19.03.1968
Neðri deild: 78. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1724 í B-deild Alþingistíðinda. (1598)

164. mál, byggingarsjóður aldraðs fólks

Ásgeir Pétursson:

Herra forseti. Það er vissulega mikill áhugi ríkjandi á ýmsum félagslegum málum hér á Alþ. og raunar meðal þjóðarinnar og það er ákaflega lofsvert t. d., hvað mikið er búið að gera í æskulýðsmálum. En það má ekki líta fram hjá því, að sú kynslóð, sem nú er að skila af sér, gamla fólkið, hefur byggt upp þetta góða þjóðfélag, sem æskan nú tekur við, og við stöndum þess vegna í vissri skuld gagnvart þessu aldraða fólki. Mér finnst þess vegna lofsvert, að nú skuli vera gerðar ráðstafanir hér á Alþ. með flutningi þessa frv., sem miða að því að gera mönnum kleift úti á landsbyggðinni að koma einnig þar upp elliheimilum.

Í þeirri heimabyggð, sem ég bý í, hefur þetta mál verið til umræðu manna á meðal nú um nokkurt skeið og hafa aðilar verið þar sammála um, að enn sem komið er væru ekki tök á því að koma slíku elliheimili upp, og víst er sennilegt, að með samþykkt þessa frv. sé stefnt í þá átt að gera okkur það kleift.

Ég vil í þessu sambandi nefna það, að sýslunefndirnar, sem hljóta óhjákvæmilega að verða að leggja þessu máli lið, leggja því fé, hafa ákaflega takmarkaðar tekjur, en á hinn bóginn hafa með löggjöf og á ýmsan annan hátt verið færð út þau verkefni, sem sýslusjóðum ber að sinna, enda þótt þeim hafi ekki verið séð fyrir nýjum tekjustofnum til þess að mæta slíkum útgjöldum.

Það er alveg rétt, sem fram kom hér áðan, að einstaklingar hafa margir hverjir mikinn áhuga á þessu máli, og ég get einmitt lýst svipuðu atviki og hér kom fram í ræðu hv. 3. þm. Vesturl., að til mín kom nýlega aldraður maður og lýsti yfir því, að ef hann sæi fram á það, að unnt væri að koma upp elliheimili í Borgarfirði, mundi hann gefa hluta af eignum sínum til þess. Og ég er viss um það, að hann er ekki sá eini, sem þannig hugsar.

Ég vil fyrir mitt leyti lýsa því yfir, að ég tel mjög stefnt í rétta átt hér, og vona, að þetta frv. nái fram að ganga og þannig verði sýnt í verki, að mikils er metið það verk, sem það fólk, sem nú er að verða aldrað, hefur skilað þessari þjóð, þessu landi.