28.03.1968
Neðri deild: 84. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1746 í B-deild Alþingistíðinda. (1614)

164. mál, byggingarsjóður aldraðs fólks

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Á dauða mínum átti ég von, frekar en þessum ósköpum frá þessum tveimur þm. Norðurl. e., og ég hef nú skuggalegan grun um, að það, sem valdi þessum miklu látum þessara hv. tveggja þm. Framsfl., sem mér út af fyrir sig koma nokkuð á óvart, sé val mitt á meðflm. að þessu frv. En það er nú mál, sem þeir hljóta þá að gera upp á milli sín heima í héraði.

Vegna ummæla hv. fyrri ræðumanns, sem hér talaði um það, að ég hefði komið hér fram af nokkru yfirlæti, þegar ég talaði fyrir þessu máli, þá vil ég nú mótmæla því, að yfirlæti þetta hafi stafað af einhverri innri sköpun minni, heldur af hinu, að ég dáist að því, sem þessi sjómannasamtök hér í Reykjavík og Hafnarfirði hafa gert á undanförnum áratugum. Þótt ég sé þar í stjórn núna, þá er það ekki vegna þess, heldur hins vegar vegna þeirra forgöngumanna og baráttumanna, sem mótuðu þetta starf og unnu að því. Það voru ekki menn eingöngu úr mínum flokki. Þetta voru menn úr öllum pólitískum flokkum, og kannske er ég hreyknastur af þessu starfi vegna þess, að þarna gátu þeir sameinazt, án þess að nokkurn tíma kæmi inn á þeirra svið pólitískur ágreiningur. Þeir voru sammála um að snúa sér að þessu menningar- og mannúðarmáli, sem ég held, að hvorugur þessara síðustu tveggja ræðumanna vilji mótmæla, að það sé. Við getum kannske tekið þá til samanburðar. Ef þessir hv. þm. álíta, að við höfum eitthvert yfirlæti í frammi, þegar við tölum um það, að á þessum rúma áratug hafi tekizt að byggja upp þetta heimili, sem nú er stærsta elliheimili landsins, ef okkur leyfist að sýna eitthvert yfirlæti, þá vil ég líka benda þessum hv. þm. á það, að þeir geta líka fyrir hönd sinna samtaka haft nokkurt yfirlæti í frammi, þeir hafa byggt stærsta hótel landsins ásamt stéttarbræðrum sínum, sem m. a. selur okkur eingöngu brennivín, meðan við reynum að hýsa aldrað fólk alls staðar að af landinu, og má kannske vera, að hann meti það á sama hátt og okkar starf, en hann um það.

Það hefur komið fram viss misskilningur hjá báðum þessum mönnum í sambandi við þetta mál. Og sízt vildi ég verða til þess að fara að stofna til umr., þótt sumt af því, sem þessir tveir síðustu ræðumenn hv. létu falla um þetta mál, hefði kannske gefið tilefni til þess, það ætla ég ekki að gera. Og eins og ég tók fram hér við 2. umr., má það kannske hlægilegt heita, að ég skuli standa fyrir því sem þm. Reykv. að benda á þennan tekjumöguleika fyrir staði úti um land, sem eru ekki aðeins sólgnir í slíkan styrk, sem þeir ættu að geta fengið, ef þetta frv. yrði samþ., heldur og þurfa nauðsynlega á honum að halda, auk t.d. annars styrks, sem ég kalla, þó að það sé í lánsformi, sem þeir gætu fengið, a. m. k. á sumum stöðum, sem ég líka benti á hér, en sem þeir geta ekki fengið að öllu óbreyttu. Hins vegar höfum við hér í Reykjavík t. d. notið lánsmöguleika, eins og ég tók fram fyrr í sambandi við umr. um þetta mál, frá lífeyrissjóði togarasjómanna og undirmanna á farskipum, sem hefur lánað nú í það heila nærri hálfan annan tug millj. kr. til byggingar Hrafnistu, sem við enn þá skuldum í um 12–14 millj. Ég hef ekki alveg þær tölur í hendi, en þetta er m. a. svar til seinni ræðumannsins, sem hér talaði með miklum digurbarkalegheitum um það, að við ættum að geta farið að koma með mikla styrki af því fé, sem við höfum til ráðstöfunar. Og þegar ég tala um okkur, þá er ég að tala f. h. þessara sjómannafélaga í Reykjavík og Hafnarfirði, sem hafa byggt og rekið þetta heimili. Þegar þetta hefur verið byggt, hefur verið leitazt við að byggja það sem hraðast, til þess að við gætum komið því á þann grundvöll, að rekstrarmöguleikarnir væru undir einhverju skynsemismarki, en ekki vera með þetta í byggingu áratugum saman, án þess að komast að því marki, sem stefnt er að og áætlað í byrjun, sem er það, að heimilið geti staðið undir sér, en á það stig er þetta heimili kannske að komast núna. En ég veit, að það yrði ákaflega erfitt fyrir suma þm. að skilja þetta atriði, að einhver rekstur yrði að bera sig, það sé bara sjálfsagt að ná í féð einhvers staðar annars staðar frá, hvaðan sem það svo kemur, og nóg sé að vaða út í einhverja fjárfestingarvitleysu, án þess að hafa nokkurn grundvöll undir rekstri. Ég er ekki á þeirri skoðun.

