19.04.1968
Efri deild: 97. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1834 í B-deild Alþingistíðinda. (1825)

189. mál, kaup ríkissjóðs á hlutabréfum Áburðarverksmiðjunnar

Frsm. minni hl. (Karl Guðjónsson):

Herra forseti. Frv. um kaup ríkissjóðs á hlutabréfum Áburðarverksmiðjunnar h/f, sem hérna liggur fyrir, er upphaflega flutt af einhverjum ótilteknum meiri hl. landbn. í Nd. og hefur fengið samþykki þeirrar d., og meiri hl. hv. landbn. hér í Ed. hefur einnig mælt með því, að frv. verði samþ. Ég hef hins vegar sem minni hl. í landbn. gefið út um það sérstakt álit og till. í samræmi við það og kem ég síðar að efni þeirra.

Við þetta mál allt saman tel ég vert við þetta tækifæri að rifja upp tvo efnisþætti, sem þar ber hæst. Annars vegar er það, sem alkunnugt er og mörg orð hafa þegar fallið á þ. um þá ráðstöfun, að eftir að ríkið hafði komið upp verksmiðjunni eða ákveðið að leggja fé til hennar, var lögleitt að stofna skyldi hlutafélag um rekstur verksmiðjunnar, og af mörgum hefur því verið haldið fram, að þetta rekstrarfélag væri raunverulega eigandi verksmiðjunnar, en því mótmælt af öðrum. Hvað sem um það má segja, hefur hlutafélagið sem slíkt ráðið verksmiðjunni, ráðið framleiðslu hennar, ráðið verðlagi á áburði. Og að því er séð verður hefur þetta hlutafélag aldrei tekið undir það, að einhver annar væri eigandi verksmiðjunnar en það sjálft eða a. m. k. er mér ekki kunnugt um, að svo sé. Það er af því gefið að álykta, að það hafi verið tilgangur þessa hlutafélags Áburðarverksmiðjunnar h/f að sölsa þessar reytur ríkisins undir sig sér til hagnaðar, en reksturinn á þessari verksmiðju hefur svo orðið með þeim hætti, að nú munu þessir hluthafar ekki lengur telja það mikla arðsvon að eiga hlutabréfin í þessu rekstrarfyrirtæki. Það hefur sem sagt komið upp úr dúrnum, að aðalframleiðsluvara verksmiðjunnar, Kjarninn, — enn svo heitir áburðurinn, sem hún framleiðir aðallega — hefur reynzt íslenzkum landbúnaði býsna illa, og má nú ætla, að ef ekki kæmi til einkaréttur sá, sem ríkið hefur framselt félagi þessu til áburðarsölu í landinu, mundu íslenzkir hændur fremur vilja gera áburðarkaup sín annars staðar og kaupa aðrar tegundir en þarna er um að ræða. Og það er þeim heldur ekki láandi, því að þegar Áburðarverksmiðjan tók til starfa fyrir 14 árum, var töðufengur á íslenzkum túnum því sem næst 44 hestburðir af heyi á ha. að meðaltali. Við tilkomu verksmiðjunnar fór áburðarnotkunin stórlega vaxandi, enda töðufallið einnig hin fyrstu ár, þannig að á árinu 1957 var töðufengurinn af túnunum kominn upp í hér um bil 47 hestburði af ha., en það var líka hámark, því að síðan hefur allt sigið á ógæfuhlið, og nú er heyfengurinn af túnunum kominn niður í það að vera einhvers staðar á milli 34 og 35 hestburðir af ha., en það er minni heyfengur en var af íslenzkum túnum um aldamótin síðustu, þrátt fyrir alla aukninguna í áburðarnotkuninni.

Ef menn hugleiða það örlítið nánar, að hver hestburður af heyi mun kosta nálægt 350 kr., liggur það í augum uppi, að þessi 10 hestburða rýrnun, sem orðið hefur á heyfengnum á ha. á þeim árum, sem verksmiðjan hefur starfað, kostar 3.500 á hvern ha. á einu ári. Og enn fremur, ef tekið er tillit til þess, að ha. í rækt á íslenzkum túnum eru núna rösklega 100 þús., liggur í augum uppi, að afurðatapið, sem þarna hefur orðið á 14–15 árum, sem verksmiðjan hefur starfað, er 350 millj. kr.

