08.04.1968
Neðri deild: 94. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1775 í B-deild Alþingistíðinda. (1651)

110. mál, búnaðarmálasjóður

Vilhjálmur Hjálmarsson:

Það eru aðeins örfá orð, herra forseti, út af ræðu hv. 4. þm. Austf. Þegar hann talar um, að það sé sök sér að leggja á þennan skatt, á meðan hann gangi til greiðslu stofnkostnaðar, en fráleitt, eftir að hann gangi til að greiða hallarekstur á hóteli, þá er skylt að leiðrétta þetta. Hótelið skilar vissulega fjárfúlgum til Bændahallarinnar, sem ganga til niðurgreiðslu lána. En vegna þess hve lánin eru óhagstæð, til stutts tíma, nægir ekki það, sem hótelið skilar og skrifstofuhúsnæðið skilar, til þess að greiða af hinum óhagstæðu lánum. Það er hins vegar ekki hægt að segja, að verið sé að greiða niður rekstur á hóteli, því það er varla hugsanlegt, að nokkur bygging, hvort sem er hótel eða annað, geti borgað sig niður á svo stuttum tíma, án þess að þar komi til fé annars staðar frá.

Hv. þm. vitnaði hérna í bréf, sem borizt hefur til Alþ. frá einum fulltrúa á búnaðarþingi. Ég vil aðeins leyfa mér að benda á, að það er svolítið óvenjulegt, að ég hygg, að eftir að í einu félagi er með miklum meiri hluta búið að taka ákvörðun um mál, sem flutt er svo áfram á öðrum vettvangi, að minni hlutinn sæki þá fram sér á parti og reyni að hindra það, að málið nái fram að ganga eins og meiri hlutinn í félaginu hefur gengið frá því. Ég held, að það sé bezt um þetta mál eins og önnur að líta á það eins og það liggur fyrir nú í dag. Bændasamtökin hafa byggt þetta hús, sem kallað hefur verið Bændahöll. Það hefur hvort tveggja gerzt, að húsið var dýrara heldur en áætlað hafði verið, eins og raunar flestar aðrar byggingar á Íslandi, og það hafa ekki fengizt hagkvæm lán til langs tíma til þess að standa undir stofnkostnaðinum. Og af þeim ástæðum er það, sem fjárhagur þessa fyrirtækis hefur verið og er enn það erfiður, að það þarf að koma til fjármagn annars staðar frá, ef hægt á að vera að standa við skuldbindingar.

Það er sjálfsagt engum ljúft og ekki heldur þeim meiri hluta, sem hefur verið fyrir þessu máli í Stéttarsambandinu, á aðalfundum þess og á búnaðarþingi, að þurfa að halda áfram innheimtu þessa gjalds og allra sízt eins og árferði er nú. En á meðan ekki finnast önnur úrræði, er að dómi meiri hl. fulltrúa á þessum samkomum bændanna báðum ekki um annað að gera heldur en fara fram á framlengingu gjaldsins. Það kemur fram í ályktunum þessara samtaka, og ég hika ekki við að segja, að það sé afdráttarlaus vilji mikils þorra bænda, að bændurnir sjálfir og samtök þeirra eignist þetta hús sitt að fullu og reki það sjálf.

Það var farið fram á það fyrir tveimur árum að framlengja þetta gjald þá óbreytt eins og það hafði verið til fjögurra ára. Það var hins vegar ekki orðið við því þá að fullu, heldur aðeins ákveðið til tveggja ára. Nú hefur það komið í ljós, eins og þá var óttazt, að þetta nægði ekki, og ég vil vekja sérstaka athygli á því, að þegar nú er farið fram á að framlengja gjaldið að helmingi, þ. e. a. s. 1/4 af hundraði til fjögurra ára, þá er það nákvæmlega það sama og ekkert meira heldur en farið var fram á fyrir tveimur árum. Helmingi af því gjaldi, sem áður rann til Bændahallarinnar, þ. e. 1/4% hefur nú verið ráðstafað til frambúðar. Og eins og hv. þm. muna er því varið til Bjargráðasjóðs gegn ákveðnum framlögum þar á móti. Þetta var gert með samþykki og eftir ósk bændasamtakanna sjálfra. Ég held, að það sé ekki óeðlilegt, að Alþ. verði einnig við þeim óskum bændasamtakanna, sem nú liggja hér fyrir. Það eru auðvitað alltaf einhverjir, sem eru óánægðir. Það er varla hugsanlegt, að í jafnstórum samtökum eins og bændasamtökin eru, standi menn allir svo saman, að enginn ágreiningur sé um mál eins og þetta. En ég held, að það sé óhætt að segja það, að í hugum alls þorra bændanna komi það nú eitt til greina að ljúka þessu máli, að fylgja því eftir, að bændurnir nái að eignast til fulls Bændahöllina, fái lokið við að greiða niður þetta mannvirki sitt. Og þó menn greini á um þetta mál nú, þá verður það niðurstaðan þegar upp verður staðið og yfir lýkur, að það verður ekki felldur áfellisdómur yfir þeim mönnum, sem unnið hafa að húsbyggingu bænda. Ég held, að það verði ekki niðurstaðan, heldur það gagnstæða. Brtt. hv. 4. þm. Norðurl. v. er ekki til bóta. Það eru engin rök fyrir því, að tveggja ára framlag nægi. Þess vegna er það mín till., að frv. verði samþ. óbreytt.