19.03.1968
Neðri deild: 78. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1720 í B-deild Alþingistíðinda. (1595)

164. mál, byggingarsjóður aldraðs fólks

Flm. (Pétur Sigurðsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja ásamt hv. 9. landsk. þm. frv. til l. um breyt. á l. um byggingarsjóð aldraðs fólks. Með þeirri breyt., sem við leggjum til að verði gerð á l. þessum, er ætlazt til, að sjóði þessum verði veitt heimild til að lána til byggingarframkvæmda, ekki aðeins til íbúða fyrir aldrað fólk, heldur og til dvalarheimila. Í niðurlagi grg., sem með frv. fylgir, segjum við, með leyfi forseta:

„En af þeirri reynslu, sem fyrir liggur, og þeirri miklu þörf, sem nú er á, að hafizt verði handa um byggingu nokkurra dvalarheimila fyrir aldrað fólk, er það álit flm., að af takmörkuðu fé Byggingarsjóðs aldraðs fólks eigi ekki síður að veita fé til byggingar slíkra nútímalegra dvalarheimila af hentugri stærð með réttri staðsetningu en til einstakra íbúða, og af þeim sökum er frv. þetta flutt.“

Það má segja, að það séu að vísu fleiri ástæður fyrir flutningi þessa frv. en sú, sem kemur fram í niðurlagi grg., að brýn þörf sé á stórátaki í byggingarframkvæmdum fyrir aldrað fólk hér á landi. Þetta frv. miðar líka að því að nýta betur það takmarkaða fé, sem fyrir hendi er til slíkra bygginga. En á því er enginn vafi, að með byggingu dvalarheimila af hentugri stærð nýtist það fé, sem fyrir hendi er, miklu betur heldur en mundi verða með því að reisa einstakar íbúðir. Fyrir þessu eru rök, sem ég sé ekki ástæðu til að fara út í að þessu sinni, en bendi þó hins vegar á nýrri dvalarheimili hér á landi og þó sérstaklega hér í Reykjavík og einnig á einstakar íbúðir, sem einnig hafa verið byggðar hér í Reykjavík fyrir aldrað fólk.

En það eru fleiri ástæður, sem við teljum, að réttlæti þessa breytingu. Við teljum t. d. að fenginni reynslu þessara l. fyrirsjáanlegt, að á næstu árum séu það ekki nema Reykjavík og e. t. v. Akureyri, sem geti notað sér lánsmöguleika úr sjóðnum. Eins og er hefur aðeins ein lánsumsókn komið til sjóðsstjórnar frá Reykjavíkurborg, sem reið á vaðið með að byggja slíkar íbúðir, og þeir hafa þegar byggt 22 íbúðir hér í Reykjavík og sótt um lán úr sjóðnum til þess að standa undir hluta af byggingarkostnaði þessara bygginga. Og eins og við höfum tekið fram í grg. frv., erum við á engan hátt að leggja stein í götu þess, að lán til slíkra bygginga verði veitt áfram úr sjóði þessum, enda má segja um þessa einu lánsumsókn, sem komið hefur til sjóðsins, að hún falli í einu og öllu undir tilgang l., eins og hv. Alþ. gekk frá þeim á sínum tíma, og við teljum rétt, að slíkur möguleiki sé áfram fyrir hendi hjá sjóðnum að lána til slíkra íbúðabygginga. Eins og ég hef þegar tekið fram, er það ljóst, að slíkar byggingar hentugra dvalarheimila eru ódýrari per einstakling en einstakar íbúðir og þess vegna miklu meiri möguleikar fyrir einstök sveitarfélög og annan félagsskap einstaklinga, s. s. góðgerðarfélög, til þess að ráðast í slíkar byggingar, sem hentuðu þá viðkomandi sveitarfélögum og e. t. v. landsvæðum.

Það er enginn vafi á því, að sú stefna er skynsamleg, sem þegar hefur verið mótuð, að á ákveðnum stöðum í þéttbýliskjörnum allt í kringum landið verði komið á fót læknamiðstöðvum, sem síðan reyni að sjá um læknisþjónustu, sem nauðsynleg er fyrir landsvæði, sveitir og strjálbýli í kringum þessar stöðvar, og að fullkominni þjónustu verði náð með fullkominni samgöngutækni. Ég tel persónulega og ég held, að allir hljóti að viðurkenna það, að æskilegast sé þá að í sambandi við slíkar læknamiðstöðvar rísi dvalarheimili af misjafnri stærð, að sjálfsögðu eftir þörfinni, þar sem viðkomandi vistmenn og konur geti átt kost á því að njóta læknisþjónustu, þegar þörf er á. Inn í þetta kemur einnig önnur mynd, en það er framlag einstaklinganna. Enn þá hefur það opinbera ekki treyst sér til þess að leggja fé fram í þessu skyni. Það má segja, að til ráðstöfunar til bygginga fyrir aldrað fólk sé ekki annað en það fé, sem hefur skapazt vegna happdrættis Dvalarheimilis aldraðra sjómanna, og svo framlög sveitarfélaga og einstaklinga, söfnunarfé og gjafafé. Ég held einmitt að fenginni reynslu undanfarinna ára, að það sé mjög nauðsynlegt að reyna að virkja þann mikla kraft, sem hægt er að fá út úr einstaklingum og félögum í þessu skyni. Ég þekki það af eigin raun, að það eru gífurlegar fjárhæðir, sem geta komið inn í slíka starfsemi, ef einhver hjálp kemur annars staðar frá, og það er kannske m. a. þess vegna, að þetta frv. er flutt. En það liggur fyrir nú þegar á nokkrum stöðum í kringum landið, að fé mundi fást frá einstökum félögum, sem þegar eru fyrir hendi, og þeir hinir sömu mundu ganga glaðir til þess verks að safna fé til slíkra bygginga, ef þeir fengju einhverja utanaðkomandi aðstoð. Og það er, eins og ég hef þegar tekið fram, m. a. vegna þess, að þetta frv. er flutt.