Ef íslenzkur landbúnaður fengi í dag, þó ekki væri nema jafnmikið hey af túnum eins og fékkst árið, sem verksmiðjan byrjaði starf sitt, stæðu íslenzkir bændur betur að vígi í dag, og raunar er öll ástæða til að ætla, að þá væri almenn dýrtíð í landinu minni nú heldur en hún er. Ég tel þess vegna alveg einsýnt, að það sé langalvarlegasta mál íslenzks landbúnaðar í dag að bæta hér úr. Auðvitað get ég ekki fullyrt, af hverju þetta afurðatap er til komið, en það þarf furðulega glámskyggni til þess að sjá ekki, að hér eru líkur til þess, að áburðinum sé um að kenna. Það hafa einnig farið fram tilraunir hjá tilraunaráði landbúnaðarins með þennan áburð í samanburði við ýmsar aðrar áburðartegundir og vitna ég til þess, er um það segir í grg. með þáltill., sem er 124. mál þessa þings og hv. þm. Hjalti Haraldsson, sem þá var varamaður hér á þingi, flutti ásamt fleirum, þ. á m. mér. Grg. er að finna á þskj. 261. Þar er sýnt fram á það, að við tilraunir hjá tilraunaráði landbúnaðarins fæst 9.5 hestburðum minna af heyi af hverjum ha. með notkun Kjarna heldur en með öðrum þeim áburðartegundum, sem þar eru reyndar, eins og nánar er fram tekið í þeirri grg., sem ég hef vitnað i. Ég held þess vegna, að það séu ekki önnur verkefni brýnni fyrir íslenzkan landbúnað heldur en létta af honum því oki, sem hann hvílir undir með því að þurfa endilega með lögþvinguðum hætti að kaupa nákvæmlega framleiðsluna frá Áburðarverksmiðjunni h/f eða þann varning, sem hún hefur á boðstólum, og ekki annan áburð fyrr heldur en sá varningur er uppseldur. Þá getur það komið til mála, að bændur fái að kaupa eitthvað annað með.

Það er svo enn annað mál, að mér finnst ekki óeðlilegt, úr því að þessu félagi hefur haldizt uppi að reka þá verzlun með þeim árangri, sem nú liggur fyrir, að það fái að gera það enn um skeið, en þannig, að það hafi ekki einokunaraðstöðu. Það fái bara að standa frammi fyrir því gagnvart íslenzkum bændum, hvað þeir vilja kaupa af áburði. Þess vegna lít ég svo á, að það eigi ekki að leysa út þá aðila, sem ætluðu sér að sölsa undir sig eigur ríkisins og græða á þeim, þótt þeim hafi mistekizt, sízt af öllu með fimmföldu því gjaldi, sem þeir lögðu í kostnað sjálfir við þetta. Það er annað mál, að þó að slíkum aðilum, sem reynt hafa að ná undir sig eigum annarra, sé ærið oft refsað fyrir tiltækið, þá eru þeim stundum gefnar upp sakir, og mér finnst nú ekki alls kostar fráleitt, að svo verði enn að farið. En í fyrsta lagi legg ég til, að þessu frv. verði vísað frá með svofelldri rökstuddri dagskrá:

„Í trausti þess, að ríkisstj. bæti úr því ófremdarástandi, sem skapazt hefur með einkaleyfi Áburðarverksmiðjunnar h/f til áburðarsölu, með því að gefa innflutning á áburði frjálsan um skeið til reynslu, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá.“

En af því að ég hef orðið þess var, að Áburðarverksmiðjan h/f virðist eiga furðusterkar taugar til þingheims, þá á ég ekki beinlínis von á því, að þessi rökstudda dagskrá verði samþ., því að mér finnst það nokkuð greinilegt, að eftir að svona er komið vilji mikill hluti þm. leysa hluthafa þessara hlutabréfa út með einhverjum hætti. Því hef ég flutt hér brtt. til vara, ef rökstudda dagskráin skyldi verða felld, um það, að í stað orðanna í l. gr. frv. „fimmföldu nafnverði“ komi: nafnverði.

Ég vona svo, að hver leið, sem farin verður í þessu, þá megi betur til takast heldur en varð með þeirri stóru og dýru og afdrifaríku tilraun, sem Áburðarverksmiðjan h/f hefur haft á hendi s. l. 14 eða 15 ár.