28.11.1967
Efri deild: 24. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 218 í B-deild Alþingistíðinda. (155)

66. mál, verðlagsmál

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Þetta frv., sem hér liggur fyrir, er nú eitt út af fyrir sig ekki margra orða virði. Hins vegar snertir það önnur mál, mál, sem eru sérstaklega brennandi á þessum síðustu og verstu tímum, verðlagsmál, verðlagningarmál og verðlagseftirlit. Þess vegna þykir mér rátt að láta þetta frv. ekki algjörlega þegjandi fara fram hjá hér í d. Ég vil ekki gera neitt til þess að tefja framgang þess, þó að óskir frá hæstv. ríkisstj. um það, að mál séu keyrð hér í gegn athugunarlaust, fari nú að gerast fulltíðar. Og í sambandi við þetta mál hefði ég gjarnan viljað afla mér nokkurrar fræðslu hjá hæstv. viðskmrh. Nú sé ég, að hann hefur að vísu orðið að skreppa frá í bili, og gæti ég náttúrlega beðið með að bera fram þær fsp., því að mér liggur ekkert á. En hæstv. viðskmrh. var að óska eftir, að málinu væri hraðað. Þess vegna hafði ég nú ekki hugsað mér að vera með neinar málalengingar hér, en ætlaði að bera upp við hann mjög einfalda spurningu, sem vefst fyrir sumum að svara um þessar mundir, en ég efast ekki um, að viðskmrh. muni fljótlega geta greitt úr, og þessi spurning, sem mig langaði nú fyrst til að leita svars við hjá viðskmrh., er, hvort hér sé verðstöðvun nú eða ekki. Mönnum ber nefnilega ekki alveg saman um það. Fyrir rúmu ári síðan voru samþ. hér á Alþ. l. um verðstöðvun. Þau voru tímabundin, þau eru gengin úr gildi. En í fyrra voru þessi l. talin mjög nauðsynleg og óhjákvæmileg, til þess að hægt væri að koma á þeirri verðstöðvun, sem þá var talin sjálfsögð og nauðsynleg. Því máli var vel tekið af hálfu stjórnarandstæðinga, en ef ég man rétt, þá vorum það við framsóknarmenn einir, t.d. í Nd., sem mæltum með samþykkt þess frv. óbreytts, eins og það kom frá hendi stjórnarinnar í öndverðu. En við bentum þá á, að þessi l. væru óþörf, vegna þess að í l. um verðlagseftirlit, sem þetta frv. er flutt til að breyta, væru allar heimildir til verðstöðvunar, nema um bann við hækkun opinberra gjalda. Þessu vildu stjórnarmenn þá ekki trúa og töldu það alveg nauðsynlegt og óhjákvæmilegt, að þetta verðstöðvunarfrv. væri samþ. Og þeir fengu það samþ. Við skulum segja, að verðstöðvun hafi verið komið á. Þetta frv. féll svo úr gildi 1. nóv. og nú er spurningin, hvort verðstöðvun sé í gildi eftir það eða ekki. Mér skilst, að verðlagsnefnd hafi uppgötvað það, rétt um síðustu mánaðamót, að allar heimildir, sem nauðsynlegar voru til verðstöðvunar, væru í gömlu l. um verðlagseftirlit nr. 54 frá 1960 og að hún hafi samkv. heimild í þeim l. gefið út almennt bann við hækkun á allri álagningu og öllum vörum. Hafi hún getað gert þetta, og ekki dettur mér í hug að hún hafi verið að brjóta l., þá verð ég nú að telja sannað, að við höfum haft rétt mál að flytja í fyrravetur, þegar við sögðum, að stjórnin hefði allar heimildir til verðstöðvunar í lögum, og að hún hefði haft þær síðastliðin 6 ár, en ekki notað þær heimildir. Það má kannske segja, að það skipti ekki miklu máli að fá það staðfest, hver hefur haft á réttu að standa um svona atriði, en ég verð þó að telja það viðkunnanlegra að fá skýringu ráðh. á því, og umfram allt verð ég að telja það nauðsynlegt, að hann lýsi því yfir, hvort verðstöðvun sé hér í gildi eða ekki, vegna þess að almenningi er það ekki ljóst.

