04.03.1968
Neðri deild: 68. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1691 í B-deild Alþingistíðinda. (1569)

61. mál, Fiskimálaráð

Frsm. (Birgir Finnsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir á þskj. 75 og nefnist frv. til l. um fiskimálaráð, var flutt á síðasta þingi. Það komst þá til sjútvn. þessarar hv. d. N. sendi frv. til umsagnar allra aðila, sem þá voru upp taldir í 7. gr. frv., og bárust jákvæðar umsagnir frá þeim, sem svöruðu, en þeir voru: Farmanna- og fiskimannasamband Íslands, Félag íslenzkra niðursuðuverksmiðja, Fiskifélag Íslands, fiskimálasjóður og Landssamband ísl. útvegsmanna. Ég vil geta þess, að málið er að þessu sinni endurflutt að höfðu samráði við hæstv. sjútvmrh., og tel ég, að mér sé óhætt að fullyrða, að hann sé hlynntur hugmyndinni, sem í frv. felst. Á s. l. þingi var frv. rætt allýtarlega í hv. d., og þess vegna er ef til vill ekki ástæða til fyrir mig að fjölyrða mjög um það að þessu sinni. Þó mun ég fara um það nokkrum orðum.

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að sjávarútvegurinn er áhættusamur atvinnuvegur. Kemur það m. a. fram í því, að algengast er hér á landi, að fyrirtæki í sjávarútvegi eigi sér skamman aldur. Þótt fyrir hafi komið, að einstaka fyrirtæki yrðu um skeið tiltölulega fjársterk og umsvifamikil á okkar vísu, hafa fæst þeirra staðizt til lengdar þær miklu og tíðu sveiflur í aflabrögðum og verðlagi útflutningsvara, sem við eigum við að etja og ráðum ekki sjálfir við. Hefur það skeð oftar en einu sinni, að mikilsverðir markaðir fyrir útflutningsafurðir hafa gjörsamlega hrunið eða lokazt, án þess að við fengjum nokkuð að gert, sbr. Spánarmarkaðinn fyrir saltfisk á sínum tíma, Rússlandsmarkaðinn fyrir freðfisk fyrir fáum árum og skreiðarmarkaðinn í Nígeríu á s. l. ári. Flestar greinar útgerðarinnar hafa átt sín blómaskeið og þá verið mikið á þær treyst, t. d. á togaraútgerð og síldveiðar. Síðan hefur minnkaður afli eða lækkað verð, eða stundum hvort tveggja, kippt grundvellinum undan öllu saman, og margir aðilar að útgerðinni hafa þá tapað öllu sínu, hafi þeir ekki verið svo hyggnir að draga sig til baka í tæka tíð og leggja fé sitt í annað. Þegar einstakar greinar útgerðarinnar hafa þannig, oft og einatt fyrirvaralítið, misst gildi sitt sem burðarásar í sjávarútvegi, þá hefur þurft að bregða við skjótt og stofna til annars konar útgerðar og fiskvinnslu í stað þess, sem brást. Við slíkar aðstæður sem þær, er ég nú hef nefnt, eru það ekki aðeins einstök fyrirtæki, sem eiga erfitt með að halda velli til lengdar. Landshlutar og bæjarfélög hafa átt sína uppgangstíma, þegar vel aflaðist, en síðan orðið þar kyrrstaða eða samdráttur, þegar afli hvarf eða stórminnkaði.

Saga síldveiðanna við landið er gleggsta dæmið, sem við höfum um þetta, sbr. Austfirði, einkum Seyðisfjörð, og blómaskeiðið þar, fyrst eftir að síldveiðar hófust hér við land. Síðan gengu mögur ár yfir Austfirði, þegar veiðisvæði síldarinnar var aðallega á svæðinu frá Djúpi að Langanesi, og loks hefur aftur lifnað yfir Austfjarðamiðum á ný. Meðan síldin veiddist á svæðinu frá Djúpi að Langanesi, risu þar víða upp síldarverksmiðjur og síldarsöltunarstöðvar og þorp og bæir í kringum þær, sem blómguðust, meðan síldarinnar naut við, en með hvarfi hennar af þessum slóðum hefur aftur daprazt yfir þessum stöðum. Nægir í þessu sambandi að minna á staði eins og t. d. Hesteyri, Ingólfsfjörð, Djúpuvík, Skagaströnd, Siglufjörð, Hjalteyri og Dagverðareyri. Hvarf síldarinnar af miðunum við Faxaflóa og við Suðvesturland er einnig örlagaríkt fyrir atvinnulífið hér syðra, þótt þessi gæti ekki á jafnáberandi hátt og við Djúp, Húnaflóa og Norðurland á áðurnefndum stöðum.

