16.04.1968
Efri deild: 91. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1808 í B-deild Alþingistíðinda. (1757)

149. mál, breyting á mörkum Eskifjaðrarhrepps og Reyðarfjarðarhrepps og sala Hólma

Frsm. (Björn Fr. Björnsson):

Herra forseti. Þetta frv., sem hér liggur fyrir, fjallar um breytingu á mörkum Eskifjarðarhrepps annars vegar og Reyðarfjarðarhrepps hins vegar, beggja í Suður-Múlasýslu, og enn fremur um heimild fyrir ríkisstj. til þess að selja ríkisjörðina Hólma.

Heilbr.- og félmn. hefur athugað þetta frv. á fundi sínum í dag og leggur einróma til að mæla með samþykkt þess. Einn nm. (BJ) var fjarstaddur, er málið fékk afgreiðslu í n.

Frv. hefur legið fyrir í Nd., var lagt þar fram af 4 hv. þm. Austf. og hefur fengið í gegnum allar þrjár umr. greiðan gang hingað með nokkrum breyt. og koma þær fram á þskj. 555 eða eins og frv. var samþ. í Nd., eftir 2. umr.

Rök fyrir flutningi þessa máls eru þau fyrst og fremst, að Eskifjarðarhreppur hefur átt við að búa óhagkvæm skilyrði í sambandi við ýmsar framkvæmdir og þá fyrst og fremst hafnarframkvæmdir. Framtíðarhöfn Eskifjarðar hefur nú verið valinn staður inni við fjarðarbotn, en þar á Eskifjarðarhreppur lönd. Fyrir þá sök hversu þröngt er um þarna megin fyrir Eskifjarðarhrepp, þá hefur hreppsnefnd Eskifjarðarhrepps farið þess á leit, að hreppamörkum yrði breytt á þessum slóðum og gengið yfir á land Reyðarfjarðarhrepps, þannig að Eskifjörður, sem er smáfjörður inn af Reyðarfirði, verði allur í landi Eskifjarðarhrepps. Eftir að þm. Austf. höfðu verið á fundi með hreppsnefndum beggja hreppa og einhverjum fleiri áhugamönnum um þetta landamerkjamál, voru þeir allir staðráðnir í því að flytja þetta frv., þrátt fyrir andmæli hreppsnefndar Reyðarfjarðarhrepps og ýmissa annarra íbúa þess hrepps, og megum við marka glöggt á því, hversu þessir ágætu samþingsmenn okkar telja, að hér sé mikið réttlætismál á ferðinni, og um það er ekki að efast af okkar hálfu í heilbr.og félmn. þessarar hv. d., að þeir hafa mikið til síns máls.

Ég sé ekki ástæðu til að hafa mörg orð um málið. Grg., sem fylgir í upphafi frv., er skýr og eðlileg á ýmsa lund. Þó varð að breyta frá því er frv. upphaflega kom fram tveim atriðum, að vísu ekki stórvægilegum en þó nægilegum til þess, að rétt þótti að koma breytingu að. Það var annars vegar í 1. gr., þar sem ákveðið er nánar um mörkin og bætt svo um, að þau eru eða eiga að vera fullkomlega skýr úr þessu, og svo við 4. gr. í upphaflega frv. hefur verið bætt ákvæði, er varðar sölu ríkisjarðarinnar Hólma. En sú jörð, sem er merk og kunn sem prestssetur og stór og mikil jörð, ætti eftir að hin nýju mörk væru komin í gildi, að skiptast í tvo hluta. Annar hennar mundi falla til Eskifjarðarhrepps, en hinn stærri hlutinn þó verða áfram í Reyðarfjarðarheppi. Í 4. gr. eins og hún hljóðar nú, er gert ráð fyrir því, að ríkið selji jörðina, ef hrepparnir vilja kaupa, þannig að hún, eins og áður segir, kemur til með að hlutast í sundur og tilheyra sitt hvorum hreppi.

En sem sagt, höfuðrökin fyrir þessu frv. eru að sjálfsögðu þau, að það er orðið ákaflega þröngt um vik um alla starfrækslu í Eskifjarðarhreppi og þá sérstaklega í sambandi við sjávarútveg, þess vegna er talin full nauðsyn, að hreppurinn fái mjög aukið land, einmitt þarna við fjarðarbotninn beggja vegna. Og þá má geta þess, að þegar hafa Eskfirðingar byggt kirkjugarð, auk þess íþróttavöll og nokkra skreiðarhjalla í landi Reyðarfjarðarhrepps og þarna eru að rísa verksmiðjur af ýmsu tagi, síldarverksmiðjur o.fl.

Til þess að þetta megi nú allt gerast með eðlilegum hætti og nægilegt land fáist undir, er þetta frv. fram komið, og við í heilbr.- og félmn. höfum fallizt á það einróma að mæla með því, að hv. d. samþykki frv., eins og það liggur fyrir hér og var afgreitt frá Nd. við 2. umr. málsins. þar.