07.03.1968
Neðri deild: 70. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1704 í B-deild Alþingistíðinda. (1574)

61. mál, Fiskimálaráð

Guðlaugur Gíslason:

Herra forseti. Þegar þetta frv. var hér til umr. s. l. þriðjudag, tel ég mig hafa gert grein fyrir því, hvers vegna ég í hv. sjútvn. taldi mig og lýsti mig andvígan frv., eins og það lá fyrir. Hér þyrfti þess vegna ekki að lengja umr. um það. En nokkur atriði í ræðu hv. 4. þm. Vestf. gefa mér þó tilefni til nokkurra hugleiðinga í sambandi við málið.

Ég benti réttilega á það, þegar málið var hér til umr. s. l. þriðjudag, að lítill áhugi virtist vera fyrir þessu máli hjá þeim aðilum, sem það snertir, þar sem frsm. meiri hl. sjútvn. gat þess, að frv. hefði verið sent öllum 18 aðilum, sem tilgreindir eru í 7. gr. þess, til umsagnar, en aðeins 5 af þessum aðilum hefðu sent svar. Og þegar það er athugað, að enginn aðili, sem hefur með að gera fiskvinnslu eða útflutning, sá ástæðu til að svara sjútvn., verður maður að draga þá ályktun, að a. m.k. hjá þessum aðilum, sem frv. snertir kannske fyrst og fremst, sé enginn áhugi fyrir, að málið nái fram að ganga. Eðlilegt er, að Landssamband ísl. útvegsmanna hafi svarað n. og sent jákvætt álit, þar sem tveir af flm. frv. munu vera í stjórn þeirra samtaka.

Ég hygg þó, að svo lítill áhugi sem virtist vera áður hjá þeim aðilum, sem frv. snertir, mundi hann þó vissulega ekki hafa vaxið, ef þeir hefðu hlustað á ræðu hv. 4. þm. Vestf. s. l. þriðjudag. Hann sagði þar orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

„Ætli það væri ekki léttara í vöfum í sambandi við fiskverðsákvörðun að láta slíka stofnun eina starfa árið um kring og leggja þær fjölmörgu niður, sem eru að reyna að mála fjandann á vegginn, hver á sínu sviði, til þess að láta líta sem verst út frá sínum bæjardyrum séð, fiskkaupendur annars vegar fiskseljendur hins vegar?“

Ég verð að segja það, að þessi afstaða hv. þm., 1. flm. frv., kom mér nokkuð á óvart, vegna þess að það er hvergi hægt að sjá það í frv. sjálfu eða í grg. þess, að einn höfuðtilgangur þess sé að leggja niður samtök þeirra aðila, sem við fiskvinnslu og fiskútflutning hafa fengizt og fást enn í dag. En þessi ummæli verða ekki á annan veg skilin en þetta sé einnig tilgangur með frv. Og hefði þetta legið fyrir, annaðhvort í grg. eða í frv., hygg ég, að þessi samtök hefðu ekki látið sér nægja það að svara ekki tilmælum sjútvn. um umsögn, heldur hefðu þá komið fram frá þessum aðilum bein mótmæli.

Í öðru lagi kom fram hjá hv. ræðumanni, 1. flm. málsins, annað atriði, sem ég tel að þurfi nánari skýringar við. A. m. k. gat ég hvergi fundið það út úr grg. frv. eða frv. sjálfu, að þetta væri einnig tilgangur með flutningi málsins hér á hinu háa Alþingi. En hv. 1. flm. sagði orðrétt:

„Ég hef séð og ég veit um mörg dæmi þess, að það hafi verið byggðar fiskverkunarstöðvar á litlum stöðum sem stórum, þar sem nóg var af fiskverkunarstöðvum fyrir. Ég hygg, að það þurfi að gera hér breytingu á, og það er ekki vanþörf á því að stofna til slíks ráðs, eins og þetta frv. gerir ráð fyrir.“

Ég verð að segja, að ef maður les 2., 3. og 4. gr. frv., þar sem fiskimálaráði er ætlað að vera ráðgefandi um mótun heildarstefnu í uppbyggingu sjávarútvegsins, fiskimálaráði er ætlað að gera ályktanir í þessu sambandi, ef það er kannske annar aðaltilgangur frv. að stofna ráðið til þess að stöðva uppbyggingu í sjávarútvegi í landinu, þá er það nokkuð annað en hv. þm. hljóta að geta lesið út úr frv. eða grg. þess. Og ég verð að segja, að ég er nokkuð undrandi yfir því, að þetta skuli hafa komið fram hjá hv. 1. flm. þessa máls, að eftir því, sem hann hefur sagt hér í þessum ræðustól, þá virðist tilgangurinn í veigamiklum atriðum vera allt annar en málið sjálft gerir ráð fyrir eða fram kemur í grg. þess, og þm. hlýtur að vera ætlað að meta málið eftir því, sem þar kemur fram.