Breytilegur afli og verðsveiflur gera það að verkum, að oft verðum við að skipta um veiðiaðferðir og ekki aðeins endurnýja fiskiskipin heldur beinlínis skipta um skip. Hefur þetta í för með sér, að veiðarfæri, sem ekki hefur verið slitið út til fulls, eru lögð til hliðar, at því að þau eru orðin úrelt, og hætt er við útgerð skipa, löngu áður en eðlilegur afskriftatími er liðinn. Er augljóst, að við þau umskipti og sveiflur, sem ég hef nú reynt að lýsa mjög stuttlega, hljóta mikil verðmæti að fara forgörðum, og hætta er á víxlsporum, þegar skipt er yfir úr einu. í annað, oft án þess að áður séu framkvæmdar nauðsynlegustu rannsóknir. Í þessu er fólgin hin mikla áhætta samfara sjávarútvegi Íslendinga, sem við vitum mætavel um, en viðurkennum sjaldnast, af því að hjá henni verður ekki komizt, meðan sjávarútvegur er höfuðatvinnugrein þjóðarinnar og leggur til um 95% af þeim verðmætum, sem framleidd eru til útflutnings út úr landinu, verðmætum, sem eru nauðsynleg til þess, að lífvænlegt sé í landinu á nútímavísu. Sjálfsagt er að stefna markvisst að því að renna fleiri stoðum undir efnahag okkar með eflingu iðnaðar og annarra atvinnugreina, en samt sem áður mun sjávarútvegurinn enn um langt skeið verða okkar aðaltekjulind. Við hljótum því að efla sjávarútveginn af fremsta megni, hvað sem áhættunni líður, en ekki verður hjá því komizt, að þjóðin öll beri þá áhættu að einhverju leyti. Henni verður ekki skellt á einstök fyrirtæki í sjávarútvegi eða einstaka landshluta eingöngu, heldur hlýtur öll þjóðin að taka þátt í henni. Þjóðarbúið allt nýtur góðs af á uppgangstímum sjávarútvegsins og getur ekki án hans verið, þótt móti blási, jafnvel ekki þegar tekjur af útflutningi hrapa á 1–1½ ári um 30%, eins og nú hefur átt sér stað. Þegar þannig er komið, getum við ekki látið eins og ekkert hafi gerzt, eða talið okkur trú um, að slíkt áfall þurfi ekki að snerta aðrar atvinnugreinar en sjávarútveginn einan eða eingöngu þær stéttir, sem að sjávarútvegi starfa. Tap og gróði í sjávarútvegi eru mestu örlagavaldar í efnahagslífi Íslendinga enn sem komið er. Hitt er svo annað mál, að rétt er og skylt, að allt sé gert, sem í okkar valdi stendur, til þess að draga úr hinni miklu áhættu samfara sjávarútvegi, m. a. með því, að við notfærum okkur fengna reynslu, vinnum úr henni, ef svo mætti segja, og reynum á þann hátt að gera okkur grein fyrir þróuninni á hverjum tíma.

Með frv. því, sem hér liggur fyrir, er að þessu stefnt. Þeir aðilar, sem taldir eru upp í 7. gr. frv., hafa allir, hver á sínu sviði, mikla reynslu og þekkingu á málefnum sjávarútvegsins. Margir þeirra hafa í þjónustu sinni þá menn, sem kunnugastir eru einstökum greinum íslenzks sjávarútvegs. Þeir eru þess vegna öllum öðrum líklegri til þess að geta verið ráðgefandi um mótun heildarstefnu í uppbyggingu sjávarútvegsins og í markaðsmálum, eins og frv. þetta gerir ráð fyrir, sbr. 2. gr. þess, sem hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Fiskimálaráð skal vera ráðgefandi um mótun heildarstefnu í uppbyggingu sjávarútvegsins og markaðsmálum, og skal það beita sér fyrir góðri samvinnu allra aðila, sem hlut eiga að máli, með gagnasöfnun, umræðufundum, skýrslugerð, útgáfu- og fræðslustarfsemi og öðrum ráðum, sem líklegust eru talin til þess hverju sinni, að tilganginum með stofnun ráðsins verði náð.“

