08.04.1968
Neðri deild: 94. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1772 í B-deild Alþingistíðinda. (1649)

110. mál, búnaðarmálasjóður

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Ég þóttist sjá það, að hér hefði verið flutt brtt. við þetta frv., og hélt nú kannske, að það yrði mælt fyrir henni, en af því að mér finnst, að þetta mál fari hér í gegn með einstöku pukri, það sé alls ekki talað fyrir málinu á neinn hátt, fannst mér ástæða til þess að rifja hér upp nokkur atriði varðandi þetta mál.

Hér er ekki um nýtt mál að ræða, það hefur gengið hér aftur á Alþ. um alllangan tíma og hlotið svona misjafnar undirtektir, þó það hafi nú yfirleitt verið þannig, að samþykkt hefur verið áfram að leggja þann skatt á bændur, sem í frv. felst til stuðnings við Bændahöllina. Fyrir tveimur árum var óskað eftir því að fá gjaldið framlengt enn í 4 ár, en því var breytt hér í meðförum á Alþ. og heimildin til þess að innheimta þetta gjald var bundin við tvö ár. En nú kemur hér enn ein framlengingin á þessu gjaldi. Hefur að vísu tekið þeim breyt., að nú er talað um 1/4 úr prósenti af viðbótargjaldi á söluvörum landbúnaðarins, sem eiga að renna til Bændahallarinnar, en nú er líka gert ráð fyrir því að veita heimild til þess að innheimta þetta gjald í næstu 4 ár. Ég hef allan tímann verið á móti þessu gjaldi, tel það óeðlilegt og ósanngjarnt og veit, að það er fjöldi bænda algjörlega andvígur því, að þetta gjald sé lagt á. Þó tel ég, að innheimtan á þessu gjaldi sé orðin úr hófi fram ósanngjörn og óeðlileg, eftir að það liggur fyrir, að hér er um að ræða innheimtu á gjaldi til þess að standa undir hallarekstri á Bændahöllinni, aðallega til þess að standa undir halla af rekstri hótelsins. Það mátti þó segja, að það væri svona sjónarmið út af fyrir sig að ætla að leggja á bændur nokkurt gjald, á meðan það var verið að innheimta upp í stofnkostnað þessarar byggingar, sem samtök þeirra eiga þó að forminu til, en að innheimta þetta gjald áfram til að standa undir hallarekstri á hóteli hér í Reykjavík er auðvitað alveg fráleitt. Og ég tel það í rauninni fyrir neðan allar hellur að ætla nú að samþykkja hér frv. um það að veita heimild í næstu fjögur ár til að innheimta þetta gjald.

Ég vil benda á það, að innan bændasamtakanna er það síður en svo, að menn hafi verið á eitt sáttir í þessum efnum. Ég hef m. a. fengið hér sent bréf frá einum af þingfulltrúum á búnaðarþingi, þar sem hann gerir nokkra grein fyrir því, sem fram kom í umr. um þetta mál á síðasta búnaðarþingi. Í þessu bréfi er m. a. upplýst, og mér þykir full ástæða til þess að leyfa því að koma hér fram, að það liggur nú fyrir skv. reikningum Bændahallarinnar, að búið er að innheimta fram til ársloka 1967 af bændum upphæð, sem nemur 43.153.320.00 kr. í þetta gjald. Og þar kemur einnig fram, að áætlað er óinnheimt af þessu gjaldi fyrir s. l. ár sem nemur 9 millj. kr. Auk þess hefur svo Stéttarsamband bænda lagt fram í þessu skyni upphæð, sem nemur 23 millj. kr. Þá er áætlað, að vextir og vaxtavextir af þessari upphæð á innheimtutímabilinu muni nema í kringum 25 millj. kr. eða samtals sé búið að innheimta af bændum í þessu skyni upphæð, sem nemur í kringum 100 millj. kr.

Ég held, að það sé því búið að taka af bændum svo mikið gjald í sambandi við þessa byggingu, að það nái engri átt að fallast á það að gefa heimild til þess að innheimta þetta gjald enn þá í 4 ár til viðbótar. Ég er því fyrir mitt leyti alveg mótfallinn þessu frv., tel að vísu þá brtt., sem lögð hefur verið hér fram og ekki hefur nú verið talað fyrir, um það, að gjaldið skuli aðeins innheimt í næstu 2 ár, nokkuð til bóta, en ég óttast það nú, að þegar þau tvö ár eru liðin, verði aftur komið með beiðni fyrir enn önnur 2 ár, enda kemur það fram í grg. þessa frv., að stjórn Bændahallarinnar telur, að m. a. s. innheimta á þessu gjaldi næstu 4 ár muni hvergi nærri duga. Það þurfi í rauninni að koma hér meira til. Í þessum efnum er því aðeins spurningin um það, hvort ætlunin er að halda áfram að innheimta þetta gjald af bændum til þess að standa undir hallarekstri hótelsins, sem rekið er í Bændahöllinni. Ég skal ekki fara neitt út í það hér, það er alveg óþarfi að rekja það, hvernig ástatt er nú hjá bændum í landinu. En ég ætla það af því, sem fram hefur hér komið, að það sé engin ástæða til þess að vera að halda slíku gjaldi áfram, eins og nú er ástatt með afkomu bænda í landinu. Ég vildi aðeins láta þetta koma fram, að mín afstaða til þessa máls er alveg óbreytt frá því, sem áður var. Ég er algerlega á móti þessu gjaldi, en í rauninni fjallar frv. aðeins um þetta gjald og því vil ég fella frv.