Þrátt fyrir það að sagt sé, að verðstöðvun hafi átt að vera hér, þá hefur mátt heyra það núna á allra síðustu dögum, að verð hefur verið hækkað á vissum vörutegundum. Ég er almennt ekki mikill fylgjandi verðlagseftirlits, af því að ég hef á því takmarkaða trú og byggi þar að nokkru leyti á reynslu, en ég held samt, að á vissum tímum og undir vissum kringumstæðum sé verðlagseftirlit nauðsynlegt. Ekki verðlagseftirlit í orði, heldur verðlagseftirlit á borði, verðlagseftirlit í raun og veru. Og ég álít, að þær kringumstæður séu alveg sérstaklega fyrir hendi í sambandi við gengisfellingu, því að það er gefið mál, að afleiðingar gengisfellingar verða þær, að innfluttar vörur hljóta að hækka í verði og það getur þá líka verið tilhneiging til þess að hækka álagningu í raun og veru, þ.e.a.s. að halda sömu álagningarprósentum, þó að grundvöllurinn, sem á er lagt, hafi hækkað. Og þó að lagt sé bann við því að hækka vörubirgðir, þá er það svo, að það bann nær ekki til vörubirgða, sem ekki hafa þegar verið greiddar, sem ég reyndar tel ekki óeðlilegt, en mér er tjáð, að það séu allmiklar vörubirgðir, sem þannig er ástatt um. Hef ég heyrt nefndar í því sambandi tölur upp á 700 millj., sem eru stutt vörukaupalán. Ég held þess vegna, að það geti orðið talsvert erfitt í framkvæmd að greina á milli þess, hvort um er að ræða greiddar vörubirgðir hér og þar eða ógreiddar, og hvort þær vörubirgðir megi hækka eða ekki. Allar þessar kringumstæður gera það að mínum dómi sérlega nauðsynlegt nú á þessum tímamótum að halda uppi skörpu, hörðu verðlagseftirliti, ekki verðlagseftirliti, sem er upp á punt, heldur raunverulegu verðlagseftirliti, og þess vegna hafði ég satt að segja vænzt þess, að ákvörðun um gengisfellingu hefði fylgt efst á blaði sú hliðarráðstöfun að koma hér upp öflugu verðlagseftirliti. Það má vissulega segja, að í þessum l., sem áður er á drepið, séu margar og góðar heimildir til þess og að mikið sé undir framkvæmdinni komið, en við sem af reynslunni þekkjum það, að framkvæmdin í þessum efnum hefur, þrátt fyrir allar lagaheimildirnar, verið heldur slöpp á undanförnum árum, mundum kjósa, að mál þessi yrðu betur mörkuð í settum l. Og ég hefði haldið, að ástæða væri til þess að fylgja gengislækkuninni eftir með ítarlegu frv. um verðlagsmál, í stað þess að kasta inn þessu litla frv. hér, sem ég ætla ekki að lasta. En þar er að því er virðist um þá einu breytingu að ræða, sem á að verða í verðlagningarmálunum. Ég verð að lýsa sérstökum vonbrigðum mínum yfir því, að hæstv. ríkisstj. skuli ekki hafa séð ástæðu til þess að láta fara fram grandgæfilega endurskoðun á þessum l. og leggja slíkt frv. fyrir þetta Alþ. og láta það vera fylgifisk gengislækkunarinnar. Áreiðanlega fær allur almenningur í þessu landi að finna fyrir afleiðingum gengisfellingarinnar, og það er lágmarkskrafa frá hans hendi, að reynt sé að skipta þeim byrðum, sem gengislækkun óhjákvæmilega fylgja, sem réttlátast niður. Og ein leiðin til þess er að framfylgja traustu og heiðarlegu verðlagseftirliti.

