28.11.1967
Efri deild: 24. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 224 í B-deild Alþingistíðinda. (156)

66. mál, verðlagsmál

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Hv. þm. ræddi í upphafi máls síns um verðstöðvunarlöggjöfina og hitaði í því sambandi upp gamla lummu og bar hana á borð fyrir okkur öll, sem hér erum í salnum. Og þetta gefur mér kærkomið tilefni til þess að ræða þetta mál örfáum orðum, ég þarf ekki að nota til þess langan tíma. Það hefur eins og kunnugt er verið ein uppáhaldskenning framsóknarmanna nú um margra mánaða skeið, að verðstöðvunarlögin í fyrra hafi verið algerlega óþörf, vegna þess að allar heimildir, sem þau veittu, hafi einnig verið fyrir hendi í verðlagalöggjöfinni. Þetta hefur verið endurtekið miklu oftar en maður hefur talið ástæðu til þess að svara og þykir mér vænt um að fá tækifæri til þess að leiðrétta þennan grundvallarmisskilning. Til þess þarf ekki mörg orð.

Ég veit ekki, hvort það er misskilningur algengur meðal þingmanna, en ég veit, að hann er algengur meðal almennings, að verðlagslöggjöfin taki til alls verðlags, þ.e. verðlagsnefndin, sem starfar eftir verðlagslöggjöfinni, sem þm. vitnaði til, ráði öllu verðlagi í landinu. Það er algjör misskilningur. Þetta ættu þm. a.m.k. að vita, þó að almenningur þurfi kannske ekki að vita staðreynd eins og þessa. Allt verðlag á landbúnaðarvörum er háð öðrum lögum og öðru verðlagsyfirvaldi og verðlag á margs konar opinberri þjónustu er hvorki háð þeirri almennu verðlagsnefnd né heldur þeim aðilum, sem fara með verðlagsmál landbúnaðarafurða, heldur er komið undir ákvörðun ýmissa rn. og m.a.s. margra rn. Það er enn fremur alkunna, að skattar og útsvör eru ekki háð neinu almennu verðlagseftirliti. Um álagningu þeirra fer eftir almennum lögum og ákvörðun um þau taka ýmist löggjafinn sjálfur eða sveitarfélögin, að því er snertir útsvörin, en í verðstöðvunarfrumvarpinu var gert ráð fyrir stöðvun á öllu innlendu verðlagi, því sem heyrir undir verðlagsnefnd, þ.e. almenna verðlagsnefnd, því sem heyrir undir verðlagsyfirvöld landbúnaðarfurða, einnig á öllum opinberum töxtum, sem rn. ákveða, og m.a.s. opinberum gjöldum. Útsvör voru fryst og stöðvuð með verðlagslögunum. Það er því furðuleg firra að staðhæfa það og endurtaka jafn oft og hefur verið endurtekið, að í verðlagslögunum hafi verið heimildir til allra þeirra verðstöðvana, sem verðstöðvunarlögin í heild gerðu ráð fyrir. Auk þessa var í verðstöðvunarlögunum mörkuð almenn stefna í verðlagsmálum innanlands að því er snerti innlendan kostnað, af því þetta er innlent verðlag. Hún tók því til miklu fleiri atriða heldur en almenna verðlagslöggjöfin veitir heimild til afskipta af og ætti þessi einfalda skýring að duga til þess að sýna fram á, að öll þau orð, sem um þetta hafa verið sögð af hálfu framsóknarmanna, eru markleysa, algjör markleysa.

Hv. þm. spurði, hvort verðstöðvun væri enn í gildi. Hér er nú nánast orðið um orðaleik einn að ræða. Verðstöðvunarlöggjöfin í fyrra gerði ráð fyrir stöðvun innlends verðlags. Það var skýrt tekið fram í löggjöfinni, að að sjálfsögðu gæti hún ekki kveðið á um fast verðlag á vöru, ef um erlenda vöru og erlenda þjónustu væri að ræða og þessi vara hækkaði erlendis, enda urðu á verðstöðvunartímabilinu margvíslegar hækkanir á verðlagi. En þær áttu rót sína að rekja til útlanda, og engum datt í sjálfu sér í hug að andmæla því, að almenn verðstöðvun væri í gildi, þó t.d. kaffi þyrfti að hækka, ef erlendis varð hækkun á kaffiverði.