Fyrri ræðumaður, sem mótmælti þessu frv. hér í þessum umr. nú um leið og hann mælti með brtt. sinni, hv. 5. þm. Norðurl. e. minntist m. a. nokkuð á þær hugmyndir, sem ég hafði reifað um skipan þessara mála. Það má vel vera, að það sé allt saman markleysa, sem ég segi um þessi mál, og ég veit, að þessi hv. þm. hefur sjálfsagt vit á þessu, eins og öllu öðru, sem hann ræðir um. Það vitum við orðið hér í þessari hv. d., að þessi hv. þm. hefur, og sjálfum bregður mér ekkert við að hlusta á það, að hann hafi líka manna bezt vit á þessum málum. Ég er samt sem áður ekki aðeins að koma hér fram með mína skoðun, ég er að koma fram hér með skoðanir, sem hafa verið mótaðar af þeim aðilum, sem hafa gert manna mest í því á Íslandi á undanförnum áratugum að sjá um þessa þörf aldraða fólksins, og þeir vita að mínu áliti nokkuð, hvað þeir eru að segja. Það má vel vera, að þeir þarna, — ég þori nú ekki að fara með þann stað, þar sem hv. þm. býr, því að hv. þm, ber nú ekki saman um, hvað það heitir — ég veit ekki, hvaða skoðanir menn hafa á þessu í heimasveit hv. þm. Hins vegar veit ég það, að flokksbræður hans hér á þingi, þeir eru ekki á sömu skoðun og hann, alls ekki, eins og t. d. kom fram í ræðu hv. 3. þm. Vesturl. Hann skilur vel, hvað hér er á ferðinni. Ég hef margtekið fram í þeim umr., sem hafa orðið um þetta mál, að auðvitað er það æskilegast fyrir okkur, að við getum búið þannig að gamla fólkinu, að þegar það hverfur úr því umhverfi, sem það hefur starfað og lifað í, getum við búið því annað húsnæði í því sama umhverfi, og lög um Byggingarsjóð aldraðs fólks hafa einmitt mótað þá stefnu, sem ég álít, að við eigum að fylgja. Ég er alveg fylgjandi þeim enn þá, enn þann dag í dag. En þeir menn, sem halda strítt í það, að þau lög eigi að blífa eins og þau voru sett á sínum tíma, verða jafnframt að athuga, hvað á að gera við þetta gamla fólk, þegar það getur ekki verið í þessum sérstöku íbúðum. Hvert á það að fara þá? Á það að fara í fyrri íbúðir aftur, eða eigum við bara að henda því út á hauga? Nei, það er þörfin, eins og ég sagði, hún er það mikil fyrir elliheimili í dag á Íslandi og það er þess vegna, sem við erum að leggja til, að þetta fé verði tekið til þess að hjálpa ákveðnum stöðum, sem þegar hafa t. d. sent umsóknir til þessa sjóðs, þótt ekki sé hægt að verða við þeim vegna þess hvernig lögin eru orðuð. Það er ekki reiknað með að fari nema 20% til heildarbyggingarkostnaðar viðkomandi dvalarheimila, sem lánin eru veitt til, en að það yrði sem sagt hjálpin til þeirra, sem gerði kleift að koma fyrir þessu stigi, sem vantar, áður en kemur að sjúkrahúsinu.

