23.01.1968
Neðri deild: 53. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1824 í B-deild Alþingistíðinda. (1788)

85. mál, Stofnlánadeild landbúnaðarins

Flm. (Stefán Valgeirsson):

Herra forseti. Ég ætlaði aðeins að svara þessum tveimur aths., sem hv. 2. þm. Norðurl. v. kom með við ræðu mína. Hann sagðist efast um — en hann hefði ekki neinar tölur um það — hvernig þessi tímabil, sem ég nefndi áðan, þ. e. a. s. fyrir viðreisn og eftir, hefðu verið landbúnaðinum. Ég fullyrti, að fyrra tímabilið hefði verið mesta framfaratímabilið í sögu landbúnaðarins og ég man eftir einni tölu, sem varpar skýru ljósi á þessa fullyrðingu. Bústofnsaukningin á því tímabili, 1955–1960, var 2.7% en á tímabilinu 1960–1965 aðeins 1.2%. Þetta út af fyrir sig segir töluvert, þó að annað væri ekki. Ég sagði í minni ræðu og það er rétt, að landbrh. hefði ekki virzt skilja þessi mál, og ég dreg það af því, sem hann sagði hér áðan. Ég bara vil ekki trúa því, að hann skilji þessi mál, vegna þeirra ummæla, sem hann hafði hér s. l. fimmtudag, þegar hann sagði, að það væri mjög freistandi að bera saman, hvernig Framsfl. hefði staðið sig í sambandi við landbúnaðarmálin og svo hvernig hefði verið á þessu tímabili.