En til þess að fullt gagn verði af reynslu og þekkingu þeirra aðila, sem um getur í 7. gr. frv., þurfa þeir sameiginlegan vettvang, þar sem safnað er saman á einn stað öllum upplýsingum, sem fáanlegar kunna að vera á hverjum tíma og að gagni mega koma. Einnig þarf að vinna skipulega úr þeim upplýsingum. Sá vettvangur á skv. frv. að vera fiskimálaráð. En það á enn fremur að hafa forgöngu um markaðsrannsóknir og skipulegar aðgerðir til öflunar nýrra markaða fyrir sjávarafurðir, svo og framleiðslu nýrra vörutegunda, skv. 5. gr. frv. Þykir eðlilegast, miðað við hlutverk og tilgang fiskimálaráðs, að sjútvmrh. sé formaður þess, eins og lagt er til í frv. Hjá fiskimálaráði eiga þeir aðilar, sem hyggja á skipakaup, fjárfestingu í fiskiðnaði, markaðsleit eða útflutning sjávarafurða, að geta fengið beztu fáanlegar leiðbeiningar og upplýsingar á hverjum tíma. Hið sama gildir að sjálfsögðu um lánastofnanir og alla aðra aðila, sem hafa með þessi mál að gera. Fiskimálaráð er hugsað að svo komnu máli sem gagnasöfnunar-, upplýsinga- og leiðbeiningamiðstöð, og er augljóst, að í sjávarútvegi Íslendinga, sem nú stendur á tímamótum, er mikil þörf fyrir slíka stofnun.

Í 3. og 4. gr. frv. er nánar skilgreint, að hverju skuli stefnt með starfsemi fiskimálaráðs. Er það fjölbreytni í útgerðinni og eðlilegt jafnvægi milli einstakra greina hennar, og skal að því stefnt að tryggja eftir föngum hráefnisöflun til fiskiðnaðarins með tilliti til arðsemi fiskistofna á hverjum tíma. Þegar ráðið fjallar um uppbyggingu fiskvinnslu- og fiskiðnaðarfyrirtækja, skal það taka tillit til æskilegrar dreifingar fyrirtækjanna, svo og þess, að afkastageta miðist við möguleika til hráefnisöflunar. Enn fremur skal miða að því, að sem mest fjölbreytni verði í vinnslu sjávarafla.

Herra forseti. Ég hef nú drepið á aðalefni þessa frv. Minnir mig, að þegar sama frv. var rætt í hv. þd. á síðasta þingi, hafi verið að því fundið, að hlutverk fiskimálaráðs væri ekki nægilega fast mótað skv. frv. Ráðið þyrfti að hafa meiri fjárráð og meiri völd, að því er tekur til skipulagningar, fjárfestingar og markaðsleitar. Um þetta má að sjálfsögðu deila, og get ég tekið undir það, að víst væri æskilegt, að unnt væri að ætla ráðinu verulegar fjárhæðir, einkum til þess að vinna að markaðsmálunum. Á það má þó benda, að sölusamtökin, sem fulltrúa eiga í ráðinu skv. frv., hafa veruleg fjárráð, og ef mönnum sýnist svo, geta þau samhæft krafta sína á vegum ráðsins, t. d. til markaðsleitar og markaðsrannsókna.

