25.03.1968
Neðri deild: 81. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1725 í B-deild Alþingistíðinda. (1600)

164. mál, byggingarsjóður aldraðs fólks

Frsm. (Ásgeir Pétursson):

Herra forseti. Þau lög, sem nú gilda um Byggingarsjóð aldraðs fólks, eru frá árinu 1963, og kjarni þeirra laga er sá, að tekjum af happdrætti DAS skuli varið til lánveitinga til íbúðabygginga fyrir aldrað fólk. Frv. það, sem flutt er nú til breyt. á þessum l., stefnir í meginatriðum að því að færa út og gera víðtækara hlutverk byggingarsjóðs, þannig að auk lánveitinga til íbúðabygginga megi einnig lána úr sjóðnum til dvalarheimila fyrir aldrað fólk.

Heilbr.- og félmn. varð sammála um það að mæla með því við hv. d., að frv. þetta verði samþ. óbreytt. Það virðist vera ljóst, að meginröksemdin fyrir réttmæti þess að fallast á þessa breyt. er fólgin í því, að núverandi reglum er augljóslega of þröngt skorinn stakkurinn, bæði að því er varðar viðhorf til sveitar- og sýslufélaga og til einstaklinganna sjálfra. Það sést bezt á því, að því fer fjarri, að smá sveitarfélög eða sýslufélög geti leyst vanda aldraðs fólks að því er heimilishald, umönnun og öryggi varðar með því að byggja yfir það íbúðir. Í strjálbýlinu kemur hér einnig til athugunar gjaldþol sveita- og sýslusjóða, en um þá síðarnefndu má segja, að það hafi verið bætt á þá sjóði ýmsum útgjöldum, bæði með l. og með öðrum hætti, án þess að þeim væri séð fyrir nýjum tekjustofnum til þess að mæta þeim útgjöldum. Að vísu mun það mál nú vera í athugun hjá n., sem hæstv. ríkisstj. hefur skipað. En þeir öldruðu karlar og konur, sem einkum þurfa á því að halda, að þeim sé séð fyrir skjóli, eru einstaklingar, sem ekki eiga aflögufæra venzlamenn eða eiga sér athvarf á einkaheimilum. Það er augljóst, að þegar slíkt fólk á í hlut, er hagkvæmt að margir búi saman í dvalarheimili, þar sem unnt er að hafa sameiginlegt mötuneyti, þvottahús, heilbrigðiseftirlit og margs konar aðra þjónustu, sem veita þarf hinu aldraða fólki. Og það er einnig á það lítandi, að margt af þessu fólki er félagslynt, og hef ég eftir góðum heimildum, að yfirleitt uni aldrað fólk sér vel í stórum dvalarheimilum, þótt sú regla sé ekki án undantekninga frekar en aðrar, enda er alkunnugt, að við Íslendingar erum talsverðir einstaklingshyggjumenn að lundarfari. Þá er á það að líta, að eins og ég sagði, þá geta sveitarfélög úti á landi trauðla hagnýtt sér hlunnindi núgildandi laga, en á hinn bóginn er tekna til happdrættisins ekki síður aflað úti um landsbyggðina en hér í þéttbýlinu. Það er þess vegna einnig af þeirri ástæðu sanngjarnt að færa út starfssvið sjóðsins og gefa smærri stöðum kost á því hagræði, sem felst í því að fá lán úr Byggingarsjóði aldraðs fólks.

Nú er í þessu frv. lagt til, að lán úr byggingarsjóði megi nema allt að 20% af kostnaðarverði þeirra, og er jafnframt heimilað, að veð fyrir þeim framlögum megi taka í heimilunum sjálfum. Jafnframt er lagt til, að heimila, að lánið verði veitt á eftir eða samhliða öðrum veðlánum, allt að 60% af kostnaði þeirra. Þessi fyrirgreiðsla skiptir augljóslega talsverðu máli fyrir þá aðila, sem nauðsynlega þurfa að koma upp dvalarheimilum úti á landi. Hitt er svo annað mál, að vert er að vekja athygli á því, að það er æskilegt, að það verði vandlega kannað, hvar skynsamlegt er að hafa slík dvalarheimili fyrir aldrað fólk í landinu. Í fyrsta lagi er rétt að koma í veg fyrir það, eftir því sem efni standa til, að þau verði staðsett af handahófi, t. d. eftir hæpinni skipulagsskrá gjafafjár eða erfðagerninga. Það er ekki nóg að byggja dvalarheimilin. Það verður einnig að ganga þannig frá, að það verði unnt að reka þau á hagkvæman hátt. Þá þarf að sporna við því, að hreppapólitík og metingur ráði staðarvali dvalarheimilanna, og ætti í því efni að nægja að minna á staðsetningu sumra félagsheimila, en það er einsýnt, að staðsetning þeirra hefði sums staðar mátt betur takast, og víða hefðu mörg sveitarfélög getað sameinazt um eitt félagsheimili, ekki sízt vegna bættra samgangna og vegna meiri og betri bifreiðakosts landsmanna. Það þyrfti því nauðsynlega að kanna þörf landsins í heild, fyrir slík dvalarheimili og reyna að koma þeim haganlega fyrir og byggja ekki fleiri en svo, að unnt sé að standa undir rekstri þeirra.

Ég vil aðeins geta þess til fróðleiks, að hjá okkur í Borgarfirði, þar sem n. hefur starfað að undirbúningi byggingar dvalarheimilis nú um nokkurra ára skeið, en því miður hefur ekki verið hægt að hefjast þar handa um byggingu vegna fjárskorts, þá var upprunalega talað um það að byggja slíkt dvalarheimili úti í sveitinni, en núna hefur sú breyting orðið á viðhorfi manna, að við erum yfirleitt sammála um það að byggja dvalarheimilið í Borgarnesi, og þá er auðvitað haft í huga, að þar er nægilegur vinnumarkaður fyrir starfsfólk og heimilið verði þar undir handarjaðri læknis. Og skipulag samgangna veldur því, að ættmönnum og vinum hins aldraða fólks verður að sjálfsögðu gert léttara fyrir að heimsækja það, ef dvalarheimilið er staðsett í þéttbýli heldur en úti í sveit, og við skulum gera okkur grein fyrir því, að það er ekki veigaminnsta atriði þessa máls.

Ef menn íhuga kjarna þessa máls, munu þeir örugglega gera sér grein fyrir því, að víða um land hafa menn áhyggjur af þeim skorti, sem er á dvalarheimilum fyrir aldrað fólk. Það má ekki gleyma því, að það er einmitt sú kynslóð, sem er að skila af sér nú eftir langan og strangan starfsdag, það fólk, sem hefur skilað okkur þessu landi betra og blómlegra en það hefur áður verið, sem í hlut á. Við stöndum öll í þakkarskuld við þá, sem nú eru við aldur og hafa slitið kröftum sínum fyrir land og lýð. En góður vilji einn saman dugir ekki, það verður að gera ráðstafanir af opinberri hálfu til þess að koma til móts við óskir þeirra, sem nú eiga rétt á hvíld eftir langan og strangan starfsdag. Það er skuld, sem þjóðinni ber að gjalda, og með samþykkt þessa frv. er stigið spor í þá átt að greiða þá skuld.