28.03.1968
Neðri deild: 84. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1759 í B-deild Alþingistíðinda. (1618)

164. mál, byggingarsjóður aldraðs fólks

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Það, sem fékk mig til þess að standa upp að þessu sinni, voru þau orð, sem síðasti ræðumaður lét falla um það, að á síðari árum — ég vona, að ég fari nokkurn veginn rétt með a. m. k. hluta af því, sem hann sagði, — að á síðari árum hefðu risið upp óhugnanlegar stofnanir, sem frá mannlegu sjónarmiði væru langt frá því að vera æskilegar. Nú er mér satt að segja ekki kunnugt um aðrar stofnanir, sem þessi þm. getur átt við, aðra en þá einu, sem hefur verið byggð hér í Reykjavík, þ. e. a. s. Dvalarheimili aldraðra sjómanna að Hrafnistu. Þetta kemur mér satt að segja á óvart, og þetta er þveröfugt við það, sem við höfum reynslu af, sem stjórnum þar daglegum rekstri, og minni ég þar aðeins á aðsókn að því heimili. Það eru fleiri hundruð umsækjendur, sem eru þar og hafa verið undanfarin ár á biðlista, og ef einn hv. þm. telur ástæðu til þess hér á Alþ. að tala um óhugnanlega stofnun, mundi ég telja ástæðu til, að þessi hv. þm. gerði frekari grein fyrir því hér á Alþ., við hvað hann á. Ég kannast ekki við þetta, ég hef ekki heyrt það. En hins vegar getur okkur greint á um það, hvort fjöldinn á að vera sá, sem þar er, eða annar. Sá fjöldi, sem þar er saman kominn nú, hefur komið þangað vegna þeirra byrjunarframkvæmda í sambandi við sameiginlega þjónustu, sem séð var fyrir strax í byrjun, og sú þjónusta hefur leyft þetta. Og vegna þess rýmis, sem hverjum einstaklingi þar er ætlað, hefur verið hægt að gera þetta, án þess að nokkuð hafi komið upp á í samskiptum manna, nema það, sem alltaf verður í svo stórum hóp, en þarna eru saman komnir um eða yfir 370 manns, svo að stofnunin er kannske mannfleiri en sum þau kauptún, sem við þekkjum til víðs vegar í kringum; land. Og vissulega er þarna um mörg mannleg vandamál að ræða, sem verður að ráða fram úr hverju sinni, en samt sem áður er þarna, eins og ég segi, séð fyrir þörfum þessa fólks, frá því að það kemur inn á heimilið, og það á kost á því að vera í sínum einkaherbergjum, út af fyrir sig. Næsta stig er, að það geti verið á svokallaðri hjúkrunardeild, ef það þarf einhverja hjálp fram yfir það, sem einstaklingur, sem er í sínu einkahúsnæði, þarf á að halda, og að síðustu er þar einnig svokölluð sjúkradeild, sem tekur við þeim, sem eru rúmliggjandi vegna ellihrörnunarsjúkdóma eða af öðrum ástæðum og þar fyrir utan þarf oft og tíðum að vista marga á spítala. En ég vil mótmæla harðlega slíku málfari hér á Alþ. að vera að tala um það í þessu tilfelli, að þar sé um óhugnanlegar stofnanir að ræða.

Ég skal hins vegar viðurkenna, og ég þykist nú vita, að hv. þm. er þarna að ræða um stærð þessara stofnana. Ég skal viðurkenna það, að það hefði verið æskilegra í byrjun að hafa þessa stofnun minni og þá að við værum komnir aftur í gang hér á Reykjavíkursvæðinu að byggja aðra enn minni, til þess að það geti skapazt betra samband milli þeirra, sem þarna dvelja, og þeirra, sem við stofnunina vinna.