Ég er ekki kunnugur framkvæmd verðlagsmálanna að undanförnu. Ég veit, að það sitja góðir og gegnir menn í verðlagsnefnd, og ég efast ekki um, að það séu góðir og færir menn, sem starfa á skrifstofu verðlagsstjóra. En ég verð að segja það eins og er, að ég hef ákaflega lítið orðið var við þetta verðlagseftirlit að undanförnu. Og ég verð að segja það, að annað var á árum áður. Þegar við hæstv. viðskmrh. komum nærri þeim málum, þekktist það hreint ekki svo sjaldan, að menn væru sóttir til saka fyrir brot á verðlagslögum, og þá gengu starfsmenn verðlagsstjóra í búðir, ekki aðeins hér í Reykjavík, heldur um land allt og fylgdust með verðlagningu. Það má vera, að þetta hafi verið gert nú upp á síðkastið, en um það vildi ég spyrja hæstv. viðskmrh., hvernig framkvæmd málanna að þessu leyti hafi verið hagað. Og eitt lítið dæmi. Ég sé það t.d. í þessum l. um verðlagseftirlit, að verðlagsstjóri getur fyrirskipað að verðmerkju vörur, festa upp verðskrár í verzlunum og verkstæðum og annað slíkt, sem hann telur auðvelda viðskipti og eftirlit með verðlagi. Slíkir miðar eru sjálfsagt uppi á ýmsum stöðum, en ég held nú samt, að verðmerkingu vara í búðum sé talsvert ábótavant, þ.e.a.s. að þær séu ekki verðmerktar á þann hátt, sem mér skilst að þessi l. geri ráð fyrir, að viðskiptavinurinn geti séð þá verðmerkingu. Ég vildi líka spyrja hann um það, hvernig háttað hefði verið þessu atriði.

Ég held einmitt í sambandi við spurninguna um það, hvort vörubirgðir eiga að hækka vegna ógreiddra skulda, þá sé það ákaflega þýðingarmikið að greiða fyrir því að almenningur geti fylgzt með því sem allrabezt, hverjar verðbreytingar verða í hinum ýmsu búðum. Og ég held, að ef hafa á raunverulegt eftirlit með því, að vörubirgðir séu ekki hækkaðar, jafnvel þó að hafi nú verið búið að greiða eitthvað í þeim, þá þurfi að vera ákaflega gott eftirlit. Þá þurfi verðlagsstjóri og verðlagsskrifstofa að hafa á að skipa ákaflega góðu og fjölmennu starfsliði til að fylgjast með því öllu. Ég vildi spyrja viðskmrh. að því, hvort það sé meiningin að hlúa betur að þessum starfsmönnum, sem hafa verðlagseftirlitið á hendi, en gert hefur verið að undanförnu, ekki aðeins hér í Reykjavík, heldur og út um allt land. Hvað hefur verið hugsað fyrir því? Hefur ekkert verið hugsað um þetta mál nema aðeins að því er varðar breytingu á þessari nefndarskipun. Mér finnst það mjög nauðsynlegt, að ráðh. gefi sem gleggsta skýrslu um þetta efni, hvernig háttað hefur verið framkvæmdum í þessum efnum og hvort nokkuð hefur verið hugsað fyrir því að styrkja framkvæmdir í þessum efnum. Hæstv. viðskmrh. sagði, að nú lægi á að fá þessa nefnd skipaða, vegna þess að engar ákvarðanir ætti að taka um verðlagsmál, sem máli skiptu, fyrr en hún væri komin. En ég veit ekki betur en farið sé þegar að taka ákvarðanir um verðlagshækkanir, sem æðimiklu máli skipta. Það er kannske ekki „princip“-afstaða, sem liggur í því, hvort olía og benzín eru hækkuð. En hitt veit ég, að almenningur finnur fyrir þeirri hækkun, sem ekki lét á sér standa eftir gengisfellinguna á þeim vörum, og ég veit ekki betur en í morgun hafi verið auglýst hækkun á vöru eins og t.d. smjörlíki, hreint ekki lítil, þannig að ekki virðist nú hafa verið skotið á frest ákvörðun um verðlagshækkanir til þess að bíða eftir þessari væntanlegu verðlagsnefnd, enda þótt hún eigi þó samkvæmt yfirlýsingum ráðh. að taka til starfa, ja, að manni skilst, á morgun, ef þetta frv. á að afgreiða í dag. Ég skal svo ekki fara mikið fleiri orðum um þetta almennt, en vona að ég fái greið svör hjá hæstv. viðskmrh. um þau efni, sem ég hef hér drepið á.

