19.03.1968
Neðri deild: 78. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1723 í B-deild Alþingistíðinda. (1596)

164. mál, byggingarsjóður aldraðs fólks

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. Ástæðan til þess, að ég kvaddi mér hljóðs, er sú að ég vildi lýsa stuðningi mínum við þetta mál og þakka hv. flm. þess fyrir það framtak að koma með þetta mál hér inn á hv. Alþ. Ég vil minna á það, að þegar l. um Byggingarsjóð aldraðs fólks voru sett á Alþ. 1963, lýsti ég þeirri skoðun minni, að þau l. væru nokkuð takmörkuð og þyrfti að koma inn í þau möguleikum til þess að lána til dvalarheimila aldraðs fólks. Hæstv. þáv. félmrh., Emil Jónsson, taldi, að það gætu e. t. v. orðið möguleikar á að veita lán til slíkra bygginga, ef fjármagn sjóðsins yrði það mikið, þó að byggingar, sem í l. voru tilgreindar, gengju fyrir með lánsfé. Það er því mjög gott, að nú skuli vera fram komið frv., sem gerir þennan möguleika ótvíræðan og, eins og hv. 1. flm. sagði, skapar möguleika til þess að nýta þetta fé betur en áður hefur verið og enn fremur möguleika til þess að ná til fjármagns, sem ekki væri annars kostur á að ná til, vegna þess að þeir aðilar, sem hafa hug á byggingum, hafa ekki haft möguleika á því að koma þeim í framkvæmd vegna fjármagnsleysis. En mér er það fullkomlega ljóst, að það er víða áhugi á því að afhenda fé til elliheimila eða jafnvel búið að gefa til þeirra, ef möguleikar væru á framkvæmdum. Og ég þekki dæmi um það úr minni heimabyggð. Þar var það nú nýlega, að gamall maður, einn af erfingjum Þorsteins heitins Jakobssonar frá Hurðarbaki, gaf til dvalarheimilis í Borgarfirði, sem stefnt er að að byggja þar, 100 þús. kr. Og ég er sannfærður um, að fleiri mundu á eftir koma, ef möguleikar yrðu til að hefja byggingu þar.

Það er rétt, sem hv. 1. flm., 10. þm. Reykv., tók fram, að Alþ. hefur jafnan sýnt þessu máli velvilja og skilning. Það var afgr. hér þál. 1958, sem var undanfari þeirra l., sem voru sett 1963, og á síðasta Alþ. var afgreidd þáltill. til athugunar á þessu máli, og sú athugun getur farið fram þrátt fyrir það, þótt þessi breyting væri gerð.

Ég er sannfærður um, að það er rétt, sem kom fram hjá hv. 10. þm. Reykv., að ef þessi breyting yrði gerð nú á þessu þingi, sem ég vonast til að verði, mundi þegar á þessu ári verða hafin framkvæmd við byggingu dvalarheimila, m. a. í Borgarfirði. Ég vil undirstrika það, að hér er gott mál á ferðinni, og ég treysti því, að hv. Alþ. hraði afgreiðslu þess, svo að það megi verða að l. á þessu þingi.