29.03.1968
Neðri deild: 86. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1767 í B-deild Alþingistíðinda. (1624)

164. mál, byggingarsjóður aldraðs fólks

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja þessar umr. til muna. Þó tel ég rétt að láta nokkur orð falla um frv. og ræðuhöld þau, sem fram hafa farið. Sem betur fer virðist þeim fara fjölgandi, sem sinna vilja málefnum aldraðs fólks og leita lausnar á þeim, enda gerast þau mál mjög aðkallandi nú í tímum. Það er liðin sú tíð, að þrjár til fjórar kynslóðir búi í sömu baðstofunni eða heimilinu samtímis frá vöggu til grafar. Möguleikar gamla fólksins til að dveljast í heimahúsum hjá ættingjum og vinum fara stöðugt minnkandi eftir því, sem árin líða og elli og lasleiki ágerist. Þetta er köld staðreynd, sem horfast verður í augu við. Hvar á þá að vista gamla fólkið? Það er ágætt að styrkja það til að byggja, eignast eigin íbúðir, svo sem lög nr. 49 frá 1963 um Byggingarsjóð aldraðs fólks gera ráð fyrir. En sú lausn nær skammt, eins og reynslan sýnir. Það verður að byggja vistheimili, sem tekið geta á móti fleiri eða færri gamalmennum. Stór átök hafa verið gerð í þessu efni, svo sem Elli- og hjúkrunarheimilið Grund í Reykjavík ásamt Ási í Hveragerði og Dvalarheimili aldraðra sjómanna, Hrafnista, í Reykjavík. En það er óbærileg tilhugsun, að flytja verði allt gamalt fólk til höfuðborgarinnar að loknu dagsverki í sinni heimaByggð. Það verður að stuðla að því eftir fremsta megni, að hið aldurhnigna fólk fái að vera kyrrt á sinni rót. Í vöggunnar landi skal varðinn standa. Þess vegna verður að byggja slík dvalarheimili hér og hvar í byggðum landsins, að vísu á skipulegan hátt, þar sem bezt hentar til með aðstöðu alla, svo sem hjúkrun og læknishjálp. Slík málefni eru víða ofarlega á baugi hjá sveitar- og sýslufélögum. Sums staðar hafa einstaklingar látið stórfé og önnur verðmæti rakna af hendí í þessu skyni, t. d. sem dánargjöf.

Geta má þess, að mál þetta hefur verið á dagskrá búnaðarþings ár eftir ár. Hafa þar verið gerðar ályktanir, sem miða að því að leysa vanda hinna öldruðu með byggingu hentugra dvalarheimila, þar sem aðstaða er til heilsugæzlu, hjúkrunar og læknishjálpar úti á landsbyggðinni.

Hv. 3. þm. Norðurl. e. lét í ljós þá skoðun í ræðu í gær, að hin fjölmennu dvalarheimili yrðu óhugnanlega stór í sniðum, langir gangar o. s. frv., en við skulum minnast þess, að þau eru byggð af stórhug og hafa bætt úr brýnni og aðkallandi þörf. Með frv. því, sem hér er til umr., er af víðsýni opnuð leið til að styrkja og stuðla að byggingu dvalarheimila víðs vegar um land, þar sem henta þykir og þörf er. Ég fæ ekki séð, að brtt. hv. 5. þm. Norðurl. e. hafi nein bætandi áhrif á þetta frv. og tel því eðlilegast, að það nái fram að ganga óbreytt.