29.03.1968
Neðri deild: 86. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1765 í B-deild Alþingistíðinda. (1623)

164. mál, byggingarsjóður aldraðs fólks

Vilhjálmur Hjálmarsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. Ég vil gjarnan gera grein fyrir afstöðu minni til þessa máls. Ég lít svo á í fæstum orðum sagt, að brtt. þær, sem liggja hér fyrir, séu fremur á misskilningi byggðar en á raunhæfu mati á málinu í heild. Það, sem vakir fyrir flm. brtt. og þeim öðrum, sem stutt hafa hans mál, er það fyrst og fremst að gefa mönnum kost á huggulegri og skemmtilegri aðstöðu en ella, ef íbúðirnar eða vistarverur þeirra væru tengdar dvalarheimilum. Menn getur greint á um þetta, eins og svo margt annað. En í þessu máli er í mörg horn að líta og margs að gæta. Það má vera, að verðmunur þurfi ekki að vera á íbúðum eftir því, hvort þær eru byggðar undir forminu dvalarheimili eða byggðar sem einstakar íbúðir. En líklegt er þó það, a. m. k. ef íbúðirnar væru byggðar í mjög smáum einingum, að þær yrðu þá dýrari í stofnkostnaði. Þá held ég, það fari ekki á milli mála, að þeirra þörf er sárari og brýnni, sem þannig stendur á fyrir, að þeir þurfa á aðstoð að halda, á hjúkrun að einhverju leyti eða einhverri umönnun. Þeirra þörf er áreiðanlega brýnni, sárari en hinna, sem enn geta séð sjálfum sér farborða og þurfa ekki aðhlynningar við. Þeirra möguleikar verða meiri til þess að bjarga sér. Það er eftirtektarvert, sem komið hefur fram við umr. um þetta mál, að það, sem þegar hefur verið hafizt handa um íbúðarbyggingar með hliðsjón af því að fá lán samkv. l., eins og þau hafa verið, það er formað á þann hátt, að byggðar eru 22 íbúðir í einni heild, og það er gengið út frá því, að íbúar þessa hverfis, eða hvað ég á að kalla það, geti síðan haft möguleika á því að njóta einhverrar aðhlynningar og stuðnings annars staðar frá. Ég held, að menn gangi ekki út frá því, a. m. k. ekki fyrst og fremst, að aldraða fólkið fari sjálft að byggja, enda væri það heldur óeðlilegt, að fólk, sem búið er að ljúka starfsdegi og orðið gamalt og slitið, fari að standa í húsbyggingum sjálft. Og af því leiðir þá það, að fyrst og fremst yrði þarna um að ræða leiguíbúðir, sem væru þá byggðar nokkrar saman. Og þá sér það hver maður, að þá er orðið skammt á milli þeirrar aðstöðu, sem þar er um að ræða, og þeirrar aðstöðu, sem aldrað fólk nýtur, t. d. í útibúi elliheimilisins Grundar í Hveragerði, og mundi njóta samkv. þeim hugmyndum, sem nú eru yfirleitt uppi um byggingu dvalar- og hjúkrunarheimila fyrir aldrað fólk.

Það hefur verið sagt hér við þessar umr., að það væru uppi tvær stefnur í elliheimilamálum. Ég álít þetta algerlega á misskilningi byggt, algerlega. Það er ekki að mínum dómi um að ræða nú nema eina stefnu. Menn vilja að vísu sameina það annars vegar að koma vistarverum þannig fyrir, að gamla fólkið geti notið samhjálpar bæði varðandi mötuneyti, læknisaðstöðu, hjúkrun og á annan hátt. En það er áreiðanlega ríkjandi skoðun nú, að stefna beri að því að hafa einingarnar ekki stærri en þarf svo að þessu verði við komið, en hins vegar að stefna beri á það þrennt, að menn geti haft aðstöðu til einhverrar vinnu eftir því, sem hentar, að menn séu ekki að nauðsynjalausu slitnir úr tengslum við átthaga og ættmenn og að nokkur fjölbreytni sé í gerð íbúðanna. Þetta er stefnan. Það eru starfandi tvö stór fyrirtæki á þessu sviði hér í höfuðstaðnum. Og ég hygg, að þrátt fyrir það, þó að kunni að vera um að ræða einhverja erfiðleika, vegna þess að stofnanirnar eru þetta stórar í sniðum, mundi enginn óska sér þess nú, að þessar stofnanir væru minni. En aftur á móti er víða mikil þörf á því, og almennar óskir um það, að þau litlu dvalarheimili, sem starfrækt eru víðs vegar um land í kaupstöðunum, væru stærri.

Ég held, að þetta sé ósköp einfalt mál, en það er rétt, að það þarf á allan hátt að gæta hagsýni í þessum efnum. Menn vilja gjarnan stuðla að því, að gamla fólkið geti verið nálægt átthögum sínum og ættmennum, en í þeim efnum er á margt að líta. Það er hreyfing á þessum málum núna á Austurlandi, og þar er stefnt að því að sameina sem allra flest sveitarfélög um lausn málsins. Menn hugsa sér í fyrstu að byrja uppbyggingu á einum stað og í ekki mjög stórri einingu, sem þó væri hægt að byggja í áföngum. En menn eru þar einnig opnir fyrir þeim möguleika síðar, eftir að byrjunin væri vel komin á laggirnar, að unnt væri síðar að setja upp deildir eða útibú frá aðalstofnuninni, í hinum fjölmennari stöðum öðrum en þeim, þar sem fyrirhugað er að byrja. Það er enginn vafi á því, að það er æskilegt, að þessar stofnanir séu þannig settar, að skammt sé til læknisþjónustu, og ég get upplýst það hér, að varðandi þessar hugmyndir eystra hefur þessari fyrirhuguðu framkvæmd þar verið valinn staður nálægt væntanlegri læknamiðstöð í Egilsstaðakauptúni.

Ég skal ekki hafa þessi orð fleiri, herra forseti. Ég vil aðeins árétta það, að með þeirri breytingu, sem lagt er hér til að gerð verði á lögum um Byggingarsjóð aldraðs fólks, er auðvitað alls ekki loku fyrir það skotið, að byggðar verði einstakar íbúðir með tilstyrk lánasjóðsins, en á hinn bóginn er með frv. opnuð leið til aukins stuðnings við byggingu nýrra dvalar- og hjúkrunarheimila aldraðs fólks og á þann hátt stuðlað að því að leysa vanda fleiri einstaklinga en ella, og að mínu viti þeirra einstaklinga, sem allra sárast þurfa þess með, að þeirra málum sé sinnt.