09.04.1968
Neðri deild: 95. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1804 í B-deild Alþingistíðinda. (1750)

149. mál, breyting á mörkum Eskifjaðrarhrepps og Reyðarfjarðarhrepps og sala Hólma

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Það er ekki til þess að fara að þræta um þetta, heldur til þess að gefa upplýsingar, sem ég vildi fá að koma hér að nokkrum orðum, áður en menn færu í matinn. Annars var mér ofarlega í huga áðan að skjóta því til hæstv. forseta, hvort ekki væri hægt að ljúka þessum störfum núna fyrir matinn. Er það svo mikið, sem eftir er? Ég spyr.

En varðandi málið, sem er til umr., og ræðu hv. 9. þm. Reykv. (HV) vil ég taka það fram, að strax við 1. umr. lét ég þess greinilega getið, að málið væri ágreiningsmál heima fyrir að sjálfsögðu, vegna þess að hingað koma engin önnur mál af þessu tagi en þau, sem ágreiningur er um. Ef enginn ágreiningur er um hreppamörk heima fyrir og samningar takast, þá koma málin ekki hingað. Við höfum ekki farið neitt dult með þetta að sjálfsögðu. Stundum næst ekki samkomulag heima fyrir og þá verður Alþ. að setja um þetta löggjöf.

Ég vil taka fram, að það er ekki að misbjóða neinum, þó að hér séu sett hreppamörk, sem mótmælt er heima fyrir, því að fyrir því eru mýmörg dæmi úr þingsögunni. Er skemmst að minnast, þegar Keflavíkurkaupstaður var stækkaður á kostnað Gerðahrepps, en þá voru eindregin mótmæli að sjálfsögðu gegn því af hendi íbúa Gerðahrepps. Og sjálfur man ég ekki eftir því, að nokkur hreppur hafi nokkurn tíma samþykkt að láta nokkuð, sem heitið getur, af landi til annars. Það eru eðlileg viðbrögð manna að hafa vaðið fyrir neðan sig með mótmæli, m.a. til þess að fá bætur, ef ástæða þykir til. Einmitt í þessu frv., sem hér liggur fyrir, er gert ráð fyrir bótum til Reyðfirðinga. Ástæðan til þess að við erum með þetta mál núna og leggjum mikla áherzlu á að fá það afgreitt einmitt nú, er sú, að hreppamörkin fá ekki staðizt lengur eins og þau eru. Það getur enginn sanngjarn maður haldið öðru fram með rökum.

Eftir að höfnin á Eskifirði var færð inn í fjarðarbotninn rúmast Eskifjarðarkauptún ekki lengur í Eskifjarðarhreppi. Það hefur raunar ekki rúmazt þar að fullu lengi vel, því að það hefur t. d. ekki verið pláss fyrir kirkjugarðinn í Eskifjarðarhreppi og ýmislegt fleira, sem orðið hefur að hafa í öðru sveitarfélagi, sem menn gjarnan vilja hafa í sínu byggðarlagi.

Menn hafa ekki hafizt handa fyrr en þeir máttu til í þessu efni, eins og gengur og gerist, þegar um ágreining er að ræða og mótmæli. En nú er ekki lengur hægt að bíða, eftir að stefnan var tekin í hafnarmálinu.

Mörkin eru sett mjög sanngjarnlega, því að það er fylgt vatnaskilum nokkurn veginn á Hólmahálsi, og það þýðir, að Eskifjörður verður í Eskifjarðarhreppi. Innan hreppsins verður ríflega hafnarsvæðið með strandlengjunni og lítill dalur, sem inn frá fjarðarbotninum gengur, þar sem kirkjugarður þeirra Eskfirðinga er, m. a. eru að vísu þrjú býli, og ábúendur þar hafa sagt, að þeir óskuðu ekki eftir því, að breytt væri til. En slíkt verður samt að gera, eins og rökin liggja fyrir og hér hefur verið upplýst í umr.

Að lokum vil ég svo segja það varðandi sjálfa rökstuddu dagskrána um að fresta málinu til þess að reyna sameiningu, að sjálfsögðu er það eitt af því, sem við þm. höfum athugað mjög gaumgæfilega, því að það stendur enginn í því að gamni sínu að flytja svona mál og reyna að koma því í gegnum þingið, sem margir eru óánægðir með. Menn geta svo sem ímyndað sér, hvort við höfum ekki reynt allar leiðir í þessu og m. a. höfum við allir í sameiningu, þm. Austf., kynnt okkur það mjög gaumgæfilega, hvort grundvöllur væri fyrir sameiningu. Og það er sameiginlegt álit okkar, að svo sé ekki. Hv. þm. geta ímyndað sér, hvort við höfum ekki viljað, ef hægt væri, komast hjá að flytja mál, sem ágreiningur er um af þessu tagi. En það er sameiginlegt álit okkar allra, að það sé enginn jarðvegur fyrir því eins og nú standa sakir eða í næstu framtíð, að um slíka sameiningu geti orðið að ræða. Þess vegna erum við hér með þetta mál. Við teljum engan grundvöll fyrir sameiningu að vandlega íhuguðu ráði og athugðu máli.

Ég er alveg sannfærður um, að ef hv. 9. þm. Reykv. (HV), sem hér talaði áðan, hefði verið þm. fyrir Austurland og unnið með okkur að þessu máli í vetur og undanfarið, hefði hann verið með okkur flm. að þessu máli. Um það er ekkert að efast, vegna þess að það getur enginn verið þm. upp á það að láta hreppamörk standa eins og þau eru nú þarna. Við reynum að fara millileið í þessu. Við höfum ekki gengið nándar nærri eins langt og Eskfirðingar töldu nauðsynlegt, og við gerum ráðstafanir til þess, að Reyðarfjarðarhreppur fái kauparétt á jörðinni Hólmum, sem nú er í afnotum Eskfirðinga, þetta er margbrotið mál og margt gert til þess að þræða hinn gullna meðalveg, sem við teljum okkur hafa tekizt, og munum við standa reikningsskap fyrir þessu. Þetta vildi ég að kæmi fram, að málið hefur verið gaumgæfilega skoðað.