10.04.1968
Efri deild: 87. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1807 í B-deild Alþingistíðinda. (1754)

149. mál, breyting á mörkum Eskifjaðrarhrepps og Reyðarfjarðarhrepps og sala Hólma

Páll Þorsteinsson:

Herra forseti. Frv. þetta er borið fram af þm. Austurl., þeim er sæti eiga í hv. Nd., og hefur nú hlotið afgreiðslu í þeirri þd., en við allir þm. Austurl. höfðum samráð um undirbúning málsins og flutning þess, svo að með þeim hætti stend ég að þessu máli ásamt samþingsmönnum mínum.

Þegar Eskifjörður var gerður að sérstöku sveitarfélagi fyrir rúmum 60 árum, þá var það mjög takmarkað landrými, sem því sveitarfélagi var ákveðið. Síðan hefur fólksfjöldi í Eskifjarðarkauptúni vaxið að miklum mun og þörf fyrir aukið athafnasvæði fer sívaxandi í kauptúninu. M. a. er nú svo háttað, að unnið er að nýrri hafnargerð og eins og mörkum þessara hreppa er nú fyrir komið, þá verður hluti af nauðsynlegum hafnarmannvirkjum utan hreppamarka Eskifjarðar. Leitað hefur verið samninga milli sveitarstjórnanna, sem hér eiga hlut að máli, um breytingar á hreppamörkunum, en samkomulag þeirra á milli hefur ekki tekizt. Þetta leiddi til þess, að hreppsnefnd Eskifjarðar leitaði til okkar þm. Austurl. um það, að við beittum okkur fyrir því, að sett yrði löggjöf um þetta mál, og af þeim ástæðum er frv. þetta fram borið.

Þetta mál hefur nú, eins og ég tók fram, fengið athugun og afgreiðslu í hv. Nd. og við, sem stöndum að flutningi málsins, höfum einnig haft samráð við sveitarstjórnirnar eftir að þetta mál kom fram, og ég tel, að málið sé nú í því formi, eins og það kemur frá hv. Nd., að báðir hlutaðeigandi aðilar geti eftir atvikum sætt sig við þessa málsmeðferð. Ég vil því leggja ríka áherzlu á, að þessi hv. þd. greiði fyrir afgreiðslu málsins. Ég legg til, að málinu verði vísað til hv. heilbr.- og félmn. og ber jafnframt fram þau tilmæli til n., að hún hagi athugun málsins svo, að tryggt sé, að það geti fengið fullnaðarafgreiðslu áður en þessu þingi lýkur.