09.04.1968
Neðri deild: 94. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1797 í B-deild Alþingistíðinda. (1746)

149. mál, breyting á mörkum Eskifjaðrarhrepps og Reyðarfjarðarhrepps og sala Hólma

Frsm. (Guðlaugur Gíslason):

Herra forseti. Heilbr.- og félmn. hefur haft til athugunar frv. það, sem hér liggur fyrir, um breyt. á mörkum Eskifjarðar- og Reyðarfjarðarhrepps.

Frv. þetta flytja fjórir þm. Austf. og kemur fram í grg., að fundur hefur verið haldinn um þetta mál heima í héraði, á Egilsstöðum nú fyrir nokkru, þar sem allir þm. kjördæmisins voru mættir, einnig forsvarsmenn Eskifjarðar- og Reyðarfjarðarhreppa. Niðurstaða þessa fundar er sú, að þm. allir voru sammála um, að frv., eins og hér liggur fyrir, yrði flutt. Rök flm. fyrir flutningi frv. er að finna í grg., en þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Framtíðarhöfn Eskifjarðar hefur nú verið valinn staður inni við fjarðarbotninn, og þar hefur risið síldarverksmiðja, fiskverkunarhús og röragerð.

Skortir landrými innan marka hreppsins til útfærslu þessara fyrirtækja, svo og fyrir annan atvinnurekstur, sem eðlilegt virðist að verði nálægt höfninni.“

Það er af þessu bersýnilegt, að Eskifjarðarhreppur er kominn í sjálfheldu með að geta látið af hendi landrými fyrir þau atvinnutæki, sem íbúar þess byggðarlags vilja standa að, og verður að teljast mjög eðlilegt, að fram úr þessu verði ráðið. N. hafa borizt umsagnir nokkurra aðila um málið, m. a. frá forsvarsmönnum Eskifjarðarhrepps, sem senda langa grg., en til Alþ. hefur einnig borizt erindi frá íbúum Reyðarfjarðarhrepps, þar sem 270 þeirra mótmæla framgangi þessa frv. Einnig hefur sveitarstjóri þess sveitarfélags átt samtal við mig og áréttað áskorun íbúa Reyðarfjarðarhrepps. Er því ljóst, að þarna er heima fyrir um verulegt ágreiningsmál að ræða, og er ekki óeðlilegt, þótt Reyðarfjarðarhreppur, sem telur sig þarna vera að missa land, mótmæli því, að þeirra afnotaréttur á landi, sem áður hefur tilheyrt því sveitarfélagi, verði skertur. Hins vegar komst n. að þeirri niðurstöðu, að rök þau, sem fram koma í grg. frv. og annað, sem hún hefur aflað sér upplýsinga um, verði að teljast þess eðlis, að hún, n., stendur að því að mæla með frv. Þó hefur einn nm., hv. 9. þm. Reykv., skrifað undir nál. með fyrirvara.

N. flytur við frv. tvær brtt. við 1. gr. þess að ósk flm., þar sem nokkuð nánar er kveðið á um mörk á milli hreppanna, mörkin gerð nokkuð skýrari en er í 1. gr. frv., eins og það er lagt fyrir, og er þessi till., eins og ég sagði, flutt eftir ósk flm.

Þá flytur n. brtt. við 4. gr. frv., sem fjallar um heimild handa ríkisstj. til að selja ríkisjörðina Hólma Reyðarfjarðarhreppi og Eskifjarðarhreppi. Brtt. er aðeins um það, að verð jarðarinnar fari eftir því, sem um kann að semjast, og ef samkomulag náist ekki, verði kaupverðið ákveðið eftir mati dómkvaddra manna. Vegna þessa ákvæðis í 4. gr. frv., var frv. sent Jarðeignadeild ríkisins og landnámsstjóra til umsagnar. Þar sem þetta ákvæði gerir ráð fyrir sölu á ríkisjörð, þótti þetta eðlilegt og sjálfsagt, enda mun það vera fastur vani, þegar um slíkt er að ræða, að þá segi þessir aðilar álit sitt um sölu slíkra jarða. Svar barst frá báðum þessum aðilum, og segir landnámsstjóri í niðurlagi síns bréfs til n.:

„Með tilvísun til þess, sem hér er fram tekið, tel ég ekki ástæðu til að gera aths. við hin nýju, áætluðu hreppamörk, og er meðmæltur því, verði þau samþykkt, að Eskifjarðarhreppur fái kauprétt á þeim hluta landsins, sem er eign ríkisins og innan hinna nýju hreppamarka.“

Jarðeignadeild ríkisins segir þetta um málið í niðurlagi síns erindis, með leyfi forseta: „Þótt ekki sé það nein frágangssök að nytja jörðina sem heild, þótt land hennar liggi í tveimur sveitarfélögum, getur það valdið óhagræði, sem bezt er að komast hjá. Er því ástæðulaust fyrir ríkið að halda fast við eignarhald sitt á jörðinni, svo sundurlimaðri af löggjafanum, ef hreppsfélögin hafa hug á að kaupa hana, svo sem ráð er fyrir gert að heimilað verði í fyrrgreindu frv.“

Eins og ég fyrr sagði, leggur n. til, þrátt fyrir þau mótmæli frá forsvarsmönnum Reyðarfjarðarhrepps, sem hér liggja fyrir á Alþingi og sem henni eru einnig kunn í gegnum viðtöl við forsvarsmenn þess sveitarfélags, leggur n. til, að frv. verði samþ. með þeim brtt., sem n. hefur fram borið.