16.04.1968
Neðri deild: 98. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1828 í B-deild Alþingistíðinda. (1808)

189. mál, kaup ríkissjóðs á hlutabréfum Áburðarverksmiðjunnar

Magnús Kjartansson:

Herra forseti. Áður á þessu þingi flutti ég ásamt hv. 4. þm. Austf. frv. til 1. um áburðarverksmiðju, eins og fram hefur komið hér áður. Þetta frv. var einfalt. Í því var lagt til, að 13. gr. l. um áburðarverksmiðju yrði felld niður, en það er sú lagagr., sem bætt var við á síðustu stundu og fól það í sér, að rekstur þessa mikla fyrirtækis skyldi falinn hlutafélagi. Og í annan stað lögðum við til, að eign einkahluthafa skyldi innleysa á nafnverði að viðbættum sparisjóðsvöxtum og enn fremur, að síðan yrði stjórn fyrirtækisins kjörin að fullu á Alþ. Tilgangurinn með þessu frv., sem hefur margsinnis verið flutt hér á undanförnum árum, var sá að gera það algerlega ótvírætt, að ríkið ætti þessa verksmiðju, því að upp höfðu komið um það raddir, sem höfðu heyrzt árum saman, að rekstrarhlutafélagið væri raunverulega orðinn eigandi verksmiðjunnar og mátti marka það sjónarmið í ræðu þess hv. þm., sem talaði hér á undan mér. Ég rakti allýtarlega við 1. umr. um frv. okkar, hvernig því var háttað, þegar þetta undarlega hlutafélag var stofnað og hvílík firra það væri, að hægt væri að líta á hlutafélagið sem eiganda verksmiðjunnar. Það á ekkert skylt við venjulegan hlutafélagsrekstur eða þær hugmyndir, sem hv. síðasti ræðumaður hefur um rekstrarfyrirkomulag í eðlilegu þjóðfélagi. Ef þetta hlutafélag hefði átt að eignast verksmiðjuna, þá hefði þar verið um að ræða ótvíræðan og stórfelldan og fráleitan fjárdrátt, því að einkaaðilar í þessu hlutafélagi lögðu aðeins fram 4 millj., ríkið lagði í upphafi fram 126 millj., en samt var því haldið fram á eftir, að þeir menn, sem lögðu fram 4 millj., hefðu á svipstundu verið orðnir eigendur að 52 millj. Og samkv. sömu kenningu ættu þeir núna að eiga um 280 millj. og þegar búið er að stækka verksmiðjuna enn, eins og fyrirhugað er, ætti eign þeirra að vera orðin 400 millj., án þess að þeir hefðu nokkuð lagt fram annað en þetta upphaflega framlag í hlutafélaginu.

Þegar ég mælti fyrir þessu frv., urðu nokkrar umr. á eftir. Hv. 5. þm. Vesturl. tók þá til máls og lýsti þar yfir því, að Alþfl. væri efnislega sammála frv. okkar. Það væri afstaða Alþfl., að Áburðarverksmiðjan hefði verið, væri og ætti að vera í eigu ríkisins. Hæstv. landbrh. tók einnig til máls og það var mjög athyglisvert í ræðu hans, að hann lýsti þar yfir því, með leyfi hæstv. forseta:

„Get ég endurtekið það, sem ég hef sagt hér áður í hv. Alþingi, að ég tel eðlilegast, að ríkið eigi verksmiðjuna. Ég tel eðlilegast, að hlutabréfin verði innleyst. Þetta hef ég sagt hér áður. Og ég geri ráð fyrir, að meiri hl. hv. þm. vilji það í einhverju formi.“

Og hæstv. ráðh. sagði einnig, að það væri ekki um annað að ræða heldur en breyta l. í þetta form. Hins vegar fékkst hæstv. ráðh. ekki til þess að láta uppi skoðun sína á því, hvernig háttað væri eignarhaldi á verksmiðjunni. Hann sagði, að lögfræðinga greindi á um þetta atriði, en þótt hann væri margspurður sjálfur, fékkst hann ekki til að segja sitt mat á þessu. Hins vegar hélt hæstv. ráðh. því fram, að þetta þyrfti ekki að vera neitt úrslitaatriði við lausn málsins. Hann taldi, að það kynni að vera framkvæmanlegt að kaupa hlutabréf einkaaðila á sanngjörnu verði, og hæstv. ráðh. sagði m.a. í því sambandi:

