08.04.1968
Neðri deild: 94. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1780 í B-deild Alþingistíðinda. (1654)

110. mál, búnaðarmálasjóður

Vilhjálmur Hjálmarsson:

Herra forseti. Ég vil bara láta það koma alveg skýrt fram hér, að það hefur vissulega verið leitað eftir því af hálfu bændasamtakanna og forráðamanna Bændahallarinnar að leysa fjármálin með öðrum hætti heldur en að halda áfram innheimtu þessa gjalds. Það er skylt að láta það koma hér alveg skýrt fram. Það hefur bara ekki verið um það að ræða að fá stuðning til þess, hvorki af hálfu ríkisvalds né lánastofnana. Það er auðvitað hægt að deila um það, hvað sé halli á hóteli undir þessum kringumstæðum, en ég vil einnig láta það koma fram hér, þó ég hafi ekki tölurnar nákvæmlega, að hótelið hefur skilað 6–7 millj. kr. hvort árið '65 og '67, en árið 1966 4½ millj. — það var árið, sem Loftleiðir fóru út með sitt fólk, þetta hefur aftur jafnað sig og nýting á hótelinu verið mjög góð s. l. ár. En það er einnig rétt að vekja athygli á því og láta það koma hér fram, að síðustu árin hefur hótelrekstur þarna og annars staðar átt við það að stríða, að það hefur ekki verið leyft að hækka greiðslur fyrir þjónustu á sama tíma sem efni í mat og allur tilkostnaður hefur rokið upp. Og þetta með öðru fleiru hefur auðvitað aukið á vandræðin.

Það er ósköp auðvelt að koma og segja það hér úr ræðustóli á Alþ., að samtök bændanna og þeirra landssamkomur, aðalfundur Stéttarsambands bænda og búnaðarþing, hafi ekkert umboð til þess að gera eitt eða annað. Það er auðvelt að segja þetta hér og það er kannske ekki heldur nákvæmlega skilgreint í lögum þessara samtaka, hvað megi gera á þessum fundum og hvað megi þar ekki gera. En á hitt ber að líta, að á báðar þessar samkomur, sem eru landsfundir, aðalfundur Stéttarsambands bænda og búnaðarþing, á þær báðar er kosið með lýðræðislegum hætti, almennri kosningu á búnaðarþing, en kjörmannakosningu á stéttarsambandsfundi. Og þar eiga kosningarétt allir bændur á landinu. Á stéttarsambandsfundina er kosið með tveggja ára millibili, og ég held, að það fari varla á milli mála, að ef mikill þorri bænda væri andvígur því að standa að Bændahöllinni, hefði þess gætt í kosningum til Stéttarsambandsins, svo oft, sem þar er búið að kjósa, síðan þetta mál kom upp. Það er líka ákaflega einfalt að segja það hér, og sérstaklega fyrir þá, sem ekki eru í bændasamtökunum og hafa því við engan vanda að glíma að þessu leyti, að þetta gjald megi falla niður. Og það rímar ákaflega vel við þær aðstæður, sem eru hjá atvinnuvegunum yfirleitt og ekki sízt í landbúnaðinum, þá erfiðleika, sem þar er við að glíma. En það hefur bara verið háttur bændasamtakanna að reyna í lengstu lög að standa við sínar skuldbindingar. Og meðan ekki hillir undir neina aðra lausn á fjármálum þessa fyrirtækis að því er varðar þann hlutann, sem þessu gjaldi er ætlað að dekka, á meðan ekki hillir undir neina aðra lausn, þá hefur það orðið úrræði meiri hl., mjög mikils meiri hl. fulltrúa á fundum samtakanna að óska eftir því, að gjaldið verði framlengt. Og eins og ég sagði áðan, vegna þess að ekki liggur fyrir neitt ákveðið, sem bendir í þá átt, að 2 ár nægi með ¼%, þá er það mín till., að frv. verði samþ.