Nú skal ég viðurkenna það, að margt hefur farið öðruvísi í uppbyggingu sjávarútvegsins en við nú í dag mundum hafa óskað. En það er með það eins og annað, það er alltaf hægt að vera vitur eftir á. Og ég er alveg sannfærður um það, þó að fiskimálaráð hefði verið stofnað hér fyrir 10 árum og haft það markmið, sem efni frv. gerir ráð fyrir, að sú þróun, sem orðið hefur, hefði orðið nákvæmlega eins, þótt fiskimálaráð hefði þá verið til. Það voru allt aðrar og það voru eðlilegar orsakir, sem lágu til þess, að fiskiðnaðurinn þróaðist í þá átt eins og hann gerði, þó að, eins og ég segi, við nú í dag getum séð eftir á, að það hefði kannske mátt eitthvað öðruvísi fara. Ég hygg, að þeim mönnum, sem fylgzt hafa með þessu, sé þetta öllum ljóst. Það virðist vera, að menn, sem litla grein hafa gert sér fyrir þróun málanna, telji sér það nú eitthvað hagkvæmt að koma hér fram og benda á misfellur, sem orðið hafa, og ætla sér að fá Alþ. til þess að stofna fjölmenna nefnd eða fjölmennt ráð til þess að taka þar við málunum. Ég er íbúi einnar af stærstu verstöðvum landsins, hef haft góða aðstöðu til þess að fylgjast með þessu og hef gert það og tel mig vera þar nokkuð dómbæran.

Á þeim tíma, sem hraðfrystiiðnaðurinn byggðist mest upp, var um mun meira aflamagn á vetrarvertíð að ræða heldur en nú er. Ég þekki það úr þeirri verstöð, sem ég tilgreindi hér áðan, að á vetrarvertíð var þá mjög almennt, að kæmu í land frá 1. jan. til 11. maí um 45 þús. tonn og komu 30 þús. tonn af þessum 45 þús. tonnum í land frá miðjum marz og fram í byrjun maí, þ.e. á rúmum 1½ mánuði. Það lá þá alveg ljóst fyrir, að hraðfrysting á fiski var miklu arðvænlegri vinnsla en söltun. Það lá ljóst fyrir á þessum tíma, auk þess sem það vita allir, sem þessum málum eru kunnugir, að vinnsla fisks í hraðfrystingu gefur mun meira í vinnulaun, mun meira í gjaldeyristekjur heldur en ef fiskurinn er saltaður. Ég spyr nú: Er það nokkuð óeðlilegt, þó að hraðfrystihúsaeigendur á þessum tíma hafi farið í það að stækka vinnslustöðvar sínar, stækka frystikerfin til þess að taka á móti þeim afla, sem þeim barst í hendur og þeir voru búnir að skuldbinda sig fyrir fram til þess að kaupa af útgerðarmönnum og sjómönnum? Ég segi, að við þetta hafi ekkert verið óeðlilegt. Og ég fullyrði alveg, að þjóðfélagslega séð var þetta mjög hagstæð þróun á þeim tíma og hraðfrysting gaf þá iðulega, a. m. k. í þessari verstöð, það vel af sér, að það var mjög eðlilegt, að menn, sem höfðu þennan atvinnurekstur á milli handa og höfðu lagt fjármagn í hann, vildu byggja hann upp sem hagkvæmastan, bæði fyrir sjálfan sig og þá aðila, sem þeir keyptu hráefnið af. Við þetta bættist einnig á þessum tíma, að þá kom til frysting á síld, sem lítið hafði verið um að ræða áður. Það vita allir, sem nokkuð þekkja inn á hraðfrystiiðnað, að hann útheimtir mjög stór frystitæki. Það er fljótlegt að pakka síldinni, fljótlegt að vinna hana undir frystinguna, og ef afköst áttu að vera nokkuð sem heitir, urðu hraðfrystistöðvarnar á þessum tíma verulega að bæta við sig frystitækjum. Það getur vel verið að við nú í dag segjum, að það hefði verið bezt að láta þetta allt saman eiga sig, hafa bara „status quo“ í þessum málum og láta síldarfrystinguna fara forgörðum og láta bolfiskinn fara í salt að mestu leyti, en ekki í hraðfrystingu. Þá gætu þeir menn, sem núna eru að tala um nýtingu hraðfrystihúsanna, kannske haft hærri tölur að vinna úr en þeir nú hafa. En ég tel, að það þurfi að skoða það mjög vel, þegar menn eru að tala um nýtingu hraðfrystihúsanna, ef athuguð er sú aðstaða, sem þau hafa verið í og ég segi: vonandi komast í aftur, ef hráefnið til þeirra eykst. Ég tel það hér um bil jafnvitlaust, en þó ekki eins og ef farið væri hér á Alþ. að tala um nýtingu sláturhúsanna, sem allir vita að fá sitt hráefni á ákveðnum tíma og eru svo ekki í vinnslu annan tíma ársins. Þetta er sambærilegt að því leyti, að í öllum verstöðvum hér sunnanlands og suðvestanlands koma, ég segi hiklaust 2/3 hlutar af hráefninu kannske á 1½ til í hæsta lagi 2 mánuðum. Og ef frysting á að eiga sér stað í nokkrum mæli og frystur fiskur að verða útflutningsvara, sem þjóðfélagið getur eitthvað byggt á, verða auðvitað frystitækin og frystistöðvarnar að vera stærri en nauðsynlegt er yfir þann tíma annan sumarið og haustið, þegar mun minna og sáralítið hráefni berst að.

