30.10.1967
Neðri deild: 10. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 230 í B-deild Alþingistíðinda. (171)

19. mál, lögræði

Forsrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Frv. þetta og þau frv. tvö, sem eru næst á dagskrá, eru öll flutt sem afleiðing af þeirri breytingu á stjórnarskránni, sem samþ. var á hv. Alþ. á s.l. vori og nú hefur verið lögð aftur fyrir þingið og er til meðferðar í Ed. Ég geri ráð fyrir því, að hér séu ekki öll kurl komin til grafar enn, að það séu fleiri breytingar, sem gera þurfi, og væri eðlilegt, að nefnd, væntanlega hv. allshn., sem fengi þetta frv. til athugunar, hefði nánara samráð fyrst og fremst við dómsmrn. um þær aðrar breytingar, sem hér koma til álita. En lækkun aldursmarks í þeim ákvæðum, sem í þessum þremur frv. koma til greina, er sjálfsögð, eins og þær aðrar breytingar á kosningal., sem þarna eru ráðgerðar, og bein afleiðing af stjórnarskrárbreytingunni.

En sem sagt, ég sé í fljótu bragði, að hér er ekki allt talið, sem til álita kemur. Það má vera, að hin einstöku rn. séu að skoða þetta betur, eins og þau hafa verið beðin um, en eðlilegt er, eins og ég segi, að hv. n. hafi samráð við dómsmrn. fyrst og fremst um meðferð málanna að öðru leyti.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta og ekki ástæðu til að mæla fyrir hinum tveimur frv., þetta er allt afleiðing af sama atriði, og legg til, að þessu frv. sé vísað til 2. umr. og hv. allshn.