Grundvallaratriði verðstöðvunarlaganna var það, að ekki skyldu verða hækkanir af innlendum rótum runnar, og það tókst í öllum grundvallaratriðum að fylgja þessari stefnu. Þeirri stefnu er enn tilætlunin að fylgja. Það er enn meginstefna ríkisstj. að vinna gegn því, að nokkrar hækkanir verði á verðlagi af innlendum rótum runnar. Auðvitað má segja, að eftir 1. des. verði erfiðara að ná þessu marki, vegna þess að allt kaupgjald í landinu hækkar 1. des., en á verðstöðvunartímabilinu öllu varð engin breyting á almennu grunnkaupi og það tókst að halda verðlagsvísitölunni niðri með síauknum niðurgreiðslum úr ríkissjóði. Það verður erfiðara fyrir ríkisstj. að fylgja þessari grundvallarstefnu sinni að láta ekki verða verðlagshækkanir af innlendum rótum vegna kauphækkana 1. des., en það verður reynt. Það verður öll áherzla lögð á að reyna það og vonandi tekst það. Hitt er svo annað mál, að gengisbreytingin hefur í för með sér stórkostlegar breytingar á verðlagi á vöru erlendis frá og erlendri þjónustu, sem mun hafa í för með sér svo miklar hækkanir, að ég tel ekki eðlilegt eða skynsamlegt að tala áfram um verðstöðvunarstefnu, beinlínis vegna þess að það er í ósamræmi við heilbrigða málvenju að telja vera verðstöðvunarstefnu framfylgt samtímis því sem almenn hækkun verður á verðlagi, þó hún sé af erlendum rótum runnin. Eðlismunur er enginn á því, sem skeður á næstu árum, og því, sem skeði undanfarið ár. Það gátu orðið hækkanir á verðlagi hér, þrátt fyrir verðstöðvunarstefnuna, ef hækkunin kom utan frá, en þær voru tiltölulega litlar. Nú verða þessar hækkanir miklar, og þess vegna tel ég, að viðhorfið allt verði gerbreytt og við eigum ekki lengur að tala með sama hætti og við höfðum leyfi til að tala á liðnu ári. En það vildi ég endurtaka að síðustu um þetta mál, að grundvallarafstaða ríkisstj. er óbreytt, sú stefna, sem mörkuð var, þegar verðstöðvunarlögin voru sett: að gera allt, sem í valdi ríkisstj. stendur, til þess að hindra verðhækkanir af innlendum rótum runnar. Einmitt vegna þess að efnahagsstefnan er þessi, er ég alveg sammála hv. þm. um, að nú er sérstök nauðsyn á verðlagseftirliti, ekki aðeins verðlagseftirliti í orði, heldur verðlagseftirliti á borði. Um það er ég honum algjörlega sammála. Ég er honum líka sammála um það, að ég hef ekki lengur mikla almenna trú á verðlagseftirliti, tel mörg önnur tæki, mörg önnur ráð miklu líklegri til þess að þjóna neytandanum og tryggja honum hagstætt vöruverð en það að halda uppi verðlagseftirliti í því formi, sem hefur verið beitt hér nú undanfarna áratugi. En undir núv. kringumstæðum tel ég verðlagseftirlit vera alveg sjálfsagt og sjálfsagt að beita af fullri festu því tæki, sem verðlagseftirlit leggur hinu opinbera í hendur. Um þetta er ríkisstj. sammála. Einmitt þetta frv. er staðfesting á því, að ríkisstj. vill taka verðlagsmálin alvarlega og vill gefa þeim aðilum í þjóðfélaginu, sem eðlilegan og réttmætan áhuga hafa á því, að það sé strangt, því sé beitt af fullri festu, kost á að kynnast málunum ofan í kjölinn og eiga aðild að ákvörðunum um þau.

Að síðustu vildi ég svo aðeins endurtaka það, sem ég sagði áðan varðandi hugsanlega aðild BSRB að hinni nýju verðlagsnefnd. Það felst ekkert vanmat á gildi eða þýðingu BSRB í því, þótt ríkisstj. hafi ekki talið rétt, að þessi samtök fái beina aðild að nefndinni, ekki frekar en það teist vanmat á Neytendasamtökunum eins og þm. nefndi alveg réttilega, að þeim er ekki ætluð aðild að þessu eða Farmanna- og fiskimannasambandinu t.d., sem lítið hefur verið nefnt og eðlilegt væri að ætti aðild að þessu. Það sem við teljum einfaldlega vera rétt er það, að sá aðili, sem bar hugmyndina fram um þessa skipun verðlagsnefndarinnar, ráði þeim neytendafulltrúum, ef ég mætti svo að orði komast, ráði þeim neytendafulltrúum, sem sæti í verðlagsnefndinni eiga. Honum er fullkomlega frjálst að taka í því sambandi tillit til óska BSRB, Neytendasamtakanna, Farmanna- og fiskimannasambandsins, ef Alþýðusambandið telur það rétt. Og ég hef fulla trú á stjórn ASÍ í þessu sambandi, að hún velji þá aðila, sem hún telur líklegasta til þess að hafa góð og skynsamleg áhrif í þessu efni.