Við getum verið fínir í orðræðum og talað um velferðarríki og annað slíkt, og ég er ekki í nokkrum vafa, að m. a. það ástand, sem ríkti hér í þjóðarbúinu á þeim tíma, þegar þessi lög voru sett, hefur nokkru ráðið um það, hvernig þau voru orðuð. Hins vegar bendi ég á það, að við höfum nokkra reynslu af því og þekkingu hér í sjómannasamtökunum í Reykjavík og Hafnarfirði, og við vissum hvað við sögðum, þegar við lögðum til hið gagnstæða, þótt svo mþn. Alþingis og Alþ. ákvæði annað á seinna stigi. Við vissum um þörfina, og ég held, að það sé ekki nokkur maður, sem ber á móti því í dag, að þörfin fyrir stig, sem kemur á eftir þessum íbúðum, er miklu meiri en fyrir þessar einstöku íbúðir. Alveg sama, hvað þessir tveir hv. þm. tala fagurlega, þegar þeir eru að mótmæla þessu frv. og ég álít líka, að ræðuhöld þeirra séu mikið mótuð af því, hverjir séu flm. en ekki af málefninu, og eru þeir þar mjög ólíkir þeim ræðumönnum, sem tóku til máls við 1. umr. málsins, þeim þm., sem ég vitnaði til áðan, m. a. hv. 3. þm. Vesturl. og t. d. hv. 4. þm. Austf., sem lýsti því yfir þá við 1. umr. málsins, að hann mundi ásamt þingflokki Alþ. styðja þetta mál.

Hv. 3. þm. Norðurl. e. talaði um, að við værum hér með billega lausn á vandamáli. Ég skal fúslega viðurkenna, að það kemur ekki mikið fé úr þessum sjóði. Hins vegar er ekki ætlazt til, að lánað verði meira en 20% eða megi lána meira en 20% af byggingarkostnaði viðkomandi dvalarheimilis. Ég sé fram á, þrátt fyrir þau takmörkuðu fjárráð, sem þessi sjóður hefur, og af kostnaðarreikningum, sem við höfum hér í Reykjavík um byggingu slíkra heimila, að þetta muni geta hjálpað — ef við hugsum um 20% — 3–4 stöðum á næstu 3–4 árum úti um land, og ef þeir verða, við skulum segja 1 eða 2 á Vesturlandi og 1 eða 2 á Norðurlandi eða Austurlandi, hvar sem það verður ákveðið, þegar að því kemur, þá veit ég það, að þessi hjálp, sem þeir geta fengið, verður gífurlega mikil.

Það er rétt, sem hv. 3. þm. Norðurl. e. sagði, að happdrætti DAS hefur heimild til þessara lána og styrkja af sínum 60% hluta til slíkra heimila. Og ég geri ráð fyrir því, að í ár verði farið út í það að nokkru leyti. Við höfum gert það nú þegar á annað ár gagnvart Akranesi, en þeir hafa þar fengið arkitekt, sem hefur starfað hér í Reykjavík á vegum Hrafnistu, þeir hafa notið starfa hans án þess að greiða fyrir þau. Við höfum hins vegar ekki getað lagt fram fé beint, einfaldlega vegna þess, að við höfum hleypt okkur í skuldir til þess að koma heimilinu á þann grundvöll, að það geti staðið undir sér sjálft, og skuldum nú, að mig minnir, tæpar 13 millj. kr. í þessum byggingum, sem ég vil líka leyfa mér að fullyrða, að önnur samtök hefðu ekki getað fengið að láni, einfaldlega vegna þess, að þessi sjóður, sem leitað er til, er í eigu sjómannanna sjálfra, og sú stjórn, sem þar réði, féllst á þá skoðun okkar, að við værum að byggja yfir aldraða sjómenn. En þegar lengra er leitað, er það svo skrýtið hér á Íslandi, að 90% Íslendinga virðast vera gamlir sjómenn, þótt ég viti, að þessir tveir hv. þm., sem tala í þessu máli, séu það ekki, og má vera, að skoðanir þeirra séu komnar fram vegna þess, en ég vil líka benda þessum tveimur hv. þm. á það, að form. þessarar sjóðstjórnar er núverandi form. Framsfl.

Ég sé kannske ekki ástæðu til þess að vera að orðlengja mikið um þetta, en vegna brtt. vil ég taka það fram, sem ég sagði hér á fyrra stigi, og það er þetta: Persónulega hef ég ekkert á móti því, að það verði bundið, ekki aðeins 3/4 af þessum 40% verði bundið til framkvæmda úti um land, þetta hefur alltaf verið ætlun þeirra, sem að þessu stóðu, að þetta fé, sem þangað ætti að fara, yrði notað þar. Og það verður notað þar, og það verður meira notað, það verður líka notaður hluti af þeim 60%, sem hér hafa verið til ráðstöfunar í Reykjavík.

