05.02.1968
Efri deild: 49. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1840 í B-deild Alþingistíðinda. (1850)

107. mál, síldarútvegsnefnd

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Ég vildi aðeins undirstrika það, sem reyndar kom fram í framsögu hjá hv. frsm. og rækilega er tekið fram í grg. fyrir þessu frv., að einstakir nm. í sjútvn. hafa algerlega óbundnar hendur gagnvart því frv., sem hér liggur fyrir. Og eins og hv. frsm. drap á og hv. þm. er kunnugt, hefur verið flutt hér frv. fyrir alllöngu síðan varðandi eitt af þeim atriðum, sem þetta frv., sem hér er nú lagt fram, snýst um, þ. e. a. s. hvar vera skuli heimili og aðalstöðvar síldarútvegsnefndar, en það frv. var flutt nokkru fyrir þingfrestun af fjórum þm. í þessari hv. d., og efni þess er að staðfesta það, að heimili síldarútvegsnefndar og varnarþing og aðalskrifstofa skuli vera á Siglufirði, svo sem verið hefur. En í þessu frv., sem hér er lagt fram, er gert ráð fyrir því, að nefndin hafi skrifstofur í Reykjavík, Siglufirði og á Austurlandi, en það frv. verður að sjálfsögðu að skilja með hliðsjón af því, sem fyrir liggur og vitað er um ætlan síldarútvegsnefndar í þessu efni, en hún er sú að flytja aðalskrifstofur síldarútvegsnefndar til Reykjavíkur og hefur síldarútvegsnefnd þegar hafið nokkurn undirbúning að því, m. a. með uppsögnum starfsmanna á Siglufirði. Ég tel þessa stefnu hjá síldarútvegsnefnd ranga. Ég tel enga þörf á því að flytja aðalstöðvar síldarútvegsnefndar. Þær hafa frá öndverðu verið á Siglufirði, og það er eðlilegt, að þær séu þar áfram. Það er betri aðstaða til þess nú en áður af ýmsum ástæðum að veita þjónustu í sambandi við nefndina á Siglufirði og samgöngur við Siglufjörð eru betri en áður fyrr. Það er að sjálfsögðu tilfinnanlegt fyrir ekki stærri stað en Siglufjörð, þegar flytja á burtu jafnveigamikla stofnun eins og síldarútvegsnefnd og þá skrifstofu, sem hún hefur haft á Siglufirði. Það er þess vegna mjög eðlilegt, að það rísi andúð gegn því þar á staðnum. Það hefur það líka gert og það er rakið í því frv., sem við fjórmenningarnir lögðum fram á sínum tíma, bæði ályktanir bæjarstjórnar Siglufjarðar og fjórðungsráðs Norðurlands, og þar eru til tínd þau rök, sem mæla gegn þessum flutningi. Margir hv. alþm. hafa að undanförnu talað með hátíðablæ um nauðsyn þess að efla jafnvægi í byggð landsins. Ég held, að fyrsta skilyrðið til að viðhalda jafnvægi í byggð landsins sé þó það að flytja ekki burtu þær stofnanir, sem verið hafa úti á landsbyggðinni, og hingað á fjölbýlissvæðið. Vissulega mun reyna á það í sambandi við það frv., sem hér liggur fyrir, hver alvara býr að baki slíkra yfirlýsinga hjá hv. þm.

Hv. frsm. gaf okkur, flm. hins fyrra frv., það heilræði, að við skyldum flytja brtt. við þetta frv., sem hér liggur fyrir. Við erum nú reynslunni ríkari og munum taka það heilræði til greina, þar sem okkur hefur ekki gengið greiðlega að fá okkar frv. afgreitt og því komið hér undir atkv., og munum við að sjálfsögðu freista þess að bera fram brtt. við þetta frv. sama efnis og það frv., sem við bárum fram á sínum tíma, og munum með þeim hætti reyna að fá fram vilja hv. dm. í þessu efni.

Um vinnuhagræðinguna, sem hann eygði í því sambandi, má sitt hvað segja. Ég býst við því, að það hefði allt eins mátt segja, að það hefði verið vinnuhagræðing að afgreiða þetta frv., sem fyrir lá, með nokkuð eðlilegum hætti og þá kannske reyna að koma að brtt. í sambandi við það um þau atriði, sem hér koma frekar til greina, en það er um skipun síldarútvegsnefndar.

En ég vil lýsa því yfir, að það mun verða flutt brtt. við þetta frv., og ég vænti þess, að n., sjútvn., þótt málinu sé nú ekki beinlínis til hennar vísað, taki hana til velviljaðrar athugunar. En þetta frv., sem hér liggur fyrir, hefur ekki aðeins að geyma ákvæði um aðalstöðvar síldarútvegsnefndar, heldur hefur það einnig að geyma ákvæði um breytta skipan á síldarútvegsnefnd á þann hátt að fjölga í nefndinni um einn nefndarmann, sem á að vera fulltrúi síldarútvegsmanna á tilteknum svæðum. Ekki vil ég hafa á móti því, en um leið og farið er að fjölga í nefndinni með þessum hætti, hlýtur að vakna sú spurning, hvort önnur skipan nefndarinnar að einhverju leyti komi ekki til greina. Ég verð að segja það, að ég fyrir mitt leyti sakna þess, þegar jafnmargir fulltrúar síldarútvegsmanna eiga sæti eða er ætlað að eiga sæti í síldarútvegsnefnd eins og raun ber vitni í þessu frv., þá sakna ég þess, að fulltrúum síldarsjómanna skuli ekki vera ætlað þar sæti, og ég vil mælast til þess, að nefndin taki það atriði einnig til meðferðar í sambandi við frekari athugun á þessu máli, hvort ekki væri rétt að fjölga nefndarmönnum upp í 9 og sneiða þá kannske um leið fram hjá þeim nokkuð óvenjulega hætti, en þó ekki alveg óþekktum, að láta atkv. formanns ráða, og bæta inn fulltrúa frá samtökum síldarsjómanna. Þau samtök eru fyrir hendi, eins og kunnugt er, og það gefur auga leið, að þau hafa með margvíslegu móti hagsmuna að gæta í sambandi við störf síldarútvegsnefndar. Ég verð að segja það eins og er, að mér finnst það alveg furðulegt, þegar n. hefur fjallað um þetta mál og það er samið af n., að hún skuli ekki hafa tekið atriði eins og þetta til greina og tekið það til athugunar, hvort fulltrúar síldarsjómanna ættu ekki að fá a. m. k. einn fulltrúa í jafnfjölmenna nefnd og hér er um að tefla.

Ég vil þess vegna endurtaka það, að ég vil vænta þess, að n. taki það atriði einnig mjög rækilega til athugunar, og ef ekki fæst um það efni samstaða innan nefndarinnar, vil ég a. m. k. fyrir mitt leyti áskilja mér rétt til að flytja brtt. um það efni.