18.01.1968
Neðri deild: 51. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1814 í B-deild Alþingistíðinda. (1783)

85. mál, Stofnlánadeild landbúnaðarins

Vilhjálmur Hjálmarsson:

Herra forseti. Mér þykir rétt að undirstrika það, sem raunar kom fram í ræðu 1. flm., að það, að við flm. þessa frv. tökum aðeins þetta eina atriði til meðferðar í frv., stafar ekki af því, að við teljum ekki nauðsynlegt að breyta fleiru varðandi lánamál landbúnaðarins, heldur af því, eins og flm. tók fram, að við teljum þetta mál þannig vaxið, að það sé varla hægt fyrir stjórnarliðið að standa á móti þessari leiðréttingu og því nokkur von til að hún nái fram að ganga. En að frv. er ekki víðtækara, það er sannarlega ekki af því, að við teljum ekki úrbóta þörf á fleiri sviðum þessara mála. Það má að vísu segja að lánamál landbúnaðarins hafi aldrei verið í svo góðu horfi sem nauðsynlegt hefði verið, og að sú sérstaða landbúnaðarins miðað t. d. við sjávarútveg, að þar verður að sækja fram hægt og hægt, þar er aldrei um að ræða snöggan veiðigróða til þess að byggja upp á örskömmum tíma og greiða niður á skömmum tíma stofnkostnaðarframkvæmdir, þessi mismunur hefur raunar aldrei fengizt viðurkenndur nándar nærri til fulls og lán til stofnlánaframkvæmda landbúnaðarins hafa alla tíð verið til allt of stutts tíma. En það hefur sannarlega ekki verið viðleitni í þá átt í tíð núv. hæstv. ríkisstj. að leiðrétta þetta, heldur hefur viðleitnin verið til hins gagnstæða, þó að síðar væri horfið frá því að mestu að stytta lánstímann frá því, sem hann hafði verið.

Án þess að ég ætli að fara að flytja hér langa ræðu, þá vil ég bara segja það, að mér finnst það sitja illa á hæstv. landbrh. að hælast um yfir því, hvernig þessi mál standa í dag. Það er að vísu heimilt samkv. l. um stofnlánadeildina eða þeim reglum, sem þar gilda, að lána allt að 60% til t. d. útihúsabygginga í sveitum, ég hygg, að ég fari rétt með það. En það er yfirleitt alls ekki gert, heldur miðað við enn lægri prósentu. Og hvað snertir mötin á framkvæmdunum, sem lánið er síðan miðað við, hefur í þeim efnum alls ekki verið nægilega fylgt verðhækkunum, sem orðið hafa á framkvæmdum, alls ekki. Og ef þetta er svo borið saman við það, sem gerist, t. d. við uppbyggingu við sjávarsíðuna, t. d. varðandi bátakaup, þá er það vitað mál, að það er lánað til nýbyggingar innanlands úr Stofnlánadeild sjávarútvegsins og áður úr Fiskveiðasjóði og hefur verið lengi 75% af andvirði skips, sem byggt er innanlands. Og ef menn bera þetta svo saman við allt niður í 50% lánin bændanna, þá er sá samanburður ekki hagstæður fyrir landbúnaðinn, svo að ekki sé meira sagt.

Sú breyting, sem gerð hefur verið nú á seinni árum, að binda lánin við eina framkvæmd, er vitanlega alveg fráleit. Hún er álíka fráleit eins og ef sá háttur væri tekinn upp varðandi nýsmíði skipa að lána fyrst út á skipið, en láta vélina bíða þangað til á næsta ári. Þetta er svo sem álíka, því að samkv. þeim venjum, sem gilt hafa nú í seinni tíð um þetta, er gengið út frá því að lána t. d. út á hlöðuna eitt árið og fjárhúsið annað árið eða öfugt, og það er varla hægt að hugsa sér annað heldur en önnur framkvæmdin standi þá ónotuð árlangt. Og þetta er vissulega ekki til þess að greiða fyrir eða létta undir með mönnum að byggja upp hjá sér. Það er að vísu alveg rétt, sem fram kom hjá hv. frsm. og hæstv. ráðh., að í sumum tilfellum getur það verið hagkvæmt að geta byggt á lengri tíma. Það er þá hægt að nota meira vinnu heimamanna. En það á ekki alltaf við. Í sumum tilfellum eiga menn þess ekki kost að vinna verkið sjálfir vegna mannfæðar á heimilum, verða jafnvel að fá til þess vinnuflokka. Og þá er það ekki hagkvæmt að draga byggingarframkvæmdirnar á langinn. Og í annan stað getur oft staðið þannig á, að maður, sem byggir yfir fóður og fénað, jafnvel þó að hann skipti verkinu, þá sé það ekki sú skipting, sem væri hagkvæmust, að gera fyrst aðra „framkvæmdina“ eins og það er kallað og svo hina á næsta ári. Þetta má skýra með einföldu dæmi. Það er mikið farið að byggja bogaskemmur og þær eru stundum byggðar í einni lengju yfir fénað og hey og þá verður ekki skipting um miðja þessa byggingu, hún verður ekki lóðrétt, heldur verður hún lárétt. Það verður steypt fyrst undir allt húsið og síðan byggt yfir allt saman í einu, og þá fæst ekkert lán fyrra árið, þó að þá sé lokið um það bil helmingi af byggingunni, þ. e. a. s. undirstöðunni og grunninum, sem er nú mjög dýr, þá fæst ekki neitt fyrr en eftir á — og þá í tvennu lagi. Og í því tilfelli, að menn neyðist til að nota aðkeypta vinnu og þá hagkvæmara af þeim ástæðum að ljúka verkinu í einum áfanga, þá kemur sér mjög illa þessi regla um eina framkvæmd í senn.

Varðandi lánstímann er það að segja, að á nokkuð mörgum hinna síðari ára eru þær byggingar, sem gerðar eru í sveitunum og metnar eru lánshæfar, það stæðilegar, það vel til þeirra vandað yfir höfuð, — þó undantekningartilfelli séu vafalaust, sem þá ættu að síast úr í gegnum mat og skoðun byggingarfulltrúa — þá eru þessar byggingar það traustar, að það væri fullkomlega ástæða til að lána út á þær til lengri tíma heldur en gert hefur verið.

Vera má, að miðað við þá vexti, sem sumar aðrar atvinnugreinar hafa orðið að bera, séu vextir landbúnaðarins í prósentum talið ekki svo ýkjaslæmir fyrir landbúnaðinn. En það breytir engu um það, að íslenzkir atvinnuvegir hafa á síðustu árum og á stjórnartímabili hinnar svo kölluðu viðreisnar búið við okurvexti, sem hafa mjög íþyngt þeim og þeirra rekstri á alla lund. Sjávarútvegurinn gat kannske borið þetta á þeim tíma, þegar mokafli var. Landbúnaður hefur aldrei getað borið hina háu vexti. Og enn síður getur hann borið þá nú, eftir að hvort tveggja hefur gerzt, að í verðlagningarmálum landbúnaðarins hefur verið felldur dómur, sem er óhæfilegur með öllu og í annan stað hefur harðnað í ári, ekki í eitt skipti, heldur endurtekið, bæði hvað snertir fóðuröflun og eins að vetrar- og vorharðindi hafa stórlega aukið mönnum tilkostnað hvað eftir annað.