08.04.1968
Neðri deild: 94. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1778 í B-deild Alþingistíðinda. (1653)

110. mál, búnaðarmálasjóður

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Það voru aðeins örfá orð í tilefni af því, sem hv. 5. þm. Austf. sagði hér. Hann gerði sérstaklega aths. við það, sem ég hafði sagt hér í þá átt, að þessi skattur, sem hér væri um að ræða, væri nánast til þess að standa undir hallarekstri af hótelhaldi í Reykjavík. En þær upplýsingar hef ég einmitt frá þeim aðilum, sem hafa kynnt sér þetta mál mjög vel, og satt að segja get ég nú ekki séð, að það sé frambærileg skýring á því, að það þurfi að halda áfram þessari greiðslu.

Í því bréfi, sem ég vitnaði hér til, frá frsm. af búnaðarþingi, sem talaði þar fyrir tillögu sex búnaðarþingsmanna, sem vildu leggjast gegn samþykkt þessa frv., kemur það einmitt alveg greinilega fram, og þar er það beinum orðum sagt, að hér sé fyrst og fremst um að ræða hallarekstur vegna Hótel Sögu. Ég vil líka segja það, að ef þeir, sem leigja þarna húsrými í þessu húsi, eins og Flugfélag Íslands, ameríska upplýsingaþjónustan, nú og svo þá hótelið, ef þeir borga eðlilega fyrir afnot sín af þessu húsi, trúi ég því ekki, að það þurfi, að halda uppi slíkum skatti sem þessum nema vegna þess, að þarna er um beinan hallarekstur að ræða. En auðvitað verður líka að telja með, í sambandi við það, hvort þarna er um hallarekstur að ræða eða ekki, þá verður vitanlega að telja með allrösklega afskrift af þessari fasteign eins og öðrum, það er ekki hægt að komast hjá því. Ég vil fyrir mitt leyti ekki ganga inn á það sjónarmið, að þegar bændasamtökin eru búin að leggja fram í beinum útlögðum peningum yfir 75 millj. kr. í þessa byggingu, sé ekki hægt með eðlilegri aðstoð ríkisins að koma þeim lánum, sem á byggingunni hvíla, fyrir þannig, að ef ekki er um hallarekstur að ræða, þurfi ekki að koma til frekari stuðningur. Það hefði verið miklu eðlilegra að fara hér t. d. fram á það í staðinn fyrir þennan skatt, að ríkið tæki að sér að veita ríkisábyrgð fyrir nauðsynlegri lengingu á stofnlánum þessarar byggingar. Af hverju er ekki farið fram á það? Að maður tali nú ekki um það, að ríkið tæki að sér að útvega nauðsynlega lengingu á þessum erlendu lánum, sem á byggingunni hvíla, en á það er ekki minnzt. Nei, og það kemur m. a. s. fram nú, þegar er um það að ræða að framlengja þennan skatt, annaðhvort í fjögur næstu ár, eins og frv. gerir ráð fyrir, eða tvö, eins og sérstök brtt., sem hér liggur frammi, gerir ráð fyrir, ja, þá kemur í ljós, að hv. 5. þm. Austf. telur það hreint ekki til bóta að binda sig bara við tvö næstu ár. Það sé miklu betra að slá því föstu nú strax: Skatturinn skal standa í næstu 4 ár. Ætli það liggi nú nokkuð á að samþykkja nema tvö ár í einu, nema mönnum sé það eitthvert metnaðarmál, að bændur haldi áfram að borga þennan skatt, en koma hins vegar hér fram samtímis og mótmæla því hörkulega, að bændur borgi alveg hliðstæðan skatt í stofnlánasjóði sína? Ég fyrir mitt leyti hef verið á móti því líka, eins og á hefur staðið, að bændur þyrftu að greiða þennan skatt í stofnlánasjóðina. En ég tel það þó miklum mun réttlátara á allan hátt, að þeir borgi eitthvert gjald í stofnlánasjóðina, heldur en þeir séu látnir borga þetta gjald áframhaldandi ár eftir ár, löngu eftir að byggingu er lokið. Ég skil ekki þann hugsunarhátt að ætta sér að halda sér fast við þessar till. áfram.

Ég vil nú beina því til þeirra manna, sem með þessu máli hafa staðið fram til þessa og virðast helzt af öllu vera bara hræddir um það, að það verði gengið að Bændahöllinni og hún tekin af bændum, sem ég er nú ekki mikið hræddur við, að til standi, — hvort ekki sé fært fyrir þá að leita eftir því t. d. að fá ríkisábyrgð fyrir ákveðinni lántöku í því skyni að lengja þessi óhagstæðu lán Bændahallarinnar. Það ætti að duga, ef hér þarf aðeins að glíma við hin eiginlegu stofnlán. En ef það er aftur á hinn veginn, sem ég fyrir mitt leyti óttast, að rétt sé af þeim upplýsingum, sem fram hafa komið, að hér sé raunverulega verið að glíma við hallarekstur á hóteli enn þá að verulegu leyti, þá auðvitað þarf bændastéttin, ef hún vill eiga ekki aðeins bygginguna, heldur reka þetta allt saman, þá þarf hún auðvitað að leggja fram ákveðið rekstrarframlag á hverju ári, þá þarf hún að skattleggjast.

Röksemdina um það, að samtök bænda hafi mælt með þessari skattlagningu tek ég nú ekki mjög alvarlega, því að ég álít, að samtök bænda, t. d. búnaðarþing eða Stéttarsambandið, hafi í rauninni ekkert umboð til þess á neinn hátt að koma þannig fram fyrir hönd bændastéttarinnar að óska eftir því, að bændastéttin verði skylduð til þess að borga tiltekin gjöld. Einstakir fulltrúar á búnaðarþingi geta haft þá skoðun, og aðrir hafa líka enn aðra skoðun og það hefur komið fram. En það segir vitanlega ekkert til um afstöðu bændastéttarinnar í heild. Og telji menn í raun og veru, að erfiðleikar bænda séu jafnmiklir og nú kemur fram, sé ég ekki, að það sé ekki sjálfsagt einmitt að láta þetta gjald falla niður núna og reyna að komast yfir þennan vanda eftir öðrum leiðum.

Með þessu bréfi, sem ég vitnaði hér til, fylgir m.a. brtt. sem 6 búnaðarþingsfulltrúar skrifa undir, þar sem þeir lögðu eindregið til, að þetta mál næði ekki fram að ganga, svo að það er auðvitað augljóst mál, að einnig í búnaðarþingi hafa verið skiptar skoðanir um þetta gjald og svo hefur verið lengi.

Ég skal svo ekki orðlengja frekar um þetta, en mín afstaða til málsins er óbreytt, og mér þykir eiginlega þessi skattlagning vera þeim mun verri sem henni er lengur haldið áfram.