En í sambandi við þessa stærð vil ég líka benda á niðurstöður af þeirri framkvæmd Reykjavíkurborgar að byggja íbúðir fyrir öryrkja og aldraða við Austurbrún 6. Þeir hafa einmitt rekið sig á það í sambandi við þessar einstaklingsíbúðir, sem þeir byggðu þar, 22 íbúðir fyrir aldraða, að skv. útreikningi væri kostnaðurinn pr. íbúð, sem getur í mesta lagi hýst tvo einstaklinga, um 540 þús. kr. Þeir hafa rekið sig á þetta, og þeir hafa þess vegna t. d. leitað eftir vissu samstarfi við sjómannadagsráð hér í Reykjavík og Hafnarfirði í sambandi við næstu framkvæmdir hjá sér. Þeir vilja ekki leggja út í það að byggja eldhús, sjúkradeild og annað þess háttar hjá sér. Þeir ætla að byggja þessar íbúðir, en þeir vilja hafa þessar byggingar við hliðina á dvalarheimili, sem getur tekið við, þegar að næsta stigi kemur hjá þessum einstaklingum, sem minnka við sig og fara í einstaklingsíbúðir, geti tekið við og veitt þá þjónustu, sem þarf til, þegar þessir einstaklingar eru komnir á þann aldur og þannig staddir heilsufarslega, að þeir þurfa á meiri hjálp að halda. Þetta hafa þeir séð og einmitt vegna þess, hvernig grundvöllurinn var lagður að Dvalarheimili aldraðra sjómanna hér í Reykjavík á sínum tíma, þá verður þetta unnt. Og þarna verða í framtíðinni á þessu svæði, þessum 6 eða 7 ha. lands, ekki aðeins þær byggingar, sem nú eru þegar fyrir hendi hjá Hrafnistu, heldur einnig þær, sem eftir eru, sem eru íbúðir fyrir einstaklinga, og enn fremur íbúðir Reykjavíkurborgar, sem þeir ætla að hefjast handa um að byggja á næsta sumri, að mér er fortalið. Og þeir munu fá þá sameiginlegu þjónustu, sem þeir þurfa á að halda, frá þessu „sentrumi“, sem er Hrafnista, dvalarheimilið.

Ég álít, að þetta sé þróun, sem við ættum að fylgja á ýmsum stöðum úti um land, þar sem spítalar eru t. d. fyrir hendi eða annað slíkt. En við bara verðum að horfast í augu við það, að við höfum engin efni á því enn þá, — þó að þar sé ekki meira fé en er fyrir hendi í byggingarsjóði aldraðs fólks — að liggja með það bundið, meðan þörfin er jafnbrýn eins og hún er í sambandi við byggingu dvalarheimila og þegar við líka höfum það í huga, sem ég er margbúinn að benda á, að það losnar um svo mikið fjármagn til viðbótar, sem kemur inn í þessa starfsemi.

Ég vil benda þeim hv. andmælendum þessa frv. hér á það, sem eru úr Norðurl. e., að strax og þessar hugmyndir sjómannasamtakanna komu fram á sínum tímum, þá losnaði t. d. um fjórðung milljónar úr einum kaupstað í þeirra kjördæmi, Húsavík. Þeir hafa m. a. í sambandi við það átak, sem þeir eru að vinna núna, lagt áherzlu á það, að þeir næðu ákveðnu fé, ekki aðeins úr happdrættinu, heldur gera þeir ráð fyrir því í sinni tekjuöflun, að þeir nái 2 millj. kr. frá þessu litla kauptúni í frjálsum framlögum. Það eru félagasamtök og einstaklingar, sem eiga að standa undir þessu. Ég vil meina það, að ef slíkir aðilar geta fengið þetta litla framlag, sem mundi koma, eða þessi litlu lán úr Byggingarsjóði aldraðs fólks, þá mundi einmitt slíkur kraftur leysast og verða þessum stöðum til ómetanlegrar hjálpar í sambandi við slíkar byggingar. Við höfum þetta fyrir hendi líka á Akranesi, og reyndar kom það fram hér í fyrri umr. í sambandi við Borgarnes. Og á Akranesi eru sams konar samtök og hafa staðið fyrir byggingu Hrafnistu hér í Reykjavík löngu byrjuð að undirbúa byggingu dvalarheimilis þar.