Svo ætla ég að víkja örfáum orðum að þessu frv., sem hér liggur fyrir. Það er um breytta skipan verðlagsnefndar. Það er að vísu fyrir fáum dögum búið að kjósa hér á Alþ. verðlagsnefnd til fjögurra ára, en umboð hennar á nú að fella niður með þessu frv. Það má segja, að það sé nú ekki mikið atriði, þó að skemmtilegri bragur hefði verið á því að fresta þeirri kosningu, þangað til þetta mál var útkljáð. En það er horfið að nýrri tilhögun um skipun þessarar n. Hún á að vera skipuð fulltrúum frá þeim aðilum, sem eru taldir eiga sérstakra hagsmuna að gæta, fjórum frá Alþýðusambandi Íslands, tveim samkv. tilnefningu Vinnuveitendasambands Íslands, einum samkv. tilnefningu Verzlunarráðs Íslands, einum samkv. tilnefningu Sambands íslenzkra samvinnufélaga og ráðuneytisstjórinn í viðskmrn. á svo að vera form. í þessari n. eins og áður fyrr. Í leiðinni er fjölgað allmikið í þessari n., úr sex og upp í níu. Það má vissulega sitthvað um þá stefnu segja, sem í þessu felst og getur verið góðra gjalda verð, að láta þá aðila, sem hér hafa mikið um að segja og málið snertir, hafa sína fulltrúa til þess að fylgjast með. Raunar má nú segja, að verðlagning varði okkur nú flest í þessu þjóðfélagi. En þetta er önnur stefna heldur en ríkti, þegar við hæstv. ráðh. sátum í viðskiptaráði í sinni tíð. Þá var það svo, að tveir menn af þeim, sem sátu í viðskiptaráði, áttu samkv. ákvæði í skipunarbréfi að víkja sæti, þegar fjallað var um verðlagsmál. Það var ég og dr. Oddur Guðjónsson. Það sjónarmið byggðist á því, að við mundum vera of tengdir stofnunum, sem þarna kæmu nærri og hefðu hagsmuna að gæta. En í stað okkar áttu þá að koma aldeilis sérstaklega hlutlægir aðilar, sem með engu móti gætu talizt fulltrúar fyrir nokkra stétt í þjóðfélaginu, þ.e.a.s. fyrst hæstv. viðskmrh., sem þá var nú ekki orðinn viðskmrh., og svo hagstofustjóri núverandi og síðan dr. Ólafur Björnsson. Sem sagt: hagfræðingar. Og það verð ég að segja og gefa þeim ágætu mönnum þann vitnisburð, að þeir slógu ekki slöku við þau efni á þeirri tíð, þannig að ég vil nú álíta, að ef alla tíð hefði verið unnið að verðlagsmálum og verðlagseftirliti með sama hætti, þá væri raunin betri en hún er í dag. Þá man ég það, að þessir ágætu menn sátu dögum saman á skrifstofu verðlagsstjóra með honum og rannsökuðu þessi mál ofan í kjölinn. Og ég man vissulega oft eftir eldlegum áhuga hæstv. viðskmrh. í því sambandi. Þetta er sem sagt stefnubreyting frá því, sem áður var í þessum efnum, að láta fulltrúa aðilanna sjálfra sitja í þessari n., sem á að taka ákaflega þýðingarmiklar ákvarðanir, en ekki, skulum við segja, óvilhalla og óhlutdræga aðila að öllu leyti. Þetta er að vísu í samræmi við þá stefnu, sem almennt gildir og fylgt er um úrskurðaraðila. En hvað um það, ég er ekki að hafa á móti því, að þessi stefna sé nú upp tekin og athugað sé, hvort hún gefi betri raun en sú hin fyrri. En á það vil ég benda, að samkvæmt