25.03.1968
Neðri deild: 81. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1738 í B-deild Alþingistíðinda. (1608)

164. mál, byggingarsjóður aldraðs fólks

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Það eru bara aðeins nokkur orð. Ég vil vekja athygli á því, sem kom eiginlega glöggt fram í ræðu hv. 10. þm. Reykv., að með þeirri breyt., sem hér er lögð til, er raunar tekin alveg önnur stefna í þessu máli en upphaflega var ætlað. Ég tók það fram, að ég er ekki nógu kunnugur þessum málum öllum, en ég hef þó lent í snertingu við þau nú undanfarið, vegna þess að ég hef orðið var við margt eða nokkuð af öldruðu fólki, öldruðum hjónum, sem eru í fullu fjöri og vantar einmitt hentugar íbúðir fyrir sig.

Mér er það ljóst, að með tilliti til þess litla fjármagns, sem þessi sjóður hefur yfir að ráða, — ef á að tvískipta þessu — mundi í raun og veru þessi upphaflega hugmynd alveg víkja fyrir hinu, enda kemur það í ljós, þegar um þetta er rætt, að þörfin er ákaflega mikil. En ég held bara, að menn átti sig ekki á því, að þörfin fyrir íbúðirnar er líka mikil. Eins og líka kom fram í ræðu hv. 10. þm. Reykv., þá vildi hann alls ekki svara því, hvort hann teldi í raun og veru, að það væri heimild fyrir því að lána t. d. allt féð til Hrafnistu eða hér í þéttbýlið. Hann vildi ekkert svara því, heldur ræddi bara um sínar hugmyndir og það er náttúrlega allt annað mál. Ég get ekki séð annað en að það væri í raun og veru eftir þessari breyt. alveg heimilt, ég get ekki annað séð. Það kemur fram, að ég óski eftir því, að hv. þm. lesi vel þá grg., sem flm. skrifuðu fyrir þessari brtt., núna á milli umræðna, athugi hana og við ræðum þá þessi mál betur við 3. umr. Og ég vil verða við þeirri ósk, sem kom fram hjá 1. þm. Norðurl. e. (GíslG), að taka brtt. mína til 3. umr., en óska eftir, að þetta mál verði ekki tekið aftur fyrir alveg strax.