09.04.1968
Neðri deild: 95. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1805 í B-deild Alþingistíðinda. (1751)

149. mál, breyting á mörkum Eskifjaðrarhrepps og Reyðarfjarðarhrepps og sala Hólma

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Þó að það sé nú kominn kvöldmatartími og ég viti, að sumir þm. kunni að vera svangir, verðum við nú mikið á okkur að leggja fyrir stór ágreiningsmál og að gefa okkur tóm til að athuga þau, þó að komið sé nálægt páskafríinu. Ég skal nú samt ekki vera langorður um þetta mál. Það ber ekki mikið efnislega á milli. Það er viðurkennt af öllum, að Eskfirðingar hafa mikla þörf fyrir aukið landrými. Hins vegar verður ekki úr því bætt, nema því aðeins að annaðhvort fá samkomulag við Reyðarfjarðarhepp um sameiningu sveitarfélaganna eða kljúfa land af Reyðarfirði og leggja það undir Eskifjörð. Það, sem okkur ber á milli, er einungis það, að ég tel ófæra þá leið að leysa málið gegn vilja hvers einasta manns í Reyðarfjarðarhreppi. Hv. 1 þm. Austf., einn af flm., sagði það, að málið væri hér eingöngu vegna þess að það væri deilumál. Það var hér 1930, af því að það var deilumál og Sveinn í Firði kom því ekki í gegn. Það var hér líka 1931, af því að það var enn þá deilumál og því var ekki komið í gegn. Alþ. vildi ekki heita annað sveitarfélagið því ofríki að taka af því landið. Það kom hér 1945 og Alþ. féllst enn ekki á það að leysa málið á þennan veg. Það kom hér líka 1966 og enn vék Alþ. því frá sér. Og nú 1968 höfum við það og málið liggur alveg eins fyrir. Alþ. hefur í öll skiptin vísað því frá sér, af því að deilan hefur verið svo hatrömm um þetta mál. (EystJ: Hver flutti það 1966? Þetta er algerlega rangt.) Það er vitnað hér til þess í þskj., að það hafi einnig legið fyrir Alþ. 1966. (Gripið fram í.) Nú, ég skal ekki fullyrða það. En það er í plöggunum. En 1968 er það, og 1930 og 1931 og 1945. Það er þó ómótmælt a. m. k. En í öll skiptin hefur það verið deilumál, og Alþ. hefur ekki talið fært að leysa það þannig. Þeir segjast vera búnir að grandskoða þetta mál og vanda undirbúning þess og það hefði ég nú líka haldið um svona mál, sem er ekki alveg nýtt af nálinni, en samt var það nú svo, að eins og þeir lögðu frv. fram, var 1. gr. þess ósköp einföld í sniðum á þessa leið: „Mörk Eskifjarðarhrepps og Reyðarfjarðarhrepps í Suður-Múlasýslu skulu vera um Hólmaháls eftir línu dreginni frá Hólmanestá í miðjan Hólmatind.“ En þegar þeir eru búnir að flytja frv., skrifar hreppsnefnd Eskifjarðarhrepps þeim og segir: „Nei, elskurnar mínar, greinin má ekki vera svona. Hún verður að gerbreytast.“ Og þá var rokið í það að gerbreyta 1. gr. og lögð fyrir n. till. um, að hún yrði á þennan veg, með leyfi hæstv. forseta:

„Mörk Eskifjarðarhrepps í Suður-Múlasýslu skulu vera sem hér segir: Frá Hólmanestá eftir línu dreginni í beina stefnu á stað 3 m í hánorður frá svonefndu Völvuleiði á Hólmahálsi og þaðan beina stefnu á austurkamb Hólmatinds. Síðan inn eggjar á vatnaskilum um Miðaftanstind og Kambafell í hæsta leiti Eskihnjúks. Eftir það gildir eldri hreppamarkalína um Tungufell og Fönn, út eggjar í Svartafell og þaðan til sjávar.“

Þarna er mjög nákvæmlega tiltekið, hvernig hreppamörkin skuli liggja, af því að þarna má ekki skeika um meira í síðasta deilumáli. Línan verður að vera 3 metra í hánorður frá svonefndu Völvuleiði á Hólmahálsi. Þetta vissu flm. ekki, þegar þeir fluttu málið, höfðu ekki gefið sér tíma til þess að vanda svo til flutningsins, að frambærilegt væri og brúklegt, og þeir flýttu sér að skrifa þeim og segja: „Nei, við verðum að breyta eiginlega megininnihaldi frv.“ Ég held, að það gæti komið til mála, að það þyrfti að athuga málið enn þá betur: Mér virðist það.

Það varð líka að breyta 4. gr. frv. frá því, sem það var áður flutt. Það fer venjulegast svona, þegar margra flokka menn fara að sameinast um eitt mál. Þá er það venjulega annaðhvort illt mál eða vitlaust mál, og ég held, að þetta sé einmitt það. Ég er sem sé alveg sammála því, að Eskfirðingar þurfi að fá hætt úr sinni landsþröng, en það á að gerast með samkomulagi, og það er upplýst hér í þskj., að umr. eru hafnar, en þeim ekki lokið og Reyðfirðingar hafa sjálfir tekið fram, að það megi ekki skilja orð þeirra þannig, að þeir séu lokaðir fyrir sameiningu hreppanna. Sameining hreppanna er aðferðin, sem getur leyst þetta mál með friði.