þessum l., sem fyrir eru og nú eru í gildi, er það skylda verðlagsstjóra að fylgjast með verðlagi í landinu, og síðan segir: Skal verðlagsstjóri leita samvinnu við verkalýðsfélög og önnur hagsmunasamtök neytenda víðs vegar um landið til að tryggja sem raunhæfast verðlagseftirlit. Það hefur verið skylda að láta verkalýðsfélög og önnur samtök neytenda fylgjast með í þessu efni. Hvernig hefur því verið fram fylgt? En þegar á að hverfa að þessu ráði, sem ég vil ekkert misjafnt um segja, að leyfa aðilum þannig að nefna menn til, þá hlýtur vitaskuld að vakna sú spurning, hvort ekki eigi fleiri að nefna til menn í þessa n. Og ég verð að segja það, að þó að ég meti ASÍ mikils og það sé alls góðs maklegt, þá kemur það mér nokkuð kynlega fyrir sjónir, að því skuli vera ætlað að nefna fjóra menn í þessa n., en BSRB synjað um að fá að nefna einn af þessum fjórum. Á bak við BSRB eru þó, að ég ætla, um 8 þús. félagsmenn. Og það vill svo vel til, að í þessum l., sem hér er fjallað um og hér er verið að breyta, hefur BSRB þegar verið viðurkenndur aðili og alveg sérstaklega við hliðina á ASÍ og Stéttarsambandi bænda. En það kemur einmitt fram, að þegar um er að ræða skipun í verðlagsdóm, sem á að vera skipaður reglulegum héraðsdómara á hverjum stað og auk þess einum meðdómanda, leikmanni, að þessi meðdómandi skuli skipaður af dómsmrh. að fengnum till. þriggja manna, tilnefndra af stjórnum ASÍ, Stéttarsambandi bænda og BSRB. Ég get ekki séð nein rök fyrir því að hverfa frá þeirri stefnu, sem þarna er mörkuð í þessum lögum sjálfum, og ætla nú að synja BSRB um aðild. Hæstv. viðskmrh. sagði, að ósk um þetta hefði komið frá ASÍ og að mér skildist ekki frá öðrum. Nú er að vísu, skilst mér, ósk fram komin frá BSRB, en henni á þá að vísa frá víst á þeim grundvelli, að hún sé of seint fram komin. Einhvern tíma hefur öðru eins verið breytt í meðförum máls, eins og þessu atriði. En auk þess veit ég nú ekki betur en að í samningum þeim og samtölum, sem ríkisstj. hefur átt við fulltrúa stéttasamtaka, hafi verið sameiginleg nefnd frá ASÍ og BSRB og að það hafi verið rætt við þá sameiginlega, enda sæmir það sízt að setja BSRB hjá í sambandi við gengisfellingu, því að ég býst við því, að þegar allt kemur til alls, þá komi nú gengisfelling einna harðast niður á opinberum starfsmönnum. Og það kemur fram í sambandi við annað mál, sem hér verður rætt á eftir, um niðurfellingu vísitölunnar, vegna þess að þau stéttarfélög, sem samningsrétt hafa, geta barizt og náð rétti sínum, kannske með mikilli fyrirhöfn, og fengið sitt kaup hækkað og fengið umsamda vísitölu, en í því efni er opinberum starfsmönnum lokuð leið, vegna þess að þeir hafa ekki slíkan rétt. Og ef þeir fá einhverja uppbót, þá er áreiðanlegt, að þeir verða alltaf eftirbátar. Hún kemur ekki fyrr en á eftir, hún kemur ekki fyrr en seint og síðar meir, þegar aðrir hafa fengið uppböt og sem afleiðing af því, ef hún kemur þá.

