23.01.1968
Neðri deild: 53. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1823 í B-deild Alþingistíðinda. (1787)

85. mál, Stofnlánadeild landbúnaðarins

Gunnar Gíslason:

Herra forseti. Ég ætla mér ekki að fara að svara þessari löngu ræðu hv. 5. þm. Norðurl. e. Það var aðeins ein fullyrðing hans, sem ég efast mjög um, að hafi verið rétt, sem ég ætla að drepa á, og má þó vera, að svipað hafi verið um ýmsar aðrar. Hann sagði, ef ég tók rétt eftir, að tímabilið fyrir viðreisn, eins og hann orðaði það, hefði verið mesta framfaratímabil í sögu íslenzks landbúnaðar, og mér skildist þá miklu meira framfaratímabil heldur en það tímabil, sem hefur liðið síðan viðreisnarstjórnin komst að völdum. Hv. þm. nefndi að vísu engar tölur þessu máli sínu til sönnunar og hann nefndi raunar ekki, um hve langt tímabil væri að ræða, og því miður hef ég ekki hér við höndina neinar tölur til samanburðar, en ég leyfi mér samt, eins og ég sagði, að efast mjög um þessa fullyrðingu hv. þm. Ég held, að okkur, sem búum í sveitunum og höfum fylgzt með málum þar á undanförnum árum, sé það fullkomlega ljóst og það geti ekki farið fram hjá okkur, að framfarir í íslenzkum landbúnaði hafa aldrei verið meiri heldur en á þessu tímabili. Það hefur aldrei verið ræktað meira. Það hefur aldrei verið byggt meira. Það hefur aldrei verið keypt meira af tækjum og vélum heldur en á þessu tímabili. En eins og ég sagði, ég hef ekki hér við höndina tölur máli mínu til sönnunar, en ég dreg þessa fullyrðingu hv. þm. mjög í efa, þangað til ég sé það, annaðhvort frá honum eða ég er búinn að leita mér upplýsinga. Það er auðvitað auðvelt, að sjá hvort hér sé farið með rétt mál. Ég ætla ekki heldur að fara að svara árásum þessa hv. þm. á hæstv. landbrh., en ég held að ég verði að segja það alveg eins og er, að ég hygg, að það sé mikill minni hl. bænda í þessu landi, hvar í flokki sem þeir standa, hvort heldur þeir eru framsóknarmenn eða sjálfstæðismenn eða í einhverjum öðrum flokki, sem halda því fram, að núv. hæstv. landbrh. hafi aldrei skilið vandamál landbúnaðarins. Þetta finnst mér alveg furðuleg fullyrðing. Og ég hef talað við fjölmarga framsóknarmenn í þessu landi, fjölmarga framsóknarbændur, sem telja einmitt núv. hæstv. landbrh. þann ráðh., sem einna bezt hefur farið með landbúnaðarmálin.