Ég segi hiklaust, að það, sem menn nú telja ofvöxt í hraðfrystiiðnaðinum, stafar af því, að þetta var bara eðlileg ráðstöfun á þeim tíma, meðan hráefnið var miklu meira á vetrarvertíðinni og þegar við bættist síldarfrystingin yfir haustið og framan af vertíð. Og ég spyr: Hvernig hefði farið hérna í Reykjavík og hvernig hefði farið víða í öðrum verstöðvum, þegar Faxaflói var fullur af síld yfir haustmánuðina og vetrarmánuðina, og hvernig hefði farið t. d. í Vestmannaeyjum þar sem þá var engin síldarbræðsla, hefðu ekki hraðfrystihúsin verið þess megnug og búið sig beint undir það að taka við þessari vöru til frystingar?

Þegar allt þetta er skoðað, tel ég það mjög hæpið, ef það virkilega er meining 1. flm. þessa máls að ætla nú að fara að leggja allar þessar stofnanir niður. sem að þessum málum hafa unnið, byggt upp fiskiðnaðinn hér í landinu, og setja allt undir eitt allsherjarráð, samansett af 18 aðilum, sem fyrir fram er vitað, að þar mundi í mörgum tilfellum hver höndin verða upp á móti annarri í afgreiðslu ýmissa mála.

Þá kem ég að því, sem hv. 1. flm. frv. kom inn á í sambandi við það, að það ætti að vera eitt af verkefnum fiskimálaráðs að stöðva uppbyggingu í þessum iðnaði, hann á við í bæði bátaflotanum og fiskiðnaðinum, en ég tel það alveg óþarfa að vera að stofna 18 manna ráð til þess að gera slíkar ráðstafanir. Það er fyrst og fremst, að ég hygg, að það sé almennt lítill áhugi um landið núna, að menn vilji leggja fjármagn í fiskvinnslustöðvar, og svo hitt, ef einhver er þannig sinnaður, að hann vilji gera þessa hluti, eru vissulega til aðilar, sem geta passað upp á að fara þar ekki út í neinar öfgar eða vitleysur. Ég hygg, að enginn eða fáir séu það fjáðir, sem vildu leggja fjármagn í slíkt fyrirtæki, að þeir þurfi ekki að leita til stofnlánadeildar sjávarútvegsins, sem lánar eftir vissum reglum og metur, hvort hún telur það eðlilegt eða ekki. Og flm. gat þess einnig í ræðu sinni, að þarna ríkti nokkur glundroði, ein stofnun afgreiddi lán, þegar önnur synjaði, og annað slíkt, þetta ræki sig sem sagt hvað á annars horn í þessu máli. Það er um þrjá aðila að ræða, sem menn leita til, ef þeir eru með slíkt fyrirtæki í huga. Það er fyrst og fremst stofnlánadeild sjávarútvegsins, það er atvinnuleysistryggingasjóður, sem í mörgum tilfellum hefur greitt mjög vel fyrir uppbyggingu atvinnufyrirtækja, og fiskimálasjóður. Ég segi, að það þarf ekki að stofna 18 manna fiskimálaráð til þess, að þessir þrír aðilar, sem eru undirstöðuaðilarnir í lánsfjármöguleikum fyrir þá, sem í slíkan iðnað vilja leggja, — það þarf ekki að stofna neitt 18 manna ráð til þess að dæma þarna um. Þessir aðilar geta ákaflega vel með lítilli fyrirhöfn borið sig saman, hvort eðlilegt sé að lána þessum eða hinum, sem leggur inn lánsumsókn til þessara stofnana. Og ég segi um atvinnuleysistryggingasjóð og fiskimálasjóð, að það er ákaflega handhægt fyrir þá að leita upplýsinga hjá stofnlánadeild sjávarútvegsins, hvort hún telji eðlilegt, að fjármagn sé sett í fiskvinnslustöð á þessum stað eða bátakaup á þessum stað og annað slíkt. En ég hygg, að fram hjá fiskveiðasjóði og stofnlánadeild sjávarútvegsins komist fáir, sem vilja leggja í skipakaup eða fiskvinnslustöðvar.

