08.02.1968
Efri deild: 52. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1845 í B-deild Alþingistíðinda. (1855)

107. mál, síldarútvegsnefnd

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Ég vil í framhaldi af því, sem sagt var við þessar umræður í fyrradag, bæta hér nokkrum orðum við og undirstrika það, að ég tel, að nýtt viðhorf blasi við varðandi það að tryggja söltun á síld hér á landi eða um borð í skipunum úti á hafi.

Það hefur nú komið í ljós, að það eru fleiri en ég um þessa skoðun, og m. a. hefur síldarútvegsnefnd séð ástæðu til þess að boða til fundar með nokkrum aðilum um það vandamál, sem liggur fyrir, og verður sá fundur haldinn síðdegis í dag. Þó greinir menn mjög á um það, hvað hlutverk síldarútvegsnefndar sé víðtækt, og segja flestir eða allir þeir fulltrúar, er í n. sitja, að verk síldarútvegsnefndar sé einfaldlega að selja síldina, hafa síðan eftirlit að nokkru leyti með söltun og búið. Eða eins og segir í lögunum: „Síldarútvegsnefnd skipuleggur og hefur eftirlit með verkun saltaðrar síldar, svo og með útflutningi hennar, eins og nánar er kveðið á um í l. þessum.“

Ég fæ ekki séð, að það sé ástæða til að breyta lögum um síldarútvegsnefnd, nema gera sér grein fyrir því verkefni, sem þeirri hv. n., sem átti að undirbúa þetta frv., var falið í erindisbréfi: „að gera tillögur um framtíðarskipulag á sölu verkaðrar síldar til útlanda“. Og þá hlýtur hið nýja viðhorf, sem hefur skapazt varðandi verkun á saltsíld, að verða þungt á metunum. Það finnst mér persónulega.

Því miður er ekki nein ákveðin stofnun hér á landi, sem telur sér skylt að hafa forustu í því efni að tryggja það, að vel sé fylgzt með því, að hægt sé að koma síld að landi. Þó stendur í lögum Fiskifélags Íslands, með leyfi forseta, í 3. gr., að markmið félagsins sé „að vinna að eflingu útvegs og fiskiðnaðar með rannsóknum, tilraunum, fjárstyrkjum og leiðbeinandi eftirliti“ og skv. 4. gr. „að stuðla að sem nánastri samvinnu útvegsmanna í öllum greinum, svo sem sameiginlegum innkaupum á nauðsynjum til útgerðar, góðri hagnýtingu aflans, aukinni vöruvöndun og sem hagkvæmastri afurðasölu.“ Því miður hefur Fiskifélagið ekki haft bolmagn til þess að fylgja þessu eftir og hefur ekki enn. En þær breyttu aðstæður, sem skapazt hafa, sýna okkur það, að það verður ekki lengur setið auðum höndum og við verðum að bregðast við á nýjan hátt, og einhver aðili í þjóðfélaginu, hvort það er ríkisvaldið eða samtök sjávarútvegsins, verður að hafa forustu um það að reyna að gera eitthvað til þess að ná í síldina, sem því miður eftir öllum sólarmerkjum að dæma mun liggja fjarri landinu næsta sumar. Það er skoðun mín, og ég veit, að ég er ekki einn um hana, að verði ekki gert átak til að salta um borð í júlí og jafnvel ágúst, missum við af sölumöguleikum.

Ég vil benda hv. þm. á það, að það eru ákveðin tímamót í söltun saltsíldar, ekki aðeins hjá Íslendingum, heldur líka Norðmönnum og Rússum. Þessar þjóðir hafa nú tileinkað sér sömu tækni og við og voru mjög fljótir að ná henni, þ. e. a. s. nota kraftblokkina og nótaveiðar úti á opnu hafi á einu skipi. Og Rússar hafa komið hér með stóran flota og eru þegar byrjaðir að salta mikið á hafinu og hafa til þess móðurskip, og kostnaðarhlið þeirra er allt önnur og skiptir minna máli gagnvart allri framkvæmd verkunarinnar en hjá okkur, því að það er ríkið, sem rekur allan flotann og alla starfsemina. Við lendum því í harðri samkeppni við Rússa, sem hafa verið okkar stærstu kaupendur til skamms tíma. Nú geta þeir boðið fyrsta flokks vöru, glænýja, saltaða síld. Og Norðmenn eru að byrja á því líka. Að vísu hafa norsk reknetaskip saltað árum saman á hafinu, en sú afkastageta var það takmörkuð, að hún var ekki bein ógnun við okkar framboð á saltsíld. Ég legg því til, að miklu víðtækari breyting verði gerð á frv. um síldarútvegsnefnd en aðeins að fjölga í nefndinni og gera smá tilfærslu í viðbót. Ég vildi þess vegna, eins og ég sagði í fyrri umr., leggja til, að það væri athugað gaumgæfilega aftur í nefndinni, hvort ekki væri nauðsyn að taka tillit til hins breytta viðhorfs og koma því inn í frv.