16.04.1968
Neðri deild: 98. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1832 í B-deild Alþingistíðinda. (1811)

189. mál, kaup ríkissjóðs á hlutabréfum Áburðarverksmiðjunnar

Magnús Kjartansson:

Herra forseti. Ég vildi aðeins með nokkrum orðum þakka hæstv. landbrh. fyrir svörin. Ég veit, að hæstv. ráðh. er maður varkár og segir ekki meira en hann telur sig geta staðið við. Þegar hann segir hér úr ræðustóli, að hann gæti bezt trúað því, að stærstu eignaraðilarnir muni gera þessa samninga, þá geri ég ráð fyrir, að hann viti býsna mikið um þeirra hug. Eins og ég rakti hér í dag, þá er þar í rauninni fyrst og fremst um þrjá stóra aðila að ræða, Samband ísl. samvinnufélaga, Borgarvirki og Reykjavíkurborg. Þar fyrir utan eru aðeins örsmáir aðilar, sem skipta ekki verulegu máli.

Hitt þótti mér öllu lakara, að hæstv. ráðh. vildi ekki eða fékkst ekki til að lýsa því yfir skýrum orðum, að það væri stefna hans að leggja til, að l. yrði breytt. Hann lagði það raunar á vald hluthafanna sjálfra. Hann sagði: Ef þessi viðskipti takast, leiðir af því, að l. verður breytt. En ég held, að það sé nauðsynlegt fyrir Alþ., ef það vill láta þessi viðskipti takast, að það liggi alveg skýrt fyrir, að Alþ. ætlar að breyta þessum l. hvað svo sem þessir hluthafar kunna að segja í samningum. Og eins og hæstv. ráðh. benti á fyrr hér í vetur og ég vitnaði til hér áðan, þá hefur Alþ. ráð til þess að setja hluthöfunum kostina, ef þeir fallast ekki á sanngjörn viðskipti, þannig að ég held, að hæstv. ráðh. eigi ekki að vera neitt hikandi við það að lýsa hér yfir þeirri stefnu sinni, að þessum l. verði breytt í það horf, að eignarréttur ríkisins verði gerður ótvíræður alveg án tillits til þess, hvað hluthafarnir kunna að segja í þeim samningum, sem nú eru framundan.