Hann kom einnig inn á það, eins og ég las hér áðan, hv. 1. flm. kom inn á það í sinni ræðu, að það hefðu á ýmsum stöðum á landinu, bæði smærri og stærri stöðum, nú hin síðustu ár, verið byggð fiskverkunarhús, sem hann taldi óþarfa, að gert hefði verið. Ég segi: allt þetta verður að skoðast betur, og þeir menn, sem slá slíku fram, verða að hafa kynnt sér málin betur eða verða a. m. k. að hafa kynnt sér málin til þess að verða dómbærir að tala um þetta.

Ég þekki þetta úr mínu heimahéraði. Þar hafa verið nú á síðustu árum — ég man ekki, hvort það er á 6, 8 eða 10 árum — byggðar fjórar litlar fiskverkunarstöðvar. Tvær þessar verkunarstöðvar eru aðeins söltunarstöðvar, en tvær þeirra eru með mjög lítil hraðfrystikerfi. Ef aðeins er litið á þessa hlið málsins, er réttilega hægt að benda á það, að í Vestmannaeyjum hafi verið fjögur hraðfrystihús og þau hafi auðvitað getað annað þeim afla, sem þar bærist á land. En það er allt annað, sem þarna liggur á bak við og hv. 1. flm. frv. hefur ekki gert sér grein fyrir. Þessar 4 litlu stöðvar, sem þarna hafa risið á undanförnum, eins og ég segi, 6, 8 eða 10 árum, fluttu inn samtals 6 nýja báta í héraðið. Og þær hafa ekki tekið eitt einasta kg af hráefni frá hraðfrystihúsunum, sem fyrir voru. Mér eru þessi mál það vel kunnug, að ég fullyrði alveg, að 5 þessara báta hefðu ekki komið í bæinn, ef þessar verkunarstöðvar hefðu ekki verið byggðar, því að stöðvarnar eru byggðar til þess eins að vinna úr hráefni þessara báta, sem fluttir voru inn í byggðarlagið samtímis. Og ég vil nú spyrja: Er það ekki eðlileg þróun í einu byggðarlagi, einu sjávarplássi, að menn hafi dug í sér og aðstöðu til þess að ráða því að flytja inn fiskiskip í byggðarlagið og ráða því að vinna úr eigin afla? Og ég get sagt það, sem meira er, að a. m. k. 3 af þessum bátum hafa ekki aðstöðu til annars en salta þann fisk, sem söltunarhæfur er. Þeir hafa síðan komið í bæinn, lagt hráefni, svo að þúsundum tonna skiptir, til hraðfrystistöðvanna, þannig að þeir hafa ekki orðið þeim fiskiðjufyrirtækjum, sem fyrir voru, neitt til trafala, eða það hafi skeð þar, að hver væri farinn að drepa annan, eins og hv. 1. flm. sagði, heldur hafa þeir orðið til þess að útvega stöðvunum, sem fyrir voru, verulegt hráefni yfir þann tíma, sumarið og haustið, þegar stöðvarnar vantaði mest hráefni.

Það eru þessar aðstæður, sem einnig verður að skoða, þegar menn eru að gagnrýna það hér, að einhvers staðar í einhverri verstöð hafi verið byggð ný fiskverkunarstöð. Ég segi bara: guð hjálpi okkur, ef við ættum að fara að mynda 18 manna fiskimálaráð hér á Íslandi til þess eins, að einstaklingum, sem vildu ráðast í útgerð eða ráðast í byggingu fiskverkunarstöðva, væri meinað það. Það er stefna a. m. k., sem ég fæst ekki til að fylgja. Og ég er sannfærður um það, að nákvæmlega sama er fyrir hendi annars staðar. Ég þekki þar ekki til, en ég hef ekki ástæðu til að ætla annað en sama sé fyrir hendi annars staðar, það séu menn, sem eiga bátana sjálfir, flytja þá kannske inn í sín byggðarlög, sem vilja hafa aðstöðu til þess að verka sinn afla að því marki, sem þeir geta gert. Ég tel síður en svo nokkuð óheilbrigt við það, og ég tel það hagstætt þjóðfélagslega séð, að þetta sé gert, kannske í smærri einingum en nú er, og fyrir byggðarlögin, þar sem þetta er, hefur það án efa orðið til mjög góðs.