„Væri hugsanlegt, að þessi minni hluti í verksmiðjunni gæti farið að okra á þessum hlutabréfum? Við skulum hugsa núna, að það verði ekki samkomulag um það að innleysa hlutabréfin frá hluthöfunum. Hefur þá ekki ríkisvaldið allt í sinni hendi, hvernig farið verður með þennan minni hl.? Við gætum hugsað okkur það, að lögum yrði breytt þannig, að hlutafé yrði aukið svo og svo mikið, úr 10 millj. í 100 millj. Þetta væri boðið út og einstaklingar og fyrirtæki byðu ekki í það vegna undangenginnar reynslu, að það leyfist ekki að borga arð af bréfunum. En hver væri það þá, sem tæki bréfin annar en ríkið? Þá yrði það ríkið, sem ætti 106 millj. í verksmiðjunni, en núverandi aðrir hluthafar 4 millj. Þá færu nú hlutföllin að skekkjast.“

Þetta sagði hæstv. ráðh. og áform hans var auðsjáanlega að þrýsta þessum einkahluthöfum til þess að selja bréfin á sanngjörnu verði með því að hafa uppi hótanir af þessu tagi. Og það frv., sem hér liggur fyrir frá meiri hl. landbn., er greinilega framkvæmd á þessari hugmynd. Nú get ég í sjálfu sér hugsað mér að fallast á þessa aðferð. Ég lýsti yfir því, þegar ég mælti fyrir frv. á sínum tíma, að okkur væri það engan veginn fast í hendi, að hlutabréf einkaaðila yrðu reiknuð á nafnverði að viðhættum sparisjóðsvöxtum. Við gætum hugsað okkur að gera betur við þessa einkahluthafa, og mér finnst fimmföldun á verðinu ekki vera frágangssök, ef hægt er að leysa málið á þennan hátt. Hins vegar held ég, að fyrir þurfi að liggja meira heldur en þetta frv., til þess að öruggt sé, að þessi aðferð nái tilgangi sínum. Mér virðist vera alveg óhjákvæmilegt, að hæstv. landbrh. lýsi því a. m. k. yfir hér við þessa umr., að það sé ætlun hans og ríkisstj. að flytja í upphafi næsta þings frv. um breyt. á l. um áburðarverksmiðju, þar sem 13. gr. verði felld niður. Ég held, að það sé algerlega óhjákvæmilegt, að slík viljayfirlýsing liggi nú fyrir frá hæstv. ríkisstj. og að það sé nauðsynleg forsenda þess, að hægt sé að framkvæma þau viðskipti, sem gert er ráð fyrir í þessu frv. Ég geri ráð fyrir, að þetta mál hafi eitthvað verið kannað þann tíma, sem það hefur verið til athugunar að undanförnu. Ég geri ráð fyrir því, að hæstv. ríkisstj. hafi einhverjar hugmyndir um það, að þessi heimild til að kaupa hlutabréfin á allt að fimmföldu nafnverði, nái fram að ganga. Það er nú svo, að það eru ekki ýkjamargir aðilar, sem þarf að ræða við í þessu sambandi. Um það bil helmingurinn af hlutabréfunum er í eigu Sambands ísl. samvinnufélaga, og ég geri ráð fyrir, að sá aðili hafi verið spurður um það, hvort hann væri reiðubúinn til að selja við þessu verði og hæstv. ráðh. muni vita það. Verulegur hluti — ég hygg 1½ millj. — er í eigu sérstaks félags, sem var stofnað í þessu sambandi, Borgarvirki heitir það, að ég hygg, og það félag er þannig skipulagt, að því er ég bezt veit, að það tekur ákvarðanir fyrir alla meðlimi sína, þannig að það eru ekki einstakir aðilar að þessu félagi, Borgarvirki, sem ákveða hvernig fer með hlutabréf þeirra, heldur tekur félagið ákvarðanir fyrir þá alla, svo að einnig þar ætti að vera hægt að fá svör.

Þriðji aðilinn er Reykjavíkurborg, og það ætti að geta legið á lausu, hver afstaða Reykjavíkurborgar er til þessa frv. Mér þætti því afar fróðlegt að fá vitneskju um þetta tvennt frá hæstv. ráðh.; í fyrsta lagi, hvernig horfur eru á því, að einkahluthafar muni fallast á þessi viðskipti og í öðru lagi, hvort ekki sé hægt að vænta algerlega öruggrar yfirlýsingar um það frá hæstv. ríkisstj., að l. um áburðarverksmiðju verði breytt þegar á næsta þingi í það horf, að eignarréttur ríkisins verði algerlega ótvíræður.