Mér er persónulega kunnugt um það, að þeir höfðu eftir áramótin til ráðstöfunar á 2. millj. kr. í sambandi við heimilið í Borgarfirði, og það er rétt að benda á það, að í einu litlu kauptúni vestarlega á Snæfellsnesi liggja ónotaðar 500 þús. kr., sem kvenfélögin þar hafa safnað og konurnar vilja einmitt láta renna í slíkt heimili, annaðhvort þar heima, utarlega á Snæfellsnesi, eða annars staðar, þar sem viðkomandi aðilar geti átt aðgang að lækni og læknisþjónustu.

Mér finnst þetta vera eitt meginatriðið í þessu. Ég vil benda á það um leið og við horfum á það, hvað hér hefur gerzt. Við erum alltaf að tala um tekjur happdrættisins. Það eru tugir millj., sem hafa komið inn á annan hátt, í gegnum söfnunarfé og framlög einstaklinga hér í Reykjavík og Hafnarfirði, alls staðar frá, sem hafa gert þetta kraftaverk mögulegt, sem ég kalla, að það skyldi vera hægt að sameina stóran hóp stéttarfélaga, bæði yfir- og undirmanna, til þess að snúa sér að slíkum framkvæmdum. Og ég segi það hiklaust, að það mætti betur fara hjá þeim oft og tíðum. Ég hef verið óspar á að gagnrýna þau, stéttarfélögin og heildarsamtök þeirra, en ég er líka þess fullviss, að þetta verður, þó að sumir ákveðnir þm. telji, að það sé eitthvert grobb frá hendi þeirra manna, sem að þessu hafa unnið, þegar þeir benda á þessa staðreynd. Ég vil meina það bara, að það sé heiður þeirra en ekki hitt.

Það er búið að ræða mikið um þetta mál, og ég skal ekki orðlengja þessar umr. frekar, en ég vil taka undir með þeim mönnum, sem hér hafa talað í sambandi við málið eða þær brtt., sem hafa komið fram. Sú fyrri hefur ekki verið tekin til baka enn, svo að mér sé kunnugt, nema til þessarar umr. Ég er á móti þeim, og ég mundi óska eftir því, að hv. þd mundi afgreiða þetta frv. óbreytt, og ég vil undirstrika það, sem ég hef þegar lýst yfir, og ég þykist hafa nokkurn rétt til þess, vegna þess að þótt ég flytji þetta mál hér inn á Alþ., þá er ég að flytja þetta mál sem mál þeirra samtaka, sem mótuðu þá stefnu, sem fylgt er í þessu frv. Það eru sjómannafélögin í Reykjavík og Hafnarfirði, yfir- og undirmenn, sem hafa staðið fyrir byggingu DAS, Hrafnistu og það eru þeir, sem mótuðu þessa stefnu löngu áður, til þess að friða samvizku þessara tveggja hv. framsóknarþm. löngu áður en ég tók þar til starfa. Það er ekkert verið að gera annað. Það er verið að framfylgja þeirri stefnu, sem þeir mótuðu á sínum tíma, og það er ekki gert af rökleysi, heldur af þeirri þekkingu, sem þessir aðilar hafa öðlazt í byggingu og rekstri elliheimilis hér á Íslandi, og það verður ekki vilji þeirra að æskja eftir neinum hlut úr þeim 40%, sem hér er talað um. Hins vegar hefur það verið vilji þeirra að reyna að hjálpa öðrum stöðum til þess að hefja slíkar framkvæmdir, leggja til fé og starf til þess að það geti tekizt, m. a. til þess að leysa nýtt fé úr læðingi, jafnvel til þess að skapa meiri tekjur hjá happdrættinu. Það má vel vera, að svo verði, en m. a. vegna þess, að þetta er brýnt félagslegt vandamál hér á Íslandi í dag að eiga húsnæði yfir aldrað fólk, og við náum ekki því, sem við þurfum að ná á næstu árum, með því að fara út í einstakar íbúðir, verðum við að taka þetta skref fyrst að byggja dvalarheimilin. Síðan þegar okkur vex fiskur um hrygg, þá skulum við snúa okkur að hinu, sem ég tel, eins og aðrir, sem hafa talað í þeim dúr, ekki aðeins æskilegt, heldur það, sem við eigum að stefna að í framtíðinni.