Varðandi skipulagningar- og fjárfestingarmálin er ég fyrir mitt leyti ekki sannfærður um, að neitt betur mundi takast til en raun hefur á orðið, þótt eitthvert ráð eða nefnd hefði svo að segja alræðisvald. Ég hygg, að verulegt frjálsræði sé nauðsynlegt til þess að örva athafnamenn og almannasamtök til þátttöku í útgerð og fiskiðnaði. Á hinn bóginn álít ég, að ekki henti sama frjálsræði í útflutningsverzluninni. Það var t. d. af því dýrkeypt reynsla á sínum tíma, að of mikið frjálsræði stofnaði saltfisk- og saltsíldarmörkuðum okkar í hættu. Var þá stofnað Samband ísl. fiskframleiðenda og sett lög um síldarútvegsnefnd, en þær stofnanir báðar hafa síðan unnið ómetanlegt starf hvor á sínu sviði í útflutnings- og markaðsmálum og náð árangri, sem alls ekki hefði náðst í frjálsri samkeppni. Skammlífi fyrirtækja í sjávarútvegi, sem stafar aðallega af breytilegum afla og markaðssveiflum, eins og ég drap á í upphafi, er slíkt, að stöðugt verða nýir aðilar að taka við, þegar þeir, sem fyrir eru, gefast upp, eins og því miður er allt of algengt. Valdamikil ráð og nefndir geta alveg eins gert skyssur í þessum efnum eins og þau, sem valdalítil eru. Um það höfum við dæmi úr sögu sjávarútvegsins, þótt ég hirði ekki um að nefna þau hér. Aðalatriðið er það, að við lærum af reynslunni og forðumst að endurtaka skyssurnar, þegar þær eru þess eðlis, að við getum rakið orsakir þeirra til hluta, sem við höfum sjálfir vald yfir. Einnig þarf að hafa vakandi auga á nýjum leiðum í fiskveiðum og fiskiðnaði, en á þeim sviðum er um stöðugt vaxandi fjölbreytni að ræða. Hafa möguleikarnir til þess að hverfa að einhverju nýju, þegar hið gamla hefur brugðizt, hvað eftir annað bjargað við sjávarútvegi Íslendinga, og um þessar mundir stöndum við enn á ný á tímamótum í þessu tilliti.

Er þá rétt, að við gerum okkur grein fyrir, að nú getur verið úr vandara að ráða en oft áður vegna gífurlegrar aukningar á fiskveiðum annarra þjóða og aukins framboðs sjávarafurða á þeim mörkuðum, sem við höfum mest selt til. Sú sérstaða, sem við höfum lengi notið, að geta unnið mestallan aflann ferskan, af því að land okkar er eyland og stutt á miðin, er að mestu úr sögunni. Kemur þar til stórútgerð voldugra þjóða á fljótandi verksmiðjum, sem dreifast um öll heimsins höf og vinna úr aflanum glænýjum. Fyrsta svar okkar við vaxandi samkeppni, sem við óhjákvæmilega mætum, hlýtur að vera aukin vöruvöndun og aftur vöruvöndun. Sú fótfesta, sem við þegar höfum á góðum mörkuðum, er í bráðri hættu, ef,við gætum þess ekki að bjóða þar fram eingöngu fyrsta flokks gæðavöru. Við stærum okkur oft af því, að sjómenn okkar séu margfalt meiri aflaklær en fiskimenn nokkurrar annarrar þjóðar í veröldinni. Sú staðreynd er vissulega merkileg og hefur oft fært Íslendingum mikla björg í bú. Til langframa hygg ég þó, að það mundi vera okkur meira virði, ef okkur hefði tekizt að koma því orði á fiskafurðir okkar hjá viðskiptaþjóðum okkar, að engin önnur þjóð í heiminum framleiddi aðrar eins gæðavörur. Nú blasa einnig við ýmis vandamál vegna minnkandi afla, og þeim vandamálum gerum við einnig bezt í að mæta með því að vanda vöruna af fremsta megni og gera hana sem verðmætasta, áður en hún er flutt úr landi. Til þess að þetta verði mögulegt, verður að taka markaðsmálín föstum tökum og skapa aðstöðu til sölu á fullunnum vörum, þar sem þess er kostur, með aðgengilegum kjörum.

Herra forseti. Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um frv., nema tilefni gefist til. Mín skoðun er sú, að stofnun fiskimálaráðs, eins og frv. gerir ráð fyrir, geti komið að miklu gagni fyrir íslenzkan sjávarútveg. Reynslan, sem alltaf er ólygnust, mun skera bezt úr því, og þess vegna mælum við, sem skipum meiri hl. sjútvn. að þessu sinni, með samþykkt frv. Einstakir nm. hafa áskilið sér rétt til að flytja eða fylgja brtt. Verði frv. að lögum á þessu þingi, eins og við vonum, má svo alltaf síðar endurskoða þau lög og betrumbæta.