28.03.1968
Neðri deild: 84. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1742 í B-deild Alþingistíðinda. (1613)

164. mál, byggingarsjóður aldraðs fólks

Ingvar Gíslason:

Herra forseti. Ég efast ekki um, að góður tilgangur liggur að baki flutningi þessa frv. um breyt. á l. um byggingarsjóð aldraðs fólks. Flm. báðir, hv. 10. þm. Reykv. og hv. 9. landsk. þm., eru áhugamenn um málefni aldraðs fólks og forsvarsmenn stofnana, sem vinna ómetanleg líknarstörf í þágu aldraðra. Á ég þar við Hrafnistu, dvalarheimili aldraðra sjómanna í Reykjavík, og elliheimilin á Akureyri og í Skjaldarvík. Eiga báðir hv. flm. þakkir skilið fyrir áhuga sinn og ósérplægni í sambandi við málefni aldraðs fólks og þeirra stofnana, sem þeir bera fyrir brjósti. Einnig hafa fleiri hv. þm. látið þetta mál til sín taka hér í hv. þd., og minnist ég þá einkum tveggja þm. Vesturl., hv. 3. þm. Vesturl. og hv. þm. Ásgeirs Péturssonar, sem hér átti þingsetu um skeið. Stendur líkt á um þá og hv. flm., að þeir eru fyrirsvarsmenn elliheimilisbyggingar í byggðarlagi sínu og eiga í nokkrum fjárhagsörðugleikum af þeim sökum, að ég hygg, sem ekki er ótítt á þessum síðustu þrengingartímum. Allir virðast þessir hv. þm. sammála um, að lausn á fjárhagsvandamálum elliheimilanna kunni að leynast í því að gerbylta l. um byggingarsjóð aldraðs fólks frá 1963, þ. e. að jafnt skuli lána úr sjóði þessum til elliheimila sem til hentugra einkaíbúða aldraðra, sem ákvæði l. fjalla nú um. Þetta er nefnt að víkka út starfssvið sjóðsins og að tryggja hagkvæma nýtingu þess fjár, sem sjóðurinn kann að hafa til ráðstöfunar til útlána. Það er hverju orði sannara, að verið er að víkka út starfssvið sjóðsins með þeirri breytingu, sem frv. gerir ráð fyrir.

Útvíkkunin á starfssviði sjóðsins er svo mikil, að kalla má fullkomna byltingu á markmiði hans. Það er bókstaflega verið að fletja sjóðinn út. Grg. hv. flm. fyrir frv. hefst með þessum orðum:

„Með l. um Byggingarsjóð aldraðs fólks var stefnt að því að koma á fót sjóði, sem lánað gæti til byggingar hentugra íbúða fyrir aldrað fólk. Var m. a. haft í huga, að með byggingu slíkra íbúða yrði gamla fólkið síður slitið úr tengslum við það umhverfi, sem það hefði lifað og starfað í meginhluta starfsævi sinnar.“ Og enn fremur segja flm, í grg.: „Er óhætt að fullyrða, að með setningu laga þessara hafi verið stigið stórt spor fram á við, til mótunar nútímalegri þjónustu en áður þekktist hér á landi fyrir aldrað fólk.“

Þannig mæla flm. í upphafi grg. sinnar og þessi tilvitnuðu orð lýsa kjarna málsins svo, að tæpast verður betur gert. Það er tilgangur l. um Byggingarsjóð aldraðs fólks, að hann geti lánað til byggingar hentugra íbúða fyrir aldrað fólk og þá er átt við einkaíbúðir, en ekki stórt dvalarheimili. Með því að samþykkja frv. óbreytt, eins og það liggur fyrir, er verið að gjörbreyta markmiði l., og það þarf sterk rök til þess að sannfæra mig um nauðsyn þess að gera slíka breytingu nú, áður en byggingarsjóðurinn er yfirleitt tekinn til starfa og áður en nokkur tilraun hefur verið gerð til þess að láta l. ná tilgangi sínum, því að það er upplýst, að sjóðurinn hefur engin lán veitt og sjóðsupphæðin mun nú í hæsta lagi nema 7 millj. kr., sem verður að teljast lítið fé og ekki til þeirra skipta, sem hv. flm. ætlast til. Ég er því andvígur þessu frv. Ég álít, að hv. þd. eigi ekki að samþ. frv. óbreytt. Ég vil, að l. haldi megintilgangi sínum um það, að Byggingarsjóður aldraðs fólks láni fyrst og fremst til einkaíbúða. Það er þörf fyrir slíka starfsemi og henni var komið á með l. frá 1963 og það er óþurftarverk að gera þessa starfsemi að engu með vanhugsaðri lagabreytingu.

