25.03.1968
Neðri deild: 81. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1728 í B-deild Alþingistíðinda. (1602)

164. mál, byggingarsjóður aldraðs fólks

Bragi Sigurjónsson:

Herra forseti. Ástæðan til þess, að ég kvaddi mér hér hljóðs, er sú, að ég held, að flm. þeirrar till., sem hér var verið að lýsa, sé því ekki nógu kunnugur, hvernig byggingarmálum elliheimila úti um land er háttað. En ég þykist hafa nokkra þekkingu á því, þar sem við höfum verið að glíma við það á Akureyri að reisa heimili fyrir aldrað fólk og hófum þá byggingu þannig, að við hugsuðum okkur fyrst að byggja allstórt svokallað kjarnahús og byggja í kringum það hús, þar sem væru einstaklingsherbergi og svo aftur smáíbúð, fyrir hjón, sem þess óskuðu að búa í tengslum við elliheimilið án þess að vera inni á herbergjum, sem tilheyrðu sjálfu elliheimilinu.

Niðurstaðan varð hins vegar sú, þegar málin komust á það stig að hljóta sína reynslu í daglegum rekstri og óskum fólksins, að það var engan veginn nándar nærri því hægt að svara eftirspurn þeirra, sem óskuðu eftir því að fá herbergi inni á elliheimilinu, en varla nokkur eftirsókn frá hjónum öðruvísi en þannig að fá bara tveggja manna herbergi, þar sem þau gætu að öllu leyti notið umönnunar heimilisins. Nú stendur Akureyri sennilega ýmsum byggðarlögum úti á landi betur að vígi, vegna þess að auk þessarar byggingar, sem ég var að geta um áðan og Akureyri gaf í raun og veru sjálfri sér í afmælisgjöf á 100 ára afmæli sínu — hún er að vísu ekki fullbyggð, en bæði bær og kvenfélög lögðu í þetta mikla fjármuni — hefur mikill heiðursmaður í Eyjafjarðarsýslu gefið Akureyrarbæ stóra og myndarlega gjöf, þar sem er elliheimilið í Skjaldarvík. Auk Akureyringa njóta þar dvalar bæði Eyfirðingar, Þingeyingar og jafnvel Reykvíkingar, og þó að þar dvelji nú um 70 manns og 36 í elliheimili Akureyrar, eru samt enn á biðlista hjá okkur á Akureyri um 60 manns, sem bíða eftir því að komast inn á elliheimilin, inn á eins manns herbergi eða fjölbýlisstofur. Það er sáralítil sem engin eftirspurn eftir íbúðum fyrir öldruð hjón. Eftir reynslu okkar að dæma leita þau ekki inn á elliheimilin fyrr en þau geta ekki séð um sig sjálf, en íbúðir fyrir aldrað fólk eru einmitt hugsaðar með það fyrir augum, að þar geti gamla fólkið séð um sig sjálft að verulegu leyti.

Það, sem ég vildi koma að hér, er þetta, að ef brtt. sú, sem hér var verið að lýsa áðan, næði fram að ganga, yrði það sama og það, að.l. væru í raun og veru óbreytt. Aðeins Reykvíkingar gætu notið lána úr þessum sjóði, því að til lánveitinga til íbúðarbygginga aldraðs fólks úti á landi hygg ég, að ekki komi a. m. k. í náinni framtíð. Hins vegar kom það fram hjá flm., að hann teldi það ekki ósanngjarnt, að landsbyggðin nyti einhverra kosta af þessari sjóðsstofnun, þar sem tekjur happdrættis DAS kæmu að 30% utan af landi, og það var einmitt það, held ég, sem hafði vakað fyrir okkur flm. frv., að það væri sanngjarnt, að dvalarheimili úti á landi nytu nokkurs styrks úr þessum sjóði, og þess vegna vildum við opna þann möguleika. En ef við færum að samþykkja þá brtt., sem hér var verið að lýsa, tel ég, að honum sé lokað á ný.