og er það oft og tíðum ærinn vandi. Virðist því eðlilegt og er enda nauðsynlegt, að í l. sé ákvæði um ótvíræða heimild til handa landbrh. til að leysa jarðir úr óðalsböndum og veita eigendum þeirra eða arftökum rétt til frjálsrar ráðstöfunar þeirra innan marka, sem ekki skerði hagsmuni viðkomandi sveitarfélags. Hagsmunir þess eru að sjálfsögðu bezt tryggðir með því, að vel sé búið á sem flestum jörðum. Ég hef leitazt við að færa nokkur rök fram fyrir þeirri breytingu, sem frv. kveður á um, en meginrökin má segja í aðeins tveimur orðum, þau eru: breyttir þjóðlífshættir.

Ég vil svo að endingu leggja til, að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til 2. umr. og hv. landbn.