Ég er samþykkur því, sem kom fram hjá frsm. hv. heilbr.- og félmn., að gera þurfi einhverja áætlun á þessu sviði. Það þurfi að skipuleggja framkvæmdirnar. Það eiga ekki öll sveitarfélög, allir kaupstaðir, að vaða út í þetta öðruvísi en hafa einhverja áætlanagerð í sambandi við byggingu slíkra heimila Við höfum ekki, ég og meðflm. minn, gert till. um breyt. á stjórn byggingarsjóðsins. Það má kannske segja sem svo, að það væri eðlilegt, að þetta yrði undir stjórn þeirra aðila, sem fara með spítalamál í landinu. Við höfum hins vegar ekki gert till. um það. Og ég tek það fram, að þeir frá stjórn happdrættis DAS, sem hafa tillögurétt um lán í sambandi við þennan sjóð, eru þangað komnir vegna þeirra ákvæða, að happdrætti dvalarheimilisins hafi heimild til þess að styrkja og lána af þeim 60% sem þeir hafa til umráða. Ég mundi álíta að þetta væri einmitt skynsamlegt og það væri hægt að taka þetta upp á víðtækari grundvelli til þess að það gætu fleiri aðilar sameinazt um það að nýta þetta fjármagn betur heldur en kannske hefur verið gert til þessa.

En það, sem fær mig til að vera á móti brtt. hv. 5. þm. Norðurl. e., er það, eins og ég tók hér fram við fyrri umr., að þótt það verði aldrei sótt í þessi 40% hér frá Reykjavík, getur komið til, að þeir staðir úti um land, sem standa í slíkum framkvæmdum, sæki ekki í stóran hluta af 60%, sem eiga að falla hérna til Suðvesturlandsins, að mér finnst eiginlega bindandi samkv. hans till. Ég vil meina það, að ef þarf að gera stórt átak á einum stað til þess að ljúka einhverri framkvæmd, eigi ekki að vera að hika við það að nota allan hlutann til þess að ljúka þessari framkvæmd. Það eigi ekkert að vera að binda þetta til ákveðinna staða og skera þetta niður og gera þetta að ekki neinu á hverjum stað, heldur eigi að nota þetta takmarkaða fé, vissulega takmarkaða fé, til þess að gera þá stórátak á þeim stað, sem verður fyrir valinu að vandlega yfirveguðu ráði. Og ég held, að þegar hv. þm. fara að athuga þennan þátt í málinu, hljóti þeir að vera á sömu skoðun. Um hitt skal ég fullvissa hv. þm., sem um þetta töluðu, að það er enginn vilji, miklu frekar hið gagnstæða hjá þeim, sem fara með 60% tekna happdrættis DAS hér í Reykjavík og hér á Suðurnesjum, það er enginn vilji til þess að ásælast neitt af þeim afgangi af tekjunum, sem verður til ráðstöfunar hjá Byggingarsjóði aldraðs fólks. Samt sem áður eru þessi hin sömu samtök þau fyrstu hér á Íslandi, sem móta þá skoðun fyrir yfir 20 árum, að það eigi að byggja einstakar íbúðir yfir aldrað fólk, og það er í þeirri áætlun, sem nú er unnið að Hrafnistu í Reykjavík og er næsta framkvæmd og síðasta á þeirri lóð, sem þar er til ráðstöfunar fyrir þessi samtök. En það er síðast farið í þessa framkvæmd vegna þess, að þeir, sem stóðu að þessum málum og hafa unnið að þeim á undanförnum árum, vita, að þörfin var mest á hinu sviðinu. Hún var meiri fyrir það að eiga heimili fyrir alla þá einstaklinga og jafnvel öldruð hjón, sem ekki geta séð sjálfum sér farborða víðs vegar um land. Ég hef líka tekið það fram, að á þessu heimili, eins og reyndar líka elliheimilinu Grund hér í Reykjavík, er ekkert farið í manngreinarálit um það, hvaðan viðkomandi persóna sé, og það hefur líka komið fram í þessum umr., að það sama gildir á Akureyri. Það er ekki farið eftir því, heldur eftir þörfinni, og ég álít það, að þessir tveir þm., sem hér hafa talað og mælt með þessari brtt., ættu að sjá sóma sinn í því að draga hana til baka og fylgja frv. óbreyttu.