Þess vegna finnst mér það í mesta máta ómaklegt að ætla að setja BSRB til hliðar í þessu sambandi. Það má kannske segja, að það skipti ekki miklu máli, en það er vottur samt og tákn, sem hefur sína sögu að segja, og það tákn, sem taka verður eftir, tákn, sem vekja verður athygli á. Mér skildist, að ein ástæðan til þess, að stjórnarsinnar í hv. Nd. hefðu ekki viljað fallast á fram komna brtt., væri sú, að 4 mennirnir væru samkv. ósk ASÍ. Nú væri sjálfsagt möguleiki á því, þegar nefnd fjallar um þetta mál hér á eftir, að leita eftir því við stjórn ASÍ, hvort hún legði fyrir sitt leyti áherzlu á það, að hún hefði þarna alla þessa fjóra menn eða hvort hún vildi unna BSRB 1 fulltrúa. Og ef svo reyndist vera, þá skilst mér, að ekkert standi í veginum af hálfu hæstv. ríkisstj. að samþykkja þessa sjálfsögðu breytingu og vænti ég, að ráðh. gefi yfirlýsingu um það hér á eftir, svo að n., sem fær málið til meðferðar, fái það veganesti, að hún megi leita eftir þessu og þá sé allt í lagi, ef það samþykki fæst.

Ég sagði í upphafi, að ég skyldi ekkert sérstaklega vera að tefja tímann og ég ætla þá að standa við það. En annars er ákaflega margt í þessum lögum, sem hér eru fyrir, sem þyrfti athugunar við og endurskoðunar, og ákaflega margt, sem hægt væri að tala um, m.a. skipun verðlagsdóms, sem er náttúrlega fáránleg og ég hygg einstæð, þar sem það er hinn raunverulegi héraðsdómari og svo einn leikmaður með, og ef þá greinir á, þá á náttúrlega dómur fastadómarans að gilda. Það er ákaflega hætt við því, að í reyndinni verði þessi meðdómari mest upp á punt. Það liggur í augum uppi líka, að það væri þörf á því að ræða það, hvernig þessum málum er fyrir komið og verður fyrir komið víða úti um landið. Þar eru skipaðir allmargir eftirlitsmenn, verðlagsstjórar, sjálfsagt ágætir menn margir hverjir, en það væri náttúrlega full ástæða til þess að setja einhver ákvæði í l. um það, hvaða skilyrðum þeir þyrftu að fullnægja o.fl. í því sambandi, en ég skal ekki fara um það fleiri orðum.

Það er náttúrlega alveg rétt, sem hæstv. ráðh. sagði, að það koma býsna margir til greina, þegar á að láta aðila fara að nefna fulltrúa í verðlagsnefnd. Og ég verð nú að segja það, að ég sakna í svona verðlagsnefnd þess, að sjá þar ekki fulltrúa Neytendasamtakanna, sem ég held, að sé félagsskapur, sem hefur látið heldur gott af sér leiða og gæti gert mikið gagn, miklu meira gagn en hann hefur þó gert, ef hann mætti fullum skilningi og væri styrktur til dáða í þessu efni. En náttúrlega verður það aldrei brýnt nógsamlega fyrir fólki, að hvað sem góðu verðlagseftirliti líður, skiptir það auðvitað meginmáli, að almenningur sé vel á verði og vakandi í þessum efnum og Neytendasamtökin hafa einmitt átt góðan þátt í að vekja almenning til umhugsunar í þessu efni. Og því skyldu þessi samtök ekki fá fulltrúa? Hverju skiptir það, þegar nefndin er komin upp í 9, þó að hún sé sett upp í 11? Talan skiptir ekki öllu máli. Þegar farið er að fjölga á annað borð, þá finnst mér engin ástæða til þess að vera að binda sig endilega við töluna 9.