Það má kannske líka segja sem svo, að það sé réttlætismál, þegar aðeins er um að ræða að skipta þessu takmarkaða fé, sem kemur inn af tekjum happdrættis Dvalarheimilis, aldraðra sjómanna, að sá hluti, sem skapast eða verður til úti um land vegna sölu happdrættismiða, renni þangað aftur, ef hann getur orðið að því liði, sem ætlazt hefur verið til og ætlazt er til með bæði happdrættinu sjálfu og Byggingarsjóði aldraðs fólks.

Ég held, að það sé eðlilegt, um leið og þessu frv. er fylgt úr hlaði, að það sé gefin nokkur skýring á því, hvert ástandið sé í málefnum aldraðra, ekki sízt vegna þess, að þegar þessi mál hefur hér borið á góma, hafa þau alltaf mætt fyllsta skilningi og stuðningi hv. alþm., þótt svo, eins og ég hef þegar tekið fram, Alþ. hafi ekki enn þá séð sér fært að leggja fram sérstakar fjárupphæðir í þessu skyni. Í dag eru hér á landi liðlega 15 þús. manns, sem eru 67 ára og eldri. En samkv. könnun, sem hefur verið framkvæmd hér á landi og reyndar víðar, en þó aðallega hér, er reiknað með, að um 10% af þessum hóp þurfi á elliheimilisvist að halda. Þegar við svo horfum á það, að í dag eru vistpláss á elliheimilum aðeins 1050 að tölu, þá sjáum við, hve mikil þörf er nú þegar á því að hefjast handa í þessu efni eins og reyndar bæði félög og sveitarfélög hafa hugsað sér að fara út í og hafa undirbúið á undanförnum árum. En þessi skipting er þannig, að elliheimilið Grund og elliheimilið Ás, sem er í Hveragerði og er rekið af elliheimilinu Grund í samráði við sýslufélögin á Suðurlandi, a. m. k. Árnessýslu, þessi elliheimili rúma 363 vistmenn, Sólvangur í Hafnarfirði 130, Hrafnista 370, Skálholt í Vestmannaeyjum 14, elliheimili Ísafjarðar 23, Kristneshæli, Eyjafirði 30, elliheimili Akraness 14, elliheimili Akureyrar 30, elliheimilið Skjaldarvík 40, Blómvangur, Keflavík 14, ellideildin Blönduósi 12 og Fellsendi í Dalasýslu 10, eða samtals 1050 vistmenn, sem pláss er til fyrir nú þegar, en þörfin talin vera fyrir 1500 manns.

Samkv. þessu vantar tæp 500 vistpláss fyrir aldrað fólk hjá okkur í dag hér á landi. En samhliða þessu verðum við að horfa á mjög öra aukningu í þessum aldursflokkum og kannske örari en í flestum öðrum. En ef við miðum við árið 1965, verður aukningin þessi: Árið 1970 12.4%, 1975 23.5%, 1980 34.6% og 1985 43.5%. Aðeins af þessum tölum er augljóst, að stórlega þarf að auka aðstoð við aldraða í stað þess að draga úr henni, og ég er sannfærður um, að auk þess, sem bæði ég og meðflm. minn óskum eftir því, — að þetta frv. nái skjótlega fram að ganga, þannig að það fé, sem fyrir hendi er í sjóðnum, geti þegar nú á næstu árum orðið til stuðnings þessum málum, þyrfti að efla Byggingarsjóð aldraðs fólks mjög mikið.

Ég sé ekki ástæðu til þess á þessu stigi að hafa mörg fleiri orð um þetta frv. Í grg. er tekið fram, hve mikið fé sé til í sjóðnum og hvað sé væntanlegt í hann nú alveg á næstunni, og ég mundi segja það af þeirri reynslu, sem ég hef af þessum málum, að ef þetta frv. yrði samþ. á þessu þingi, gætum við nú þegar orðið a. m. k. 2 ef ekki 3 eða 4 stöðum úti á landi til mikillar hjálpar við fyrirhugaðar byggingar þeirra, auk þess sem við mundum leysa mikið fé, sem nú þegar er bundið á þessum hinum ýmsu stöðum, en mundi verða látið renna til slíkra heimila, og einnig það, að við mundum fá sterk félagasamtök og fjölmarga einstaklinga til hjálpar við að reisa þessi heimili. Við höfum fyrir okkur það stórkostlega átak, sem gert hefur verið hér af sjómannafélögunum í Reykjavík og Hafnarfirði, og ég er sannfærður um, að það er ekki minni ástæða til þess að ætla, að slíka hjálp mætti einnig fá af stöðum bæði norðanlands, austan og vestan, ef Alþ. ber gæfu til þess að samþ. þetta frv.

Herra forseti. Ég legg til, að þegar þessari umr. er lokið, verði frv. vísað til 2. umr. og heilbr.- og félmn.