19.02.1968
Neðri deild: 63. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1770 í B-deild Alþingistíðinda. (1639)

110. mál, búnaðarmálasjóður

Frsm. (Jónas Pétursson):

Herra forseti. Þetta frv. á þskj. 240 er flutt af landbn. hv. d., að beiðni landbrh., en til hans hafði áður borizt beiðni frá stjórn Bændahallarinnar um flutning þessa máls, sem er um framlengingu á ákvæði til bráðabirgða, sem hefur verið með l. um búnaðarmálasjóð, en það er um að framlengja gjald, sem greitt hefur verið til Bændahallarinnar og innheimt eftir sömu reglum og búnaðarmálasjóðsgjald.

Þetta frv., sem hér er flutt núna, er þó nokkuð breytt frá því, er áður var, þannig að gjaldið var áður ½%, en er núna 1/4%, og gert ráð fyrir að framlengja það um 4 ár. Og þetta byggist á því, eins og fram kemur í bréfi, sem fylgir með sem fskj., að fyrr á þessu Alþ. voru afgr. lög um Bjargráðasjóð Íslands, þar sem það nýmæli var lögfest að stofna afurðatjónadeild. Hún hefur að tekjum gjald eftir sömu reglum, sem nemur 1/4%. Þetta er við það miðað, að þessi tvenns konar gjöld nemi eigi hærri upphæð prósentvís en áður hefur verið í lögum.

Þetta bréf frá stjórn Bændahallarinnar til landbrh., sem hér fylgir, felur ekki í sér miklar upplýsingar um nauðsynina á þessu, þannig að landbn. kvaddi á sinn fund framkvæmdastjóra Bændahallarinnar, Sæmund Friðriksson, og fékk hjá honum nokkrar upplýsingar um fjárhagsafkomuna og nauðsynina á því að fá þetta gjald framlengt. Ég ætla ekki að rekja það ýtarlega. Ég skal aðeins nefna það, að það kom fram eða að við fengum þær upplýsingar, að það muni láta nærri, að tvö s. l. ár hafi rekstur Bændahallarinnar skilað arði sem nam vöxtum, sem þarf að greiða af lánum, sem á Bændahöllinni hvíla, en þetta gjald, ½%, sem það hefur verið hingað til, hefur svo gengið til þess að greiða niður lán, sem hvíla á byggingunni. Það er að vísu erfitt að spá fyrir um, hvernig þessi rekstur muni ganga framvegis, en sem sagt þessar upplýsingar benda til þess, að það sé þörf á framlengingu þessa gjalds til þess að standa undir því að greiða niður lánin, sem á byggingunni hvíla. Nú er það að vísu svo, að þetta 1/4%, sem ætla má að nemi um það bil 4 millj. árlega, mun þó ekki hrökkva að fullu til þess að greiða umsamdar afborganir.

Landbn. sem slík hefur ekki tekið afstöðu til frv., eins og fram kemur í grg. Nm. hafa óbundnar hendur um afstöðuna, og ég geri ráð fyrir því, að það muni koma hér fram við atkvgr. Ég vil hins vegar lýsa yfir persónulega stuðningi mínum við þetta frv. og legg því til, að því verði vísað til 2. umræðu.