Ég skil hins vegar, hvað vakir fyrir hv. flm., þó að þeir hafi verið seinheppnir í vali sínu á úrbótaleið. Ég efast ekki um, að þeim gengur gott til. En þess verður samt að krefjast, að þeir geri sér fulla grein fyrir, hvað þeir eru að gera. Það eru allir hv. þdm. sammála um nauðsyn þess, að stórátök þarf að gera til þess að leysa húsnæðismál aldraðs fólks, en við megum ekki einblína á eina aðferð öðrum fremur til þess að leysa þessi mál. Tvær meginstefnur eru uppi um það, hvernig leysa eigi þessi mál. Önnur mætti kallast elliheimilisstefnan, en hin einkaíbúðastefnan. Ég ætla ekki að útskýra þessar tvær stefnur mjög náið, enda vita flestir, hvað við er átt. Ég er þeirrar skoðunar, að hið opinbera og ekki sízt Alþ. eigi að gera báðum þessum stefnum jafnhátt undir höfði og stuðla að framgangi þeirra beggja, því að báðar eiga jafnan rétt á sér. Verður tæpast sagt, að ein sé út af fyrir sig annarri betri, heldur hefur hvor til síns ágætis nokkuð.

Svo virðist sem elliheimilisstefnan, sú stefna að reisa stór elliheimili, þar sem sjúkum og heilbrigðum er oft smalað saman í risastór húsagímöld og rangalabyggingar, sem ekki virðast eiga sér neinn endi, — þessi stefna hefur af einhverjum ástæðum átt meira fylgi að fagna meðal okkar alkunnu dugnaðarmanna, sem láta sig varða málefni aldraðs fólks öðrum fremur. Margir af þessum mönnum virðast varla sjá aðra möguleika í sambandi við húsnæðis- og velferðarmál aldraðs fólks en að reisa stærri og stærri og fleiri og fleiri elliheimili. Það má vera, að með vörunum játi þeir gildi einkaíbúðarstefnunnar, en í reynd og í framkvæmd hika þeir ekki við að gera sem minnst úr henni. Eða hvað á að segja um þetta frv? Þetta frv. er rothögg á þá hugmynd að leysa húsnæðismál aldraðra á þann hátt, að aldrað fólk geti búið í eigin íbúðum eða út af fyrir sig, séð um sig sjálft, ef það vill það og ef það getur það. Það er rothögg á þá hugmynd, sem felst í lögum um Byggingarsjóð aldraðs fólks. Lögin um Byggingarsjóð aldraðs fólks eru stuðningur við það, sem ég vil kalla einkaíbúðarstefnuna, og það er sá eini opinheri stuðningur, sem þessi stefna nýtur að lögum. Ég sé ekki, hvaða rök mæla með því að gera þennan stuðning svo til að engu. Ég fæ ekki skilið, að nauðsyn beri til þess að ónýta þá viðurkenningu Alþ., sem felst í l. um Byggingarsjóð aldraðs fólks og það áður en sjóðurinn er tekinn til starfa samkv. tilgangi sínum. Fjárþörf elliheimilanna verður því að leysa með öðrum hætti en þeim að seilast til þess fjár, sem ætlað er annað markmið. Hér er gripið til svo „billegrar lausnar“, að ekki er ástæða til að samþykkja hana athugasemdalaust.

Það er reynt að gylla þetta mál með því, að verið sé að dreifa fjármagni út um landsbyggðina á þennan hátt. Einkum er verið að skjóta því til okkar, fulltrúa landsbyggðarinnar utan Reykjavíkur, að við eigum að samþykkja þetta frv., vegna þess að með því sé verið að tryggja fjármagn til elliheimila úti um land. Ég er ekki ýkja ginnkeyptur fyrir, þess háttar málflutningi, enda er hann ekki sérlega merkilegur. Ég sé ekki, að nein ástæða sé til þess að fremja gustukaverk af þessu tagi í þágu landsbyggðarinnar. Það er hægt að veita fé til elliheimila úti um land án þess að viðhafa fjármálakúnstir á borð við þær, sem hér er lagt til.

Það er ekki meiri ástæða til þess að ganga í skrokk á þessum fátæka sjóði, sem ætlaður er ákveðinn tilgangur, heldur en einhverjum öðrum sjóði eða sjóðum, sem hafa yfir fé að ráða. Það, sem á að gera og að á að vinna, er að stofna sérstakan byggingarsjóð elliheimila í landinu, það er brýn þörf fyrir slíkan sjóð. Ríkisstj. ætti að beita sér fyrir stofnun slíks sjóðs, og forstöðumenn og fyrirsvarsmenn elliheimila ættu að ýta á eftir ríkisstj. um myndun slíks sjóðs. Í því sambandi vil ég leyfa mér að minna á eitt atriði. Eins og kunnugt er, gilda sérstök l. um happdrætti DAS. Í 3. gr. þessara l., eins og hún er nú, eftir breytingu, sem á þeim lið var gerð 20. apríl 1963, segir, að happdrættisheimildin gildi til 1974, eða einkaleyfið, og að 60% af ágóðanum skuli renna til dvalarheimilis aldraðra sjómanna, og þá er vafalaust átt við Hrafnistu í Reykjavík, en jafnframt er ákvæði í gr. sem þannig hljóðar orðrétt, sem leyfi hæstv. forseta:

„Heimilt skal þó stjórn DAS að veita styrk eða lán til annarra dvalarheimila aldraðs fólks.“

Hvað þýðir nú þetta ákvæði? Ég vil sérstaklega beina því til hv. 10. þm. Reykv., hvað hann vilji um þetta ákvæði segja. Ekki er ég í neinum vafa um skilning á þessu ákvæði. Ég átti sæti á þingi, þegar þetta ákvæði var sett í lög, og ég þykist muna það rétt, að þá var sá skilningur lagður í þetta ákvæði, að nota skyldi gróðann af happdrætti DAS til þess m. a. að byggja upp elliheimili úti um land, og ég tel, að það sé siðferðileg skylda að nota þennan rétt og nota hann ríflega, því að það stendur svo á víða úti um landið, að verið er að byggja upp elliheimili, og þarna eru möguleikar til þess að fá lánsfé, ef rétt er að staðið. Nú má vel vera, að þessi heimild hafi eitthvað verið notuð, en hversu mikið, það veit ég ekki. Ég vil minna á þetta atriði og benda á, að menn notfæri sér þessa heimild l. um happdrætti DAS varðandi lánveitingar til elliheimila úti um land. Og þessa heimild á að nota til hins ýtrasta á meðan þörf er fyrir, og með því getur hv. 10. þm. Reykv. stuðlað að dreifingu fjármagns úti um landsbyggðina, en það virðist vera áhugamál hans um þessar mundir. Mér skilst, að hv. 10. þm. Reykv. sé í stjórn happdrættis DAS, og þar ætti hann að geta látið að sér kveða um þessi efni.

Nei, við skulum alveg gera okkur fulla greina fyrir því, að með því að samþykkja þetta frv. óbreytt erum við að breyta l. í grundvallaratriðum, þetta er prinsipmál. Það er spurning um það, hvort við viljum hrinda í framkvæmd þeim hugmyndum, sem áttu miklu fylgi að fagna á Alþ. fyrir 5 árum, um að taka upp nýja stefnu í lausn húsnæðismála aldraðs fólks, þ. e. þá stefnu, að aldrað fólk geti sem lengst og við sem bezt kjör búið á einkaheimilum sínum í stað þess að þurfa að fara á elliheimili. Ég vil endurtaka það, að ég efast ekki um góðan tilgang flm. með frv. Frv. er eigi að síður vandræðamál, og ég verð að álíta, að hv. flm. hafi ekki áttað sig nægilega á, til hvers það leiðir, a. m. k. er það víst, að þeir hafa ekki höndlað allan sannleikann í þessu máli.

Hv. 5. þm. Norðurl. e. hefur gert nokkra tilraun til þess að sníða hvössustu agnúana af frv. með flutningi tveggja brtt. Fyrri brtt. var til umræðu s. l. mánudag og ég verð að segja það, að ég bjóst þá við, að hv. flm. mundu taka henni vel, vegna þess að hún er skynsamleg málamiðlun milli þeirra andstæðu skoðana, sem greinilega eru uppi í málinu. Hv. flm. virðast misskilja till. Þeir segja, að hún breyti öllu málinu, miðað við það, sem þeir vilja. Þetta er ekki rétt. Brtt. á þskj. 418 felur ekki í sér bann við því að lánað sé til elliheimila, hún telur ekki í sér bann við því, og með því fá flm. frv. í raun og veru sitt mál fram. Hins vegar felur brtt. á þskj. 418 það í sér, að lánveitingar til einstakra íbúða skuli sitja fyrir lánveitingum til dvalarheimila, ef sjóðurinn getur ekki fullnægt eftirspurn eftir lánum. Þetta er sanngjarnt og eðlilegt, miðað við málavexti. Hér er farinn millivegur, hér er leitazt við að halda upphaflegu markmiði l. nokkurn veginn, þótt starfssvið sjóðsins sé víkkað út með því að ákveða að lána megi til dvalarheimila einnig. Ég er sannfærður um, að hv. flm. átta sig á þessu, þegar þeir aðgæta málið nánar. Ég gæti fellt mig við frv., ef þessi till. hv. 5. þm. Norðurl. e. yrði samþ., og þó gæti ég enn betur sætt mig við frv., ef síðari brtt. hv. 5. þm. Norðurl. e. yrði samþ., sú till., sem lýtur að því, að landsbyggðinni utan Reykjavíkur sé tryggður lögákveðinn hluti af ráðstöfunarfé byggingarsjóðs.

Herra forseti. Ég skal ekki hafa þessi orð fleiri að sinni og læt máli mínu lokið.