29.02.1968
Neðri deild: 68. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1796 í B-deild Alþingistíðinda. (1741)

149. mál, breyting á mörkum Eskifjaðrarhrepps og Reyðarfjarðarhrepps og sala Hólma

Flm. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Þegar Reyðarfjarðarhreppi hinum forna var skipt árið 1907, voru sett þau mörk, sem nú gilda á milli Eskifjarðarhrepps og Reyðarfjarðarhrepps, en þau voru ákveðin um á sem rennur út í fjarðarbotninn og Bleiksá heitir. Það hefur löngum verið nokkuð þröngt um Eskifjarðarkauptún í Eskifjarðarhreppi, og vegna óhagkvæmra skilyrða og þrengsla hafa Eskfirðingar undanfarna áratugi orðið að hafa ýmis not af landi í Reyðarfjarðarhreppi. T. d. hafa þeir haft þar áratugum saman kirkjugarð sinn, íþróttavöll og ýmis mannvirki.

Það hefur oft komið til orða að breyta þessum hreppamörkum, en samkomulag hefur ekki náðst. En nú hefur framtíðarhöfn Eskifjarðarkauptúns verið ákveðinn staður inni í fjarðarbotninum, en ekki út við svokallaða Mjóeyri, sem lengi hafði verið hugsað. Þarna er höfnin að verða til og þegar risin mikil mannvirki á hafnarsvæðinu, t. d. síldarverksmiðja, fiskverkunarhús og röragerð, og þarna koma síðan fleiri byggingar. En landrými skortir innan hreppsins, Eskifjarðarhrepps, til útfærslu við höfnina og einnig er nokkurn veginn ljóst, að heppilegast er, að íbúðahverfi komið einnig við fjarðarbotninn á landi, sem nú er í Reyðarfjarðarhreppi. Þess vegna hefur enn á ný komið upp þetta mál að breyta hreppamörkunum. Samkomulag hefur þó því miður ekki náðst, en málið á hinn bóginn þannig vaxið, að við erum allir sammála um það, þm. Austf., að flytja þetta frv. um að breyta hreppamörkunum með l., þar sem samkomulag hefur ekki orðið. Virðist okkur langsanngjarnasta og eðlilegasta lausnin vera sú, sem við stingum upp á í þessu frv., sem sé, að hreppamörkin verði um Hólmaháls, sem kallaður er, og er þá Eskifjörður, sem er lítill fjörður inn úr Reyðarfirði, allur í Eskifjarðarheppi ef þetta verður samþ.

Þá er þess að geta, að höfuðbólið Hólmar og prestssetur gamalt liggur í Reyðarfjarðarhreppi, en hefur verið nytjað af Eskfirðingum æðilanga hríð. Jörðin leigð af ríkissjóði, en nú þykir okkur skynsamlegast að fylgja í þessu efni einnig hreppamörkunum og Reyðfirðingar geti átt þess kost að fá þann hluta ríkisjarðarinnar Hólma keyptan, sem verður í þeirra hreppi. En Eskfirðingar aftur á móti geti fengið keyptan þann hluta jarðarinnar, sem er miklu minni hlutinn, sem yrði í Eskifjarðarhreppi. Verði þetta frv. samþ., eru að okkar dómi komin þarna eðlileg hreppamörk og fyrir því séð, að Eskifjarðarkauptún getur rúmazt innan hreppsins í fyrirsjáanlegri framtíð.

Við höfum reynt að fara bil beggja í þessu máli og finna á því eðlilega lausn að okkar dómi, og er þess loks að geta til viðbótar, að eyðijörð er við Eskifjarðarbotninn, sem Borgir heita, sem Reyðarfjarðarhreppur á, og höfum við sett hér í þetta frv. þá kvöð á Eskifjarðarhrepp, að hann kaupi þessa jörð, ef Reyðfirðingar vilja láta hana fala, og er það til þess að gera alla lausnina eðlilegri, að þetta ákvæði er sett í málið. Við viljum þó, að það sé á valdi Reyðarfjarðarhrepps, hvort hann vill láta jörðina nú eða eiga hana áfram. Við þurfum að biðja n. um að gera smávægilega orðabreytingu á 1. gr., sem ég sé ekki ástæðu til að lýsa hér, en við munum koma á framfæri við hana.

Ég leyfi mér að leggja til, að þessu máli verði vísað til hv. heilbr.- og félmn.