Ég skal nú ekki tefja þessar umr. mikið. Eins og ég sagði í upphafi, var ég búinn að gera grein fyrir afstöðu minni til málsins og hvers vegna ég væri því andvígur, svo að ég þarf ekki að koma neitt frekar inn á það. En það voru aðallega þessi tvö atriði, sem komu fram hjá hv. 1. flm. frv., sem ekki er að finna, hvorki í frv. né grg. þess, og eru í beinni andstöðu við efni frv., eins og það liggur fyrir, því að eins og ég hef sagt áður: það er ekki hægt að finna það út úr frv., að til standi eða meiningin með því sé að leggja niður þau fyrirtæki sjávarútvegsins eða þær stofnanir sjávarútvegsins, sem nú eru til. Og það er hvergi heldur hægt að finna út úr frv., nema síður sé, að tilgangur þess sé einnig að spyrna við því, að ráðizt sé í ný fyrirtæki eða ráðizt kannske í kaup á bátum.

Ég kom í ræðu minni hér s. l. þriðjudag nokkuð inn á þá stefnu, sem ég taldi að lægi alveg ljós fyrir, bæði hjá Alþ. og þeim aðilum, sem með þessi mál fara, en það er aukin öflun hráefnis til fiskiðnaðarins. Ég sagði það þá og segi það aftur, að eitt af höfuðvandamálum fiskiðnaðarins hafi verið sá samdráttur, sem orðið hefur í öflun hráefnis á undanförnum árum. Ég lít þetta mál ákaflega alvarlegum augum, ekki einasta vegna fiskiðnaðarins sjálfs, heldur ekkert síður vegna þeirra sjómanna, sem fyrir eru, og kannske aðallega vegna þess verkafólks, sem byggt hefur afkomu sína á þeim möguleika, að fiskiðnaðarstöðvar á hverjum stað úti um hinar dreifðu byggðir landsins hefðu sem mest og sem jafnast hráefni.

Ég benti á það í ræðu minni s. l. þriðjudag, að ég teldi næsta óhjákvæmilegt þegar á þessu þingi að marka einhverja nýja stefnu í þessum málum. Ég tel það liggja alveg ljóst fyrir, að það sé kominn tími til og þó að fyrr hefði verið, að teknar væru til athugunar þær ráðstafanir, sem gerðar voru með útfærslu fiskveiðilandhelginnar í 12 sjómílur, að við hefðum ekki einasta verið að ýta af okkur og bægja frá veiðisvæðum okkar erlendum skipum, heldur hlýtur það að hafa verið meining okkar á þeim tíma, að við stefndum að því með útfærslunni að nýta þau veiðisvæði, sem innan þessara marka væru, á sem arðvænlegastan og hagkvæmastan hátt. Um þetta hafa verið deilur hér á Alþ. áður. Einstakir þm., bæði ég og aðrir, hafa gert tilraun til þess að fá þarna breytta stefnu, en það hefur ekki enn þá haft hljómgrunn. En ég segi bara: það verður að koma að því, ef ekki á að skapast verulegur samdráttur í fiskiðnaðinum, þjóðfélaginu öllu til óhagræðis og aðallega því fólki, sem býr úti um hinar dreifðu byggðir landsins, þá verður að skapa þarna nýja stefnu, og ég vænti þess, að þetta mál komi til umr., áður en langt um líður, hér í þessari hv. deild.

Ég skal svo ekki, herra forseti, fjölyrða meira um þetta mál, ekki í bili, er nú vist búinn að tala mig dauðan í málinu eins og sagt er. En ég vil að lokum benda á það, að ég tel, að það, sem að sé stefnt með frv., stefni ekki í rétta átt, sé ekki til hagræðis fyrir sjávarútveginn, nema síður sé. Og ég segi alveg hiklaust, að ef framkvæmdin á því ætti að vera eins og 1. flm. þess hefur lýst þessu hér, er þar um hættulegt mál fyrir sjávarútveginn í heild að ræða. Og ég segi alveg hiklaust, að Alþ. á ekki að samþykkja frv., eins og það liggur fyrir, og 7. gr. þess sérstaklega. Ég tel hana hreinlega, — ég veit ekki, hvað á að kalla það: kokkteil, sem Alþ. á alls ekki að búa til.